Vantrú

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í ágúst 2003 stofnuðu nokkrir trúleysingjar vefritið Vantrú. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa stundað trúmálaumræður á netinu, aðallega á spjallþráðum og vefsetrum einstaklinga. Vantrú þróaðist fljótt í mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni, og má segja að hún hafi öðlast nokkurn sess í vefritaflóru Íslands. Félögum fjölgaði jafnt og þétt og í febrúar 2004 var tilkynnt um stofnun óformlegs félags. Á haustmánuðum sama ár, þegar félagar voru orðnir 20, varð draumurinn um lögformlegan félagskap að veruleika.

 Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið.  („Um Vantrú“ á vantru.is, feitletrun mín.)

Steðji � HvalfirðiAf því að félagið Vantrú er aðallega sýnilegt á vef/vefriti félagsins er rétt að geta þess að: „Upphaflega var vefritið ætlað til þess að skoða trúmál frá sjónarhorni trúleysingjans. [..] [Það] hefur þó tekið töluverðum stakkaskiptum. […] Hér er einnig tekið á öðrum hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum.“ („Um vefritið“ á vantru.is.) Raunar virðist félagið vera að hverfa aftur til upprunans miðað við umræðuna árið 2011 sem snýst að mestu um trúmál frá sjónarhorni trúleysingja.

Vefritið Vantrú var sem sagt stofnað 2003 en félagið Vantrú árið 2004. Félögum hefur fjölgað mjög hægt en bítandi þessi tæpu átta ár síðan félagið var stofnað og eru nú 130 – 135 talsins eftir því sem næst verður komist. Í Stúdentablaðinu 1. des. 2008 segir að félagar séu 90-100 en á Wikipediusíðu um félagið segir að þeir séu  80-90 í sömu efnisgrein og stjórnarmenn Vantrúar árið 2010 eru taldir upp. Annað hvort hefur fækkað í félaginu á þessum árum eða nákvæmur fjöldi félagsmanna er eitthvað á reiki.

Helstu forsvarsmenn Vantrúar frá upphafi sjást í töflunni hér að neðan. Einnig má benda á myndir af þeim mörgum á glæru sem félaginu áskotnaðist með nokkuð vafasömum hætti af lokuðu námskeiðssvæði á Uglu (innri vef HÍ). Hér er krækt í glæruna á vefsvæði Vantrúar.
 

2003: Vefritið Vantrú stofnað Birgir Baldursson skrifar stefnuyfirlýsingu þess,

sjá „Lygin um sannleikann“.
 

2004-2005: Stjórn vefjar Vantrúar Óli Gneisti Sóleyjarson ritstjóri
 Birgir Baldursson vefstjóri og ábyrgðarmaður
 Matthías Ásgeirsson ritstjórnarmeðlimur
 Jogus ritstjórnarmeðlimur
 Frelsarinn ritstjórnarmeðlimur
Stjórn félagsins Vantrúar 2005 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritins

Stjórn félagsins Vantrúar 2006 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2007 Matthías Ásgeirsson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Birgir Baldursson meðstjórnandi

 Hjalti Rúnar Ómarsson ritari, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2008 Matthías Ásgeirsson formaður.
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Teitur Atlason ritari
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Karl Gunnarsson meðstjórnandi

 Birgir Baldursson tók við ritstjórn vefritsins 2007 og gegndi fram á árið 2008.

Stjórn félagsins Vantrúar 2009 Óli Gneisti Sóleyjarson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Baldvin Örn Einarsson ritari
 Kristín Kristjánsdóttir meðstjórnandi
 Valdimar Björn Ásgeirsson meðstjórnandi

 Þórður Ingvarsson tók við ritstjórn vefritisins árið 2008  og hefur gegnt því starfi síðan

Stjórn félagsins Vantrúar 2010 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Trausti Freyr Reynisson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2011 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Birgir Baldursson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins 

Sem sjá má á þessari töflu eru ekki miklar breytingar á stjórn Vantrúar frá upphafi. Og það er áberandi hve hlutur kvenna er rýr, árin 2007-2009 sátu konur í stjórn en annars ekki. Gyða Ásmundsdóttir sem kom inn í stjórnina í formannstíð Matthíasar Ásgeirssonar er eiginkona hans. Eygló Traustadóttir sem sat í stjórn 2007-2008 er maki Óla Gneista Sóleyjarsonar. Ég veit ekki hvort Kristín Kristjánsdóttir, sem sat í stjórn 2009 hefur einhver álíka tengsl við karlana í stjórn. Í hópi greinarhöfunda á Vantrúarvefnum eru konur nánast ósýnilegar (sjá neðar í þessari færslu).

Sumir stjórnarmanna reka eigin blogg og helga þau ósjaldan trúmálum, oftast baráttu gegn þjóðkirkjunni og áhrifum hennar. Sem dæmi má nefna Hjalta Rúnar Ómarsson, Matthías Ásgeirsson og Þórð Ingvarsson. Og sumir stjórnarmanna hafa verið ötulir að skrifa um trúmál og efni þeim tengt frá tvítugsaldri, t.d. Haraldur Óli Haraldsson (sem tók síðar upp nafnið Óli Gneisti Sóleyjarsson) og Reynir Harðarson (hér er krækt í elstu dæmin sem ég fann um slíkt – til gamans má geta þess að afi minn skrifaði greinina fyrir ofan grein Reynis Harðarsonar).
 

Helstu baráttumál Vantrúar

Andlit við Byggðasafnið � GörðumSvo virðist sem Vantrú hafi lagt talsverða áherslu á að berjast almennt gegn „hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum“ fram undir 2009. Finna má ýmsar áhugaverðar greinar um hjálækningar, vísindi o.fl. í flokkunum „Efahyggjuorðabókin“ og „Kjaftæðisvaktin“, svo dæmi séu tekin. En frá um mitt ár 2009 verður umræðan einsleitari og snýst í æ ríkari mæli um andstöðu gegn þjóðkirkjunni og andstöðu gegn samvinnu skóla og þjóðkirkju, á þeim forsendum að ekki megi troða trú upp á saklaus börn á leikskólum og í grunnskólum. Frá því snemma árs 2010 hefur svo heill greinaflokkur verið helgaður óánægju Vantrúar yfir kynningu á félaginu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson kenndi á haustönn 2009, og ýmsum málrekstri sem fylgdi í kjölfar kvartana/kæra Vantrúar (sjá „Háskólinn“).

Frá 2006 hefur verið félaginu kappsmál að aðstoða fólk við að segja sig úr þjóðkirkjunni, sem Vantrú kallar „að leiðrétta trúfélagaskráningu“ (en af því þessi síða Vantrúar heitir „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ virðist nokkuð ljóst að félagið beitir sér nær eingöngu gegn þjóðkirkjunni). Vantrúarmenn hafa mætt á einhverjar samkomur (sjá t.d. hér) eða gengið um með eyðublöð Hagstofunnar og seinna Þjóðskrár, ásamt því að krækja í eyðublaðið hjá Hagstofunni, láta það liggja á eigin síðu sem pdf-skjal og gefa upp faxnúmer o.s.fr. Núna er mönnum bent á þann möguleika að skila skráningareyðublaðinu rafrænt, auk annarra möguleika. Skv. vefsíðunni „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ í gær, 13. jan. 2012, hefur Vantrú hefur aðstoðað 1328 einstaklinga til þessa á tímabilinu 1. jan. 2006- 14. júní 2011. Raunar er vandséð hvað liggur að baki þessari nákvæmu tölu þegar umræðuþráðurinn fyrir neðan er lesinn: Telst það að tilkynna Vantrú að maður hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni vera að hafa þegið aðstoð Vantrúar til verksins? Þótt Vantrú segist hafa aðstoðað á fjórtánda hundrað manns við að skrá sig úr þjóðkirkjunni nýtur félagið þess ekki sérlega mikið því í Vantrú eru núna eitthvað um 130-135 manns, sem áður sagði. Það eru tæplega 1,14% prósent af þeim fjölda sem skráður er utan trúfélaga, skv. tölum Þjóðskrár frá 1. jan. 2012.

Vantrú heldur upp á ýmislegt með sínum hætti. Má nefna að félagið heldur árlegt páskabingó á Austurvelli á föstudaginn langa til að mótmæla lögum um helgidaga. Félagið veitir árlega sérstök skammar- eða háðsverðlaun sem það kennir við Ágústínus kirkjuföður. Heiðursfélagi Vantrúar var Helgi Hóseason. Ári eftir andlát hans, 6. sept. 2010,  minntist ritstjórn félagsins hans og sagði m.a.: „Við erum stolt af því að hafa gert Helga Hóseasson að fyrsta (og enn eina) heiðursfélaga Vantrúar.“ Í sömu grein kemur fram að Vantrú hafi beitt sér fyrir að gerð var minningarhella um Helga á horni Langholtsvegar og Holtavegar, yrði hún afhjúpuð þennan dag og haldin látlaus athöfn til minningar um Helga.
 

Vettvangur og aðferðir

Aðalvettvangur Vantrúar er auðvitað vefritið. Miðað við mannfæð félagsins er ótrúlega mikið efni þar að finna. Enn athyglisverðara er að einungis örfáir félagsmenn standa að megninu af  þessum greinarskrifum og þeim fer fækkandi, þ.e. greinum fækkar milli ára og hlutur örfárra félagsmanna verður stærri. Hlutur kvenna í greinaskrifum er svo lítill að það tekur því varla að minnast á hann. Hér að neðan má sjá skiptingu efnis eftir höfundum árið 2008 og 2011. (Byggt er á listanum „Allar færslur á Vantrú“.)
 
 

Greinar á Vantrú 2008
Árið 2008 voru greinar og tilkynningar 324 talsins. Í hlut ritstjórnar eru bæði tilkynningar og greinar, alls 130 talsins, en aðrir eru skráðir fyrir greinum eingöngu. Af þeim var Reynir Harðarson afkastamestur, skrifaði 27 greinar á árinu. Fast á hæla honum fylgdi Brynjólfur Þorvarðarson með 23 greinar. Í hópnum „Aðrir“ eru þeir sem skrifuðu 1-3 greinar á árinu, alls teljast 33 greinar til þessa flokks. Af þrettán höfundum í þessum flokki sem líklega eru félagsmenn eða áhangendur Vantrúar er ein kona (sú var í stjórn félagsins þetta ár). Að auki eru í þessum flokki sex höfundar aðsendra greina og þar á meðal önnur kona. Þessar tvær eru einu konurnar sem skrifuðu greinar á vantru.is árið 2008.
Greinar á Vantrú 2011
Árið 2011 voru skrifaðar 180 greinar og tilkynningar á vantru.is. Þær skiptust þannig:Ritstjórn: 73
Hjalti Rúnar Ómarsson: 22
Egill Óskarsson: 18
Reynir Harðarson: 17
Frelsarinn: 12
Matthías Ásgeirsson: 6
Þórður Ingvarsson.: 6

Aðrir: 26 greinar. Höfundar voru fjórtán, þar af tvær konur, og auk þess birtust þrjár aðsendar greinar eftir jafnmarga karla.

Af AkrafjalliFyrir utan að skrifa greinar í eigið vefrit er þessi fámenni félagahópur iðinn við að skrifa athugasemdir við þær og svara þeim utanfélagsmönnum sem slæðast inn á vefinn og melda skoðanir sínar. Lausleg athugun á athugasemdum við greinar á vefriti Vantrúar árið 2011 bendir til þess að afar fáar konur leggi þar orð í belg. Lítill hópur félagsmanna virðist einnig vinna ötullega að því að hafa upp á bloggfærslum annarra þar sem Vantrú berst í tal og gera sínar eigin athugasemdir við þær, sjá t.d. athugasemdir við færsluna „Mér ofbauð“ á bloggi Helga Ingólfssonar. Sama gildir um fréttir um Vantrú á vefmiðlum og félagsmenn virðast jafnvel reyna að fylgjast með Facebook-færslum um Vantrú. Þeir sýna ótrúlega elju við þessa iðju en ganga sumir svo langt að kalla mætti þá „tröll“ í netheimum.
 

Hvernig kemur Vantrú manni fyrir sjónir?

Hér á eftir byggi ég vitaskuld einungis á eigin mati. En það sem fyrst stakk í augu þegar ég fór að kynna mér félagið Vantrú, aðallega með því að skoða samnefndan vef/vefritið, var hve mjög Vantrú líktist ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi, þótt með öfugum formerkjum væri. Má þar nefna eftirfarandi:
 

*  Línan er lögð af körlum: Stjórn félagsins er oftast skipuð körlum eingöngu. Tvær af þeim þremur konum sem hafa setið tímabundið í stjórn eru eiginkonur karla sem sitja eða setið í stjórn. Það eru nánast bara karlar sem skrifa greinarnar á vefnum/vefritinu. Og bæði ritendur og stjórnendur eru aðallega fámennur karlahópur, nánast eins og æðstuprestar eða erkiklerkar í trúfélögum. Þótt í árdaga vefritsins hafi birst greinin „Til kvenna um trú“ þar sem Vantrúarfélaginn Aiwaz fer mikinn þegar hann útlistar kúgun þá sem kirkjan og kristni beita konur; hann endar greinina svo á: „Kæra trúkona, ertu eiginkona, hóra eða sjálfsfróunarvél?“ þá verður alls ekki séð af gögnum Vantrúar sem liggja frammi að þeim sé jafnrétti kynjanna eða hlutur kvenna ofarlega í huga. Satt best að segja datt mér einmitt í hug að konur ættu að þegja og spyrja menn sína heima þegar ég skoðaði hlut kvenna í greinasafni Vantrúar árin 2008 og 2011.
 

* Trúboð (and-trúboð?) er stundað af mikilli elju. Þarna á ég m.a. við hversu ótrúlega miklum tíma nokkrir karlar (raunar mikið til þeir sömu og sitja í stjórn og skrifa greinar) eyða í að elta uppi umfjöllun um Vantrú og leggja þar mörg orð í belg eða hvernig þeir sömu hamast við að skrifa athugasemdir við blogg nokkurra presta (virðist sr. Þórhallur Heimisson í sérstöku uppáhaldi þar).

Hin hlið trúboðsins / and-trúboðsins er svo að hvetja sem mest til að fólk segi sig úr þjóðkirkjunni; ganga jafnvel um garða til þess, eins og hverjir aðrir góðir mormónar eða vottar jehóva eða aðrir sem boða sína trú. Og ekki má gleyma því andtrúboði að vilja banna hvers kyns kirkjulegt starf í leikskólum og grunnskólum, s.s. að prestar fái að hitta börn og unglinga í skólanum (t.d. á aðventunni) eða að Gideon-félagar fái að gefa skólabörnum Nýja testamentið. Um skaðsemi svona háttalags hafa Vantrúarmenn skrifað fjölda greina á sinn vef og í ýmis dagblöð / netmiðla.
 

* Það ríkja ákveðnar kennisetningar um Vantrú, þ.e.a.s. aðeins má fjalla um félagið á ákveðnum nótum. Vei þeim sem brýtur þær dogmur! Þeir eru að minnsta kosti sýndargrýttir í netheimum. Ef brotið er stórvægilegt leggja félagsmenn í krossferð, heilagt stríð.

Í þessu sambandi má og geta þess að Vantrú hefur hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta. Greinin „Bjarni Harðar og fyrirgefningin“ lýsir þessari vissu Vantrúar prýðilega. Hún minnti mig pínulítið á ofurlítið sambærilega sögu, um farísea og tollheimtumann …
 

* Haldin er andhátíð á föstudaginn langa. Hugsanlega eru til fleiri andhátíðir sem fylgja helgidögum kristinna, efnið á vef Vantrúar er svo gífurlega mikið að ég skoðaði einungis hluta af því. Og sérstök verðlaun Vantrúar eru kennd við Ágústínus kirkjuföður; eru þannig með sterka skírskotun til kirkjusögu og kristni en eru að sjálfsögðu andverðlaun, því þau eru skammarverðlaun.
 

* Hinn eini sanni heiðursfélagi, Helgi Hóseasson, skipar svipað sæti hjá Vantrú og Jesús meðal postulanna. Vantrúamenn fylgdu honum í lifanda lífi, þeir sjá svo um að tákn til minningar um hann sé sett (gangstéttarhella í stað kross) og minnast dánarafmælis hans. Og af því allt er með öfugum formerkjum hjá Vantrú þá var það ekki postuli sem afneitaði honum heldur afneitaði Helgi sínum postula eins og sést á þessari glæru með tilvitnun í Helga Hóseasson (hér er krækt í glæruna á vef Vantrúar).
 

* Að sögn getur ákveðið píslarvætti fylgt því að vera félagi í Vantrú. Því verða félagsmenn stundum að dyljast eins og kristnir í katakombunum forðum – í nútímanum nota menn ekki katakombur heldur iðka sína (and)trú undir nafnleynd á netinu. Má nefna að einn stofnfélaga Vantrúar, sem enn er virkur í greinarskrifum, hefur frá upphafi til dagins í dag þurft að skrifa undir því ótrúlega dulnefni Frelsarinn. Hér er og glænýtt dæmi um hve Vantrúarmaður þarf að þola endalaust kristið trúboð í daglegu lífi og þráir að öðlast frið frá því. (Sú raun kemur mér nokkuð á óvart því í þau þrjátíu og þrjú eða fjögur ár sem ég var sjálf utan trúfélaga man ég ekki til þess að neinn hafi reynt að turna mér í þjóðkirkjuna eða yfirleitt sóst eftir að ræða við mig trúmál.)

Sjálfsagt mætti tína til fleiri dæmi um hvernig Vantrú speglar hefðbundinn trúsöfnuð en ég læt þessu lokið að sinni.

Af gefnu tilefni tek ég fram að þeim athugasemdum við þessa færslu sem ekki eru ritaðar undir fullu nafni verður eytt.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru teknar á Stór-Akranessvæðinu.
 
 
 
 
 

59 Thoughts on “Vantrú

  1. Jóhannes Laxdal on January 14, 2012 at 21:37 said:

    Takk fyrir góða greiningu Harpa. Þarna sést það greinilega hversu fámennur hópur besser vissera hefur tröllriðið netheimum undanfarin ár undir merkjum Vantrúar, félagsskapar sem er í raun einsleitur hópur karlmanna sem eru bara á móti þjóðkirkjunni og nafngreindum prestum hennar. Ég er ekki meðlimur í þjóðkirkjunni en ég hef skömm á baráttuaðferðum meðlima Vantrúa. Því þeirra aðferðir hafa oft á tíðum verið meira í ætt við einelti heldur en málefnalegar rökræður.

    Og ertu ekki sammála mér að Bjarni Randver hefði aldrei átt að gera þeim það það hátt undir höfði að fjalla um þennan fámenna hóp nettrölla, sem eitthvað sem skipti trúarbragðafræðslu í Háskóla Íslands, einhverju máli?

  2. Þakka þér fyrir þessa samantekt. Hún er mjög áhugavert innlegg í umræðuna. Væntanlega átt þú eftir að fá fjölbreytt viðbrögð við þessum skrifum þínum sem spennandi verður að lesa.

  3. Jóhannes: Ég ætla að fjalla betur um kvartanir og kæru Vantrúar vegna glæranna á námskeiði Bjarna Randvers síðar. Í þeirri færslu tek ég væntanlega endanlega afstöðu til þess hvort ástæða var til að fjalla um Vantrú en svona fljótt á litið virðist sú umfjöllun hafa passað ágætlega inn í kennsluefnið. Þótt hópurinn sé fámennur er hann afar áberandi, m.a. vegna nettröllsskapar, og þetta eru harðir aðgerðarsinnar (aktívistar) sem láta þá sem þeim hugnast ekki svo sannarlega ekki í friði. Það stuðlar einnig að sýnileika en í rauninni bregður manni svolítið þegar nánar er skoðað og sést hve örfáir þeir eru sem í rauninni sjá um að halda á lofti skoðunum Vantrúar.

    JR: Því miður varð ég að eyða ummælum þínum því eins og ég hef feitletrað neðst í færslunni þá eyði ég öllum ummælum sem ekki eru rituð undir fullu nafni. Pétur Björgvin getur að vísu ekki föðurnafns síns í kommentinu, strangt til tekið, en af því hann tengir um leið í sitt eigið blogg sem hann rekur undir fullu nafni fá ummæli hans auðvitað að standa.

    Ég breytti lítilsháttar uppsetningu á færslunni þegar ég sá hana í tölvu með venjulegum skjá. Minn skjár er extra-stór og mér hættir til að miða útlitið við hann. En nú ætti sem sagt textinn við skífuritin að birtast sæmilega læsilega 🙂

  4. Pétur Pétursson on January 14, 2012 at 23:03 said:

    Takk fyrir þessa samantekt og greiningu. Hún er mikilvægt framlag til umræðunnar og auðveldar fólki að átta sig á því “hvað hér er um að ræða”. Siðanefndir H.Í. hafa aldrei áttað sig á því.

  5. Mér finnst merkilegast við greiningu þína, Harpa, að með því að bregða upp kynjagreiningu, nærðu skemmtilegri hliðstæðu þessa hóps og dæmigerðs trúfélags, s.s. gyðingdóms, kristindóms og íslams. Allt karlmiðlæg trúarbrögð með karla í æðstu embættum og karla sem móta kenninguna. Leiðinlegt fyrir háværustu postula (í eiginlegri merkingu) vantrúar á Íslandi, að þeir falla í sama flokk og þeir sem þeir gagnrýna.

    Ég spyr mig, hvernig guðlaus samtök, samansett af konum myndu takast á við trúfélag eins og Þjóðkirkju Íslands, eða önnur trúarleg fyrirbæri. Værirðu til í að ímynda þér það og e.t.v. deila með okkur hvernig þú sæir slíkt?

  6. Tja … eiginlega ekki, Carlos, því ég á mjög bágt með að sjá fyrir mér svoleiðis félagsskap kvenna. Það má að vísu benda á harðlínu-hópa kvenna sem berjast gegn ákveðinni hugmyndafræði í röðum femínista, en gegn trúfélögum? Ég held að það hlyti þá að verða undir merkjum róttæks feminísma og á þeim forsendum að öfgafullar trúarhreyfingar eigi það einmitt sameiginlegt að vilja fyrst og fremst ráða yfir “sínum” konum. Dugir að nefna strangtrúaða gyðinga eða strangtrúaða múslimi sem dæmi um ofurkapp í þeim efnum. En af því Þjóðkirkja Íslands getur engan veginn talist sérlega öfgafull eða boða strangtrú (einhvers konar fundamentalisma) þá er einfaldlega ekki jarðvegur fyrir samtök róttækra guðlausra femínista hérlendis.

    Ég held að sá fjöldi kvenna sem er skráður utan trúfélaga á Íslandi hljóti að láta sig litlu skipta á hvað aðrir kjósa að trúa eða ekki trúa. Sjálfri fannst mér það sjálfsagt og eðlilegt meðan ég var utan trúfélaga og man ekki til þess að neinn hafi haft áhuga á því hvort ég væri innan kirkju eða utan eða talið það skipta einhverju sérstöku máli. Aftur á móti er ég þeirrar skoðunar að það sé rangt að halda trú frá börnum vegna þess að það getur komið sá tími í lífi hvers manns að hann þurfi að sækja styrk og von í sína barnatrú. Ég vona að foreldrar í Vantrú geri sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem þeir taka fyrir lífstíð sinna barna þegar þeir ákveða að beita sér af hörku gegn því að börnin þeirra kynnist trú og koma þannig í veg fyrir að börnin þeirra eigi val þegar þau eru komin til vits og ára.

  7. Grunaði þetta, Harpa, vildi eiginlega bara sjá þig sveifla greiningu þinni í hina áttina og á hvolfi. Mér finnst greiningin þín svo merkileg fyrir þær sakir að hún er fersk nálgun og vegna þess að hún hittir félagið þar sem það birtist almenningi, óháð því hvernig innviðir þess eru.

    Ef þeir vilja bæta sig, komast þeir ekki hjá því að virkja konurnar í sínum röðum og hlusta á þær … hvort sem það reynist þeim auðvelt eða ekki.

  8. Ætli séu margar konur í röðum Vantrúar? Þær eru a.m.k. mjög illa sýnilegar. Og virkjun eiginkvenna eingöngu er eiginlega ekki mjög trúverðug 🙂

  9. Erna Magnúsdóttir on January 15, 2012 at 00:29 said:

    Ég gekk í Vantrú í kjölfar greinarinnar í Mogganum. Hef fylgst með þeim lengi og fannst mjög gott að geta sýnt félaginu stuðning með því að gangast til liðs við það eftir það sem á hefur gengið. Grein föstudagsins er eftir mig ef þið eruð forvitin.

  10. Steindór Haraldsson on January 15, 2012 at 03:51 said:

    Ég þakka þessa grein hún er bæði góð og tímabær. Það er mín skoðun að hér sé um “ofsatrúarsöfnuð” að ræða. Við höfum heyrt af mörgum slíkum viða að úr heiminum, þó einkanlega frá USA. Þessir söfnuðir eru oft mjög ill skeyttir og er þeim oftast stjórnað af örfáum karlmönnum. Fólk er gjarnan heilaþvegið og fylgir forustusveitinni í blindni. Þessir hópar öfgafólks geta valdið samfélaginu stórskaða. Það ber að vera á verði gagnvart þessu óheillafólki, þess vegna er þessi grein þín svo góð og tímabær.

  11. Gott hjá þér Erna, að kveða þér hljóðs með hófstilltu máli. Því miður gerirðu ein reginmistök í grein þinni, sem ég tel vera algerlega fatal, sbr. http://www.vantru.is/2012/01/13/12.00/#athugasemd-20120115100041

    Ef hugsandi konur fara nú að skrifa Vantrúargreinar, væri vel, ef þær færu á hærra plan fræðilega en karlarnir, sem fram að þessu eru þekktir fyrir að rasa um ráð fram og styðja mál sitt á köflum með afar vafasömum hætti.

  12. Erna Magnúsdóttir on January 15, 2012 at 10:45 said:

    Carlos, ég svaraði gagnrýni þinni inni á Vantrúarvefnum. Þú gerir sjálfur þau reginmistök að átta þig ekki á því að ég gagnrýndi ekki greinina sjálfa sem ég fjalla um, einmitt út af því að ég hef ekki aðgang að henni. Auðvitað gagnrýni ég ekki greinar efnislega sem ég hef ekki aðgang að.

    Og ég er ósammála þér með karlana, það var þeirra stíll sem laðaði mig að félaginu. Finnst þeir einmitt mjög rökfastir og skemmtilegir.

  13. Jóhann Þorsteinsson on January 15, 2012 at 12:54 said:

    Þakka þér fyrir þessa greiningu og fyrir að hafa hugrekki til að setja hana fram.

  14. Helgi Ingólfsson on January 15, 2012 at 13:33 said:

    Sæl og blessuð, Harpa, og þakka þér fyrir þessa mögnuðu greiningu.

    Hér verða ýmsir þræðir ljósari en áður. Ef tölur þínar um félagafjölda eru réttar, sem ég geri fastlega ráð fyrir, þá eru félagar í þessu félagi vel innan við 0,05% af þjóðinni allri.

  15. Þorsteinn Vilhjálmss on January 15, 2012 at 13:51 said:

    Það er vissulega alveg rétt að Vantrú er algjör kallaklúbbur. Það sést langar leiðir.

    Það er samt mjög skrýtið að gagnrýna þá fyrir það, ef maður er bloggari (karlastétt), á moggablogginu (sem veður uppi í karlrembum) og í þjóðkirkjunni (kallaklúbbur sem aldrei hefur haft konu í æðsta embætti). Ef það er svona mikil sök að hafa skökk kynjahlutföll, ættir þú þá virkilega að taka þátt í nokkru af þessu? Einnig eru undirtektir karlkyns moggabloggara hér að ofan um að það sé slæmt að þetta sé kallaklúbbur bráðfyndnar.

  16. Kirkjan breyttist (og breytist áfram) við það að konur urðu prestar og biskupar. Engin ástæða til að ætla annað, en að aukin aðkoma kvenna breyti líka félagsskap eins og Vantrú, Þorsteinn.

  17. Guðbergur Ísleifsson on January 15, 2012 at 15:33 said:

    Frá því að ég fór fyrst að fylgjast með Vantrúarvefnum og um leið því hvernig meðlimir Vantrúar höguðu sér í bloggheimum fyrir um tveimur árum blöskraði mér fljótlega lítilsvirðingin og beturvitahegðunin sem þar var í gangi gagnvart öðru fólki.

    Meðlimir safnaðarins fylgdust greinilega náið með öllu því sem skrifað var um trú á blog.is – þar sem ég var með síðu á þessum tíma – og hreint og beint réðust með offorsi á hvern þann sem þeim sýndist að aðhylltist kristna trú að einhverju leiti. Þannig mátti til dæmis enginn segja neitt eins og “Guð hjálpi” einhverjum án þess að yfir viðkomandi rigndi athugasemdum frá Vantrúaráhangendum sem kröfðust þess að fá að vita af hverju síðueigandi væri að biðja “barnamorðingja” um hjálp og út af hverju hann bölvaði Guði ekki frekar fyrir að láta öll litlu börnin í heiminum deyja og hvað síðieigandi væri heimskur og vitlaus og geðveikur fyrir að trúa á svona viðbjóð eins og Guð … og svo framvegis.

    Þannig upplifði ég framkomu þeirra. Og ég var svo sannarlega ekki einn um þessa upplifun.

    Þetta leiddi til þess að einn góðan veðurdag blandaði ég mér í málið og vogaði mér m.a. að halda því fram að Vantrú væri sjálft í raun eins og sértrúarsöfnuður með öfugum og um leið öfgafullum formerkjum og að meðlimir þyrftu að sjá að það væru fleiri sjónarhorn gild í trúmálum en bara þeirra eigin. Auk þess sem hegðun þeirra og málflutningur ætti að mínu mati mun meira skylt við einelti og ofbeldi en nokkurn tíma “rökræður” eins og þeir halda ávallt fram að þeir séu svo góðir í.

    Þar með var ég strax og endanlega stimplaður af meðlimum Vantrúar sem einn af “þeim” þ.e. geðveikur “trúmaður” og þar með heimskingi og vitleysingur sem sæi ofsjónir, gæti ekki “rökrætt” um neitt, væri bara “nettröll” á bandi “barnamorðingjans” og sú spurning vaknaði meira að segja innan hópsins hvort einhver ætti ekki að hafa samband við fjölskyldu mína til að láta vita af þessu.

    Þannig hafa þeir látið gagnvart mér síðan og verið duglegir við það. Innan hópsins tyggur síðan hver félagsmaðurinn á fætur öðrum þvæluna, kyngir henni og dreifir af þeirri ástæðu einni að einhverjir “æstuprestanna” segja þeim að gera það. Á spjallvef Vantrúar er mér lýst óhikað sem geðveikum vitleysingi. Mér, ásamt mörgum öðrum, er síðan meinað að segja mitt álit á vantru.is þótt Vantrúarmeðlimir fullyrði það samt að “allir” megi setja þar inn athugasemdir við þær greinar sem þar birtast. Sýnir það vel tvískinnunginn sem þarna er í gangi og óheiðarleikann.

    Ég fagna því þessari grein hjá Hörpu því þótt í henni sé ekki öll sagan sögð þá eru í henni samkvæmt minni reynslu hárréttir punktar um Vantrú sem ég tel bráðnauðsynlegt að fólk kynni sér áður en það tekur málflutning meðlima þessa félagsskapar gildan.

  18. Ég reikna með að Þorsteinn Vilhjálmss (sem er ekki Þorsteinn Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúi HÍ heldur barnabarn hans, Þorsteinn Önnuson Vilhjálmsson, bara svo það sé á hreinu og enginn ruglist á nöfnum) beini þessari staðhæfingu og spurningu til mín:

    “Það er samt mjög skrýtið að gagnrýna þá fyrir það, ef maður er bloggari (karlastétt), á moggablogginu (sem veður uppi í karlrembum) og í þjóðkirkjunni (kallaklúbbur sem aldrei hefur haft konu í æðsta embætti). Ef það er svona mikil sök að hafa skökk kynjahlutföll, ættir þú þá virkilega að taka þátt í nokkru af þessu? Einnig eru undirtektir karlkyns moggabloggara hér að ofan um að það sé slæmt að þetta sé kallaklúbbur bráðfyndnar.”

    Í fyrsta lagi er ég hreint ekki viss um að bloggarar séu karlastétt. Ég hef bloggað nokkuð lengi, í um áratug ef ég man rétt, og tengst fjölda bloggandi kvenna um lengri eða skemmri tíma. Það er mjög algengt að konur reki blogg án þess að það sé skráð í RSS-veitu og þau blogg koma vitaskuld ekki fram á blogg.gattin.is, ef þú ert að miða við hana, Þorsteinn.

    Í öðru lagi er ég ekki moggabloggari eins og hver sæmilega læs maður á vefslóð sér auðveldlega.

    Í þriðja lagi er ekkert sérlega einkennilegt við að þjóðkirkjan hafi ekki státað af konu í æðsta embætti til þessa því það er einfaldlega ekki svo langt síðan konum fjölgaði í hópi presta. Og raunar sé ég alls ekki að þessi staðreynd komi efni færslunnar neitt við, frekar en hinar tvær staðhæfingarnar: Þú áttar þig á því að ég var að skrifa um Vantrú en ekki þjóðkirkjuna, er það ekki?

    Í færslunni er gerð nokkur grein fyrir Vantrú skv. upplýsingum af vef félagsins. Sú umfjöllun er engan veginn tæmandi; það er gífurlegt efni á vef Vantrúar og dygði sjálfsagt ekki minna en BA ritgerð til að gera skipulega grein fyrir því öllu. En miðað við það sem blasir við lesanda vefritsins má draga þá ályktun að Vantrú sé að mörgu leyti sambærilegt félag við trúfélög strangtrúarmanna, sem einkennast alltaf af því að konur eru huldar og faldar og mjög oft af stífu trúboði og hneigð til að þagga niður í öllum þeim sem ekki aðhyllast sömu strangtrú.

    Það að vera kona og bloggari og að kona hafi aldrei verið biskup yfir Íslandi eru ekki rök gegn þessari færslu en ágætt dæmi um málflutning Vantrúarmanna á bloggum annarra, sem einkennist annars vegar af því að reyna að drepa málum á dreif með því að tala um eitthvað allt annað, eins og þú gerir, eða af því að ausa yfir menn óhróðri, líkt og Guðbergur Ísleifsson lýsir hér að ofan.

  19. Frábær grein hjá þér, Harpa. Vantrú er andstyggðarsamtök sem virðist í heilögu stríði við trúaða, en þó sérstaklega við þjóðkirkjuna. Sjálfur verð ég seint talinn sérlega trúrækinn maður en mér býður við aðferðum þessara öfgamanna.

    Það kemur ekki á óvart að Teitur Atlason skuli vera einn af forystumönnum þessa félagsskapar.

  20. Ég þakka greiningu þína Harpa, sem er bæði ítarleg og trúverðug. Tvennt slær mann. Í fyrsta lagi hversu Vantrú er lík bókstafstrúarstöfnuði og í öðru lagi hvað svona fámennur hópur getur orðið fyrirferðarmikill í umræðunni.

  21. Brynjólfur Þorvarðar on January 16, 2012 at 11:23 said:

    Sæl Harpa

    Takk fyrir ágæta grein og samantekt. Það er alltaf gaman að sjá nafnið sitt í umfjöllun annarra, ég er jú einn þeirra sem skrifaði greinar á Vantrú fyrir nokkrum árum.

    Sem óvirkur meðlimur (og búsettur erlendis) tek ég ekki mikinn þátt í umræðum lengur og hef reyndar ekki verið á Vantrúarvefnum í langan tíma. Það sem ég skrifa hér og nú er því algjörlega á mína persónulegu ábyrgð og endurspeglar ekki skoðanir Vantrúar.

    Minn skilningur á samtökunum Vantrú er að þau séu hópur manna sem eru reiðubúnir til að láta í ljósi skoðanir sem eru á mörkum þess sem umræða um trúmál leyfir, jafnvel handan markanna. Maður getur því sagt með vissri réttlætingu að Vantrú séu öfgasamtök í ákveðnum skilningi, róttæk og harðfylgin í umræðu. Eitt af markmiðum margra okkar er að færa mörk umræðunnar, opna fyrir svið umræðu sem áður voru lokuð af ýmsum ástæðum og mín skoðun er að okkur hafi tekist það stórkostlega vel.

    Að viðbrögð andstæðinga Vantrúar verði sterk og öfgakennd eru nánast sjálfgefin. Þegar ég segi “andstæðingar” þá er ég ekki bara að hugsa um þá sem upplifa starfsemi Vantrúar sem árás á trúarskoðanir heldur einnig þá sem telja að við göngum of langt, séum dónalegir eða óvægnir, ósvífnir. Slík viðbrögð eru eðlileg og óhjákvæmileg.

    Starfsemi mín innan Vantrúar fyrr (og vonandi einnig síðar) var tilkomin vegna sterkra lífsskoðana sem ég er tilbúinn til að berjast fyrir. En þessi barningur kostar orku og ég viðurkenni fúslega að ég hef misst kraftinn sem þarf til að vera virkur í baráttunni. En vonandi er það aðeins tímabundið, skoðanir mínar hafa ekki breyst og ég er stoltur af áræðni og dug félaga minna og óbilandi baráttuanda þeirra.

  22. Brynjólfur: Ég skil þitt sjónarmið og þær forsendur sem þú hefur fyrir veru þinni í Vantrú. Af því þú ert búsettur erlendis er ég ekki viss um hversu mikið af umræðu um kæru og klögur Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurðssyni, stundakennara við HÍ, þú hefur séð. Ertu líka stoltur af því grófa einelti sem félagar þínir hafa lagt hann í? Eru hvers konar meðul, þ.á.m. þau sem venjulegu fólki finnast óhugnaleg og jafnvel ógeðsleg, leyfileg ef tilgangurinn er góður?

  23. Einn af félögum Brynjólfs, Matthías Ásgeirsson, var í gær kveldi tilbúinn að ganga svo langt að færa háðið inn í yngstu bekki grunnskólans til að berjast gegn kristindómi og kennslu kristinna fræða yngsta stigs. Nokkrir kennarar svöruðu og bentu á að háð þykir ekki góð kennsluaðferð að gera lítið úr fólki og viðhorfum við lítil börn (sjá opna færslu Péturs Björgvins Þorsteinssonar á Facebook, https://www.facebook.com/petur/posts/10150489462234514)

    Í raun er þetta grafalvarlegt mál og þess virði að taka afstöðu til þess (sbr. aths. Brynjólfs, sem segir að tilgangur umræðunnar er að færa mörk þess sem eðlilegt þykir).

    Eru menn tilbúnir til að taka upp vonda kennsluhætti til að ganga milli bols og höfuðs þess sem þeir eru á móti? Fá þeir að komast upp með það við þögn meirihlutans sem er ekki tilbúinn að horfast í augu við umræðuna sem farin er út í ballarhaf, bara af því að nokkrir róttækir og ófyrirleitnir karlar vilja það?

  24. Brynjólfur Þorvarðar on January 16, 2012 at 13:04 said:

    Nei, Harpa, tilgangurinn helgar ekki meðalið.

    Einelti er auðvitað aldrei forsvaranlegt. Ég þekki ekki svo vel til þessa málatilbúnaðar gegn Bjarna Randver en ég man, áður en ég fluttist til Danmerkur, að hafa tekið þátt í umræðu um kennsluefni sem hann hafði sett saman til notkunar í HÍ. Sjálfum þótti mér það heldur slælegt og bera frekar vott um hólmsteinsk áróðursbrögð en fræðimennsku.

    Hvað er einelti? Í kennslu og skólastarfi er það vel þekkt fyrirbæri og þekkist auðvitað meðal fullorðinna líka, t.d. á vinnustöðum. Minn skilningur á einelti er þegar einn eða fleiri einstaklingar nota veikleika annarra til ítrekað að valda þeim óþægindum eða óhamingju.

    Ég sé ekki málatilbúnað gegn Bjarna Randveri sem einelti í þessum skilningi, ekki frekar en gagnrýni á Vantrú er einelti gegn samtökunum eða meðlimum þess. Sá sem hefur sig frammi með skoðanir sínar eða athafnir þarf að vera reiðubúinn til að þola gagnrýni og andsvar þeirra sem hann veitist að. Bjarni Randver hóf þennan skollaleik með, að mér fannst, einfeldningslegu og einhliða “kennsluefni” sem var í raun áróður og árás gegn mér og félögum mínum – ekki okkur persónulega, heldur því sem við stöndum fyrir og teljum okkur kært. Hann þarf þá að geta tekið á móti gagnrýni og, ef þörf krefur, að verja sig gegn yfirboðurum. En ég sé engan tilgang í því að valda honum persónulega særindum og ég vona að hann komi heill út úr þessum átökum.

    Línan milli eðlilegrar gagnrýni á skoðanir og framkomu opinberra einstaklinga og svo eineltis er auðvitað ekki alltaf skýr en ég held hún liggi nokkurn veginn við mörkin milli “þú sagðir” og “þú ert”.

    Satt að segja held ég að vandamálið í þessu máli er snýr að Bjarna Randveri er að innan Guðfræðideildar HÍ er ekki stunduð fræðimennska af því tagi sem stunduð er á öðrum sviðum háskólavísinda. Ekki að það sé “lélegri” fræðimennska í merkingunni heimskari eða grunnhyggnari. En Guðfræði er í eðli sínu afsökunarfræði og staða guðfræðingsins verður sífellt erfiðari og erfiðari í ljósi vísindalegrar og samfélagslegrar þróunar. Vantrú opinberar skoðanir sem raska andlegu jafnvægi (og jafnvel, til lengri tíma litið, afkomu) guðfræðinga og auðvitað leitast þeir við að skilja fyrirbærið og ég myndi spenntur vilja lesa raunverulega fræðilega úttekt guðfræðings á Vantrú sem unnin væri af yfirvegun og hlutleysi.

    En það sem Bjarni Randver gerði (alla vega það sem ég sá) átti að mínu viti frekar heima á ráðstefnu prestafélagsins, sem frekar grunnhygginn áróður og viðspyrnuhvatning til jábræðra. Enda er það kannski meinið, guðfræðideild er jú hálfgert anddyri prestastéttarinnar og kannski hefur Bjarni Randver misst sjónar á því að hann var að kenna í Háskóla Íslands, sem fræðimaður, en ekki í samkomu trúvarnarmanna, sem einn meðal annarra jábræðra.

    Svona lítur málið alla vega út fyrir mér, ég veit auðvitað ekki hvað Bjarni Randver var að hugsa eða hvað hann hugsar núna. Og ekki ætla ég að reyna að giska á hvort gagnrýni Vantrúar á Bjarna eigi eftir að verða Vantrú til framdráttar, ég vona bara að Bjarni Randver eigi eftir að koma heill úr rimmunni.

  25. Þorvaldur Lyftustjór on January 16, 2012 at 13:13 said:

    Ágæt og hreinskilnisleg ummæli Brynjólfs benda til þess, með fyrirvörum um að þetta er hans persónuleg skoðun en ekki endilega opinber stefna samtakanna, að beitt sé svipaðri hugmyndafræði og hjá borgarskæruliðum í Evrópu í mínu ungdæmi. Með því að ganga lengra en tíðkast hafði í mótmælaaðgerðum gegn ríkjandi skipulagi hugðust borgarskæruliðar fá yfirvöld til að sýna sitt rétta andlit, sem að áliti þeirra var fasískt. Þegar grímulaus fasisminn blasti svo við átti að verða auðveldara að fá almenning til að rísa upp gegn kúgurunum.
    Það gæti virst sem svo, sbr. skrif Brynjólfs, að með því að beita sér af áður óþekktri hörku gegn andstæðingum sínum sé ætlunin að espa þá til þess að fara offari í viðbrögðum sem yrði væntanlega til þess að þeir misstu tiltrú almennings.
    Má etv. skilja þrotlausa elju meðlimanna í þessu ljósi?

  26. Fyrst að Harpa fullyrðir að við höfum lagt Bjarna Randver í “gróft einelti”, þá vil ég benda henni og öðrum lesendum á grein sem ég skrifaði: Hvaða einelti?

  27. Bjarni G. Bjarnason on January 16, 2012 at 13:22 said:

    Þú segir: “Í þessu sambandi má og geta þess að Vantrú hefur hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta. Greinin „Bjarni Harðar og fyrirgefningin“ lýsir þessari vissu Vantrúar prýðilega. Hún minnti mig pínulítið á ofurlítið sambærilega sögu, um farísea og tollheimtumann …”

    Ertu ekki farin að ælhæfa þarna, Harpa?
    Undir greinina skrifar Brynjólfur Þorvarðarson en t.d er Haukur Ísleifsson (sem segist vera meðlimur í Vantrú)ósammála túlkunum Brynjólfs á orðum Bjarna,í athugasemdum við greinina.Þarna er semsagt ekki um neina “vissu Vantrúar”að ræða, miklu frekar reiðipistil ákafamanns sem gætir ekki orða sinna sem skildi. Mjög algengt fyrirbæri á netinu og varasamt að draga af því stórkostlegar ályktanir 😉
    Fyrir utan argaþrasið út í Bjarna Harðar er greinin bara áhugaverð. Ekki síst þeim sem eru að spá í siðferði,siðvitund og siðleysi.
    Stundum heyrir maður þá fullyrðingu að vestræn félagshyggja eigi rót sína í kristni og án þeirra áhrifa væri mannkynið mun harðneskjulegra en það er í dag. (Er of latur til að fynna tilvitnanir en trúlega þarf ekki lengi að leita) Þetta hefur mér lengi fundist varhugaverð hugmyndafræði en um leið áhugaverð pæling. Grein Brynjólfs er bara ágætis innlegg í þá umræðu og miklu eðlilegra að gagnrýna hana með rökum en ætla að nota hana sem dæmi til að sverta félagsskapinn.
    En hvað segir þú Harpa um grein Ragnars Þorsteinssonar um “Flatjörðunga”, þarna í mogganum 1980(fyrir ofan grein Reynis)? Finnst þér hún ekki bara málefnaleg og talsvert í anda Vantrúar?

    Bjarni Gunnlaugur Bjarnason (Fullt nafn kemst ekki fyrir á útfyllingarreitnum)

  28. Ég virðist hafa vísað á vitlausa grein, mín grein var: Ímyndað einelti og það væri gaman að fá svör við henni, í staðinn fyrir sömu upphrópanirnar aftur og aftur.

  29. Carlos: Ég nennti nú ekki lesa gegnum álnarlangan umræðuþráðinn en las statusinn og byrjunina á umræðunum. Ég þakka guði fyrir að Vantrú frétti ekki, á sínum tíma, af því hvernig ég lét nemendur undir 18 aldri teikna upp heimsmynd Snorra-Eddu og krafðist ævinlega þess að þeir kynnu á henni góð skil fyrir próf! Og blessunarlega sá líffræðikennarinn aldrei ástæðu til að hæðast sérstaklega að kennsluefni í ÍSL 203/212, sem hefði þó verið mjög í anda Matthíasar Ásgeirssonar, skv. tilvitnun á þessari Fb. sem þú vísar í. (Meira að segja ganga menn það langt hér í FVA að jarðfræðikennaranum þótti ekkert athugavert við að hanna og kenna með mér, í gamla daga, áfanga sem samþætti þjóðsögur og jarðfræði, þ.e. dæmigerð hindurvitni og hin sönnuðu vísindi. Voru þó einhverjir nemendur undir sjálfræðisaldri. Sjá http://www.fva.is/harpa/fva/jarheim.htm)

    Brynjólfur: Þinn skilningur á einelti, “Minn skilningur á einelti er þegar einn eða fleiri einstaklingar nota veikleika annarra til ítrekað að valda þeim óþægindum eða óhamingju” fellur ekki að skilgreiningu vinnustaðaeineltis, sem er eina einelti gegn fullorðnum sem skilgreint er í reglugerð, né rannsóknum á slíku einelti sem benda til þess að það beinist oft að sterkum aðila og rótin sé oft öfund hinna veikari. Þú getur lesið skilgreininguna á síðunni http://sidblinda.com/einelti.html og ef þú skyldir nú fá sérstakan áhuga á einelti fullorðinna vísa ég einnig í færslu um hvernig einelti skólastjóra í garð kennara lýsir sér, þótt umfjöllunin sé um afmarkað efni á margt þar almennt við einelti í garð fullorðinna. Sjá http://harpa.blogg.is/2011-02-16/skolastjorar-sem-leggja-kennara-i-einelti/

    Ég fjalla síðar um klögumál Vantrúar á hendur Bjarna Randveri og mun þá að sjálfsögðu einnig gaumgæfa síðuna sem Hjalti Rúnar vísar í. Ég er sammála þér, Brynjólfur, í “ég vona bara að Bjarni Randver eigi eftir að koma heill úr rimmunni.”

    Þorvaldur: Ég er svo sem sammála þinni túlkun á orðum Brynjólfs og hún fellur prýðilega að hinum fræga Overton-glugga, hugtaki sem Vantrúarmenn hafa tekið fagnandi og reynt að beita, helst þó leynilega að þeirra eigin sögn. Ég skil mætavel þörf hinna fáu Vantrúarkarla til að tjá sig en skil ekki hvernig þeir geta varið fyrir sjálfum sér og sinni samvisku þær aðferðir sem þeir kusu að beita gegn Bjarna Randveri. Nema auðvitað að þeir séu sama sinnis og skæruliðarnir sem þú vísar í 🙂

  30. Hjalti Rúnar: Ég leyfi ummælum þínum að standa en nú eru bæði þú og Erna Magnúsdóttir búin að nota umræðuþráð við mitt blogg kirfilega til auglýsingar á eigin og öðrum greinum á vantru.is og þetta er orðið gott; Bloggið mitt er ekki auglýsingaskilti fyrir Vantrú.

    Bjarni G. Bjarnason: Ég er að flýta mér og svara þér þess vegna heldur stuttaralega: Mér finnst málflutningur Ragnars afa míns fáránlegur, greinin er kannski í skásta falli oggolítið fyndin.

  31. Harpa, ég er að vísa á grein þar sem ég svara órökstuddum (amk enn sem komið er!) og grófum fullyrðingum þínum hérna. Mér finnst það undarlegt að þér finnst það einhvers konar álitamál að leyfa athugasemdinni að birtast á annað borð.

  32. «  Satt að segja held ég að vandamálið í þessu máli er snýr að Bjarna Randveri er að innan Guðfræðideildar HÍ er ekki stunduð fræðimennska af því tagi sem stunduð er á öðrum sviðum háskólavísinda. Ekki að það sé “lélegri” fræðimennska í merkingunni heimskari eða grunnhyggnari. En Guðfræði er í eðli sínu afsökunarfræði og staða guðfræðingsins verður sífellt erfiðari og erfiðari í ljósi vísindalegrar og samfélagslegrar þróunar. » – Brynjólfur Þorvarðarson, http://harpa.blogg.is/2012-01-14/vantru/#comment-21616

    Þarna held ég að þú hlaupir á þig, Brynjólfur. Ástæðan fyrir því að ekki er búið að úthýsa guðfræðinni úr háskólum á Íslandi, Norðurlöndum, Evrópu, Ameríku er að til hennar eru gerðar jafnmiklar kröfur og til annarra háskólagreinar.

    Ef þú vilt bera saman biblíuvisindi við einhverja grein, þá eru bæði bókmenntafræði, íslenska og jafnvel fornleifafræði, sálfræði og félagsfræði nærtækar greinar, enda leitast þau öll að skilja tjáningu fólks.

    Ef þú vilt bera trúfræði saman við eitthvað þá eru heimspeki, saga og bókmenntafræði nálægar greinar.

