Hér segir af samningi forlagsins Uppheima við Akraneskaupstað, greiðslum til Gunnlaugs Haraldssonar árin 2009, 2010 og fé sem þegar hefur verið ákveðið að veita í frekari sagnaritun. Einnig er pælt í af hverju ráðamenn bæjarins halda að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður. Niðurstaðan er að það sé enn ein goðsögnin sem leikur um þessa löngu sagnaritun, kostaða af útsvari okkar bæjarbúa. Sé eitthvert sannleikskorn í þeirri goðsögn má e.t.v. flokka Gunnlaug Haraldsson með alþýðufræðimönnum. Fyrirsögnin er óbein tilvitnun í auglýsingar, fréttatilkynningu og orð Gunnlaugs Haraldssonar, sjá neðanmálsgrein nr. 10.
Saga Sögu Akraness XV,
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X, Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI, glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XII, mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist
Saga Sögu Akraness XIII, Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?
Saga Sögu Akraness XIV, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.
Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
Þann 18. janúar 2011 skrifuðu Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (f.h. Akraneskaupstaðar) og Þorleifur Örnólfsson framkvæmdastjóri (f.h. Uppheima efh) undir samning um útgáfu á tveimur bindum af Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson.1 (Gunnlaugur afhenti handritin samdægurs og þau voru loks gefin út 19. maí 2011.) Svo virðist sem a.m.k. þremur aðilum hafi gefist kostur á að bjóða í verkið en Uppheimar hrepptu hnossið.2
Uppheimar eru bókaforlag sem stofnað var á Akranesi og annar aðaleigandi þess er Kristján Kristjánsson, búsettur hér í bæ. Strax í febrúar 2007 hafði Kristján mætt á fund Ritnefndarinnar og kynnt hugmyndir sínar um útgáfu bóka Gunnlaugs en það árið héldu menn einmitt að nú væri þetta alveg að hafast. (Sjá Saga Sögu Akraness X. Hér eftir verða einstakar færslur sem vísað er í skammstafaðar SSA og tölusetning.) En auðvitað gekk það ekki eftir. Kristján ætti að vera vel kunnugur Gunnlaugi Haraldssyni, ef marka má orð Gunnlaugs. Kristján var héraðsskjalavörður Héraðsskjalasafns Akraness árin 2000-2005 og Gunnlaugur hefur einmitt gert mikið úr því hve duglegur hann hefur verið að afla frumheimilda af skjalasöfnum. Meðan Gunnlaugur bjó enn á Skaganum (hann flutti héðan árið 2003 og hefur síðan búið í Reykjavík) hafa þeir kannski talið sig kollega í rithöfundastétt.3
Í samningi Akraneskaupstaðar og Uppheima kemur fram að bindin tvö eru afhent fullbúin til prentunar að undanskilinni kápu. „Innifalið í því er litgreining og stilling á myndefni fyrir prentun, umbrot og prófarkalestur og er staðfesting frá prentsmiðju um nauðsynleg prentgæði verkanna áskilin.“ (2. gr.) Gefa skyldi út 800 eintök af hvoru bindi (4. gr.). Akraneskaupstaður greiddi duglega með verkinu, rétt rúmar 7,8 milljónir, með virðisaukaskatti. Í þeirri upphæð fólst tveggja milljón króna beinn styrkur vegna útgáfu bókarinnar, kostnaður af hönnun kápu, auglýsingar- og kynningarkostnaður og að bærinn skuldbatt sig að kaupa 236 eintök af hvoru bindi. (5. gr.)4
Í fylgiskjali með samningnum kemur fram að Prentsmiðjan Oddi hafði gert Uppheimum tilboð sem hljóðaði upp á tæplega 8,5 milljónir án virðisaukaskatts fyrir að prenta þessi 800 eintök af hvorri bók í fjórlit á 150 gr. pappír með harðri kápu og saumaðri í kjöl.
Skv. upplýsingum Hagstofunnar bjuggu 6.600 manns á Akranesi á fyrsta ársfjórðungi 2011. Uppheimar þurfa ekki að selja mörg eintök til að koma út á sléttu og er ekki ólíklegt að forlagið hafi jafnvel eygt hagnaðarvon. A.m.k. virðist útgefandanum Kristjáni Kristjánssyni mjög í mun að semja sem fyrst um útgáfu þriðja bindisins og hefur til þess stuðning ritnefndar um sögu Akraness og bæjarráðs, s.s. rakið var í síðustu færslu (sjá SSA XIV). Hvers vegna svo mjög liggur á er óljóst því líklega liggja sölutölur ekki að fullu fyrir (það er rétt rúmur mánuður síðan bækurnar komu út) og enginn ritdómur um verkið hefur birst í fjölmiðlum, hvað þá í ritrýndu tímariti.
Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2012 og 2013 er gert ráð fyrir 4,2 milljónum króna hvort ár í ritun sögu Akraness. Þessar fjárhæðir eru ekki sundurgreindar. Í ljósi sögunnar sem ég hef rakið undanfarið er ljóst að þær milljónir hrökkva skammt til að greiða sagnaritara og útgáfufyrirtækinu Uppheimum fyrir þriðja bindið af Sögu Akraness.5
Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og kostnaður Akraneskaupstaðar
Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni tæpar 15,5 milljónir árin 2008 og 2009. Þessi háa fjárhæð gengur alls ekki upp miðað við síðasta samning bæjarins við Gunnlaug. (Sjá seinni hluta SSA X og SSA XI.)6
Árið 2010 fékk Gunnlaugur einungis rúmlega 550.000 kr. greiddar frá Akraneskaupstað og var búinn að fá rétt rúma milljón árið 2011 þegar Akraneskaupstaður veitti mér nú í maíbyrjun þær upplýsingar sem ég hef notað til þessa. Kostnaður bæjarins af Ritnefndinni var rúmar 200.000 kr. árið 2010 og komin upp í 64.000 kr. í maíbyrjun 2011. Annar kostnaður bæjarins vegna söguritunar var tæpar þrjár milljónir árið 2010 og kominn í rétt rúmar 5,8 milljónir í maíbyrjun 2011. Þá var auðvitað eftir að greiða þessar tæpu 5 milljónir fyrir eintökin sem keypt voru af Uppheimum því það átti ekki að gera fyrr en við afhendingu, væntanlega 19. maí þegar bindin komu út. Alls var kostnaður Akranesbæjar af sagnaritun árið 2010 og fyrstu fjóra mánuðina 2011 því rúmar 10,7 milljónir, á núvirði tæpar 10,8 milljónir.
Er Gunnlaugur Haraldsson fræðimaður?
Áður hefur verið gerð grein fyrir tveimur goðsögnum sem umlykja hina dýru og seinunnu sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar, þ.e. að verkið sé glæsilegast verka (sjá SSA XIII) og að höfundur hafi verið á kafi í merkilegri rannsóknarvinnu frumgagna allan þennan tíma (sjá fyrrnefnda SSA XIII og SSA XII) Enn ein kenningin sem haldið er á lofti meðal bæjarstjórnarmanna er að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður, eiginlega svo mikill fræðimaður að það sé aðför að heiðri hans að benda á hve hluti I. bindisins er hroðalega illa unninn (sjá Fjórðungsdóm um 18 marka bók). Er þetta satt eða er þetta bara enn ein goðsögnin sem ritun sögu Akraness er sveipuð?
Ég hygg að í munni margra sé greint milli tvenns konar fræðimanna: Fræðimanna sem undirgangast kröfur akademískra útgefenda (skrifa greinar í ritrýnd tímarit; skrifa bækur sem eru ritrýndar af lærðum kollegum) og hrærast þannig í fræðimannasamfélagi. Á hinn bóginn eru alþýðufræðingar eða alþýðufræðimenn, sem skrifa greinar, bækur o.þ.h. fyrir alþýðu manna eða safna og miðla fróðleik af einhverju tagi.
Gunnlaugur Haraldsson er ekkert sérlega skólagenginn maður. Hann hefur gráðu í þjóðháttafræði sem samsvarar íslenskri BA gráðu (lægstu háskólagráðu) og eins árs háskólanám í fornleifafræði á meistarastigi (sjá SSA IV). Það er því hæpið að kalla hann lærdómsmann eða vísindamann á grundvelli menntunar.
Gunnlaugur Haraldsson hefur ekki skrifað eina einustu grein í ritrýnt tímarit né hafa birst dómar um verk hans í slíkum ritum.7
Flest rita Gunnlaugs eru annars eðlis en sagnfræðileg; Þau eru langflest stéttartöl eða ættartöl af einhverju tagi. Þegar hann var ráðinn til að skrifa sögu Akraness, 1997, hafði hann einungis samið eina bók, Akraneskirkja 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi (hér tel ég 5 bls. texta í ljósmyndabók um Akranes ekki til bókarskrifa), lítilsháttar fengist við greinaskrif, í sjómanndagsblað, héraðsrit o.þ.h. og svo ritstýrt ættfræði- og stéttartölum, sem fyrr var minnst á. Bók Gunnlaugs um Akraneskirkju er að stórum hluta upptalning og smávegis kynning á prestum, sóknarnefndum og starfsfólki auk byggingarsögu og sögu muna kirkjunnar og hefur væntanlega verið ætluð fremur þröngum lesendahópi. Útgefandi var Akraneskirkja og bókin kom út í ágúst 1996. Ég fann bara einn ritdóm um sögu Akraneskirkju, í Morgunblaðinu í september 1996, og ekki er hægt að finna neinn ritdóm um hana í ritrýndu tímariti, raunar ekki einu sinni í Kirkjuritinu. Morgunblaðsdómurinn er afar jákvæður enda dæmir gagnrýndandinn, Sigurjón Björnsson, yfirleitt mjög jákvætt.
Þrátt fyrir þennan skort á athygli eða ritdómum um sögu kirkjunnar og skort á öðrum sagnfræðiverkum (utan nokkurra greina eða ritstjórnar stéttaratala og ættartala, sem fyrr var nefnt og mætti kannski kalla alþýðusagnfræði) héldu ónafngreindir bæjarstjórnarmenn því fram þegar Gunnlaugur var ráðinn til að skrifa sögu Akraness að hann hefði „til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi“ (feitletrun mín).
Gunnlaugur hefur verið iðinn við ritstjórn stéttartala, ættartala o.þ.h. áfram, meðfram því að skrifa ekki sögu Akraness, a.m.k. skila engu tæku til prentunar á tímabilinu febrúar 1997 til janúar 2011, þegar hann skilaði loks handritum að þeim tveimur bindum Sögu Akraness sem gefin voru út 19. maí síðastliðinn. (Sjá yfirlit yfir hjáverk Gunnlaugs í SSA XII.) Þrátt fyrir litla menntun og engin akademísk skrif hefur goðsögnin um hinn mikla fræðimann vaxið og dafnað, a.m.k. meðal bæjarstjórnarmanna. Sagnaritarinn sjálfur hefur einnig gefið þessu undir fótinn með sífelldum yfirlýsingum um sína miklu vísindalegu rannsóknarvinnu sem áður hefur verið vitnað til og einnig með því að virðast sjálfur telja sig í hópi fræðimanna.9
Nú hefur loksins litið dagsins ljós verk eftir Gunnlaug sem hann og bæjarstjórnarmenn telja mjög fræðilegt verk.Samkvæmt auglýsingum, fréttatilkynningu og orðum sagnaritarans sjálfs eru þar settar fram nýjar hugmyndir sem varða sögu þjóðarinnar allrar.10 Má því telja fullvíst að óskað verði eftir að það verk verði gagnrýnt í ritrýndu tímariti, t.d. Sögu: tímariti Sögufélags, og verður spennandi að sjá þá dóma því enginn sagnfræðingur hefur tekið verkið út á vegum bæjarins og því mjög á huldu ennþá hversu mikla lukku margauglýst sagnfræðilegt gildi verksins vekji meðal sérfræðinga.
Það ætti að vera alveg ljóst af framansögðu að Gunnlaugur Haraldsson hefur ekki enn uppfyllt nein skilyrði til þess að kallast fræðimaður í akademískum skilningi. Það er goðsögn að hann sé slíkur fræðimaður.
Vissulega má kalla Gunnlaug Haraldsson alþýðufræðimann. En slíkir fræðimenn leggja oftast nokkurt kapp á að koma fróðleik sínum til skila. Ég nefni sem dæmi um fræga alþýðufræðimenn þá Þórð Tómasson í Skógum og Árna Óla. Óumdeildur alþýðufræðimaður hér á Akranesi var Ólafur B. Björnsson, höfundur bókanna Saga Akraness I (útg. 1957) og Saga Akraness II (útg. 1959), auk þess sem Ólafur gaf út tímaritið Akranes í fjölda ára.
Gunnlaugur hefur ekki skrifað eina grein í Árbók Akurnesinga, ársrit sem Uppheimar hafa gefið út frá árinu 2001 í ritstjórn Kristjáns Kristjánssonar; Ég man ekki til þess að hafa séð nokkra grein eftir Gunnlaug um eitthvað sem snertir annað en hans eigin erfiðu sagnaritun í Skessuhorni; Gunnlaugur hefur ekki flutt neinn opinn fyrirlestur fyrir bæjarbúa um eitthvað sem snertir sögu Akraness; Hann hefur ekki flutt neinn útvarpsþátt um eitthvað sagnavert af Akranesi svo ég viti til: Í stuttu máli sagt hefur Gunnlaugur alls ekki miðlað bæjarbúum neinu af sínum fróðleik um sögu Akraness í þessi 14 ár sem hann hefur þegið laun fyrir að skrifa þá sögu.
Raunar má finna dæmi þess að Gunnlaugur hafi þvert á móti reynt að koma í veg fyrir að aðrir gætu nýtt gögn í eigu Akraneskaupstaðar til að auka þekkingu bæjarbúa á eigin sögu. Þar er ég einkum með í huga örnefnakort, sem þrír góðir og gegnir Skagamenn merktu inn á fyrir nokkrum árum og afhentu Gunnlaugi. Á þessu korti voru t.d. merkt öll sker í kringum Akranes. Landmælingar Íslands (sem eru til húsa á Akranesi) og Akraneskaupstaður gerðu með sér samstarfssamning um söfnun og skráningu örnefna árið 2009. Fengnar voru örnefnalýsingar sem til voru hjá Árnastofnun og „óskað var eftir örnefnum frá Sögu Akraness en ekki fékkst aðgangur að gögnunum.“ Landmælingar Íslands gripu þá einfaldlega til þess ráðs að leita aftur til þessara ágætu Skagamanna og þeir teiknuðu öll örnefnin aftur inn á kort, fyrir stofnunina. Því hafa bæjarbúar og aðrir haft aðgang að þessari þekkingu um bæinn og umhverfi hans um nokkurt skeið þrátt fyrir að sagnaritari bæjarins hafi reynt að koma í veg fyrir slíkt.11
Gunnlaugur Haraldsson hefur sem sagt ekkert gert til að auka áhuga bæjarbúa á eigin sögu eða fræða þá eða aðra um einstaka þætti sögunnar og hefur reynt að koma í veg fyrir að aðrir gætu frætt íbúa Akraness um umhverfi sitt.
Ég hef nú í mörgum færslum rakið atrennur að ritun sögu Akraness á seinni hluta síðustu aldar og þessari öld. Næsta færsla verður svar við greinum bæjarstjórans og Gunnlaugs Haraldssonar, sem og yfirlýsingu ritnefndar um sögu Akraness, sem birtust í Skessuhorni 8. júní síðastliðinn. Að því búnu skrifa ég yfirlitsfærslu sem þar sem stiklað verður á stóru yfir ritun sögu Akraness og reynt að varpa ljósi á heildarmynd þessarar sorgarsögu.
1 Bæjarstjórn samþykkti samninginn einróma 26. janúar 2011.
2 Á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010 sagði Gísli S. Einarsson bæjarstjóri:„…og að öðru leyti er þetta nánast tilbúið að öllu leyti. Það er búið að gera kröfur um pappírsgæði og prentgæði og allt það sem þessu viðkemur og ég veit ekki hvort ég gæti gert nægilega vel grein fyrir þessu annað heldur en það að það eru hugmyndir uppi um á hvern hátt megi fá verulega upp í kostnað við útgáfuna og það byggist auðvitað á því hvernig væntanlega verður boðið í verkið. Það eru þrír … þrjár prentsmiðjur sem að geta gert þetta hér á landi … það eru svipað margir aðilar sem geta hannað útgáfuna og síðan er velt upp þeim möguleika sem kannski yrði kostnaðarsamastur fyrir Akraneskaupstað að þetta verk yrði sett í þann búning að sem flestir bæjarbúar gætu eignast það en það þýðir töluverðan kostnað væntanlega fyrir Akraneskaupstað.
En að öðru leyti þá er það tilboð sem er vænlegast … það fjallar þá um það eða að hugmyndin er sú að er sú að Akraneskaupstaður fái tiltekinn fjölda eintaka og síðan verði ákveðinn hluti af fjölda … af sölu fjölda eintaka sem að gengur til Akraneskaupstaðar.“ (Skrifað eftir hljóðupptöku sem fylgir fundargerð á vef Akraneskaupstaðar.)
3 12. október 1996 kom löng grein í helgarblaði Dagblaðsins Vísis-DV um sex rithöfunda sem þá voru búsettir á Akranesi. Þetta voru þeir Hannes Sigfússon, Gyrðir Elíasson, Kristín Steinsdóttir, Kristján Kristjánsson, Guðrún Eiríksdóttir og Gunnlaugur Haraldsson (en þá var Akraneskirkja 1896-1996 eftir Gunnlaug nýkomin út). Sjá „Sex rithöfundar búsettir á Akranesi: Þar sem andinn kemur yfir menn“. Óneitanlega er Gunnlaugur talinn upp í góðum félagsskap þarna en aftur á móti kemur hann ekkert við sögu í greininni því hann var fjarverandi þegar viðtölin við rithöfundana voru tekin.
4 Í fylgiskjali 1 með samningnum kemur fram að senda á kynningarbækling í fjölpósti til allra fyrirtækja og heimila í póstnúmerum 300, 3001, 301 og 311 og markpóst til 2500 aðila. Einnig verði keypt opnuauglýsing vegna útgáfu og heilsíða vegna forsölu í Póstinum (vikulegu dagskrár- og auglýsingablaði sem dreift er á Akranesi og víðar). Loks skyldi kaupa tvær heilsíður í Skessuhorni (vikublaði sem dreift er um Vesturland). Í auglýsinga- og kynningarkostnað greiddi Akraneskaupstaður 700.000 kr.
Afrit af þessum samningi er fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.
5 Upplýsingar um fjárhagsætlun Akraneskaupstaðar 2012 og 2013 eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.
6 Ragnheiði Þórðardóttur þjónustu og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, tókst að svara fyrirspurn minni í dag, 24. júní, og benti jafnframt á að ég hefði spurst fyrir þann 5. júní en ekki 3. júní (eins og mig minnti sjálfa). Kann ég henni bestu þakkir fyrir leiðréttingu á þessari dagsetningu. Ég hafði í ítrekun spurninga minna einfaldað þær eins og kostur var, ef það mætti létta Akraneskaupstað vinnuna við að finna svörin. Í svari Ragnheiðar í dag (sem hún sendir bæjarstjóranum og fjármálastjóra bæjarins afrit af) segir:
„Svar við a) er nei. Ekki hafa verið gerðir fleiri samningar við Gunnlaug Haraldsson.
Svar við b) er já. Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar árin 2008 og 2009 voru gegn framvísun reikninga.“
Þá er það sem sagt pappírslega komið á hreint og kann ég Akraneskaupstað náttúrlega bestu þakkir fyrir að hafa það af að finna þessar upplýsingar á einungis 18 dögum. Hvers vegna bærinn var að borga honum Gunnlaugi 15,5 milljónir gegn framvísun reikninga árin 2008-9 er afar óskiljanlegt. Reikninga fyrir hvaða vinnu? Reyndar held ég að hluti þessarar upphæðar sé greiðsla skuldar þeirrar er getið er í samningnum sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur undirrituðu 2. desember 2009. Bendir svarið því til þess að forsvarsmenn Akraneskaupstaðar nú (meðan bæjarritari er í sumarleyfi) viti ekki einu sinni nákvæmlega af hverju Gunnlaugi var greitt svo mikið fé. Líklega þýðir ekkert að spurja þetta fólk hvort það viti fyrir hvað reikningarnar voru.
7 Þessi staðhæfing byggir annars vegar á þeim verkum sem eru skráð á Gunnlaug Haraldsson í Gegni, hins vegar á æviágripi DV í tilefni af fimmtugsafmæli hans þar sem fram koma helstu störf og rit og æviágripi hans í MA-stúdentar 1973, s. 495-497 í Æviskrám MA stúdenta V, útg. 1994, í hans eigin ritstjórn. Í tveimur síðartöldu heimildunum er sú villa að Gunnlaugur segist hafa setið í ritnefnd um sögu Akraness frá sept. 1987 til júní 1991 en hið rétta er að hann veik úr Ritnefndinni í júní 1990 og Leó Jóhannesson tók sæti hans.
8 Hvers vegna ritnefnd sóknarnefndar Akraneskirkju ákvað að ráða sannfærðan og harðskeyttan Alþýðubandalagsmann, sem var ekki kunnur af neinum sagnfræðiskrifum, til verksins er nokkur ráðgáta. Sjálfur segir Gunnlaugur Haraldsson í formála þessarar bókar: „Á vordögum 1995 fór ritnefndin þess á leit við mig að ég ritaði sögu kirkjunnar. Til þess vandasama verks gekk ég þó með hálfum huga, enda alls ófróður um íslenska kirkjusögu, svo og almennt safnaðarstarf á vegum Akraneskirkju fyrr og síðar.“ (s. 7.) Í ritnefnd sóknarnefndarinnar sátu þrír menn, þ.á.m. Þjóðbjörn Hannesson, formaður sóknarnefndar.
Eftir því sem ég best veit fylgdi Þjóðbjörn framsóknarflokknum að málum en hann er reyndar bróðir Guðbjarts Hannessonar, núverandi velferðarráðherra en þáverandi bæjarstjórnarmanns á Akranesi, fyrir Alþýðubandalagið. Á lista Alþýðubandalagsins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1994 má sjá myndir af nokkrum persónum sem áður hafa verið nefndar í rakningu sögu Sögu Akraness, t.a.m. Guðbjarti Hannessyni, Sveini Kristinssyni, núverandi forseta bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, Ingunni Önnu Jónasdóttur, systur Árna Múla Jónassonar núverandi bæjarstjóra og eiginkonu Engilberts Guðmundssonar sem varði Gunnlaug dyggilega snemma á níunda áratug síðustu aldar (sjá SSA II), Guðrúnu Geirsdóttur, sem varð svo formaður Menningarmála- og safnanefndar bæjarins, auk náttúrlega Gunnlaugs sjálfs.
Eins og kom fram í færslunni SSA IV uppgötvaðist einhvers konar bókhaldsóreiða eða fjármálaóreiða í rekstri Byggðasafnsins við yfirferð reikninga safnsins frá janúar til október. Þetta kom til tals á fundi sem er ódagsettur í fundargerðarbók Menningarmála- og safnanefndar en hefur væntanlega verið haldinn 5. desember 1995: „Bréf frá Endurskoðunarskrifstofu J.Þ.H. sem hefur yfirfarið reikninga safnsins frá jan-okt. ’95. Þar er bent á að útlit sé á að verulega verði farið fram úr áætlun. Gunnlaugur Haraldsson taldi skýringu á þeim mismun sem fram kemur þar, stafaði [svo] af því hvernig færslur færu fram hjá aðalbókara.“ [Líklega er þarna vitnað í bréf Gunnlaugs Haraldssonar því sjálfur var hann ekki viðstaddur fundinn, skv. undirritunum fundarmanna.] Þann 20. janúar 1996 fundaði framkvæmdastjórn Byggðasafnsins með bæjarritara. Þar var m.a. bókað: „Eigendur greiði með sérstöku framlagi á þessu ári yfirdrátt á tékkareikningi, skuld við Bæjarsjóð Akraness og viðskiptaskuldir í réttu hlutfalli við framlög eigenda til rekstrar.“ Þann 7. febrúar 1996 er bókað á fundi stjórnar Byggðasafnsins: „Eignaraðilar komi sér saman um að greiða upp skammtímaskuldir safnsins að upphæð kr. 7.710.406,00 í sömu hlutföllum og framlög þeirra hafa verið á undanförnum árum. Framlag þetta verði fært undir árinu 1995 og ársreikningur safnsins verði tekinn upp og leiðréttur í samræmi við þessa niðurstöðu.“ [7,7 milljónir árið 1995 samsvarar um 17 milljónum á núvirði miðað við vísitölu neysluverðs í maí 1995 og maí 2011.] Á sama fundi var ákveðið að semja við Akraneskaupstað „um að kaupstaðurinn tæki að sér allar fjárreiður og bókhald safnsins […] Fastari reglur verði settar um eftirfylgni fjárhagsáætlunar á hverjum tíma, þannig að forstöðumanni verði ekki heimilt að stofna til kostnaðar umfram samþykkta fjárhagsætlun á hverjumt tíma […] Stjórn Byggðasasfnins og forstöðumanni verði óheimilt að stofna til skulda við lánastofnanir og viðskiptaaðila í nafni safnsins …“
Gunnlaugur Haraldsson fór í launalaust leyfi til að skrifa sögu Akraneskirkju í maí árið 1995 og sagði lausu starfi sínu sem forstöðumaður Byggðasafnsins með bréfi sem lagt var fram á sama fundi og bréfið frá endurskoðendunum var tekið fyrir, líklega þann 5. desember 1995.
Það er áhugavert að skoða tengsl fólksins sem kemur við sögu í þessari neðanmálsgrein en skv. frétt sem krækt er í úr SSA IV var ráðning Gunnlaugs sem sagnaritara kirkjunnar og uppsögn hans algerlega ótengd þessari miklu fjármálaóreiðu á Byggðasafninu árið 1995.
9 „Að síðustu áleit ég þann verktíma sem mér var ætlaður allt of knappan miðað við þær kröfur sem ég taldi að gera bæri til þessarar söguritunar, þ.e. rúm fjögur ár. Taldi raunhæfara að miða við 8-10 ár og studdist í því efni við ráðleggingar nokkurra kunningja minna í fræðimannastétt sem tekist hafa á við hliðstæð viðfangsefni, – og sömuleiðis vitnisburð úr formálum margra útgefinna rita um byggða- og héraðssögu.“ Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.
Má allt eins skilja orð Gunnlaugs sem svo að hann telji sig sjálfan í fræðimannastétt, eigi þar a.m.k. nokkra kunningja sem ráðleggja honum. Ég veit náttúrlega ekki hverjir þeir eru; Er hann að tala um Jón Þ. Þór? Guðjón Friðriksson? Jón Hjaltason?
Nefna má að Gunnlaugur sýndi Ritnefndinni snemma Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason (líklega I. bindið) sem hugsanlega fyrirmynd að eigin sagnaritun. Þarna er ólíkum saman að jafna því þótt það tæki Jón Hjaltason 17 ár að skrá sögu Akureyrar (sem er reyndar ólíkt stærri bær en Akranes og hefur verið svo um aldir og gæti jafnvel hafa gerst þar meira) þá komu út fimm bindi á þessu tímabili, að jafnaði á þriggja ára fresti, auk þess sem Jón flutti fjölda fyrirlestra tengda efninu á Akureyri og víðar, skrifaði margar greinar og hagaði sér almennt eins og góðum fræðimanni sæmdi. Bækurnar urðu vinsælar, eitt bindið var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og gott ef útgáfan stóð ekki undir sér. Jón Hjaltason er cand.mag í sagnfræði.
10 „Nýjar hugmyndir sem varða sögu þjóðarinnar allrar eru settar fram í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins“ (opnuauglýsing í Póstinum 20. apríl 2011);
„Í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins eru settar fram hugmyndir sem varða sögu landsins alls“ ( „Saga Akraness kemur út á morgun“. Skessuhorn 18. maí 2011, s. 4);
„Ég hef grun um, er þess reyndar fullviss, að sjávarútvegurinn gegndi miklu þýðingarmeira hlutverki í hagkerfi landsmanna á miðöldum en menn hafa almennt talið hingað til, þ.e. allt frá landnámstíð.“ ( „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 15.)
11 „Örnefnaskráning. Sumarvinna 2010“, glæra 15. Landmælingar Íslands. Útprentun dags. 9.6. 2010.
Landmælingar Íslands ákváðu að fyrsta verkefni í nýju örnefnatóli 2009 yrði örnefnaskráning á Akranesi. Á sömu glæru kemur fram að heimildamenn sem gáfu vinnu sína [í annað sinn] voru Ásmundur Ólafsson, Bragi Magnússon og Þórður Árnason.
Þessi örnefni má skoða á Velkomin til Akraness (visitakranes.is) og á Kortasjá Landmælinga Íslands (ath. að það þarf að þysja út kortið til að örnefni sjáist) en merkilegt nokk eru fá örnefni merkt inn á kortið af Akranesi á heimasíðu Akraneskaupstaðar.
Í sambandi við fastheldni Gunnlaugs á gögn í eigu Akraneskaupstaðar sem hann hefur komist yfir má einnig nefna að ekki hefur hann skilað handriti Jóns Böðvarssonar af sögu Akraness 1885-1941 enn á Héraðsskjalasafnið. Þetta handrit afhenti Gísli Gíslason, þáverandi bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness, Gunnlaugi í febrúar 1997. Það væri óneitanlega gaman að geta skoðað handrit Jóns Böðvarssonar, hafi maður áhuga á sögu bæjarins, og ótrúlegt hve Gunnlaugur liggur á því í mörg ár í ljósi þess að honum þótti þetta um þá bók Jóns sem kom út: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, – einkum á 18. og 19. öld, – heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa.“ (Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.) Svo tæplega er handrit Jóns Böðvarssonar af öðru bindinu um sögu Akraness það mikils virði fyrir Gunnlaug Haraldsson að hann þurfi að „hafa það í láni“ miklu lengur en í 14 ár!
Sæl Harpa
Vegna staðhæfingar í nýlegu bloggi um að undriritaður Kristján: „Kristján er vel kunnugur Gunnlaugi Haraldssyni“, langar mig til að benda á að einn tölvupóstur eða símtal við mig hefði dugað til að upplýsa þig um að í þessu tilfelli er alveg ljóst að tunglið er ekki búið til úr osti.
Bestu kveðjur,
Kristján
? Ég verð að játa að ég skil ekki af hverju þessum upplýsingum um tunglið er komið á framfæri við þessa færslu. Ég skil heldur ekki hvað þær upplýsingar koma efni færslunnar við.
Í færslunni er því gert skóna að þú sért vel kunnugur Gunnlaugi Haraldssyni af því þú varst skjalavörður á Héraðsskjalasafninu í hálfan áratug, 2000-2005, og Gunnlaugur hefur einmitt gert mikið úr því hve duglegur hann hafi verið að þræða skjalasöfn og sitja á þeim við að skoða frumgögn (sjá t.d. neðanmálsgrein 2 við færsluna á undan). Ertu með þessu að halda því fram að Gunnlaugur segi ekki satt um þetta? Héraðsskjalasafnið á Akranesi hefur nefnilega lengst af haft einungis einn starfsmann í vinnu sem varla kemst hjá því að kynnast fastagestum, hefði ég haldið. Og áhugi sá sem þú sýndir árið 2007, með því að fá að koma á fund með Ritnefndinni, bendir til þess að þú hafir einmitt haft kynni af orðum sagnaritarans um eigið verk því ekki lágu frammi opinberlega nein handrit eða yfirleitt neitt sýnilegt efni af verkum hans á þeim tíma (þótt einhverjir hlutar þess hafi ratað til Ritnefndarmanna þann áratug sem vinnan hafði þá staðið, líklega á misjöfnu stigi og í misjöfnu standi).
En þér er velkomið að gera efnislegar athugasemdir við bloggið mitt, eins og öllum öðrum, eða senda mér tölvupóst ef þú rekst á einhverjar villur í því. Væri gott að fá slíkar ábendingar áður en ég kem textanum um sögu Sögu Akraness í varanlegra form.
Viltu að ég breyti “vel kunnugur” í “þokkalega kunnugur”? Eða setji “kunningi” í staðinn?