Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í.
Grein Barkar Gunnarssonar, „Heilagt stríð Vantrúar“, sem birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2011 (s. 18- 21) vakti athygli mína á þessu undarlega máli. Skrif á ýmsum netmiðlum í kjölfarið urðu svo til að þess að renna stoðum undir greinina, ekki hvað síst æsingarkennd viðbrögð félaga í Vantrú. En um þann félagsskap verður ekki fjallað í þessari færslu heldur sjónum beint að Siðanefnd Háskóla Íslands í „Stóra Vantrúarmálinu“, þ.e. máli 1/2010.
Upplýsingar um gang málsins eru að miklu leyti fengnar úr Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011 (hér eftir skammstafað Skýrsla óh.n.) en einnig er stuðst við fleiri heimildir.
Upphaf málsins var að félagsskapurinn Vantrú sendi erindi til siðanefndar HÍ þann 4. febrúar 2010, þar sem kvartað var undan því að nokkrar glærur í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson hafði kennt á haustönn 2009, gæfu ekki rétta mynd af Vantrú og hugmyndafræði hennar. Kvartað var undan tveimur glæruröðum sem samtals telja 74 glærur. Í kúrsinum voru notaðar 1735 glærur, skipt í 20 glærusett. Vantrú kvartaði því undan rétt rúmlega 4,25% glæra sem notaðar voru í námskeiðinu og fór „fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið“. Glærurnar voru auðvitað bara hluti kennslu- og námsefnis og raunar hafði Vantrú engar forsendur til að meta hvernig þær voru notaðar í kennslunni því enginn þeirra sem stóð að kærunni hafði setið námskeiðið. Jafnframt vísaði Vantrú í ýmsar siðareglur HÍ sem félagið taldi að kennarinn hefði brotið, með glærugerðinni einni saman.
Það sem flækti málið frá upphafi, fyrir utan ótrúlega meðferð siðanefndar HÍ, var að Vantrú sendi einnig kvartanir til rektors HÍ og til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, dagsettar sama dag. Þessi kvörtunarbréf voru ekki samhljóða og virðist þess ekki hafa verið getið í hverju bréfi að kvartað hefði verið til fleiri aðila. Rektor vísaði sínu bréfi áfram til siðanefndar en forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar og stundakennarinn ræddu um hvernig mætti koma til móts við Vantrú í glærugerð þegar kúrsinn yrði næst kenndur. Í þessari færslu verður næsta lítið fjallað um gang málsins innan guðfræði- og trúarbragðadeildar heldur sjónum beint að siðanefnd HÍ enda voru þetta þrjú aðskilin erindi sem bárust frá Vantrú og einungis einu þeirra beint til siðanefndarinnar.
Siðanefndin og fyrri afgreiðslur á starfstíma hennar
Á þessum tíma var siðanefnd skipuð þannig: Þórður Harðarson þáverandi prófessor í læknadeild var formaður nefndarinnar en auk hans sátu þar Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki og Þorsteinn Vilhjálmsson þáverandi prófessor í eðlisfræði og höfðu væntanlega setið frá árinu 2007 því skipunartími siðanefndarmanna er þrjú ár og var endurskipað í hana sumarið 2010.
Á starfstíma siðanefndar HÍ frá 27. nóvember 2007 hefur hún fengið til meðferðar átta kærumál, segir í Skýrslu óh.n. (s. 26). Helmingi þeirra, fjórum málum, hefur nefndin vísað frá. Tveimur málum lauk með sátt. Brot var staðfest í einu máli og kæra dregin til baka í einu máli (væntanlega fyrrnefnd kæra Vantrúar). „Að svo miklu leyti sem niðurstaða nefndarinnar byggist á túlkun siðareglna, skal nefndin búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta á þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál“, segir í 8. grein þeirra starfsreglna siðanefndar sem voru í gildi til 13. október sl. (er nú í 10. grein). Engin merki sjást um útdrátt úr umfjöllun siðanefndar hengdan við siðareglur HÍ svo annað hvort hefur nefndin kosið að hunsa þessa starfsreglu eða litið á allar fyrri afgreiðslur sínar sem algert trúnaðarmál. Þess vegna er ekki hægt að vita hvers eðlis þessi sjö kærumál á undan kæru Vantrúar voru en ljóst að meirihluta þeirra hafði verið vísað frá.
Í fyrstu grein starfsreglna siðanefndar segir: „1. gr. Almennt. Við Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur Háskóla Íslands hafi verið brotnar. […]“ Önnur og þriðja grein fjalla um nefndarskipan og reglur um hæfi nefndarmanna en sú fjórða var svona á vormisseri 2010: „4. gr. Málsgrundvöllur. Siðanefnd kannar hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands. Nefndin vísar frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá getur nefndin vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.“ Framan á þá grein hefur verið bætt (og hún umorðuð lítillega): „Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.[…]“ Líklega er viðbótin vegna harkalegs dóms Skýrslu óh.n. yfir málsmeðferð siðanefndar í þessu kærumáli Vantrúar gegn stundakennaranum Bjarna Randver Sigurvinssyni. Feitletranir í beinum tilvitnunum eru mínar.
Kæra Vantrúar
Skv. Skýrslu óh.n. segir í bréfi Vantrúar til siðanefndar HÍ:
„Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar, sem við teljum ótvírætt brot á siðareglum HÍ.
[…]
Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað Háskóla Íslands.“
Vantrú telur í bréfi sínu til siðanefndar ástæðu til þess að huga sérstaklega að nánar tilgreindum greinum siðareglna Háskóla Íslands. Sömu athugasemdir eru gerðar við tvær glæruraðir og önnur atriði og fram koma í bréfi Vantrúar til rektors Háskóla Íslands og getið er hér að framan. (Skýrsla óh.n. s. 30-31.) Greinargerðin sem fylgdi þessu bréfi til siðanefndar er hin sama og fylgdi bréfi Vantrúar til Péturs Péturssonar, forseta guðfræði og trúarbragðadeildar HÍ sem skoða má á síðu Vantrúar. Undir bréfið (og hin tvö) skrifar Reynir Harðarson, formaður Vantrúar og væntanlega talsmaður félagsmanna því í þeim er ævinlega talað í fleirtölu.
Þær greinar siðareglna HÍ sem Vantrú taldi að stundakennarinn hefði brotið voru:
- Undigrein 1.2.1 í 1.2 Ábyrgð gagnvart Háskóla Íslands
- Undirgreinar undir 2.1 Ábyrgð gagnvart fræðunum (2.1.1 – 2.1.5)
- Undirgreinar undir 2.2 Gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda (2.2.1, 2.2.3 )
- Undirgreinin 2.4.3 undir 2.4 Ábyrgð gagnvart samfélaginu
Strax við fyrstu sýn blasir við að kæra Vantrúar á engan veginn við sumar greinarnar, t.d. þá fyrstu, 1.2.1, sem hljóðar „Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.“ Íslensk orðabók skýrir „kostgæfni“ sem „áhuga“ og í huga almennings er orðið oft tengt „alúð“. Það er ekkert sem bendir til þess að Bjarni Randver hafi ekki sinnt kennslu sinni af áhuga og alúð og út í hött að halda að örlítið brot af kennsluefninu geti skorið úr um það. Eða grein 2.1.5 sem lýtur að rannsóknarfrelsi kennara: „Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.“ Þessi glærubunki sem Vantrú taldi fram tengdist ekki rannsóknum og hvaða hagsmunatengsl, eða öllu heldur við hverja, hefði kennarinn átt að upplýsa um? Enginn þeirra sem hlut átti að kæru Vantrúar hafði setið námskeiðið sem glærurnar tilheyrðu og því vonlaust fyrir þá að meta hvernig kennslan og samskipti við nemendurnar voru. Enginn þeirra hafði áður setið slíkt námskeið eða hafði menntun í efni námskeiðsins svo á hvaða forsendum áttu þeir að geta metið ábyrgð gagnvart fræðunum út frá broti af kennslu- og námsefninu? Margt annað í kæru Vantrúar til siðanefndar virðist í sama dúr, a.m.k. vafðist það fyrir siðanefnd hinni síðari að greina hvað nákvæmlega væri verið að kæra og hvernig það tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu).
Viðbrögð siðanefndar
Í stað þess að vísa einfaldlega erindinu frá eins og siðanefnd hafði jú gert við meirihluta þeirra fáu mála sem hún hafði fjallað um áður hófst ótrúleg atburðarás, eiginlega algert flopp frá upphafi.
Formaður siðanefndar HÍ, Þórður Harðarson, var staddur erlendis þegar kæra Vantrúar barst líklega þann 5. febrúar 2010 og það var ekki fyrr en 18. mars 2010 sem Þórður Harðarson hafði samband símleiðis við manninn sem hann hélt að væri forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, Hjalta Hugason. Hjalti hafði svo samband við Pétur Pétursson forseta deildarinnar, sem þá fyrst frétti að Vantrú hefði kært stundakennarann fyrir siðanefnd HÍ.
Aðrir siðanefndarmenn áttu að kynna sér málin og skoða þessa kæru frá miðjum febrúar, raunar með aðstoð lögfræðings (Jónatans Þórmundssonar) sem er næsta óskiljanlegt því ekkert í kærunni bendir til að málsatvik varði við lög. E.t.v. er skýringin sú að siðanefnd hafi viljað taka af allan vafa um slíkt í upphafi því vörðuðu hin kærðu atriði við lög gat siðanefndin strax vísað málinu frá í samræmi við 4. gr. starfsreglna sinna. En það gerði hún ekki og einhverra hluta vegna héldu lögfræðingar HÍ áfram að starfa með siðanefndinni.
Það var svo ekki fyrr en í lok apríl sem siðanefndin ákvað að kynna stundarkennaranum sem kærður var að hann hefði verið kærður. Tókst ekki betur til en svo að bréfið var sett í rangt pósthólf og barst ekki. Þann 10. maí 2010 tókst siðanefnd HÍ loksins að kynna hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að hann hefði verið kærður og bjóða honum að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri innan viku – rúmum fjórum mánuðum eftir að kæra Vantrúar barst siðanefndinni!
Þótt siðanefndarmennirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi byrjað að skoða málið um miðjan febrúar þá kemur fram í fundargerð fyrsta fundar um málið, 25. mars 2010, að „nefndarmenn hafi farið yfir athugasemdir formanns Vantrúar með hliðsjón af glærunum og voru á einu máli að fjalla ætti um málið út frá faglegu sjónarmiði í guðfræði- og trúarbragðafræðideild, samhliða athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar.“ (Skýrslu óh.n., s. 33.) Þrátt fyrir skýrar starfsreglur siðanefndar virtust nefndarmenn alls ekki kveikja á því að fyrsta skrefið er að athuga hvort siðareglur hafi verið brotnar, þ.e. hvort einhver grundvöllur sé fyrir að fjalla um þessa kæru eða hvort vísa eigi henni frá. Siðanefnd getur tæplega ákveðið að deild innan háskólans eigi að fjalla um erindi sem berst til siðanefndar, síst af öllu þegar hún hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort málið eigi yfirleitt erindi til siðanefndar. Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessir þrír prófessorar í siðanefndinni hafi kannski aldrei kynnt sér starfsreglur nefndarinnar sem þeir sátu í?
Ég rek áframhaldið ekki í smáatriðum enda er gerð grein fyrir því í Skýrslu óh.n. en í stórum dráttum var það svona:
Eftir Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafði klúðrað málum í ótrúlegum mæli, undir því yfirskini að hann væri að leita sátta milli málsaðila (án þess að tala við annan þeirra, þ.e. kennarann sem var klagað undan til siðanefndar en tala þess meir við fulltrúa klagenda og svo menn í guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem kom málið mismikið við) sagði Þórður Harðarson af sér formennsku í siðanefnd HÍ í þessu máli í bréfi til rektors dags. 9. júní 2010. Þá hafði siðanefnd HÍ haldið fjóra fundi um málið. Þórður Harðarson sendi frá sér Greinargerð í siðanefndarmáli sem birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2011 og er hér krækt í greinargerð hans á vef Vantrúar. Þar skín í gegn að hann hefur haft eitthvað takmarkaðar hugmyndir um hvernig nefndir starfa almennt með formlegum hætti, þ.e. að almennt fer nefndarstarf ekki fram í prívatsamtölum á heimili formanns.
Siðanefnd hin síðari
Þann 28. júní 2010 skipaði rektor Ingvar Sigurgeirsson ad hoc formann siðanefndar í máli nr. 1/2010. Í Skýrslu óh.n. kemur hvergi fram hvort Háskólaráð hafi veitt rektor þetta umboð og það sést heldur ekki í fundargerðum Háskólaráðs en skv. 2. grein starfsreglna Siðanefndar HÍ er það Háskólaráð sem skipar formann nefndarinnar samkvæmt tilnefningu rektors. Sömuleiðis voru einu lagaheimildirnar fyrir því að velja nýjan formann eða nefndarmann að þeir fyrri hefðu reynst vanhæfir. (Sjá s. 58 í Skýrslu óh.n..) Sú spurning vaknar því hvort skipun Ingvars Sigurgeirssonar sem ad hoc formanns Siðanefndar HÍ hafi verið ólögleg því Þórður Harðarson hafði ekki lýst yfir vanhæfi og Háskólaráð virðist ekki hafa veitt umboð sitt til skipunar hans.
Af því að siðanefnd hafði aldrei tekið afstöðu til þess hvort klögumál Vantrúar heyrðu undir siðanefnd, þ.e.a.s. snertu á einhvern hátt brot gegn siðareglum HÍ er áhugavert að sjá þess ljós merki að formennirnir í siðanefnd í máli nr. 1/2010 eru ekki einu sinni sammála um hvers eðlis klögbréfið var. Þórður Harðarson segir:
Hinn 4. febrúar 2010 lagði félagsskapurinn Vantrú fram kæru til siðanefndar Háskóla Íslands, sem beindist að kennsluefni stundakennarans Bjarna Randvers Sigurvinssonar (BRS) í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. [- – -] Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir […] Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar.
(Sjá Þórður Harðarson „Greinargerð í siðanefndarmáli“ í Morgunblaðinu 8. desember 2011, hér er krækt í greinina á vef Vantrúar. Feitletrun mín.)
Ingvar Sigurgeirsson segir hins vegar í yfirlýsingu sem hann sendi á póstlista kennara í HÍ en hér er krækt í hana á vef Vantrúar:
Sá sem þetta ritar átti að stýra sérstakri siðanefnd til að fjalla um þetta erindi Vantrúar. Ég tók við málinu þegar Þórður Harðarson hvarf frá því í júlí á síðasta ári.
Það segir sína sögu um þróun þessa máls að formaður Vantrúar varð hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess. Vantrúarmenn töldu þau ummæli meiðandi.
[…]
Fyrir hinni nýju nefnd vakti að kynna sér málið til hlítar, skoða kennsluefnið, afla nauðsynlegra gagna um námskeiðið og fara í saumana á athugasemdum Vantrúar, sem og að lesa ítarlega greinargerð Bjarna Randvers sem hann hafði lagt fram. (Feitletrun mín.)
Yfirlýsing Ingvars segir kannski þá sögu að hann hafi ekkert verið alltof klár á hvað hann átti að gera. Bréf Reynis Harðarsonar til siðanefndar (sem vitnað er í hér að framan) getur varla kallast annað en kæra. Hafi formaður Vantrúar síðan barasta orðið hvumsa á fundi með Ingvari og haldið því fram að Vantrú hafi aldrei kært neinn heldur einungis gert athugasemdir við kennslugögn á námskeiði vegna þess að Vantrúarmenn töldu ummæli um sig og félagið meiðandi þá bendir það til þess að Reynir Harðarson leggi annan skilning í hvað er að kæra einhvern heldur en þorri fólks. Svipaður virðist skilningur Ingvars því hann kallar kæru Vantrúar „erindi“. Seinni hlutinn í tilvitnuninni í Ingvar bendir til þess að honum hafi ekki frekar en Þórði verið ljóst að fyrsta skrefið í vinnu siðanefndar ætti að vera að taka afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ áður en siðanefnd hæfi að rannsaka það. Enda kom í ljós í starfi nefndarinnar undir hans stjórn að siðanefndinni var ekki enn ljóst hvernig kæruefnið eins og Vantrú setti það fram tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu). Loks ruglast hann í ríminu því Þórður Harðarson „hvarf frá málinu” snemma í júní en ekki í júlí 2010 eins og Ingvar segir í þessu bréfi.
Þótt skipaður væri nýr formaður sérstaklega í kæru/klögumáli Vantrúar gegn Bjarna Randveri sátu upphaflegu siðanefndarfulltrúarnir áfram í henni, þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Þar sem þau höfðu látið óátalið að Þórður Harðarson væri heima hjá sér að manga til við Reyni Harðarson og fulltrúa guðfræði- og trúarbragðadeildar um einhvers konar sættir, án þess að hafa fyrst tekið formlega afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ, fór lögmaður Bjarna Randvers fram á að þau vikju vegna vanhæfis. Svarbréf siðanefndar frá 11. mars 2011, þ.e. þeirra tveggja og nýja formannsins Ingvars, auk tveggja fulltrúa í viðbót sem rektor skipaði ad hoc inn í siðanefndina í ágúst 2010 að beiðni Ingvars (sjá Skýrslu óh.n, s. 58) er kostulegt en þar segir m.a.:
„Rangt er að á framangreindu tímabili sáttaviðræðna [mars og apríl 2010] hafi afstaða siðanefndar til málsins mótast. Siðanefnd hafði ekki aflað gagna í málinu og því voru engar forsendur til að taka afstöðu til kæruefnisins af hálfu nefndarinnar. Liður í sáttatillögu þeirri sem lögð var fram var að kæran til siðanefndarinnar yrði dregin til baka og þótti af þeim sökum eðlilegt að beðið væri með efnislega meðferð málsins þar til niðurstaða sáttaviðræðna lægi fyrir. Í sáttatillögunni kemur ekki fram hvort Bjarni hafi brotið siðareglur háskólans, en það á samkvæmt starfsreglum nefndarinnar að koma fram í áliti hennar ef til þess kemur. Siðanefnd áréttar að hugsanlegar ályktanir félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar hafa enga þýðingu í málinu.
Með vísan til framanritaðs er það álit siðanefndar að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi ekki tekið afstöðu til kæru Vantrúar áður en Bjarna gafst kostur á að skýra sína hlið málsins. Sáttatillagan fól að engu leyti í sér álit siðanefndar eða einstakra siðanefndarmanna í málinu. […] “(s. 49-50 í Skýrslu óh.n., feitletranir í tilvitnun eru mínar.)
Þau Sigríður og Þorsteinn höfðu sem sagt frá því um miðjan febrúar 2010 (þegar þau áttu að byrja að kynna sér málið) og fram yfir fyrstu viku júní, þegar Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður, ekki myndað sér neina skoðun, ekki tekið afstöðu til kæruefnisins en samt algerlega skoðanalaus tekið þátt í eða samþykkt alls konar samningaumleitanir við Vantrú undir stjórn Þórðar. Og af hverju tóku þau ekki afstöðu strax og kæran barst eins og þeim bar að gera skv. starfsreglum siðanefndar?
Þann 1. sept. 2010 var þeim heldur ekki ljóst kæruefnið og voru jafnlangt frá því að taka afstöðu til þess og meir en hálfu ári fyrr. Þá kemst siðanefnd að þeirri niðurstöðu á sjötta fundi sínum um þetta mál að kæruliðir séu ekki nægilega afmarkaðir með vísun til greina siðareglnanna. Annar nýju fulltrúanna og lögfræðingur HÍ voru settir í að reyna að greina kæru Vantrúar, þ.e. lista upp kæruatriðin, gá hvaða greinar siðareglnanna ættu við efni hverrar glæru og hvort um brot væri að ræða í hverju tilviki. Þegar hér var komið sögu eru siðanefnd HÍ og lögfræðingur HÍ að reyna að laga illa orðaða kæru Vantrúar og endurvinna hana einhvern veginn til að sjá hvort yfirleitt sé um brot á siðareglum að ræða! Má líta svo á að siðanefndin sé þarna farin að vinna fyrir Vantrú?
Nýju fulltrúarnir í siðanefnd, Gerður G. Óskarsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson, hafa einkum starfað við að mennta grunnskólakennara eða sjá um kennsluréttindanám framhaldsskólakennara (sú fyrrnefnda í HÍ, sá síðarnefndi við HA). Sama gildir um Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í Kennardeild Menntavísindasvið. Voru nýju fulltrúarnir sjálfsagt honum kunnug eftir margra ára veru í nokkurn veginn sama faginu og líklega óskaði hann sjálfur eftir að fá einmitt þetta fólk inn í nefndina. Það er því ótrúlegt að eftir að siðanefndin hafði fengið aðgang að kennsluáætlunum, prófum og öðrum gögnum af vefsvæði námskeiðsins, með leyfi stundakennarans kærða, Bjarna Randvers, datt þeim í hug að óska eftir prófúrlausnum nemenda í þessu námskeiði. Ingvar Sigurgeirsson sagði: „Meginrök fyrir þessari beiðni eru þau að svör nemenda við umræddri spurningu (og mat kennara á þeim) kunna að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (efnistök, áherslur, heimildir).“ (Tilv. í bréf Ingvars 26. nóvember 2010, s. 44 í Skýrslu óh.n.) Að sjálfsögðu var þessu erindi hafnað enda prófúrlausnir nemenda persónugreinanlegar. Og mér finnst mjög merkilegt, sem kennara, að fólk sem vinnur við að mennta kennara skuli láta sér detta í hug að meta kennsluhætti eftir prófúrlausnum nemenda! Auk þess sem það er augljóst að enginn nemandi kærði, almennt taka nemendur ekki próf með því hugarfari að svör þeirra verði brúkuð í allt öðrum tilgangi en mati á kunnáttu í faginu, prófið í námskeiðinu hafði ekki verið kært o.s.fr. Vinna siðanefndar, á þessu stigi, er farin að líkjast fálmi eftir hálmstráum frekar en formlegri vinnu formlegrar nefndar við æðstu menntastofnun þjóðarinnar.
Lokin á fimbulfambi siðanefndar
Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka. Kristín hefur sjálf ekki svarað erindi Vantrúar sem barst henni sem háskólarektor.
Um þessar málalyktir segir í Skýrslu óh.n.: „Að mati nefndarinnar hefur yfirstjórn Háskóla Íslands ekki svarað erindi Vantrúar formlega sem til hennar barst beint með bréfi félagsins, dags 4. febrúar 2010, en kom að ákvörðun Vantrúar að falla frá kærunni.“ (s. 66)
Meginniðurstaða Skýrslu óh.n. eftir að hafa farið yfir málið er:
Nefndin telur það óviðunandi, fyrir Háskóla Íslands og málsaðila, að ekki hafi tekist að ljúka því efnislega. Siðanefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, þ.e. hvort málið heyrði undir nefndina og ef svo bar undir, að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu með sjálfstæðri rannsókn svo úrskurða mætti hvort siðareglur Háskóla Íslands hefðu verið brotnar. Þetta tókst ekki. (S. 9, nánast samhljóða klausu er að finna á s. 73. Feitletrun mín)
Niðurlag
Eins og ég hef rakið hér að ofan brást siðanefnd HÍ algerlega hlutverki sínu þegar félagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir brotabrot af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á haustönn 2009. Siðanefndin fór ekki eftir eigin starfsreglum sem var upphaf þeirrar þvælu sem þetta kærumál varð. Ég hef sleppt því að geta afskipta annarra af málinu en bendi enn og aftur á Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011. Einnig vísa ég í „Yfirlýsingu vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni“ sem birtist í fjölmiðlum, hér er krækt í hana á visir.is. Þar kemur fram að fjöldi sérfræðinga hefur skoðað þessa kæru eða klögu eða erindi Vantrúar og sér ekki minnsta flöt á að hún hafi neitt með siðareglur Háskóla Íslands að gera. Þar kemur líka fram álit fjölda háskólakennara á störfum siðanefndar í þessu máli.
Frá upphafi virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir að siðanefndin hefði átt að vísa málinu frá enda var kæra Vantrúar og tilvísanir í siðareglur afar ruglingsleg og vandséð hvernig hún tengdist siðareglum HÍ (eins og siðanefndinni varð raunar ljóst þegar hún loks kom sér að því að skoða hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, tæpum sjö mánuðum og fimm fundum eftir að kæran barst henni).
Lok málsins eru lýsandi fyrir það allt: Þetta var „EKKI“-mál sem tókst að þvæla þar til EKKI fékkst niðurstaða. Meginábyrgðina ber siðanefndin, þ.e. formennirnir tveir, Þórður Harðarson og Ingvar Sigurgeirsson og aðalnefndarmeðlimirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Sá sem ákvað að enda málið með því að enda það ekki var Kristín Ingólfsdóttir rektor sem fékk Vantrú til að falla frá kærunni. Hún ákvað svo að hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, skyldi bera sinn lögfræðikostnað sjálfur þótt ótæk vinnubrögð siðanefndar HÍ hafi neytt hann til að fá sér lögfræðing: „Varðandi lögfræðikostnað Bjarna segir Kristín að það gildi almennt um siðanefndir í íslensku réttarfari að lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til slíkra nefnda sé ekki greiddur af viðkomandi stofnun.“ („Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað“. mbl.is, 6. des. 2011. Feitletrun mín).
Og verðlaunin fyrir frammistöðu siðanefndar? Jú, þann 1. júlí 2010 var skipuð ný siðanefnd HÍ sem á að starfa til 30. júní 2013. Í henni sátu fyrst:
Þórður Harðarson, prófessor emeritus í Læknadeild, formaður, tilnefndur af rektor;
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og kennari við sagnfræði og heimspekideild, tilnefnd af Félagi háskólakennara;
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í Raunvísindadeild, tilnefndur af Félagi prófessora, nú orðinn prófessor emeritus í sömu deild.
Skv. síðu HÍ sem síðast var breytt þann 8. desember hefur Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ, tekið sæti Salvarar. (Sjá „Siðanefnd“ á vef Háskóla Íslands.)
Þannig að hinir vísu öldungar, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, halda áfram að höndla kærur til siðanefndar HÍ. Og Eyja Margrét? Er hún e.t.v. vinkona Vantrúar?
Myndirnar eru af styttum (heilum eða að hluta) eftir Rodin, talið að ofan: Hönd, Skuggarnir þrír, Borgari í Calais og Hugsuðurinn.
Næsta færsla fjallar um kveikju málsins, þ.e. félagið Vantrú og forsvarsmenn þess.
Þar sem þú ert búinn að dæma Bjarna Randver saklausan af öllum atriðum erindis Vantrúar til siðanefndar að þá breytir því varla sem ég segi hér, en samt sem áður vildi ég spyrja þig ef málið er svona augljóslega Bjarna í hag, að afhverju mátti siðanefnd ekki fjalla um það í næði frá stuðningsmönnum Bjarna. Afhverju var hamast þannig í nefndinni að enginn vinnufriður fékkst? Gögn sem siðanefnd bað um fengust ekki. Aðilar sem siðanefnd vildi fá fyrir nefndina mættu ekki og allt eftir þessu.
Nú sagði formaður siðanefndar sig frá málinu og hálf nefndin með þegar allt var komið í hnút og augljóst var að ekkert myndi ganga með þessu áframhaldi.
Í staðin komu aðrir menn inn sem ætluðu að fjalla um málið og reyna að komast að niðurstöðu í málinu.
Það gekk ekki upp. Til dæmis vegna þess að Bjarni Randver neitaði að mæta fyrir nefndina og sagði þessa virtu háskólamenn, prófessora vanhæfa. (Vanhæfa takk fyrir!)
Bjarni vildi semsagt velja sér nýja siðanefnd til að fjalla um mál sem snéri að honum. Hvað heldur maðurinn að hann sé? Ef málið var svona mikil vitleysa og ekkert var að þessum glærum og kennslu að þá hefði nýja siðanefndin auðvitað vísað málinu frá. Hvort sem einn eða tveir af þeim sem voru áður í nefndinni væru þar enn, nú í minnihluta.
En síðan er annað, afhverju var ekki bara hægt að sættast í málinu? Formaður siðanefndar talaði við formann Vantrúar og talaði einnig við Pétur Pétursson sem kom fram fyrir hönd Bjarna Randvers (til eru gögn sem sanna það að Pétur og Bjarni ákváðu að Pétur myndi koma fram fyrir hans hönd) í þessu máli og reyndi að koma á sáttum, það mátti ekki.
Meira að segja var síðasta sáttatillagan orðin þannig að Vantrú myndi draga mál sitt til baka án nokkura eftirmála fyrir kennarann en það mátti ekki. Hægt er að skoða þetta mál (allar uppl um loka sáttatillöguna) á vefsíðu vantrúar undir http://www.vantru.is/haskolinn en þar er líka farið yfir málið frá a-ö.
Eftir að málinu lauk og Vantrú hafði dregið erindi sitt til baka að þá byrjaði að mínu ógeðfelld árás á félagið Vantrú sem og á fyrrverandi siðanefnd HÍ í fjölmiðlum, bloggsíðum og innan HÍ.
Og enn er verið að.
Siðanefndin, þessir virtu fræðimenn og prófessorar voru sakaðir um að hafa tekið það upp hjá sér að vinna með félagi út í bæ, mönnum sem þeir þekktu að ég best veit, ekki neitt persónulega, gegn kollega sínum í HÍ. Vinnufélaga sínum. – Hverjar eru líkurnar á því að svoleiðis eigi sér stað? Er ekki pínku möguleiki að siðanefnd hafi bara hreinlega sett spurningamerki við þessar glærur? Er það ekki fræðilegur möguleiki?
Eða er það virkilega líklegra að þínu mati að þessir háskólamenn hafi ákveðið að taka þátt í samsæri gegn kennara í háskólanum.
“Come on” Harpa… hugsaðu þetta mál aðeins án fyrirfram gefnum skoðunum þínum á Vantrú. 🙂
Mér þykir leitt Harpa að þú látir plata þig út í þetta svað enda ertu vönduð manneskja en þú virðist trúa Bjarna Randveri og hans útgáfu af málinu. – Mér þykir leitt að segja þér það en hans útgáfa er röng. Hann hefur ítrekað sagt ósatt í þessu leiðinda máli og er enn að. Og eins og það er ekki nóg að þá er hann að draga með sér gott fólk út í vitleysuna.
Þetta mál og þau ósannindi sem komið hafa fram eiga öll eftir að komast upp síðar. Kannski ekki á morgun, kannski ekki hinn en það mun komast upp um þennan mann og hans vinnubrögð síðar meir og margir verða án efa álpulegir þá eftir að hafa stutt hann og margir skrifað undir lista til stuðnings vinnubrögðum hans.
En ég læt þetta duga í bili.
Með vinsemd og virðingu
Ég var að hugsa um að taka það fram í lok færslunnar að mér finnst þægilegra (fyrir mig og lesendur mína) ef menn tjá sig undir fullu nafni. Það er sjálfsagt að gera undantekningu á því þegar fjallað er um viðkvæm mál (t.d. ætlast ég ekki til athugasemda undir fullu nafni við færslur sem fjalla um þunglyndi, reynslu af siðblindum o.þ.h.) en almennt og yfirleitt óska ég eftir að þeir sem kommenta sýni þá kurteisi að skrifa undir nafni.
Í þessari færslu er ég ekki að taka afstöðu með einum eða neinum. Ég er einfaldlega að benda á hvernig siðanefnd klúðraði kæru til hennar og vísa því til sönnunar m.a. í starfsreglur þessarar sömu siðanefndar, ásamt því að benda á hversu langt hana bar af leið í formlegri afgreiðslu kærunnar skv. starfsreglum. Ég hef lesið yfir greinargerð Vantrúar um þessar glærur, í bréfinu sem sent var Pétri Péturssyni forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (sama greinargerð fylgdi kærunni til siðanefndar HÍ) og er sammála þeim fjörtíu háskólakennurum sem skoðuðu kæruna um að þessar kvartanir snerti ekki siðareglur Háskóla Íslands.
“Ef málið var svona mikil vitleysa og ekkert var að þessum glærum og kennslu að þá hefði nýja siðanefndin auðvitað vísað málinu frá.” Nýja siðanefndin átti að byrja á því að úrskurða hvort kæra Vantrúar snerti siðareglur HÍ. Það er ekki hlutverk siðanefndar að meta kennslu í einstökum kúrsum eða kennsluefni, til þess eru t.d. kennslukannanir sem nemendur svara og yfirstjórnir deilda. Hlutverk siðanefndar er að ákvarða hvort siðareglur hafi verið brotnar. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir getur siðanefnd snúið sér að því að afgreiða málið: Vísað því frá, leitað sátta, kannað málið betur m.a. með því að veita hinum kærða tækifæri til að útskýra sína hlið, úrskurðað í málinu o.s.fr. Nýja siðanefndin klikkaði á sama grunnatriðinu og sú fyrri, þ.e. að hún skar ekki úr því hvort um einhvern málsgrundvöll væri að ræða í upphafi.
Líklega hefði Vantrú fengið bót sinna meiðsla með því að leita einfaldlega til viðkomandi kennara, útskýra sitt sjónarmið og biðja um að glærunum yrði breytt áður en námskeiðið yrði haldið næst. Kennari ber ábyrgð á námsefni, kennslu og námsmati og því liggur beinast við að tala við hann, nema um sé að ræða lögbrot (sem er ekki í þessu tilviki) eða brot á siðareglum (sem er ekki í þessu tilviki).
Ég hef ekki hugsað mér fjalla sérstaklega um viðbrögð guðfræði- og trúarbragðafræðideildar við erindi Vantrúar sem barst til þeirra enda eru þeim gerð góð skil í Skýrslu óháðu nefndarinnar sem ég vísa í. Næsta skref verður að skoða félagið Vantrú, hugðarefni þess og helstu forvígismenn. Í þeirri færslu kæmi vel til greina að skoða af hverju Vantrú taldi þessar glærur meiðandi fyrir sig og kemur þá auðvitað þessi vefsíða Vantrúar, sem þú vísar í T.E, væntanlega að góðum notum. Hvað svo tekur við er ekki alveg skipulagt en sennilega fjalla ég eitthvað um viðbrögð eftir að Vantrú lagði fram kæruna til siðanefndar, bæði Vantrúar og annarra, og linnulítil skrif Vantrúarmanna um þennan kennara.
Sæl Harpa, Ég held að þessum fáu félögum Vantrúar hafi tekist ætlunarverkið sem var alltaf að koma af stað deilum. það sem ég hef séð til þeirra á netinu fellur undir þann hvimleiða hóp internetþrasara sem hafa verið skilgreindir sem “troll”
Að Háskóla kennari, í þessu tilfelli Bjarni Randver, skuli hafa fallið í gildruna og fjallað um þennan félagsskap eins og eitthvað sem skiptir máli, voru náttúrulega óakademísk vinnubrögð og á því átti hann að biðjast afsökunar strax og málið kom upp. Á heimasíðu Vantrúar má lesa:
Um Vantrú
Í ágúst 2003 stofnuðu nokkrir trúleysingjar vefritið Vantrú. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa stundað trúmálaumræður á netinu, aðallega á spjallþráðum og vefsetrum einstaklinga. Vantrú þróaðist fljótt í mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni, og má segja að hún hafi öðlast nokkurn sess í vefritaflóru Íslands. Félögum fjölgaði jafnt og þétt og í febrúar 2004 var tilkynnt um stofnun óformlegs félags. Á haustmánuðum sama ár, þegar félagar voru orðnir 20, varð draumurinn um lögformlegan félagskap að veruleika.
Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið
Þarna kemur fram aðþað tók þá 1 ár að safna 20 meðlimum. Það kemur svo ekkert fram hvað félagar eru margir í dag en mig grunar að margir rugli saman Siðmennt og Vantrú og á því hafi Vantrú grætt. Enda er markmið Vantrúar svo yfirlætislega hrokafullt að engum ætti að blandast hugur um tilganginn, sem er deilur við kirkjuna. En þær rökræður á hver og einn við sjálfan sig og þarf ekki stuðning internet trolla.
Þegar ég var búinn að kynna mér hvað þarna var á ferðinni, tók ég þá meðvituðu ákvörðun að blanda mér aldrei í deilur um trúmál þar sem búast mátti við að einhver þeirra blandaði sér í umræðurnar og eyðilegðu þær eins og troll gera alls staðar
Eins og kemur fram í þessari færslu tilkynnti siðanefnd Bjarna Randveri það ekki fyrr en fjórum mánuðum eftir að Vantrú kærði hann fyrir siðanefnd að hann hefði verið kærður. Í Skýrslu óháðu nefndarinnar sem ég vísa í er því lýst hvernig hann brást við bréfi Vantrúar til guðfræði- og trúarbragðadeildar HÍ og verður ekki af henni annað ráðið en Bjarni Randver hafi verið meir en tilbúinn til að koma til móts við umkvörtun Vantrúar og breyta glærunum áður en hann kenndi námskeiðið næst. Það var hins vegar löngu áður en honum var kunnugt um að hann hefði verið kærður fyrir að brjóta siðareglur HÍ, sem er talsvert alvarlegt mál fyrir akademískan frama.
Ég reyni að átta mig á mögulegum fjölda Vantrúarmanna fyrir næstu færslu 🙂
Sæl og blessuð, Harpa, og þakka þér fyrir fróðlega samantekt.
Ég hef nokkuð velt fyrir mér þáttum þessa einkennilega máls. Það sem mér finnst eftirtektarverðast í tengslum við samskipti siðanefndar og félagsins Vantrúar er eftirfarandi tvennt:
1) Félagið Vantrú skilaði inn umkvörtunum sínum á 3 staði í HÍ, en vill einatt ræða um þau sem erindi, ekki kærur. Mér skilst að orðalagið „alvarlegar athugasemdir“ hafi verið notað í plöggunum sem þeir sendu inn.
Nú er svo að Þórður Harðarson, (fyrri) formaður Siðanefndar í málinu, hefur skrifað greinargerð um málið (Mbl. 8.12.2011) og notar þar jafnan orðið „kærur“ um erindi Vantrúar. Verður ekki annað af greininni skilið en að hann hafi litið á og meðhöndlað málið sem kæru. Miðað við það að Þórður átti fundi (jafnvel einkafundi) með fulltrúum félagsins Vantrúar, þá hlýtur að teljast með ólíkindum að eðli erindisins (kæra eða ekki kæra) skuli ekki hafa borið á góma.
2) Þórður gegndi formennsku Siðanefndar í málinu í 4 mánuði, en sagði sig þá frá málinu, og tók þá Ingvar Sigurgeirsson við, sem settur formaður nefndarinnar í þessu máli. Ingvar hefur gefið frá sér yfirlýsingu um málið (dags. 14. 12. 2011) og segir þar orðrétt:
„Það segir sína sögu um þróun þessa máls að formaður Vantrúar varð hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn …“
Af þessari lýsingu má ætla að félaginu Vantrú hafi ekki verið ljóst á þeim tímapunkti, þegar Ingvar tók við formennsku Siðanefndar í þessu tiltekna máli (júní eða júlí 2010) að málið væri meðhöndlað sem kærumál. Í ljósi framangreindrar forsögu málsins þykir mér þetta með ólíkindum, en látum svo vera. Hitt finnst mér eftirtektarvert að félagið Vantrú, í ljósi breyttra upplýsinga, hefði getað fellt niður málabúnað sinn fyrir Siðanefndinni (þótt það hefði mögulega haldið öðrum erindum sínum áfram innan HÍ), en félagið hélt málarekstrinum áfram fyrir Siðanefndinni á sömu forsendum sem áður, og hefur þá væntanlega verið orðið fullljóst að málið væri meðhöndlað sem kærumál af nefndinni. M.ö.o. að þótt félaginu Vantrú hafi í fjóra mánuði verið óljóst að málið væri meðhöndlað sem kærumál af Siðanefnd, þá hefði því átt að vera orðið það fulljóst frá júní/júlí 2010 og þar til félagið féll frá kærunni í apríllok 2011, 9-10 mánuðum síðar.
Tja, nú get ég ekki svarað fyrir Vantrú og tæplega metið málskilning félagsmanna þar nema í þessu bréfi sem Reynir formaður sendi siðanefnd (tilv. tekin úr Skýrslu óháðu nefndarinnar), þar sem segir: “[…] sem við teljum ótvírætt brot á siðareglum HÍ.” Ef bréf er sent til siðanefndar HÍ, í því eru bornar fram alvarlega ásakanir, skilningur bréfritara er að þær lúti að ótvíræðum brotum á siðareglum HÍ og síðan er vísað í einstakar siðareglur sem taldar eru hafa verið brotnar þá held ég að flestir myndu kalla þetta “kæru til siðanefndar”.
Einnig má benda á að skv. starfsreglum siðanefndar á hún ekki að halda uppi huggulegu snakki um “erindi” eða “athugasemdir” heldur úrskurða hvort viðkomandi mál heyri undir siðareglur HÍ og hvort þær hafi verið brotnar, afgreiða svo málið annað hvort með sáttum eða úrskurði. Heyri málið ekki undir siðareglur HÍ ber að vísa því frá.
Til hvers í ósköpunum var félagið Vantrú að senda bréf til siðanefndar HÍ ef það taldi sig ekki vera að kæra efnistök á glærunum? Ég ætla Vantrúarfélögum ekki þá einfeldni að halda að siðanefnd HÍ sé verðandi pennavinur eða samræðufélagi um glærugerð.
Ingvar tók við formennsku í þessu máli siðanefndar HÍ þann 28. júní 2010.
Vá hvað þú skrifar mikið um ekki neitt.
Harpa: Einn kunningi minn nefndi í gríni við mig að ef til vill væri ekki svo mikill munur á róttækum trúleysingjum og boðskap kristninnar, þótt formerkin væru e.t.v. aðeins önnur. Þau mætti máske orða svo: “Legg þú Netið á djúpin eftir Dawkins orði og veiddu sálir í Troll þín.”
fsBXUK xfplouxivbwo