    Menn taka e.t.v. ekki dýptina í öllum hlutum og tímum á sama hátt og sérhæfðu greinarnar, en krafan um hrein, vísindaleg vinnubrögð er til staðar.

    Með öðrum orðum hentar það orðræðu Vantrúar ágætlega að hengja bakara, afsakaðu, Guðfræðideildina fyrir smiðinn Bjarna Randver, en þegar menn (og á annað hundrað háskólakennarar eru líka menn) sjá ekkert að kennsluefni og aðferðum hans, samþykkja hann sem fullgildan kollega í samfélagi háskólakennara, þá er annaðhvort háskolinn ónýtur eða málflutningur Vantrúar.

    Ég hallast að því að málflutningur Vantrúar í málinu sé ábótavant, svo ekki sé fastar að kveðið.

  33. Erna Magnúsdóttir on January 16, 2012 at 15:56 said:

    Harpa, þú varst að skrifa miður ígrundaðar staðhæfingar um konur í Vantrú. Ég vildi bara benda á að það séu konur sem eru Vantrúarmeðlimir sem taka þátt í starfinu og að ég hafi gengið í félagið af því að mér finnst málstaðurinn og barátta félagsins góð. Ég tók það bara fram að ég hafi skrifað grein til að það væri ljóst að ég væri ekki passífur meðlimur. Hins vegar var það Carlos sem vísaði í greinina, ekki ég. Mér datt það ekki einu sinni í hug af því að það kom því ekki við sem ég var að segja.

    Og ég vil líka vera 100% ósammála þér um að það væri óhugsandi að svipað félag rekið af konum gæti verið til. Mér finnst þú ansi sjálfhverf í analýsu þinni á því, sem betur fer eru konur jafnmismunandi og þær eru margar. Í orðum þínum felst reyndar ótrúleg kvenfyrirlitning.

    Margur heldur mig sig.

  34. Ég sá á Fb. þræði að menn voru að velta fyrir sér af hverju sumir greinarhöfundar Vantrúar væru grúppaðir saman á skífuritinu sem sýnir hlutfallslega skiptingu greina eftir höfundum árið 2008. Þetta eru þeir sem skrifa færri greinar en þeir Reynir, Brynjólfur, Óli Gneisti, Vésteinn og Þórður. T.d. setti ég Teit, Birgi B. og Hjalta Rúnar saman af því þeir skrifuðu 10 – 12 greinar, nánar tiltekið skrifuðu tveir þeir fyrrnefndu 12 greinar og Hjalti Rúnar 10 á Vantrúarvefinn 2008. Skífan sýnir því hve stórt hlutfall þessar 34 greinar sem skrifaðar eru af þessum þremur er í heildargreinafjölda. Greinar Matthíasar, Frelsarans, Sigurðar Ólafssonar og Lárusar Viðars eru hafðar saman í skífu því þeir falla í flokkinn “skrifuðu 4-9 greinar” á þessu ári. Hefði ég splæst í sérskífu handa Teiti, sérskífu handa Birgi o.s.fr. væri skífuritið vitaskuld ólæsilegt.

  35. Og ef einhver skyldi nú velta fyrir sér röðinni á nöfnunum við skífuritin þá bendi ég á að þau eru höfð í stafrófsröð nema Ritstjórn er talin fyrst og Aðrir taldir síðastir …

  36. Ég vona að það sé leyfilegt hérna að benda á að á Vantrú í dag birtist grein þar sem ég svara “Hvernig kemur Vantrú manni fyrir sjónir?” í þessari bloggfærslu: Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú

  37. Helgi Ingólfsson on January 17, 2012 at 11:54 said:

    Þakkir fyrir umræðuna hér, sérstaklega þó heiðarleg og opinská ummæli Brynjólfs Þorvarðarsonar (aths. 22 og 25).

    Ég er einn þeirra, sem gagnrýnt hafa félagið Vantrú, fyrst og fremst á þeirri forsendu að ég hef talið siðagrunn félagsins hæpinn. Annars vegar byggir félagið á þeirri grunnhugmynd að ekki þurfi að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, umfram það sem félagið sjálft ákveður hverju sinni (og má sjá þessari hugmynd bregða fyrir víða á vef Vantrúar, ekki síst í athugasemdum félagsmanna sjálfra), en hins vegar fer félagið fram á skilyrðislausa virðingu gagnvart eigin skoðunum og gildum, sbr. frægar kærur þess til HÍ.

    Hér er því, siðferðilega séð, um ansi ójafnan leik að ræða. Hinn sérstæða siðagrunn Vantrúar (þótt vel kunni að hafa verið meintur í upphafi) tel ég varhugaverðan og í reynd byggðan á rökvillu. Á vef Vantrúar er hann réttlættur með því að „borin sé virðing fyrir manninum sjálfum“ þótt „ekki sé borin virðing fyrir skoðunum hans“. Þetta fæ ég ekki séð að standist, því að skoðanir mannveru eru í raun órjúfanlegur hluti af henni og í sjálfu sér veigamikill þáttur af því sem skilgreinir „mennsku“ hennar. Það að bera ekki virðingu fyrir skoðunum viðmælanda (innan eðlilegra marka) felur því sjálfkrafa í sér óvirðingu gagnvart persónunni.

    Í stað hinnar „opnu“ skilgreiningar félagsins Vantrúar á hvort bera skuli virðingu fyrir skoðunum annarra, þá tel ég nauðsynlegt að hafa siðaskilgreiningu „lokaða“ og orða þetta sjálfur gjarnan á eftirfarandi hátt: „Bera skal virðingu fyrir skoðunum annarra svo fremi þær stangist ekki á við gott siðferði og almannareglu (þ.e. lög, reglur etc.)“ Sú opna skilgreining, sem Vantrú virðist aðhyllast, sýnist mér fela í sér fullvissu um eigin siðayfirburði, en slíkar hugmyndir tel ég geta vegið að rótum siðaviðmiða í lýðræðissamfélagi.

  38. Sveinn Þórhallsson on January 17, 2012 at 12:24 said:

    Carlos skrifaði: “en þegar menn (og á annað hundrað háskólakennarar eru líka menn) sjá ekkert að kennsluefni og aðferðum hans, samþykkja hann sem fullgildan kollega í samfélagi háskólakennara, þá er annaðhvort háskolinn ónýtur eða málflutningur Vantrúar.”

    En nú er ljóst að a.m.k. einhverjir, og ég hallast að flestir, þessara “á annað hundrað háskólakennara” (réttara væri að segja háskólamanna) hafa kynnt sér málið. Ég vísa t.d. í viðtal við Eirík Bergmann í Harmageddon máli mínu til stuðnings þar sem hann segir nákvæmlega það og heldur því jafnframt fram að það þurfi ekki að gera það.

    Úps.

  39. Sveinn Þórhallsson on January 17, 2012 at 12:31 said:

    Ég held að Helgi Ingólfsson og meðlimir Vantrúar leggi mismunandi skilning í orðið “virðing”, og í því felast þessir samskiptaörðugleikar.

    Ég mælist til að bætt sé úr því áður en menn fullyrða um hversu hæpinn grunnur sjónarhornið að engin skoðun er sjálfkrafa virðingarverð sé fyrir umræðu.

  40. Sveinn Þórhallsson on January 17, 2012 at 12:34 said:

    Afhverju telst þetta, sem ég get ekki kallað annað en þráhyggju í garð Vantrúar, ekki sem einelti?

  41. Sveinn Þórhallsson on January 17, 2012 at 12:36 said:

    …hafa EKKI kynnt sér málið, átti þetta að vera þarna í nr. 39.

  42. Ég skil því miður ekki hvað Sveinn Þórhallsson segir í færslu nr. 39, þ.e. þar sem hann vísar í Eirík Bergmann. Gætirðu nokkuð skrifað þetta aftur, Sveinn og umorðað “þar sem hann segir nákvæmlega það og heldur því jafnframt fram að það þurfi ekki að gera það”? Mér leikur forvitni á að vita hvað Eiríkur Bergmann sagði en skil ekki málsgreinina.

    Hjalti Rúnar: Að sjálfsögðu máttu auglýsa svar við þessari færslu. Í leiðinni má einnig benda á færslu Kristins Theódórssonar sem er úttekt á ákv. atriði í minni færslu og svarinu þínu, sjá http://www.andmenning.com/?p=9942

    Helgi: Þetta er áhugaverð greining á siðagrunni Vantrúar. Það að “„borin sé virðing fyrir manninum sjálfum“ þótt „ekki sé borin virðing fyrir skoðunum hans“” minnir svolítið á þann undarlega skilning sem ég verð stundum vör við vegna eigin krankleika að líkaminn nái upp að hálsi og eftir það taki sálin við 😉 (Ég er viss um að flestir Vantrúarmenn eru sammála mér um að svoleiðis skilningur er út í hött.) Hvar skilur milli mannsins sjálfs og skoðana hans?

  43. Meðan ég skrifaði athugasemdina bætti Sveinn Þórhallsson inn í fyrri athugasemd sína svo nú skil ég hvað hann á við. Ég bendi á að valt er telja gagnrýni á félag eða stofnun vera einelti. Í þá gryfju datt einmitt sr. Örn Bárður Jónsson þegar hann sakaði fjölmiðla um að leggja kirkjuna í einelti, eins og ég er viss um að Vantrú hefur vakið athygli á, á sínum vef. Sömuleiðis er hæpið að kalla umræðu um Vantrú þráhyggju. Það er ekki annars vegar hægt að kalla á athygli og hins vegar að afgreiða þá athygli sem félaginu er ekki að skapi sem þráhyggju. Ég er viss um að formaður og varaformaður Vantrúar sem báðir eru menntaðir í sálfræði geta útskýrt þetta fyrir þér, Sveinn, betur en ég.

  44. Sveinn Þórhallsson on January 17, 2012 at 14:20 said:

    Auðvitað er þetta ekki þráhyggja, ég var að reyna að benda á nákvæmlega það sama og þú varst að segja í athugasemd 44 “Ég bendi á að valt er telja gagnrýni á félag eða stofnun vera einelti” (eða þráhyggju) – það er bjánalegt að kalla gagnrýni (og svör við gagnrýni) félagsmanna ákveðins félags ‘einelti’, en alla gagnrýni Á viðkomandi félag ‘gagnýni’. Það er því miður nákvæmlega það sem afskaplega margir gera afskaplega oft í þessari umræðu – þú meðtalin.

    Ég fagna gagnrýnum skrifum, hvar sem þau birtast – svo framarlega að gagnrýnin sé marktæk og rökstudd. Það er að mínu mati ekki hægt að segja um flest það sem birtist í þessari svokallaðri greiningu. Hún byggir á fordómum fremur en nokkru öðru og er fyrir vikið hlutdræg. Ég efast ekki um að hægt sé að gagnrýna Vantrú betur en þetta.

  45. Það er auðvitað leiðinlegt að þú skulir telja þessa bloggfærslu mína byggða á fordómum fyrst og fremst en ég fullvissa þig um að fyrirfram hafði ég ekki gert mér grein fyrir að Vantrú, eins og félagið birtist á vefnum, einkenndist af feðraveldi. Ég sting upp á að þú gagnrýnir Vantrú sjálfur til þess að vera viss um að fá hina efalaust betri gagnrýni. Ef menn eru eitthvað óhressir með vinnubrögð annarra er oft ágætt að ganga bara sjálfur í verkið 🙂

  46. Harpa, mun ég eiga von á einhverjum frekari svörum við grein minni frá þér?

    Ertu ekki einu sinni tilbúin að viðurkenna að punktar þínir um páskabingóið og Helga Hóseasson sé rangir?

  47. Punktar þínir um páskabingóið eru hvorki fugl né fiskur, Hjalti, eins og ég benti þér á á vantrúnni. Harpa greinir og speglar and-hátíðir vantrúar ágætlega og þannig vakna hugrenningartengsl við hliðstæður sem úr kristinni kirkju. Hennar hátíðir má líka kalla and-hátíðir eldri trúarbragða, ef maður vill.

  48. Carlos, þannig að þér finnst í alvöru páskabingóið vera dæmi um það hve mjög Vantrú líkist “ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi”! Jahá!

  49. Birgir Baldursson sagði við svipaðar aðstæður fyrir stuttu:

    If it walks like a duck and quacks like a duck …

  50. Nei, páskabingóið eitt og sér og dálæti á Helga Hóseasyni gerir Vantrúna ekki að « ströngu,jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi » frekar en þjóðkirkjuna, sem hefur páska, frelsara og söfnuð.

  51. Carlos, nákvæmlega. Og segðu mér Carlos, var “dálæti” okkar á Helga eins og “dálæti” lærisveinanna á Jesú? Var Helgi “karísmatískur leiðtogi” Vantrúar?

    Og bónusspurning: Er ekki leiðtogadýrkun Þjóðkirkjunnar á Jesú, margfalt meiri en meint leiðtogadýrkun okkar á Helga? Sbr fullyrðingar um að Jesús hafi verið syndlaus og guð sjálfur.

  52. Arnar Magnússon on January 17, 2012 at 21:13 said:

    Carlos páskar eru ekki einu sinni Kristinn hátíð.

  53. Nú vill svo til að Carlos rekur sitt eigið blogg, http://www.tolvari.net/ , og Hjalti Rúnar er búinn að skrifa andsvar við þessa bloggfærslu eða ritdóm um hana, á vef Vantrúar, http://www.vantru.is/2012/01/17/10.00/ . Ég legg til að þið tveir og aðrir sem viljið hnotbítast um hvort páskabingó sé andkristin hátíð, hvort páskar séu kristin hátíð, hvað Birgir sagði fyrir skömmu einhvers staðar eða eitthvað annað sem ekki kemur minni bloggfærslu beinlínis við gerið það á eigin bloggum eða umræðuþráðum þar.

    Nei, Hjalti Rúnar, þú átt ekki von á frekari kommentum frá mér við færsluna þína á Vantrú. Ég hef ekki kíkt á hana síðan í morgun en ég er viss um að margir Vantrúarfélagar hafa lagt þar orð í belg og engin þörf á að ég sé að tjá mig, það munar engu hvort kommentin séu einu fleiri eða færri 😉

  54. Helgi Ingólfsson on January 18, 2012 at 23:55 said:

    Harpa, mér finnst nú ekki fallegt af sumum konum “Félagsins” að brigsla þér um kvenfyrirlitningu; ég les hana ekki úr grein þinni og tel þig einmitt hvetja til þess að þær (konurnar) verði sýnilegi. En (svona í þínum anda) hefurðu tekið eftir hve sumir félagsmenn eru duglegir að cítera eigin (rækilega kódifíkeruðu) greinar af vefritinu, nánast eins og þegar prestar vitna í númeruð ritningarvers? Sérðu ekki fyrir þér hvernig vefritið muni þróast upp í “kanón réttra kennisetninga” í áranna rás? Svo – kannski eftir par hundrað ár – verður farið að vinsa út óæskilegar eða apókrýfar greinar. Þá fá ef til vill einhver ”Magdalenuguðspjöll” að fjúka. Eða ekki.

  55. Ég sé fyrir mér Magdalenuguðspjöllin fjúka með hinu apókrýfa dótinu 😉 Annars svaraði ég þessum konum á umræðuþræði við einn eitt bloggið um þessa færslu og færslu Hjalta Rúnars á Vantrúarvefnum, sjá http://www.andmenning.com/?p=9950
    Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem mér er brigslað um kvenfyrirlitningu en kippi mér svo sem ekkert upp við það, kvenkyns Vantrúarfélagar mega hafa sína skoðun í friði fyrir mér. Svo hef ég reynt að hamla gegn þessum stöðugu tilvitnunum Vantrúarfélaga hverjum í annan á mínum umræðuþræði og þeirri áráttu að vilja ævinlega færa umræðuna út í buskann með hártogunum eða deilum um keisarans skegg. Það hefur tekist að nokkru en ég þarf að vera strangari 🙂

  56. Í stað þess að taka gagnrýni Hörpu um karlaveldi Vantrúarfélagsins sem skæting, gætu félagsmenn tekið annan pól í hæðina, nefnilega þann sem Torbjörn Egner sló í Dýrunum í Hálsaskóginum:

    Nú segjum við það étið sem étið er.

    Tvær konur hafa nú skrifað ágætar greinar í góðu jafnvægi án ódýrra eiturpillna. Beint sjónum að fleiri málum en gengur og gerist. Fjölbreytni getur auðgað.

    Bendi einnig á það að það eru aðeins þrjátiu ár síðan að Þjóðkirkjan var nánast eingöngu karlakirkja. Ég man enn eftir atviki á ráðstefnu sem ég sótti sem ungur guðfræðinemi þegar einn kolleginn reyndi að segja sr. Auði Eir, tengdamóður minni hvert hlutverk kvenna væri í kirkjunni.

    Skemmtileg minning og skemmtileg viðbrögð hennar létu ekki á sér standa. Þrjátíu ár eru langur tími, og þó. Kirkjan er mikið breytt og á samt langt í land.

  57. Úps, þessar tvær konur skrifuðu á vef Vt í síðustu viku, átti að standa þarna líka.

  58. Helgi Ingólfsson on January 20, 2012 at 11:45 said:

    Harpa: Einn kunningi minn nefndi í gríni við mig að ef til vill væri ekki svo mikill munur á róttækum trúleysingjum og boðskap kristninnar, þótt formerkin væru e.t.v. aðeins önnur. Þau mætti máske orða svo: “Legg þú Netið á djúpin eftir Dawkins orði og veiddu sálir í Troll þín.” 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation