Sumir segja að það sé vandlifað í þessum heimi. Það kann að vera rétt en ég get einnegin staðfest að það er vandbloggað! Hvað er við hæfi að kona á mínum aldri tjái sig um? Hvað má kona á mínum aldri segja á facebook og bloggi? Hver eru “takt og tone” í lífi ánetjaðra miðaldra kvenna? (Hér vantar átakanlega lífsstílsbók sem kona eins og ég gæti farið eftir. Það er ekki nóg að hafa einungis aðgang að bókum sem segja manni hvernig hægt sé að horast, forðast kolvetni, hætta að reykja, velja réttu klæðin og meiköppið, yngjastumtíuáránskurðaðgerðar o.s.fr.)
Ég á núna tvær hálfar færslur sem stuða. Þær tengjast dálítið: Önnur er um bókina Þeir tóku allt – meira að segja nafnið mitt eftir Theu Halo. Hin er um að það sem haldið er fram í bókinni, sumsé að ákveðin þjóð endurskrifi sögu sína og þurrki út nokkur þjóðarmorð, jafnt úr eigin sögukennslu sem sögukennslu í útlöndum (aðallega BNA) sé faktískt rétt. Ég hélt að þessar staðhæfingar hlytu að vera orðum auknar en við uppflettingar á þeirri ágætu Wikipediu komst ég að því að þær standast. Hefði haft gaman af því að skoða þetta betur.
En … birti ég þessar færslur er ég víst rasisti. Svo ég ákvað að birta þær ekki.
Þá datt mér í hug að fjalla um aðra endurskrifaða sögu, nefnilega sögu Tatratröllsins á Íslandi enda tengist það (vonandi sáluga tröll) fjölskyldu minni. Ella hefði ég tæplega haft áhuga á því. Einn FB-vinur kom með hvatningu í gær eða fyrradag um að sem flestir skrifuðu inn á FB-síðu Tatrabus því athugasemdum Íslendinga væri eytt jafnóðum og því rétt að leyfa stjórnendum síðunnar að hafa eitthvað að gera. Þessari hvatningu fylgdi tengill á 6 – 8 skjámyndir af athugasemdum á https://www.facebook.com/#!/tatrabus sem öllum hafði verið eytt. Ég einhenti mér auðvitað í athugasemdir og einhverra hluta vegna hafa tatratröllin leyft mínum að standa … Kannski kunna Tékkar einkar vel við nafnið Harpa? E.t.v. hljómar fullt nafn mitt vel í eyrum stjórnenda síðunnar (nóg er af errum og errpé og hrei og e.t.v. öðru sem gleður tékknesk eyru … hvað veit ég … nema ég gladdist auðvitað yfir að sleppa gegnum tékkið).
Svo fékk ég bráðfyndið bréf í dag gegnum síðuna þar sem Filip nokkur Kadlec heldur því blákalt fram að bróðir minn hefði ekið á meir en 100 km hraða í veg fyrir saklausa gula Tatratröllið, á moldaslóða á Dómadalsleið, hefði svo játað að vera alger auli að keyra jeppa enda ætti hann bara Toyotu Corollu, að þeir góðu Tékkar í rútunni hefðu veitt honum áfallahjálp og læknishjálp og guðmávitahvað … og að þetta væri þvílíkur drulludeli að yrði hann á vegi Filips ætlaði hann sko að spýta á veginn fyrir framan hann (bróður minn)! Filip þessi kvaðst hafa verið farþegi í gula Tatratröllinu þegar þessi íslenski ónytjungur svínaði fyrir tröllið. (Bróðir minn svaraði bréfinu, því svari var náttúrlega umsvifalaust hent út en önnur tilraun virðist hafa tekist í bili því svarbréfið hangir enn inni. Kannski eru stjórnendur síðunnar í pásu? Altént geta áhugasamir farið á FB síðu tatratröllsins sem krækt er í hér að ofan og fundið hann Filip, frekar ofarlega á síðunni, og svar bróður míns, sparslað inn í langa bréfið Filips, er í athugasemd. Hann bað Filip vinsamlegast um að miða vinstra megin á veginn ef til þess kæmi að hann spýtti …)
En … nei … bloggi ég um þróun afsökunarbeiðni Tatrabus (sem er nú einkar áhugavert að skoða) eða þegar gula skrímslið var næstum búið að drepa bróður minn í fyrrasumar eða fetti fingur út í versjón Filips telst ég víst komin í stríð við tékkneska ferðaskrifstofu! Og athugasemdirnar á FB-síðunni teljast víst aggressívar. Þær eru náttúrlega frekar áberandi enda búið að henda athugasemdum frá flestum öðrum … en árásargjarnar? Tja, miðað við FB-umræðu almennt myndi ég nú ekki telja það. En sumir eru viðkvæmari en aðrir …
Svoleiðis að ég lagði frá mér byrjun á bloggi um Tatratröllin (og upprifjun á svarthvítri auglýsingu í RÚV í gamla daga og pælingar um góða kynningu á Grieg í þeirri auglýsingu og …)
Svo um hvern fjandann má kona öfugu megin við fimmtugt blogga? Væntanlega eitthvað kvenlegt og sætt og jákvætt svo viðkvæmar sálir fái ekki hland fyrir hjartað, skyldi maður ætla. Og vissulega hef ég bloggað svolítið um hannyrðir, sem hljóta andskotakornið að teljast kvenlegt og ásættanlegt bloggefni. Á hinn bóginn er ég löngu búin að sjá að vefur hentar miklu betur fyrir svoleiðis umfjöllun og er sosum með vef í bígerð – en vefur er ekki blogg.
Neyðin kennir naktri konu að spinna (að vísu kann ég ekki að spinna en ég er líka yfirleitt í fötum) og blessunarlega var því einmitt slegið föstu í dag, loksins, hver væru áhugamál kvenna! Svo nú veit ég það og ætti náttúrlega að skipuleggja næstu færslur með hin PC-réttu kvenlegu áhugamál í huga. Þau eru: Snyrtivörur, útlit, líkamsrækt og kynlíf. (Heimild: “Það eina sem konur hafa áhuga á“, Pressan.is 12. ágúst.)
Að vísu lýst mér bölvanlega á flest þessara blogg-efna svo ef lesendur geta bent mér á einhver fleiri bloggefni sem mættu teljast við hæfi miðaldra bloggynju eru tillögur vel þegnar. Ég set mörkin við bakstur og eldamennsku – það eru takmörk fyrir öllu, meira að segja hversu langt er gengið í þóknast þeim sem vita svo ofsalega vel hvernig aðrir eiga að haga sér, hugsa og tjá sig á netinu 😉
Svo reikna ég fastlega með því að þessi færsla teljist ekki pólitískt rétt og falli ekki í kramið í hjá öllum …
Sæl Harpa.
Þú segir: ,,…að ákveðin þjóð endurskrifi sögu sína og þurrki út nokkur þjóðarmorð, jafnt úr eigin sögukennslu sem sögukennslu í útlöndum…”
Velflestar þjóðir hygg ég að “endurskrifi sögu sína” og jafnvel að sú iðja sé talin “eðlileg” – allavega sjálfsögð.
Og að enginn kalli fræðimennina sem fletta ofan af því rasista – nema þessu sé öðruvísi farið á Íslandi, sem jú er svo “spes” í öllu sem varðar réttindi borgaranna, málfrelsi, skoðanafrelsi og svoleiðis pjatt.
Sagnfræðingurinn Ernest Renan segir þjóðerni ráðast af sameiginlegum vilja einstaklinganna; að þjóðernishugtakið sé eins konar félagslegur sáttmáli sem tiltekinn hópur gerir. Hvað sem það er sem skilgreinir ákveðinn hóp sem þjóð, þá er ljóst að til staðar þarf að vera einhvers konar sátt um fyrir hvað sú þjóð á að standa. Hið sama virðist gilda um sögu og menningararf; við ákveðum hvað við viljum að tákni okkur, hvað við viljum varðveita og hverju við viljum gleyma. Hvað varðar mikilvægi viljans til að verða sjálfstæð, sameinuð þjóð, segir í ritgerð Renans ,,What is a Nation?“ að „minnisleysi […] sé afgerandi þáttur í sköpun þjóðar“ og að „kjarni einnar þjóðar sé hið fjölmarga sem einstaklingarnir eiga sameiginlegt, en einnig hve mörgu þeir hafi sameiginlega gleymt.“
Þjóðir reyna eftir megni að byggja upphaf sitt á bjargi, en þjóðir sem glímt hafa við innbyrðis átök þurfa að „gleyma“ ákveðnum þáttum sögunnar, eða þagga þá niður. Þöggunin verður þannig hluti af sögunni og minnisleysi getur verið mikilvægt til að halda þjóðareiningu. Guðmundur Hálfdanarson bendir á að Renan segi í sínum skrifum að ef þjóðarsaga eigi að sameina, hljóti menn að þurfa að gleyma þeim hlutum í fortíðinni sem geti leitt til sundrungar eða túlka söguna þannig að hún styðji hugmyndina um sameinaða þjóð. Þessi meðvitaða uppbygging þjóðernisorðræðu sameini fólkið og þjóðarviljann og skapi þar með sameiginlega ímynd fyrir þjóðina. Sagan sé þannig „vandlega snyrt í því skyni að sannfæra borgarana um að kjósa „rétt“ í hinni daglegu atkvæðagreiðslu“ um það að lifa saman sem þjóð.
Þöggun ákveðins hluta minninga er hluti af því að skapa þjóðinni sögu sem hún getur sameinast um. Og þegar skapa á nýja sögu er ekki óeðlilegt að leggja áherslu á það sem sameinar fremur en það sem sundrar.
Hugsanlega er það þess vegna sem ekki er fjallað um erlendan her í sjálfstæða landinu svo til allan lýðveldistímann. Eða einn svartasta blettinn á íslensku samfélagi: Hvernig farið var með þau börn sem lentu á upptökuheimilum ríkisins.
Tja … ég var nú að hugsa um þessa eina og hálfu milljón Armena, Pontus-Grikkja (man ekki fjöldann), Grikki í Jóníu og Assiríumenn sem ákv. þjóð ákvað að slátra til að sameina sig betur. Hin trausta Wikipedia brást mér ekki því þar er að finna sérstakar síður um akkúrat þetta, t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Armenian_Genocide_denial
Af því ég hef sérstakan áhuga á Smyrnu (Izmir) kíkti ég líka á Wikku-síðuna um hann Mústafa Kemal Atatürk og athugaði í leiðinni hvort eitthvað væri þar að finna um Armenana, Pontus-Grikkina og Assiríumennina. Það var mjög áhugavert.
En ég fer auðvitað ekki nánar út í þessa sálma því ekki vil ég láta kalla mig rasista … Nema það er nokkuð skýrt að það sem þú segir, Þórdís: “Þöggunin verður þannig hluti af sögunni og minnisleysi getur verið mikilvægt til að halda þjóðareiningu” stenst fullkomlega skoði maður þessar síður.
Loks vil ég taka fram að bókin Þeir tóku allt – meira að segja nafnið mitt er afar góð og þótt söguefnið sé vissulega hryllilegt missir maður ekki trúna á mannkynið við lesturinn 🙂
Annað sem snertir efni þessarar bloggfærslu: Ég hef fengið uppástungur að 9 bloggefnum gegnum FB. Af þeim voru hugsanlega 2 sæmilega óeldfim en jafnframt tiltölulega óspennandi og leiðinleg 🙂 Svo fékk ég ábendingu um að líklega ættu konur á mínum aldri að koma fram eins og góðar ömmur … líklega góðar ömmur í gamladaga eða góðar ömmur í skáldsögum. Og líklega skiptir ekki máli að ég á engin barnabörn. Mér þykir þetta góð skýring. En það er algerlega útilokað að ég fari að haga mér eins og meint góð amma ætti að gera 😉 Enda reikna ég með að skv. uppskriftinni að góðri ömmu séu þær alls ekki á internetinu heldur bakandi kleinur alla daga og verandi óxla næs við mann og annan …
Æ, ég vona að þú látir þessa netstrumpa ekki hræða þig frá því að fjalla um eldfim málefni með því að kalla þig rasista. Þú þarft ekki að vera svo siðprúð og hlédræg, þó þú sért komin á virðulegan aldur, að láta rakalausa ritsóða segja þér hvað þú mátt og mátt ekki skrifa um.
Alveg er ég viss um að þú lætur engan segja þér hvernig þú átt að haga þér í daglega lífinu, hvers vegna í ósköpunum finnst þér að þú verðir að fara eftir því hvað öðrum finnst við hæfi á netinu? Svo framarlega sem fólk hefur í huga að það er hægt að tjá sig á kjarnyrtan hátt og hafa aðrar skoðanir en viðteknar eru, án þess að stunda skítkast og rætni um náungann, sé ég enga ástæðu til að fólk haldi sig við einhver viðurkennd áhugamál miðað við kyn, aldur eða stöðu.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá ykkur. Ég fékk smásjokk út af ákv. atviki en sé auðvitað að það er út í hött að láta það stýra mínu lífi eða umfjöllun á netinu. Svoleiðis að ég mun blogga og fésbókast um hvað sem mig lystir hér eftir sem hingað til. Þótt áhugamálin séu ekki við ömmu-hæfi … Raunar hlusta ég samt stundum á ráðleggingar fólks um hegðun í daglega lífinu og leita meira að segja stöku sinnum eftir svoleiðis ráðleggingum en reyni að passa að velja mér ráðgjafa sem hafa vit á málunum …
why u do not show also the braking line behind the jeep what was going for sure very fast , you can not say NOT because what car will brake so long if would go slowl??????
Sorry Petr, those are the photos I got persmission to use. I’m not a member of the police so I don’t have detailed pictures. But since the police came to the conclusion that the Tatrabus was 100% responsible for the accident and that the driver of the jeep had no chance of avoiding collision except turning up the hill (and throwing himself flat into the passanger seat to save his life) I suppose the breaking tracks of the jeep were regarded as normal according to driving at 30 km per hour. If you’re not happy with this statement I suggest you contact the Icelandic police that investigated the accident and decided that the Tatrabus showed reckless and irresponsible driving in this case.