Lífið á gamla árinu og nýja árinu

Ég er orðin svolítið leið á að blogga heimildablogg – en á móti kemur að þær færslur gúgglast auðveldlega og koma því til góða í þeirri framtíð sem maður enn sér internetið. Auk þess er bloggið fín gagnageymsla fyrir uppkast að einhverju sem á að enda á vefsíðum (eins og hannyrðafróðleikurinn). Þessi færsla verður spjallfærsla.

Það er rólegt í kotinu núna því synirnir eru báðir í útlöndum; Annar í heimsókn í Gautaborg og hinn í sollinum á Tenerife. Þeir fóru milli jóla og nýjárs og fara að skila sér heim. Áramótin voru því einstaklega hugguleg hjá okkur “gömlu” hjónunum og kettinum Jósefínu – við skutum ekki upp einni rakettu enda óþarfi því hér logaði allt í kring og kötturinn slapp út og hvarf um stund, okkur til angurs, en hún skilaði sér aftur heim þegar fírverkinu var lokið. Yfir hverfinu lá dimmt ský og mér finnst þetta algert óhóf í sprengingum enda skíthrædd við þær sjálf.

Á gamlársdag skruppum við á Laugarvatn í sjötugsafmæli föður míns, gullbrúðkaup foreldra minna og aukalega var tilkynnt að þetta væri skírnarafmæli föður míns og fimm systkina hans (sem ég vissi nú ekki að hefðu verið skírð á einu bretti þarna fyrir fimmtíu árum). Atli tók nokkrar myndir sem sjá má hér. Þetta er fyrsta samkoman sem ég sæki síðan guð-má-vita-hvenær og lukkaðist bara vel þótt ég yrði örmagna á eftir. Ég missti af öllum júlefrókostum og fjölskyldusamkomum fyrir jól enda uppvakningur.

Mér er ljóst að ég man ekkert eftir síðustu jólum og áramótum og reyndar er stór hluti síðasta árs í óminni. Ef ég tel saman þá var ég veik allan veturinn en náði, fyrir kraftaverk, fjórum og hálfum mánuði alfrísk yfir sumarið. Satt best að segja hef ég ekki orðið svona frísk í mörg ár. Þökk sé hinu ágæta lyfi sem ég fékk en því miður hætti það að virka einn daginn seint í september og ég fékk fría ferð til heljar, einu sinni enn. Núna er ég hægt og bítandi að skríða upp á við aftur, rosalega hægt eins og venjulega en “með hægðinni hefst það” eins og tuggið er í ónefndum samtökum og er holl og góð lífspeki. Eitraða lyfið virðist vera að virka eitthvað, ekki bara að skaffa mér óþægilegar aukaverkanir, og ég reyni að hugsa ekki þá hugsun til enda hvað hægt verður til bragðs að taka þegar það hættir að virka, eins og öll hin lyfin. Ætli ég gerist ekki bara fastagestur á 32 A? Den tid den sorg … Og ég náði að sofa út nóttina í nótt, í þriðja sinn frá því einhvern tíma í nóvember, sem er væntanlega batamerki. Ég held að það hjálpi til að slökkva á tölvunni klukkan átta á kvöldin og snúa sér að öðru.

Núna get ég aðeins orðið hugsað, er nýbyrjuð að horfa á sjónvarp og hef borið við að lesa, einkum hannyrðafræði og um sögu fatnaðar en einnig um annað áhugamál sem ég er upptekin af þessa dagana og endar sjálfsagt í uppkasts-bloggfærslum. Á gamlársdag tók ég fram hrúguna af garnafgöngum sem ég á, horfði á hana og hugsaði: “Hvað myndi Kaffe Fassett gera?” Svarið var augljóst: Kaffe Fassett myndi prjóna formlausa peysu með æðislega flottri mynd af sólarlagi við “dýpstu sjónarrönd”, miðað við litina. En mig langar bara ekkert í formlausa flott-myndprjónaða peysu með rauðbleik-appelsínugula sólina að síga í hafið. Svo ég ákvað að impróvísera kjól, í öllum regnbogans litum. Er byrjuð að prjóna og nota bara málband og þríliðu til að reikna út enda gengur mér yfirleitt miklu betur að prjóna upp úr mér heldur en eftir uppskriftum. Svo er spurning hvort verður eitthvað úr þessu eða hvort ég rek endalaust upp … en ég get þá alltaf búið til litríkt munstur af sólarlagi og skellt mér á myndprjónið og einhvers konar kaftan-peysu.

Úr því prjónaskap ber á góma: Í gær varð mér ljóst að ég verð að eignast biblíu prjónasögunnar þótt prjónakonur Vefjarins séu nokkuð sammála um að hún sé ótrúlega leiðinleg. Svo ég pantaði History of handknitting eftir enska sérann og biskupinn Richard Rutt í gegnum Amazon í gær – tímdi auðvitað ekki að kaupa ónotað eintak enda ótrúlega dýr bók (miðað við væntanleg leiðindi). Og það er ótrúlega hallærislegt að bókin sú skuli ekki vera til á einu einasta bókasafni landsins! Ég ætti að fá bókina einhvern tíma í byrjun febrúar.

Hafandi lesið nokkra texta eftir Bellmann í gærkvöldi, bæði orginala og glæsilegar þýðingar og staðið sjálfa mig að því að syngja “Ef þér virðist gröfin gína köld / þá er gott að fá sér staup í kvöld” o.s.fr. ákvað ég að tími væri kominn til að sækja fund hjá algerlega nafnleyndu samtökunum nú á eftir. Ég hef ekki farið á svoleiðis fund síðan í september, fyrir utan einn sem við héldum nokkrir sjúklingar á 32 A inni á setustofu einn morguninn eldsnemma (og var einn af bestu fundum sem ég hef setið). Já, þetta er tvímælalaust dagur til að ala sig svolítið upp og faðma karla! Kominn tími til!

Hvernig verður svo nýja árið? Satt best að segja borgar sig engan veginn að spá nokkuð í það. Taka einn dag í einu er aðferð sem ég er orðin verulega flink í (mætti gjarna útskrifast úr þeirri aðferð en svo verður ekki svo ég hef hugsað mér að brúka hana áfram). Svoleiðis að þótt ég hafi einhver plön um hvað ég vil iðja hér heima er alltaf ljóst að það koma tímar þar sem þeim plönum er sjálffrestað og ég verð að setja allt líf mitt “á hóld”, tímabundið um lengri eða skemmri tíma (aðallega lengri, núorðið). Það eina sem ég er ákveðin að gera er að fara með manninum til einhverrar grískrar eyju í sumar, aftur á móti erum við ekki búin að ákveða eyjuna. Þótt ég megi ekki borða feta-ost …

  

4 Thoughts on “Lífið á gamla árinu og nýja árinu

  1. Hafrún on January 2, 2011 at 17:47 said:

    „Easy does it“ var á einhverjum tímapunkti þýtt sem „Góðir hlutir gerast hægt“ sem mér finnst óþolandi slagorð og held að hafi orðið til fyrir misskilning. „Með hægðinni hefst það“ hljómar mun betur.

    Gleðilegt ár!

  2. Harpa on January 2, 2011 at 18:01 said:

    Já, ég er líka komin með “góðir hlutir gerast hægt” upp í kok og hrifnari af “með hægðinni hefst það”. Svo er til gamli málshátturinn “sígandi lukka er best” en hann nær nú ekki alveg hugsuninni, finnst mér.

  3. Arnheiður Tryggvadót on January 2, 2011 at 20:18 said:

    Takk fyrir gott blogg, að vanda, Harpa. Það gat nú verið að við værum báðar hræddar við rakettur :)….Gleðilegt nýtt ár – Við skulum bara vona það besta. Knús í hús, Heiða.

  4. Helga Arnar on January 2, 2011 at 22:13 said:

    Jósefína kíkti á gluggann hjá mér á gamlárs, mér þótti vænt um það enda skíthrædd líka við lætin. Gleðilegt árið og takk fyrir gott blogg, kætti grannann 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation