Ekki sama öryrki og öryrki

Þunglyndi eftir Van GoghÉg er 100% öryrki og hef verið metin svo til loka árs 2012 (ekki þar fyrir – ég myndi fagna því mjög að þurfa ekki að vera öryrki og batna eitthvað fyrir þann tíma … öfugt við það sem einhverjir virðast halda þá “gerast” menn ekki öryrkjar að gamni sínu).

Nú datt mér í hug að gott væri að eignast örorkuskírteini því það veitir af afslátt af  læknisþjónustu og fleiru. Þess vegna hringdi ég í LSR því ég þigg örorkulífeyri þaðan (sem eru áunnin réttindi mín í þessum lífeyrissjóði). Rétt er að taka fram að það tekur um fjóra mánuði að afgreiða örorkuumsókn hjá LSR, senda þarf inn margvísleg gögn og ítarlegt læknisvottorð og öryrkjamatið er framkvæmt af trúnaðarlækni, sem vill svo til að er sérfræðingur í mínum sjúkdómi. LSR gefur ekki út örorkuskírteini en vísaði á Tryggingarstofnun ríkisins.

Ég hringdi þangað áðan og tók um hálftíma að ná sambandi við manneskju af holdi og blóði. Sú svaraði því til að Tryggingastofnun ríkisins gæfi eingöngu út örorkuskírteini fyrir öryrkja á sínum vegum, þ.e.a.s. þá sem þiggja örorkulífeyri frá TR. Ég sagði henni að ég ætti náttúrlega engan rétt á örorkubótum frá TR af því ég sæki örorkulífeyri úr mínum lífeyrissjóði. Konan svaraði því til að ég ætti samt að sækja um örorkulífeyri hjá TR, það gerðu margir sem ekki ættu neinn rétt á fébótum en vildu öðlast réttindi; Ekki væri nóg að senda afrit af örorkumati LSR því læknar TR yrðu að meta hvert tilvik fyrir sig og annað ekki tekið gilt. Það tæki 6 – 8 vikur að afgreiða umsóknina.

Mér finnst ákaflega merkilegt að hjá TR skuli starfa læknar sem eru æðri öðrum sérfræðilæknum eða trúnaðarlæknum sem meta örorku fyrir hönd lífeyrissjóða. Þetta hljóta að vera miklir læknasnillingar.

Nú er talsvert mál að sækja um svonalagað, þarf að senda vottorð (ég átta mig reyndar ekki á hver er munurinn á læknisvottorði og “skoðun hjá sérfræðilækni” en hvort tveggja þarf að uppfylla), tekjuáætlun, umsókn, fylla út fáránlegan sjálfsmatslista ( sjá Spurningalisti vegna færniskerðingar ) o.fl. 

Auk þess veitir umsækjandi TR leyfi til víðtækra persónunjósna um sig, með undirskriftinni á umsókninni (heimilar “Tryggingastofnun og umboðsmönnum að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis, þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt”).  Til samanburðar má nefna að LSR hefur ekki aðgang að slíkum gögnum en lætur umsækjanda sjálfan senda inn afrit af skattframtali síðustu þriggja ára, sem er í sjálfu sér vesen en miklu skárra en leyfa öðrum að snuðra í svoleiðis gögnum, “með rafrænum hætti eða á annan hátt”.

Miðað við allt vesenið og skotleyfið sem maður gefur á sitt einkalíf held ég að ég sleppi frekar þessu öryrkjakorti. En mér finnst fáránlegt að í “velferðarkerfinu” skuli ekki vera sama Jón og séra Jón; að öryrki sé ekki sama og öryrki og TR skuli akta sem einhvers konar einkaleyfisskrifstofa fyrir öryrkjaskírteini. Er ekki réttara að kalla öryrkjaskírteini “öryrkjaskírteini TR”? Er þetta ekki eitthvað sem hann Gutti þyrfti að huga að?

11 Thoughts on “Ekki sama öryrki og öryrki

  1. Helga Arnar on January 3, 2011 at 17:24 said:

    Jahérna, þú segir mér fréttir, segi ég nú bara. Ég hef kannski bara ekki alveg verið með á nótunum þegar minn taugalæknir greindi mig með minn sjúkdóm og vildi senda mig í örorkumat, í það fer ég hjá einhverjum lækni útí bæ fyrir rúmu ári, í höfuðborginni, og fæ innan örfárra daga úrskurð um að ég sé 100% öryrki en þetta fór allt í gegnum TR. Svo þegar það ferli var komið í gang þá var mér bent á að sækja um hjá lífeyrissjóðunum um örorkulífeyri og það gerði ég.
    Ég s.s. áttaði mig ekki á því að hægt væri að sneiða hjá TR og allri hans ótrúlegu hnýsni, eflaust er ástæða fyrir því að þeir ganga svona langt í þessu en þvílíka niðurlægingu hef ég aldrei gengið í gegnum. Fór hinsvegar aldrei í neitt mat hjá lífeyrissjóðnum, þeir létu sér nægja niðurstöðu TR, fannst þeir pappírar nægja. Sem betur fer.
    Og maður kannski lætur þetta yfir sig ganga fárveikur og ruglaður af lyfjum og getur ekki fyrir sig hönd sett, held það ætti að leiða Gutta í gegnum ferlið, þetta er eiginlega varla gerandi fyrir fólk sem er með fulle fem…
    Græna kortið er ekki þess virði, get lofað þér því.

  2. þetta er nú meiri andsk…. hringavitleysan segi ég nú, hvernig á veikt fólk að standa í svonalöguðu fuss og svei

  3. Spurningin er hvort ég eigi að ganga með afrit af örorkumati LSR á mér (í því eru talsvert persónulegar upplýsingar) og veifa framan í afgreiðslufólk á heilsugæslunni, þegar ég kaupi strætómiða uppi á Jaðarsbökkum og yfirleitt framan í mann og annan?

    Annars skrifaði ég bréf til hins nýja Velferðarráðuneytis og fór fram á að annað hvort yrði þessu með öryrkjaskírteini kippt í liðinn (einkaréttur TR á mati afnuminn – mér er svo sem slétt sama hver prentar þessi skírteini) eða að í nýju reglugerðinni um kostnað sjúklinga í heilsugæslu yrði skipt út orðinu “öryrki” og sett alls staðar í staðinn “sem hefur öryrkjaskírteini frá TR”. Verður spennandi að sjá hvort eitthvert lífsmark heyrist úr því ráðuneytinu …

  4. Helga Arnar on January 3, 2011 at 18:02 said:

    ótrúleg steypa…verður spennandi að fá að vita hvort þú fáir svör úr Velferðarráðuneyti okkar.

  5. Öruorkumatið hjá TR var eins og Helga Arnar segir ótrúleg upplifun. Ég var alveg fáveik þegar ég fór í gegn um það og læknirinn tuðaði meðal annars um að þyngdin væri „mjög eðlileg” (sem virtist vera verulega tortryggilegt) og að ég væri ekkert stirð í liðunum, en eitt af einkennum lupus er einmitt að liðirnir stiðna ekki, öfugt við til dæmis liðagigt.

    Svo henti frúin stórri lyklakippu í gólfið og skipaði mér að sækja hana eins og hverjum öðrum hundi. Hún gaf sterklega í skyn að það væri ekkert að mér og var á allan hátt verulega andstyggileg.
    Ég er samt fegin að ég lét mig hafa þetta, lyfin sem ég þarf nauðsynlega á að halda eru svo andskoti dýr að ég verð eiginlega að fá afsláttinn sem fylgir græna kortinu.

  6. Þetta er gríðarlega sorglegt, spurning hvort ástæðan sé fólk sem reynir í raun og veru að svindla á kerfinu (sannarlega til) eða hræðsla við að fólk sé að reyna að svindla á kerfinu. Eða eitthvað þarna á milli.

  7. Harpa on January 4, 2011 at 00:34 said:

    Eða sérstök óliðleg heit hjá TR (sannarlega til) eða ósk TR um að eyða peningum og láta fólk eins og mig endurtaka allan prósessinn og leggja til lækna og staff til að gera það sama og læknar og staff hafa gert (hjá LSR). Hvorttveggja eru ríkisstofnanir, TR vinnur að hluta fyrir Sjúkratryggingar, sem ég er búin að greiða í frá unglingsaldri, gegnum skatta. Ég er viss um að Babiak og Hare hefðu gaman af því að skoða TR … en meira segi ég ekki um það 😉

  8. Helga Arnar on January 4, 2011 at 14:43 said:

    jú að sjálfsögðu er græna kortið þess virði til að fá lyfin niðurgreidd, en ekki varð ég vör við að það breytti neinu hjá mér.

  9. Form. ICBS on January 5, 2011 at 21:24 said:

    Gutti aldrei gegnir þessu,
    grettir sig og bara hlær.

  10. Ég fór í slysaörorkumat á sínum tíma vegum tryggingafélags eftir bílslys, var skoðuð af tveimur læknum og þeir voru ósköp elskulegir og ekkert yfir þeim að kvarta.

    Hins vegar fór ég einnig í skoðun hjá lækni á vegum sjúkrasjóðs verkalýðsfélags, út af greiðslum sem ég fékk frá félaginu vegna vinnutaps eftir bílslys. Þessi læknir starfaði um skeið sem tryggingalæknir (hjá TR). Ég var með festumein í öxlunum og án þess að vara mig við reif læknirinn í handlegginn á mér og keyrði hann upp fyrir haus.

    Ég fann svo mikið til að mér sortnaði fyrir augum, en ég kveinkaði mér ekki enda brá mér svo mikið og líkaminn var í það miklu sjokki við sársaukann að ég kom ekki upp neinu hljóði. “Ekki hvell-aum, sem sagt,” var úrskurður læknisins eftir þessa “faglegu” skoðun. Þetta sagði hann þó að ég stæði þarna með tárin í augunum.

    Sumir ættu hreinlega ekki að vera með leyfi til lækninga.

  11. Harpa on January 14, 2011 at 10:01 said:

    Nú hef ég fengið bréf frá lögfræðingi Réttindaskrifstofu Velferðarráðuneytisins með ítarlegum útskýringum. Svo virðist sem ég neyðist til að fara gegnum hakkavélina hjá TR til að fá þetta örorkuskírteini. Ég prófa það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation