Nei, þessi færsla fjallar ekki um gömlu reyfarana/þjóðararfinn. Hún fjallar um “takt og tone” á Íslandi í dag, þ.e.a.s. hvað eru hinar einu réttu skoðanir og hvernig sumum leyfist en öðrum ekki.
Í upphafi er rétt að minnast á mál Snorra Óskarssonar grunnskólakennara á Akureyri, sem oft er kenndur við Betel (hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum). Snorri skrifaði fræga færslu á sitt blogg þar sem hann sagði m.a.:
Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.
Þessi stutta færsla, blogguð úr frá frétt í mogganum, olli því að nokkrir Akureyringar fengu hland fyrir hjartað. Skólanefnd bæjarins sá til þess að Snorri væri settur í hálfs árs launað leyfi svo hann kæmi ekki nálægt saklausum börnunum og Pétur Maack, sálfræðingur á Akureyri, kærði Snorra til lögreglu fyrir þessi ummæli. Lögreglan vísaði kærunni frá, Snorri segist hlakka til að koma aftur til starfa en hefur til vara boðist til að gera starfslokasamning við sína launagreiðendur, Akureyrarbæ. Svo virðist vera sem skólayfirvöld (væntanlega að undirlagi skólanefndar) setji sem skilyrði fyrir að Snorri megi kenna að hann hætti að blogga. Sjálfur segir hann að sér hugnist ekki að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun.
Það hefur hvergi komið fram hversu margir foreldrar nemenda Snorra hafa tjáð sig um þær. Enda skiptir það engu máli. Málið er að það má ekki tala illa um homma og lesbíur. Þetta vita allir. Það má ekki viðra annað viðhorf til samkynhneigðar en jákvætt. Alveg eins og það má ekki tala um tóbak nema illa. Og auðvitað tekur steininn úr þegar bloggari eins og Snorri rökstyður sína stuttu færslu með trúarlegum rökum, þ.e. tilvísun til kristinnar trúar. Eins og margoft hefur verið bent á af vantrúarfélögum og öðrum rétt-pólitískt-þenkjandi eru talsmenn kristinnar trúar nokkurs konar barnaníðingar, þ.e. barnaníðingar hugans. Það er ótækt að slíkir menn valsi um innan um saklaust ungviðið í grunnskólum.
Aftur á móti virðist allt í lagi þótt starfandi leikskólakennari, Egill Óskarsson, lýsi þeirri skoðun sinni að rétt sé að kála öllum sem lesið hafa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í útvarp allra landsmanna, að undanskildum (meistara) Megasi. Og gleymi meira að segja skyldubundnum broskarli í þeirri yfirlýsingu, sem gefin var örskömmu áður en sami leikskólakennari tók við formennsku í félaginu Vantrú. (Þess bera að geta að út af einhverjum tiktúrum í Matthíasi Ásgeirssyni vefstjóra Vantrúar virka linkar af blogginu mínu í opinbera síðu Vantrúar ekki. Lesendum er bent á að endurhlaða síðuna með ummælum Egils þegar hún kemur upp með “Access forbidden” skilaboðunum.)
Af hverju er það allt í lagi að leikskólakennari lýsi því á vefmiðli að rétt sé að taka ákveðinn hóp fólks af lífi fyrir að hafa lesið Passíusálmana í útvarp og einnig að þær bókmenntir beri að banna? Jú, það er vegna þess að Passíusálmarnir eru fullir af gyðingahatri (sem er slæmt) og auk þess illa ortir (mér er ekki ljóst hvort það skiptir í rauninni máli en það er a.m.k. ekki til bóta) og eru auk þess fullir af trúarboðskap hinnar illu evangelísku kirkju. Þess vegna vekja þessi orð enga athygli (önnur skýring gæti raunar verið sú að það séu hvort sem svo fáir sem lesa vef Vantrúar að enginn nema örfámenn klíka hafi tekið eftir þessu).
Munurinn á Snorra hvítasunnuhirði og grunnskólakennara á Akureyri og Agli Óskarssyni formanni Vantrúar og leikskólakennara í Reykjavík er sem sagt sá að hinn fyrrnefndi hefur rangt viðhorf en hinn síðarnefndi hefur hið eina rétta viðhorf. Enn skýrara verður þetta sé haft í huga að Egill Óskarsson er ekki bara pólitískt rétt trúlaus heldur líka vinur femínista. Ef maður er femínistavinur fyrirgefst flest annað. Því femínismi er hið eina rétta viðhorf.
Til að gera lesendum þessarar færslu enn skýrar grein fyrir hinum réttu viðhorfum skal bent á að karlar sem skrifa andstyggileg komment eða saklaus komment með broddi sem beinist gegn konum eiga það fullkomlega skilið að lenda saman í haug í albúminu “Karlar sem hata konur”, sem ku hafa verið deilt um 500 sinnum á Facebook, því karlar mega alls alls ekki segja neitt ljótt um konur. Konur mega hins vegar segja ljótt bæði um karla og konur svo lengi sem þær eru femínistar. Karlkyns femínistar fá svo aukið tjáningarfrelsi af því þeir eru femínistar. Femínistar mega brjóta reglur samskiptamiðla eins og Facebook og baða sig í píslarvætti þegar er lokað á þær/þá. Af því þær eru femínistar og femínistar hafa alltaf rétt fyrir sér, hafa hið rétta viðhorf.
Svo ég taki þetta saman í lokin: Þú skalt eingöngu tala jákvætt um homma, illa um kristna trú og vera femínisti! Það er takt og tone i nutidens samfund. Til frekara öryggis er rétt að tala vel um flokkun rusls, grænmetisneyslu og hjólreiðar en illa um virkjanir, feitt kjöt og Hannes Hólmstein. Fylgirðu þessum einföldu leiðbeiningum verðurðu á grænni grein.
Vá Harpa! Vá.
Hefurðu enga sómakennd?
Matti minn, þú hefur ekki lesið færsluna almennilega 🙂 Hún er einmitt kennsla í hvernig gæta skuli sóma síns nútildags (þú gætir flett upp “takt og tone” í orðabók eða gúgglað).
http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6469
Munurinn, eins og þú vel veist, er jú sá að ummæli Snorra eru sögð í fullra alvöru en í trúarlegum skilningi, á meðan ummæli Egils eru argasta kaldhæðni og ekki alvarlega meint í neinum skilningi.
Ég giska á að þú sért með þessu að líkja því saman að segja eitthvað í kaldhæðni og að segja eitthvað í trúarlegri merkingu.
Ef svo er, er það þá ekki slakur samanburður í ljósi þess að trúarvaðall hefur löngum haft heilmikið vægi í samfélaginu (þótt lítið sé eftir af því vægi) á meðan orð sögð í kaldhæðni hafa ekkert slíkt vægi?
Alveg svíðandi gott. Lýsir samfélagstjáningartískunni nákvæmlega. Og feginn er ég að Egill, þessi litli kall, muni tæplega drepa þá sem hafa lesið Passíusálmana í útvarpi. Þá væri ég í þeirra hópi. En Megas las þá náttúrulega í kirkju, og sleppur því.
Bjarni Randver… er þetta þú?
Gott hjá þér Harpa
Nístandi flott, Harpa!
“Mikið ofboðslega er það hvimleitt … þegar einhver vogar sér að hafa skoðun á hlutunum.”
Eins og þú sérð, þá virðast það Vantrúarsafnaðarmeðlimir og PC-sinnar sem telja sig einir vita hvar og hvenær megi beita háði og kaldhæðni.
En þú ert vitaskuld að draga saman marga PC-þræði – og löngu er orðið tímabært að einhver veki máls á þeim.
En hvað vil ég sosum upp á dekk? Ég er bara miðaldra gagnkynhneigður hvítur karlmaður – sem (talandi um ritskoðun og bannhyggju) ætti ekki að tjá mig á veraldarvefnum samkvæmt skoðunum sumra í Vantrúarsöfnuðinum.
P.S. Annars velti ég fyrir mér hvort það sé að öllu leyti réttmætt að pönkast á þeim körlunum í þessu máli? Þeir leyfðu sér jú margir hverjir, þ.m.t. Egill held ég, að taka afstöðu gegn pólitísku rétthugsuninni í Snorramáli. Þetta segi ég þeim til hróss – þótt það hafi máske þjónað ákveðnum tilgangi í þeirra augum.
P.S.S. (í véfréttarstíl): Það stóð “EINS OG halastjörnur”, skilurru? Metafórískt, skilurru?
Ætli það sé hollt fyrir heilsu þessa Matta að lesa bloggið þitt? Hann virðist frekar órólegur.
Nau! Hálft Hörpu-költið mætt á svæðið! Össsss!
Ratz! Ekki náðum við aðdáendur Hörpu að verða á undan Dawkins-vonabíum að stökkva á vagninn.
Sko Egill og Snorri eiga margt sameiginlegt og er ég þá ekki einungis að vísa til gamla reyfarans heldur með þá félaga í nútímanum í huga. Auðvitað vörðu vantrúarfélagar hvítasunnumanninn Snorra því ef einhverjir skilja fundamentalískar skoðanir/strangtrú af sinni innstu hjartans rót eru það einmitt innstu koppar í búri Vantrúar.
Fr. Dietrich hefur sannfært mig um að hala-stjarna sé mjög mikið hrós. Slagar víst hátt upp í stjörnufemínista, að hennar sögn. Og hún er nýfemínisti og hefur þ.a.l. alltaf rétt fyrir sér.
Ég þarf að fara að rifja upp bókmenntafræðikenningar. Kaldhæðni virðist voðamikið fara fram hjá mér og viðlíkingar líka 😉
Leyfi mér að vitna hér í Matta, tekið af vantru.is. Þetta var í kommenti við greinina um Snorra.
“Ég held ég geti fullyrt að félagsmenn í Vantrú eru eins ósammála Snorra eins og hægt er. Við eigum nánast ekkert sameiginlegt með þessum öfgafulla hommahatandi kristna ofstækismanni. Ég held mér sé óhætt að segja að við fyrirlítum skoðanir hans á samkynhneigðum og skrif hans um þau mál hafa oft verið fyrir neðan allar hellur.”
Ég leyfi mér að fullyrða þetta líka.
Æi, hann Matti fullyrðir nú svo margt, Berglind Freyja, og óþarft að taka hann nema passlega alvarlega stundum, blessaðan. Í kommentum við greinina Kristin arfleifð Snorra í Betel (það þarf að líma slóðina http://www.vantru.is/2012/02/09/15.00/ í annan glugga, út af tiktúrum Matta sem banna aðgang af bloggsíðunni minni á vef Vantrúar) má sjá að bæði Birgir Baldursson, sem skrifaði nú einmitt manifestóið Vantrúar, og Teitur Atlason, einnig gamall vantrúarjaxl, skilja Snorra mjög vel. Ég reikna með að Þórður Ingvarsson hafi skrifað greinarstubbinn sjálfan, sem segir svo sem ekki neitt neitt nema varpar fram spurningunni hvort kristin arfleifð íslenskrar menningar sé kannski of ljót fyrir grunnskóla (nokkuð sem vantrúarfélagar hafa staglast á í ýmsum varíasjónum síðan Reyni Harðarsyni tókst að slátra vinaleiðinni í Garðabæ). Þið stelpurnar, þú, Rebekka systir og Kristín takið kannski einhvern tíma sjálfar afstöðu á Vantrúarvefnum, svona af því þið eruð komnar í stjórnina?
Ég skal bara taka afstöðu hérna líka. Ég geri mitt besta til að svara eins hlutlægt og ég get.
Fyrst, smá upplýsingar um mig til að sýna fram á að ég kunniÍslenska var eitt af uppáhaldsfögunum mínum í skóla, ásamt ensku og stafsetningu. Ég er stúdent af tungumálabraut M.A. Ég tók B.A. gráðu í enskum bókmenntum og almennum málvísindum. Eitt uppáhaldsviðfangsefnið mitt innan málvísinda er málnotkunarfræði (pragmatics). Ég tel mig hafa nokkuð góðan lesskilning og hæfa til að túlka og greina texta. Ég vinn sem þýðandi og þýði reglulega texta frá ensku eða frönsku yfir á íslensku.
En ég skil ekki þennan bloggpistil þinn, Harpa. Ég er búin að lesa hann oft og í hvert skipti þá er ég ekki viss hvort að þú sért að skrifa beitta háðsádeilu sem bendir á hvernig er hægt að misskilja orð annarra, eða hvort þú sért að skrifa í fullri alvöru. Þú ert fyrsta manneskjan sem ég veit um, sem tekur þessi ummæli Egils í fullri alvöru, án þess að gera sér grein fyrir að hann var að beita kaldhæðni.
Ég veit að hér hefur mikið verið grínast um notkun broskalla eftir texta, en svona í alvöru talað; þarf virkilega að taka það fram í hvert skipti sem eitthvað er skrifað í gríni eða kaldhæðni eða í írónískum tilgangi, að viðkomandi texti sé grín/kaldhæðni/írónía?
Kristinn er þegar búinn að útskýra þetta í svari nr. 4. Egill var að vera kaldhæðinn, Snorra er fúlasta alvara.
Harpa, af hverju heldurðu að Agli hafi verið alvara með ummælum sínum við Passíusálmagreinina? Ég skil ekki hvernig nokkur manneskja með eðlilegan málsskilning geti komist að þeirri niðurstöðu, nema sú manneskja misskilji textann viljandi.
Svo er hér eitt í lokin til Helga Ingólfssonar, varðandi svar hans nr. 8. Helgi, þú ert kennari, þú ættir að vita betur. Þú klippir burt miðjuna úr seinustu setningu Egils og snýrð gjörsamlega út úr merkingu hennar. Ég legg til að þú berir setninguna óklippta undir íslenskukennara (þú hlýtur að þekkja einhverja) og spyrjir þá hvað setningin þýðir. Ég get lofað þér að hún þýðir ekki að bara Vantrúarfélagar megi einir beita háði og kaldhæðni.
Svipað dæmi væri ef ég vitnaði í þig svona: “Ég er bara miðaldra gagnkynhneigður hvítur karlmaður … í Vantrúarsöfnuðinum”.
Seg mér Helgi, hvenær gekkst þú í félagið Vantrú?
Eða varstu kannski að vera háðskur og/eða kaldhæðinn með þessari mistúlkun? Mér finnst eins og ég sé komin í eitthvað “Twilight Zone” þar sem ómögulegt er að skilja hvað fólk á raunverulega við með skrifum sínum..
Málið er mjög einfallt. Vantrúarfélagar skilja eingöngu sína eigin kaldhæðni, ekki annarra. Þess vegna halda þeir sig eina um að vita hvenær kaldhæðni er beitt og hvenær ekki. Þeirra eigin kaldhæðni er fyndin. Annarra kaldhæðni er í besta flokki móðgun sem sýnir illt innræti viðkomandi eða skort á vitsmunum.
Vantrúarfélagar vita líka allt best og mest, líka fyrrverandi Vantrúarfélagar. Enginn kemst með tærnar þar sem Vantrúarfélagar hafa hælana, vitsmunalega séð.
Enginn kann heldur að rökræða nema Vantrúarfélagar. Þeir gera þann skýra greinarmun á eigin rökum og annarra að eigin rök eru alvörurök en annarra rök eru rugl, sama hver þau eru.
Eitt skortir Vantrúarfélaga þó áberandi. Engan hafa þau nefnilega húmorinn. Þau halda bara að þau hafi hann.
Veistu það Harpa, að miðað við að þú hafir verið íslenskukennari þá finnst mér þú túlka skrifaðan texta á mjög sérstakan hátt. En auðvitað mátt þú túlka texta hvernig sem þú vilt, á eins kolvitlausan hátt og þú vilt. Finnst bara furðulegt að þú, sem íslenskukennari, hafir ekki meiri metnað gagnvart tungumálinu en svo að geta ekki skilið auðskiljanlegan texta.
Gjörðu svo vel, þetta er mín afstaða.
Og mín afstaða gagnvart skrifum Snorra er mjög einföld, ég bókstaflega fyrirlít þau. En hans skoðanir eru alls ekki ólíkar skoðunum margra presta, jafnvel biskupinn sagði að með því að leyfa hjónaband samkynhneigðra hefði verið að henda hjónabandinu á haugana!
En nú kommenta ég ekki meira hér, miðað við það hvernig þú túlkar texta, snýrð út úr og þykist oft á tíðum töluvert vitlausari en þú raunverulega ert.. þá er gjörsamlega ómögulegt að eiga í eðlilegum samræðum við þig.
Þú hittir naglann á höfuðið, Guðbergur (aths. 16):
Okkur Hörpu hefur verið brigslað af Vantrúarsafnaðarmeðlimum um að “skilja ekki neitt”, í helli grein með löngum athugasemdahala. Vantrúarsafnaðarmeðlimir hafa stært sig við Hörpu á meintri yfirburðaþekkingu í tölvunotkun og hér efst er gefið í skyn að hún skilji ekki kaldhæðni. Þess utan tönnlast þeir Vantrúarsafnaðarmeðlimir á því að margháttuð gagnrýni á Vantrú sé “galin”.
Þessi “sannfæring um eigið ágæti” er mjög algeng sem “rök” hjá þeim: Aðrir skilja ekki neitt eða eru galnir. Blessaðir séu hinir hógværu …
—–
Rebekka (aths. 15): Til hamingju með ágætan námsferil – ég býst við að þú hafir ekki síðri lesskilning en aðrir hérna (nema þú sért að gefa það í skyn að Vantrúarsafnaðarmeðlimir hafi yfirburði á þeim sviðum sem öðrum). En tilklipptu setningarnar eru vitaskuld vísun í ummæli, sem allir, sem þekkja eitthvað til postulasögu Vantrúarsafnaðarins, kannast við. Mér líst vel á þessa uppástungu þína um að ég gangi í Vantrú – ég hef verið að gæla við þá hugmynd lengi. Kannski verð ég þá líka yfirburðamaður og fer að skilja eitthvað. 😉
—–
P.S. prívat til Hörpu: Segðu Fraülein Dietrich að auðvitað hafi “halastjarnan” verið hrós. “Stjörnu-PC-Buster” – hvernig hljómar það?
Þetta er semsagt bara grín! Gott mál.
Ádeila Hörpu er nú samt dálítið áhugaverð.
Baldur Hermanns sagði um árið að konur (Sóleyju T) dreymdi um að vera nauðgað. Hann komst ekkert upp með að kalla það grín og kaldhæðni, þótt hann hafi einmitt sagt að um slíkt væri að ræða. Hans mat á inntakinu var virt að vettugi og hann skammaður og fjallað um hann í miðlum.
Hver ræður því hvort orð skuli tekin alvarlega eða hvort það skipti máli að þau hafi verið sögð í kaldhæðni?
Á að fjalla um það í blöðum að Egill segist vilja að upplesendur Passíusálma verði drepnir? Nei, auðvitað ekki. En af hverju ekki fyrst BR ræður engu um hvernig túlka skuli gærur hans, eða karlarnir sem að sögn “hata konur” ráða engu um hvernig túlka skuli ummæli þeirra, eða Baldur Hermanns ræður engu um hvernig taka skuli grín hans?
Þessi grein bíður upp á fjörlegar umræður um hvaða straumar ráða túlkunum og dómhörku samfélagsins. Það að orð Egils hafi verið háð, er öllum augljóst, hvort sem fólk segir það berum orðum eða ekki.
Er það kannski rétthugsunin sem ræður ríkjum og aðeins “réttur” hópur sem fær að njóta vafans?
Mér finnst umræðan við þessa færslu staðfesta prýðilega boðskap færslunnar, þ.e.a.s. að sumir mega meira en aðrir af því taka beri tillit til að þeir séu “réttrar skoðunar”. Agli ber að fyrirgefa þessi ummæli af því þau eru svo augljóslega skrifuð sem kaldhæðni (öllu heldur frægri kaldhæðni vantrúarfélaga). En Snorra líðast ekki ummælin því hann er svo augljóslega að skrifa af trúarsannfæringu. Þá vaknar spurningin: Hver á að meta hverju sinni hvort blogg eða athugasemdir séu skrifaðar í alvöru eða sérstakri íróníu? Eru öfgamenn eins og vantrúarfélagar eða öfgafemínistar dómbærastir á slíkt?
Ég var einmitt að hugsa um að taka dæmi af máli Baldurs Hermannssonar líka en þá hefði færslan orðið of löng. Takk Kristinn, fyrir að vekja athygli á þessu. (Mér fannst orð Baldurs út í hött og sá ekkert fyndið við hans húmor. En mér fannst jafnmikið út í hött að tengja orð hans við stöðu hans sem framhaldsskólakennara og lítilmannlegt af skólastjórnendum Flensborgar að láta svínbeygja sig til að áminna Baldur. Ef ég man rétt er ummælum Baldurs haldið til haga í söfnun Hildar Lilliendahl þótt þau hafi fyrir löngu verið fjarlægð af netinu.)
Í útvarpinu heyrði ég fyrir tilviljun mjúkmálan formann siðaráðs KÍ tjá sig um ummæli Snorra. Sá er leikskólakennari (kvenkyns) og fannst agalegt af honum Snorra að skrifa þetta og taldi einsýnt að hann hefði brotið siðareglur KÍ. Það væri áhugavert að vita hvaða skoðun hún Linda Ósk Sigurðardóttir hefði á orðum Egils Óskarssonar, kollega síns, í tengslum við sömu siðareglur. Ekki samt að ég ætli að fara að dæmi hinna kæruglöðu sálfræðinga Reynis Harðarsonar eða Péturs Maack. Vér íslenskukennarar með reynslu höfum ekki eins sterka trú á áhrifum kennara á sálarlíf nemenda og þeir sálfræðingar sem starfað hafa á Akureyri.
Sömuleiðis var ég að hugsa um að taka dæmi af hvernig “hið eina rétta viðhorf” getur beinlínis komið í veg fyrir að fólk fái þá hjálp sem það þarfnast og var í því sambandi að hugsa um andstöðu vissra borgarfulltrúa gegn því að styrkja Hjálpræðisherinn til að sinna útigangsmönnum áfram. “Ópíum fólksins” er nefnilega svo hættulegt að það er betra að rónarnir í Reykjavík drepist en að svo ógurlega hættuleg samtök sem Hjálpræðisherinn hafi athvarf fyrir þá. Þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að trúboð sér stundað í slíku athvarfi.
Og raunar var ég að hugsa um að enda færsluna á að menn yrðu á ungri vinstri grænni grein ef þeir tileinka sér hinn eina rétta hugsunarhátt sem ég geri dálitla leiðbeinandi grein fyrir í færslunni …
Þær systur Rebekka og Freyja eru dálítið uppteknar af því að fólk sé eða hafi verið kennarar. Þeim til upplýsingar bendi ég á að kennsla er eins og hvert annað starf, það er ekki köllun og kennarar eru ekki fastir í sinni stöðu 24 tíma á sólarhring. Það gildir, merkilegt nokk, einnig um íslenskukennara, jafnt starfandi sem fyrrum íslenskukennara. Og sögukennara. Raunar alla kennara.
Mér þykir auðvitað leiðinlegt þín vegna, Rebekka, að þú eigir bágt með að skilja þessa færslu. Efast þó ekki eitt andartak um að þú hafir hlotið afar góða íslenskumenntun hjá (fyrrum) kollegum mínum í MA, sem ég átti á árum áður nokkurt samstarf við.
Svona í lokin langar mig að benda á þá áhugaverðu staðreynd að ótrúlega stórt hlutfall málsvara félagsins Vantrúar á rætur að rekja til Akureyrar. Ætli sé eitthvað í vatninu þarna í Eyjafirðinum?
Alltaf gleðiefni að sjá fólk kynna sér efni á vantru.is
Enfremur mjög gott að heyra að þetta sé “versta” tilfelli dólgsháts og dónaskap af hálfu núverandi formans.
Verra er að það gleymist aftur að tala um undirliggjandi ástæður þessa skoðanna, með hjá Snorra og móti hjá Agli. Endalaust karp um hommahatur án þess að skoða hvaðan þær koma, hugsanlega vegna þess að niðurstaðan úr slíkri vinnu kæmi óþægilega við “trúar”-beinið hjá mörgum.
Jesús elskar náungan, en Guð hatar homma (mín orð)
Menn hata aftur á móti alla (bannað að taka broskallinn í burtu) 🙂
Ert þú voða hófsöm, Harpa?
Erum við orðin voða náin, Þórður? Dálítið persónuleg spurning, finnst mér. Ég reyni að tileinka mér boðskap Gestaþáttar Hávamála sem æviverkefni. Árangurinn kemur smátt og smátt … með hægðinni hefst það 🙂
Ég hélt við værum “like this”.
Mér finnst það bara eitthvað svo öfgafullt að tjá skoðanir sínar.
Ég hef nú bara svo mikið álit á kennurum (
Ég held að maður verði að lesa blogg Hörpu Hreinsdóttur í samhengi fyrri skrifa hennar, Rebekka &co. Og þá meina ég ekki aðeins síðustu tveggja mánaða heldur fimm ára eða svo. Ég held að hárfínn húmorinn sem hún ber fram með málfarslegu kökukefli fari annars fram hjá fólki sem er vant að horfa aðeins á einangraðar setningar og ályktar heilu bálkana út frá þeim.
Kannski aldur og fyrri störf hjálpi/hindri við lesturinn, en pointið ættu menn að taka til sín.
Málfrelsi gengur í allar áttir og hreintrú er hægt að finna víðar en í sölum kirkna. Slæmt þegar slík trú hefur af þeim húsaskjól sem ekkert hafa, af því að hún er ekki rétt.
Ekki einu sinni hinir réttrúuðu og sekúleruðu Frakkar eru svo kaþólskir, að þeir meini vel innrættum félögum s.s. Hjálpræðisher, DEFAP (hjálparstarfi mótmælendakirkna) etc. að vinna að hjálparstarfi innanlands. Sé það áhersla Vantrúar, Siðmenntar eða annarra talsmanna sekúlerra húmanista á Íslandi að trúfélögum sé ekki treystandi fyrir hjálparstarfi, þá eru þessir húmanistar orðnir kaþólskari en páfinn!
Aaah… hinn eini rétti húmor.
Þetta er heldur herská skoðun, verð ég að segja.
… sagði maðurinn sem tjáir sig helst ekki öðruvísi en með afar svörtum húmor …
Öss… ert þú svona rétttrúnaðarhúmoristi?
Mig langar nú bara til að benda á eitt varðandi Pétur Maack og það að hann kærði Snorra. Ef mig misminnir ekki, þá var sú kæra lögð fram vegna þess að hann taldi að málið yrði fordæmisgefandi færu það fyrir dóm. Með öðrum orðum þá kærði hann vegna þess að hann hafði áhuga á að vita hvað dómstólunum fyndist um svona. Mér finnst allt í lagi að halda því til haga svona fyrst að menn eru að tala um kæruglaða sálfræðinga frá akureyri.
Þetta er vissulega rétt hjá þér, Baldur Heiðar: Pétur Maack hélt því m.a. fram að rétt væri að dómstólar skæru úr um hvort grunnskólakennarar hefðu ekki örugglega “framselt rétt sinn til að tjá skoðanir sem ganga jafn augljóslega gegn hagsmunum hluta nemendahópsins og bloggskrif Snorra gera”, sjá Akureyri Vikublað 23. febrúar 2012, s. 13. (Kjarnann í grein Péturs Maack má sjá í þessari frétt Pressunnar 23. febrúar 2012, svona ef fólk nennir ekki að lesa alla greinina hans.) Það hefur verið bent á annmarka við þessa kæru: Að Pétur Maack rugli í fyrsta lagi saman skyldum sálfræðinga hvað varðar skjólstæðinga sína og skyldum kennara við nemendur sína, sjá t.d. bloggfærslu Írisar Erlingsdóttur, Epli og appelsínur Péturs Maack, þann 24. febrúar 2012, og að Pétri Maack o.fl. sé ekki ljóst á hverju grundvöllur tjáningar í lýðræðisríki hvílir (þ.e. hugmyndafræðilegur og hugmyndasögulegur grunnur 72. gr. lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944) í grein Gústafs Níelssonar sagnfræðings í nýjasta hefti Þjóðmála (1. hefti 8. árg. 2012, s. 20-23), sem heitir Ber að setja skoðana- og tjáningarfrelsinu skorður á grundvelli stéttar og stöðu? Sem kunnugt er komst lögreglustjóraembættið á Akureyri að þeirri niðurstöðu að Snorri hefði engin lög brotið með þessari bloggfærslu og vísaði því kærunni frá, sjá t.d. frétt Mbl. um málið.
En svona í lokin er gaman að geta þess fyrir aðra lesendur að þú ert frá Akureyri, Baldur Heiðar en starfar sem sálfræðingur á Lansanum. Svo enn erum við með þessi skemmtilegu tengsl við sálfræðinga og Akureyringa 😉 Ég held mér sé alveg óhætt að draga þau fram án þess að gjalda þess sem framtíðarkúnni því í HAM-vígi Péturs Tyrfingssonar og kó mun ég aldrei stíga …
Nú eru vorjafndægur.
Ég horfði á auðnutittlinga fyrir utan gluggann minn.
Mér sýndist þetta vera tvö pör.
Þau stöldruðu stutt við.
Og sól fer hækkandi
Mér er alveg ósárt um að þú nefnir það, enda finnst mér það ekki koma málinu hér neitt við. Ég get líka fullvissað þig um að það mun ekki bitna á þeirri þjónustu sem kynnir mögulega að sækja til okkar ef þér snýst einhverntímann hugur og telur þig þurfa á því að halda 😉 . Tel reyndar að hvorki akureyri né sálfræðingastéttin þurfi endilega að vera nefnd í sömu andrá og talað eru kærugleði, útaf tveimur dæmum af fólki sem tilheyrir þessum hópum. Ég var reyndar ekki einu sinni að leggja sérstakla áherslu á þá tilteknu alhæfingu heldur einfaldlega að ég lagði aðra merkingu í kæru péturs en að hann væri sérstaklega kæruglaður. Ég er bara að tala um hann. Ég hef jafnan skilið það orð sem svo að í því felist ákveðin ósk um að fá fólk sakfellt og dregið til ábyrgðar (það kann þó að vera þrengri skilningur en aðrir leggja í það). Ég skildi aðgerð péturs ekki þannig, heldur einfaldlega að hann vildi fá úr ákveðnu lagalegu álitamáli skorið. Þ.e. ef lagaóvissan væri ekki fyrir hendi, er ég ekki sannfærður um að hann hefði kært jafnvel þótt ljóst væri að Snorri hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins. Það kann að vera rangt hjá mér, enda er afstaða hans til málsins svo sem nógu skýr.
En jæja, fyrst ég kom í heimsókn er kannski rétt að þakka lesninguna, er í megindráttum sammála megininntakinu hjá þér.
Ég fór einmitt að hugsa um það eftir á að líklega hefði ekki verið rétt að skjóta á HAM Lansans í kommentinu … en þá var ég búin að slökkva á tölvunni. Og enginn veit sína ævina fyrr en öll er og ég hef nú verið að kúvenda í skoðunum undanfarið og kannski gengur sú kúvending einhvern tíma það langt að ég verði sammála klínískum leiðbeiningum geðsviðs og droppi í HAM-ið Lansans … hvað veit maður?
Ég hefði aldrei heyrt Péturs Maack getið fyrr en í sambandi við þessa kæru. Þegar ég gúgglaði í upplýsingaleit sá ég í forbífarten að hann hefur nokkuð skrifað á blogg vantrúarfélaga, t.d. Valgarðs Guðjónssonar og Hjalta Ómars, en það þarf sosum ekki að segja neitt um forsendur afstöðu hans. Hef ekki minnstu hugmynd um hvort Pétur Maack er almennt og yfirleitt kæruglaður maður. (Það er hins vegar Reynir Harðarson eins og kemur fram í blaðagreinum / greinum á Vantrúarvefnum og í eftirmála þýðingar hans á bók Dawkins.)
Ábendingu um akureyrsku sálfræðingana ber ekki að taka mjög alvarlega (hugsa að félagið Vantrú myndi kannski flokka hana undir kaldhæðni hefði hún birst á vefsvæði félagsins). Aftur á móti stingur nokkuð í augu annars vegar hve margir forsprakkar Vantrúar eru frá Akureyri / úr Eyjafirðinum og hins vegar hve hlutur sálfræðinga og tölvufræðinga/starfsmanna sem vinna á tölvur er stór í þeirra röðum (þetta er nú fámennt félag svo maður tekur eftir hverjum og einum sem hefur sig í frammi). Bein tengsl milli þessa tveggja eru líklega engin en tilviljunin er skemmtileg 😉
Jóhann: Var ekki dagur ljóðsins í gær? 🙂
Sæl Harpa.
Ég veit að þetta er þitt blogg og þú mátt ræða hvað sem þú vilt, en … ertu ekki farin að fjarlægjast örlítið upphaflega umræðuefnið? 🙂
—–
Mér sýnist Kristinn Theódórsson (aths. 20) komast býsna nærri mínum skilningi á inntaki pistilsins (sem er kostulega hæðinn í ýmsum skilningi). Ég held að í samfélaginu hafi tilteknir hópar gerst “handhafar sannleikans” og þeir, sem ekki fallist á þeirra sjónarmið, megi bara éta það sem úti frýs.
—–
Ég held að allir þeir, sem tjáð hafa sig hérna inni, séu sammála um að ofangreind ummæli Egils Óskarssonar hafi verið sett fram í kaldhæðni; um það er enginn ágreiningur, held ég . En það eru fleiri vinklar á þessum ummælum, t.d. siðferðilegir. Er t.d. eðlilegt og innan siðamarka að leikskólakennari tjái sig, af kaldhæðni eður ei, um að hann vilji láta taka fólk af lífi? Svo má auðvitað benda á hliðstæðurnar; Snorri í Betel, grunnskólakennari, er leiðtogi trúarsafnaðar og Egill, leikskólakennari, er leiðtogi Vantrúarsafnaðar – er eðlilegt að þeir tjái sig mikið á opinberum vettvangi um trúmál/vantrúmál? Eða er eðlilegt að þeir hafa fulla og ótakmarkaða heimild til að segja hvað sem er á opinberum vettvangi um það sem þeim sýnist.
Mér datt bara sisona í hug að kasta fram þessum þönkum
Jú, það er rétt að umræðan er komin út í móa, eins og oft gerist á bloggum.
Auðvitað eru ummæli Egils Óskarssonar sett fram í kaldhæðni, það dettur vonandi engum í hug að leikskólakennari í Reykjavík sé í alvöru að hvetja til mannvíga (þótt haft sé í huga að skv. bábiljum og hindurvitnum bregður fjórðungi til nafns). En af hverju má hann staðhæfa að rétt sé að kála manni og öðrum fyrir að lesa ákv. bókmenntir í útvarp, í gríni, en aðrir mega ekki segja eitthvað álíka ósmekklegt í gríni án þess að fá bágt fyrir (t.d. Baldur Hermannsson eða sumt liðið á frægum lista Hildar Lilliendahl)? Og hver er þess umkominn hverju sinni að dæma um hvort orð á netinu séu skrifuð í hálfkæringi eða ekki? Það sést nú greinilega á þessum umræðuþræði að slíkur úrskurður vefst fyrir sumu fólki, nefni ég þar sérstaklega vantrúarfélaga.
Mér finnst aðalmálið að það að tengja saman skoðanir fólks, sem það birtir í sínum frítíma á sínum bloggum (eða vefmiðlum) og starf þess sé einkar varasamt og vandasamt. Og þeir sem eru endalaust uppteknir af flísinni í auga náungans sjá kannski ekki alltaf eigin bjálka.
Ætli niðurstaðan (mín) sé ekki sú að það beri að forðast öfgar, í skoðunum, dómum yfir náunganum o.fl. Án þess að ég telji mig sérlega heilaga í þeim efnum sjálf … en ég reyni að losna við rörsýnina og þetta potast, hægt og hægt (er auðvitað æviverkefni) … og svo hef ég lært að skipta um skoðanir (stundum lært það “the hard way”).
“Ekki einu sinni hinir réttrúuðu og sekúleruðu Frakkar eru svo kaþólskir, að þeir meini vel innrættum félögum s.s. Hjálpræðisher, DEFAP (hjálparstarfi mótmælendakirkna) etc. að vinna að hjálparstarfi innanlands. ”
Carlos: Ertu að misskilja málið eða snúa út úr? Er það allt í einu orðið að “meina Hernum að vinna að hjálparstarfi” ef þeir fá ekki tugi milljóna frá borginni? Eru möguleikarnir bara tveir: Annað hvort færðu styrk frá borginni, eða þér er BANNAÐ að starfa?
Hættið þessu tali um bann, það er enginn að fara að banna Hernum að starfa þó hann fái ekki lengur aðgang að fé borgarinnar.
—
“Mér finnst aðalmálið að það að tengja saman skoðanir fólks, sem það birtir í sínum frítíma á sínum bloggum (eða vefmiðlum) og starf þess sé einkar varasamt og vandasamt.”
Svo þú ákvaðst að eyða heilli bloggrein og fjölda athugasemda í að gera nákvæmlega þetta – tengja ummæli Egils við starf hans. Eða varstu bara að komast á þessa skoðun um leið og þú ritaðir orðin “skipta um skoðanir”?
Æi, Tinna Gígja … nú vantar bara Guðrúnu Betu Mánadóttur í þessa umræðu til að snúa henni (umræðunni) upp í hefðbundið stagl vantrúarfélaga og femínista. Ég nenni ekki að taka þátt í þeim barnalega leik. Og bendi stöglurunum á að iðka sitt stagl á eigin vefsvæðum en ekki mínu bloggi.
Ég veit ekki hvort þú hafir tekið eftir því Harpa, en það varst þú sem opnaðir umræðuna um Vantrú og femínisma og “hið eina rétta viðhorf” með því að birta þessa færslu. Svo hefurðu staglað á starfi Egils líka. Vildi bara benda þér á það, fyrst við erum svona náin.
No hard feelings Harpa;) Ég nefndi það í lok síðustu ummæla minna að ég væri í meginatriðum sammála því sem þú segir í þessum pistli. Ég fékk smá bakþanka eftir það þar sem ég fór náttúrulega að velta því fyrir mér að fólk er augljóslega ekki á einu máli um hvað þú ert að segja hérna. Mér þótti því gott að sjá þig draga afstöðu þína saman með eftir farandi orðum:
„En af hverju má hann staðhæfa að rétt sé að kála manni og öðrum fyrir að lesa ákv. bókmenntir í útvarp, í gríni, en aðrir mega ekki segja eitthvað álíka ósmekklegt í gríni án þess að fá bágt fyrir (t.d. Baldur Hermannsson eða sumt liðið á frægum lista Hildar Lilliendahl)? Og hver er þess umkominn hverju sinni að dæma um hvort orð á netinu séu skrifuð í hálfkæringi eða ekki?“
Ég er hjartanlega sammála þér um að þetta er vandi við flesta þá umræðu sem fer mest fyrir þessa dagana. og ég held að um sé að kenna ákveðnu bunker-mentality í ákveðnum hópum. Til viðbótar bætist að manni hættir sjálfum til að villast ofan í skotgrafirnar um leið og maður byrjar að gagnrýna þær. Ég held ég geti sagt nokkuð skammlaust að ég hef staðið sjálfan mig að því og ég held okkur væri öllum hollt að hafa þessa áhættu í huga.
Ég held líka að það sem helst einkennir þessa hópa er dogmatísk hugsun og ég held það sé ekki ósanngjarnt að lýsa mörgum femínistum, vantrúarfólki og heittrúuðum með þessu orði. Evangelisti eins og Snorri myndi meira að segja stæra sig af því þótt ég ímyndi mér að bæði femínistar og vantrúarfélagar reyni að þvo þann stimpil af sér.
Ef ég skil þig rétt tel ég líklegt að þetta þér finnist þetta ekki fráleit greining. Um eitt virðist okkur þó greina á, og það er eftirfarandi. Þú segir nefnilega líka:
„Mér finnst aðalmálið að það að tengja saman skoðanir fólks, sem það birtir í sínum frítíma á sínum bloggum (eða vefmiðlum) og starf þess sé einkar varasamt og vandasamt.“
Þessu er ég ekki alveg sammála og það er kannski þess vegna sem ég vildi taka upp hanskann fyrir pétri maack. Snorri hættir nefnilega ekki að vera snorri þegar hann fer heim úr vinnunni og það var sami snorrinn sem skrifaði bloggið og kenni börnunum í skólanum (meðal annars að bera tilhlýðilega virðingu hvert fyrir öðru). Það er að mínu mati ekki hægt að líta framhjá þessu og því koma óhjákvæmilega upp siðferðisleg álitamál sem varasamt er að taka of absólút afstöðu með því t.d. að hrópa „tjáningarfrelsi!“ eða „hommahatur!“.
Þetta er alveg rétt hjá þér, Baldur Heiðar, að annars vegar erum við (a.m.k. ég og þú og sumir fleiri) að tala um dogmatíska umræðu á netinu (og e.t.v. víðar) og virðumst sammála um að það sé slæm umræðuhefð. Ég held eins og þú að Snorri í Betel myndi fúslega játa að hann sé strangtrúarmaður og vera hreykinn af.
Hitt greinir okkur áfram á um, þ.e.a.s. hversu strangar skorður starf fólks á/ætti að setja tjáningu þess á opinberum vettvangi. Þú hefðir örugglega gaman af því að skoða pælingar Gústafs Níelssonar í nýjustu Þjóðmálum um akkúrat þetta. (Ég tek fram að það er ekki ég sem kaupi tímaritið en það berst inná heimilið. Og inn á milli má finna eitthvað bitastætt í því þótt ég sé sennilega í grunninn ósammála pólitíkinni sem liggur að baki ritinu.)
Nú hef ég lítið gert af því að kenna í grunnskóla en efast um að almennt og yfirleitt séu krakkar að spá mikið í trúarskoðanir kennara sinna (kenndi Snorri ekki smíði eða handmennt á miðstigi?). Mér finnst jafn varasamt að hefta tjáningu Snorra á sínu bloggi, tjáningu byggðri á bókstafstrú, og að koma Agli í vandræði fyrir “kaldhæðni” byggðri á dogmum félagsins Vantrúar því ég reikna heldur ekki með að almennt og yfirleitt séu krakkaskinnin á leikskólanum sem hann vinnur á að spá í hvernig honum finnist lestur Passíusálmanna. Vissulega er það sami Snorri sem bloggar og sá Snorri sem kennir börnum. En hann fer heim úr vinnunni, hann er ekki í henni allan sólarhringinn. Alveg eins og ætla má að Egill sé ekki að skrifa á Vantrúarvefinn í vinnutímanum.
Nú má auðvitað hugsa sér dæmi um ótilhlýðilega tjáningu vegna starfa. Maður sem er yfirlýstur rasisti og bloggar undir formerkjum Norræns mannkyns er væntanlega heldur óheppilegur kennari nýbúa. Hér á Skaganum væri ekki heppilegt að kennari væri yfirlýstur Palestínuandstæðingur (en gerði kannski minna til annars staðar). Skólahjúkrunarfræðingur sem bloggar hvað eftir annað gegn fóstureyðingum og getnaðarvörnum og boðar bann við kynlífi fyrir hjónaband er ekki vænlegur kostur fyrir nemendur sem komnir eru á kynþroskaaldur en ylli líklega ekki neinum skaða á leikskóla o.s.fr.
Einhvers staðar liggja sem sagt mörkin. En mér finnst þau of þröngt dregin í máli Snorra. Og mér fannst forsendur Péturs Maack, sem hann tíundar í greininni sinni í Akureyri Vikublað, ekki sérlega sannfærandi. Mér þótti þetta uppátæki hans sumsé lykta fremur af því að fordæma það sem þykir ekki pólitískt rétt í háværum hópi fremur en af umhyggju fyrir þessum tíu ára krökkum sem Snorri kenndi handmennt (ef ég man rétt, sem þarf alls ekki að vera).
Kæran auðvitað gerði meira enn að lykta af slíkri fordæmingu. Það hvað honum finnst siðferðislega rétt og rangt í þessu var algjörlega kristaltært. Hann fordæmdi skrif snorra mjög umbúðalaust og taldi þau ekki sæma grunnskólakennara og taldi að þau kynni að falla undir hate speach lögjöfina.
Hann sagði hins vegar að rökin fyrir kærunni væri lagaóvissa og að hann vildi að dómstólar skæru úr um málið, ég tel mig ekki í aðstöðu til að draga þann hug í efa, hef ekki spurt hann. Ég hef hins vegar fullan skilning á því að fólki finnist þetta sprottið af heift en ekki forvitni um lagabókstafinn. Slík tortryggni er orðin fullkomlega eðlileg bara hreint almennt, en kannski sérstaklega þegar siðferðislega afstaðan er jafn skýr og raunin er í þessu tilviki.
Svo er hitt, hvort þetta sé löglegt er náttúrulega aðeins önnur spurning en hvort þetta sé siðlegt. Ofan á það bætist spurningin hvort siðferðið sem um ræðir sé almennt, eða faglegt. Niðurstaða um hvað sé rétt og rangt kann að vera ólík eftir því á hvaða sviðum við erum að tala. Það væri kannski einmitt ráð í umræðu af þessu tagi að halda þessu öllu saman aðgreindu þannig að ekki komi upp ágreiningur þar sem hugsanelga enginn er. Ég geri mér enga grein fyrir því hvort svo kann að hafa orðið í þessari tilteknu umræðu.
Og svona til að halda því til haga, þá myndi ég aldrei verja þessi skrif Egils heldur. Ég er þeirrar skoðunar að hvort sem um kaldhæðni eða alvöru er að ræða, þá ætti að vera munur á því hvað maður látur frá sér í lokuðum góðra vina hópi (ég get alveg haft húmor fyrir dónaskap) og opinberlega. Annars lendum við í því að þurfa ekki að bera ábyrgð á því sem við segjum.
Baldur (aths. 43, 45 og 46):
Sjónarmið þín þykja mér einkar skynsamleg. Sjálfur tel ég: a) Ummæli Snorra forkastanleg (eins og flestir), en; b) Að hann hafi rétt til að halda þeim sjónarmiðum á loft þar til dómstólar dæma annað, og c) Að æskilegt sé að dómstólar taki fyrir mögulega meiðandi eða niðrandi ummæli af þessum toga til að skera úr um vafa, ábyrgð eða lagaóvissu, því að í opnu og frjálsu lýðræðisríki er, lögum samkvæmt, enginn annar þess umkominn (og skiptir þá engu hvað dómstóll götunnar vill).
Ég tel að sama skapi einkar óheppilegt og líklega í öllum tilvikum ósiðlegt að láta sér um munn fara orð þar sem þess er æskt að menn skuli teknir af lífi – í hvaða samhengi sem er. Finnst mér þar litlu skipta hvort um kaldhæðni sé að ræða eður ei – menn eigi einfaldlega ekki að temja sér slíkt orðfæri.
Ég geri mér heldur enga grein fyrir umræðu um mál Snorra fyrir utan það sem kom í fjölmiðlum. En miðað við fréttir af afgreiðslu lögreglustjóraembættisins á Akureyri má ætla að Pétur Maack hafi kært Snorra fyrir brot á almennum hegningarlögum. Líklegt hefði verið forvitnilegra að kæra fyrir brot á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
Svo er það hinn handleggurinn, voru ummæli Snorra siðleg eða ekki? Formaður siðarráðs KÍ lýsti því yfir í útvarpsviðtali að Snorri hefði brotið gegn siðareglum KÍ. Fyrrverandi formaður siðaráðs KÍ er ekki eins viss. Spurning hvorum ég ætti að taka mark á?
Og svo er náttúrlega spurningin um hvað fólki almennt þykir við hæfi. Mér vitanlega fór ekki fram nein könnun á viðhorfum foreldra nemenda Snorra til þessarar stuttu bloggfærslu hans. Það mætti samt halda því fram að þeir væru aðalhagsmunagæslumennirnir í þessu máli.
„ Líklegt hefði verið forvitnilegra að kæra fyrir brot á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.“
Ég hafði nú ekki pælt í því sjálfur. Það er nokkuð áhugaverður punktur. Hver ætlar að taka að sér að láta á það reyna? 😉
Ég hef nú reyndar heyrt að nemendur Snorra hafi gert sér að leik að leiða umræður að stórbrotnum hugmyndum hans um himnaríki og helvíti.
Til að fá smá krydd í tilveruna.
Vantrúarmenn hafa varið Snorra, er það ekki voðalega pc?
> “Vantrúarmenn hafa varið Snorra, er það ekki voðalega pc?”
Er það ekki einmitt andstæðan við “pc”? Svo hafa vantrúarmenn haft mismunandi skoðanir á þessu Snorra-máli, eins og mörgum öðrum.
Fyrir nokkrum árum voru áberandi auglýsingar á flettiskiltum í Reykjavík þar sem dauðhræddum ketti var haldið um hálsinn og byssuhlaupi beint að hausnum. Textinn með auglýsingunni var: “Ef þú stillir ekki á FM skýt ég köttinn þinn!” Flestir skildu að þetta var hæðni, en flestum fannst það ósmekklegt. Svona talsmáti er furðu algengur. Fólki finnst að allt megi segja ef það er kaldhæðni. Börn læra það. Eitt af verkefnum kennara er að kenna börnum hvað sé viðeigandi að segj og hvað ekki. Allir eru á móti einelti og stundum þarf að áminna barn: “Svona segir maður ekki”.
Jæja, Harpa mín, nú er ég búinn að fara að uppástungu hennar Rebekku Búadóttur hér að ofan (aths. 15) og sækja um í félaginu Vantrú.
Þeir eru eitthvað seinir til svara, strákarnir (og stelpurnar). Nú er ég búinn að bíða í 2 daga eftir inngöngu. Ætli það þurfi ekki að halda stórráðsfund um umsóknina.
—–
Skúli (aths. 52): Mjög þörf og athyglisverð ábending.
Spennandi! Ég vona að þú hafir skilað inn lista meðmælenda með umsókninni … þú lætur mig vita þegar þú verður orðinn gildur limur í félaginu Vantrú 😉
Ég sótti um inngöngu í Vantrú sumarið 2010 en var hafnað vegna þess að ég var ekki talinn nógu vantrúaður. Það mátti þó endurskoða höfnunina ef ég bætti ráð mitt síðar.
Sæl, Harpa (aths. 54) og Guðbergur (aths. 55):
Ég hef haft þá fyrir rangri sök og var máske fullfljótur á mér að tala um seinkun á svari, því að í dag fékk ég detaljeraðar framhaldsupplýsingar, með beiðni um enn detaljeraðri framhaldsupplýsingum. Samningaviðræður virðast ennþá í gangi.
Mér finnst mjög vel við hæfi að vantrúarfélagar vinni og svari umsóknum á sunnudegi. Það er rétt takt og tone til að tjá andstöðu gegn hinum heilaga hvíldardegi ríkiskirkjunnar. Gangi þér vel að semja hinar detaljeruðu framhaldsupplýsingar (í takt við við beiðnina). Gott að vita að Vantrú hleypir ekki hvaða lassaróna sem er inn í sína strang(van)trú.
Harpa (aths. 57):
Ég hef ef til vill ekki verið nógu nákvæmur seint í gærkvöldi – svarið barst mér ekki á sunnudegi, heldur á laugardegi (sem mun víst vera hvíldardagur gyðinga og aðventista, en ekki ríkiskirkjunnar, sem þú kýst að kalla svo).
Annars ætti ég að vekja athygli á að umræða ekki með öllu ólík þinni hefur farið fram nýlega við blogg Marínó G. Njálssonar annars vegar og Valgarðar Guðjónssonar hins vegar. Á seinni staðnum virðast Vantrúarmenn sammála um að ekki sé bara húmorsleysi fyrir að fara hjá þeim, sem ekki skilja kaldhæðni Egils Óskarssonar Vantrúarsafnaðarleiðtoga, í aftökuummælunum sem þú vitnar til hér að ofan, heldur heimska líka.
Já, ég var búin að taka eftir þessum umræðuhölum, líka hjá Eiríki Jónssyni (hvar kemur einnegin fram að dr. Margrét Eggertsdóttir sé að íhuga að sækja um pólitískt hæli í Danmörku, hún er einmitt að lesa Passíusálmana núna í útvarpinu – Magga er ekki í Vantrú og þ.a.l. sjálfsagt ekki að grínast 🙂 ).
Annars var mér löngu orðið ljóst að þeir sem eru ekki halelújahopparar með Vantrú eru taldi húmorslausir, heimskir og galnir. Og því miður er sá hópur tröllvaxinn miðað við þá sem hafa hinn einu rétta kaldhæðni, hið eina rétta vit og halda hinum einu réttu sönsum. Svo einfalt er það.
Einmitt, Harpa (aths. 59):
Og svo er líka enn einn vinkillinn: Hinir pólitískt réttþenkjandi hafa ekki bara réttinn til að stuða með orðum sínum, heldur ber fólki að stuðast í samræmi við það sem þeir telja rétt, en ekki á annan hátt.
Jæja, Harpa mín (aths. 54):
Þá hef ég því miður, seint og um síðir, fengið höfnun við umsókn minni í félagið Vantrú.
Ástæðan var sögð vera samdóma álit stjórnar og félagsmanna að “líklega byggju þar annarlegar hvatir að baki”.
Ég mótmælti því vitaskuld harðlega, enda tel ég mig geta unnið gegn hindurvitnum af fullum heilindum.
Að öðru leyti var afar margt óljóst hvernig meðferð á umsóknum þar er háttað. Ég átti í nokkrum bréfaskriftum um málið og tíundaði kosti mína sem trúleysingja. Ég áréttaði einnig að ég væri í þjóðkirkjunni af menningarpólitískum ástæðum einvörðungu, en ekki trúarlegum. Rökstuðningur stjórnar Vantrúar fyrir höfnun umsóknarinnar var tilvísun í 6. grein félagsins, með sérstakri skírskotun til að ég myndi ekki “vinna að markmiðum félagsins” eða “hlíta lögum þess”.
Þar með liggur dagljóst fyrir að Vantrú er lokaður félagsskapur (öllu heldur þá klúbbur), sem ekki er fyrir alla trúleysingja. Sjálfur velti ég því fyrir hversu mikil aðkoma “eigenda” félagsins hafi verið við afgreiðslu umsóknar minnar, en þar sem ekkert gagnsæi er í ferlinu, þá er ómögulegt að segja til um það.
Hm … illt er að heyra. Ætli ég gefi ekki algerlega frá mér allar hugmyndir um að senda inn umsókn í Vantrú? Ekki vil ég fá í hausinn að “annarlega hvatir” liggi að baki mögulegri umsókn. Að auki er ég náttúrlega af röngu kyni, upp á metorð innan félagsins Vantrúar að gera, og þess utan í félagsskap sem endar alla sína fundi á bæn! Og bænin byrjar á “Guð gefi ….”
Verðum við ekki að stofna mjööööög öfgasinnað örfélag til að bregðast við þessari hneykslanlegu höfnun? Tillaga að nafni? (Hvað segirðu um “Þrettándi postulinn”?) Og tillögur að inntökuskilyrðum?
Ja, mér finnst alveg sjálfsagt að setja fram ítrustu umsóknarskilyrði, sem sagt: Að enginn fái inngöngu nema hann sé annaðhvort ég eða þú.
Þannig gætum við líka tryggt eignarhald okkar að félaginu til frambúðar.
Svo má líka setja í félagslög að stofnendur hafi 1 atkvæði hvort á félagsfundum, en síðkomendur hafi bara 1/10 úr atkvæði.
Um nafngiftir tjái ég mig ekki að svo stöddu – einhvern tíma stakk ég upp á Vanvan. Eða Vanvantrú? (Hm, ég er þá farinn að tjá mig um nafngiftir …)
Þetta er ágætur vísir að lögum örfélagsins. Við gætum leyft einstaka manni inngöngu, sett t.d. það skilyrði að viðkomandi væri eða hefði verið lyftustjóri, sem myndi sjálfkrafa grisja umsækjendur rækilega og tryggja félagið gegn annarlegu hvötunum. Og uppástunga þín um vægi atkvæða hljómar mjög skynsamlega.
VanVan gæti verið töff heiti á örfélaginu, a.m.k. býður það nafn upp á allskonar skemmtilega lógó-hönnun …
P.s. Vil í lokin geta þess að ég var að endurlesa nokkrar bækur, þ.á.m. Lúin bein. Í þeirri bók er lýst roggnum stelpukrakka með rauðar fléttur sem efast um allt sem hin góða aðalpersóna hefur að segja. Ég sé ekki betur en þarna sé komin lýsing á Ernu Magnúsdóttur ungri (núverandi vantrúarfélaga og knúz-ritstjóra) og verður að segjast eins og er að höfundur bókarinnar hafi sýnt ákveðna framsýni í þessari lýsingu, jafnvel skyggnigáfu 😉
Já, ég ætlaði að fara að segja það; á að hafa mann útundan? En svo varð mér hughægra, Harpa mín er ekki búin að gleyma mér. Helgi virðist hinsvegar forðast mig; þannig fór hann úr fimmtugsammælinu á mikudagin áður en ég kom. Svoddan framkoma skilst nú.
En svo hef ég auðvitað aldrei sagt mig úr þjóðkirkjunni og þar af leiðandi ekki gengið í hana á efri árum eins og þið. Væri ég þá ekki annars flokks limur?
Hvað getur maður (eða kona?) sagt um þessa framkomu Helga í fimmtugsafmæli? Össssss?
Við í örfélaginu sem mögulega heitir VanVan getum sjálfsagt gert undantekningu með síverandi þjóðkirkjulim enda rökstyðji hann umsókn sína ítarlega og vísi í merkishlutverk sömu kirkju í menningararfleifðinni og sé augljóslega ekki að sækja um af annarlegum hvötum. En þú færð auðvitað ekki nema tíundapart úr atkvæði, athugaðu það.
Svo fer þessi umræðuþráður nú að minna á ákveðinn móðgelsisþráð á ákveðnu bloggi … hvar er haldið uppi fámennu (en líklega góðmennu) spjalli. Næsta skref verður að stofna lokað 3 manna spjallborð fyrir félagið. Gæti þetta félag ekki annars heitið Ör?
Heiðraði herra lyftustjóri (aths. 65):
Ég fullvissa yður um að öngvar annarlegar hvatir lágu að baki þess að ég yfirgaf snemma ammlið á mikudæn. Slíkt var einvörðungu gjört til að mávurinn (sub rosa) yrði ekki fyrir rosalegu ónæði.
—-
Harpa (aths. 66):
Mér sýnist þú komin með nafnið á félaginu. Ekki “Ör”, heldur “Öss”, til heiðurs ónefndum biskupsritara. Í ofanálag má benda á tilvist þrifafyrirtækisins “Iss”; við verðum þá þjóðþrifnaðarkompaníið “Öss”. Auk þess er það ágæt íslenskun á enska orðinu “us”.
—-
P.S. Auk þess legg ég til að atkvæðahlutur fyrsta umsækjandans verði hækkaður úr tíundaparti í sjöundapart í heiðursskyni.
—-
P.S.S. Harpa (aths. 64): Ég ráðlegg þér að leita ekki eftir of mikilli dýpt í skáldverkum þessa tiltekna höfundar, hvað þá skyggnigáfu. Mottó hans hefur ætíð verið: “Ekki vanmeta yfirborð hlutanna.” Annars skilst mér að í bígerð sé að útkomi enn ein ritræpan frá téðum höfundi með vorinu. Ef til vill kann lyftustjórinn gerr frá að segja – ég man að hann impraði á henni í öðru fimmtugsafmæli, síðasta sumar. Sagan sú ku víst fjalla um vandann að vera framhaldsskólakennari í “nutiden”.
Gildir að vera fyrrverandi lyftarastjóri? Færa má rök fyrir því að lyftarar séu líka lyftur og því séu lyftarastjórar líka lyftustjórar. Hvaða reglur munu gilda um flutning á spjallborðið?
Guðbergur (aths. 68):
Lyftustjóri, lyftarastjóri, lyftingamaður – ég styð þátttöku allra stétta.
Um flutning á spjallborðið gæti þá gilt eftirfarandi regla: Mönnum skal lyft á spjallborðið með lyftara eða lyftu.
Annars styð ég uppástungur um opið félag, með allt spjall gagnsætt og fyrir opnum tjöldum, en ekki svona undirheima-pukurs-leyndarhyggju sem einkennir kjánalega klúbba eins og Vantrú, Illuminati og frímúrara (úps, þar fór möguleiki minn á að gerast frímúrari!).
—–
P.S. Harpa – um mögulegar reglur (þessa ört vaxandi) örfélags:
Vér lyftustjórinn tilheyrum klúbbi með 8 meðlimum, þar sem formaður klúbbsins hefur 7 atkvæði, en aðrir hafa 1 atkvæði hver. Þannig þarf formaðurinn bara einn meðlim með sér til að ná meirihluta. Þetta er nokkuð sniðugt – en kannski ekki ýkja lýðræðislegt. Kemur í reynd dálítið út sem “upplýst einveldi + 1”.
Hvernig stendur á þessari þráhyggju ykkar gagnvart þessum litla félagskap trúleysingja? :=)
Ætli broskallarnir hafi ekki bara gleymst?
Hér er í bígerð stofnun merkilegs örfélags og menn kenna það við þráhyggju?
Guðbergur: Af minni hálfu má skilyrðið vera lyft* eitthvað en ég hef náttúrlega bara 50% atkvæða – jafnvel 45% – spurning hvað hinir/karlarnir segja.
Harpa mín (aths. 72):
45%? Ég var nú meira svona að hugsa um að þú gætir verið formaður með “næstum því meirihluta” svo að þú þyrftir bara 1 atkvæði til viðbótar til að ná hreinum meirihluta í félaginu, sama hver félagafjöldinn er.
Svo máttu líka fara með “ráðandi eignarhluta”, en þá þurfum við sennilega að fá félagið skráð í Kauphöllinni. 🙂
Til viðbótar þurfum við endilega að fjölga kvenfólki í okkar söfnuði. Í augnablikinu eru hlutföllin samt okkur í hag, þ.e. 25% kvenfólk (mun bara vera 20% hjá “keppinautunum”).
—–
Þór (aths. 70):
Þráhyggja? Við erum bara að skemmta okkur oggolítið, aðallega yfir því að erfiðara sé fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga heldur en fyrir suma, þótt trúlausir séu, að komast í hóp útvalinna í prívatklúbbnum Vantrú. Vonandi hrundi húmorinn ekki í hruninu? 😉
Tja, ég var að (endur)horfa á kvikmyndina Gaukshreiðrið og gat ekki betur séð en að Harpa Hreinsdóttir væri komin þar ljóslifandi í nokkrum Geð-fatlafólunum sem þar bárust fyrir sjónir.
P.S. Harpa, ertu annars ekki bara að feika þessa geðfötlun þína til að þurfa ekki að vinna? Situr væntanlega í staðin og bloggar, etur og horfir á TíVí án þess að þurfa að leggja nokkuð af mörkum til samfélagsins. 😉
Helgi Ingólfsson, “rithöfundur” þú ættir að gæta þín góði!! Þú mátt túlka þetta eins og þú vilt. 😉
Hrundi húmorinn? Ja, það hefur þá ekki verið úr háum söðli að detta. Ég hef aldrei, endurtek, aldrei orðið var við snefil af húmor hjá Vantrúarfólki eða áhangendum þeirra. Þótt hýenurnar hlæji þá er það er það ekki merki um gott skopskyn.
Mig setti orðlausan þegar ég las ummæli “ArNaRs Arnarsonar” (aths. 74 og 75) …
Þetta er, held ég, í fjórða skipti, sem ég fæ hótun frá Vantrúaráhanganda (og það er fyrir utan þöggunartilburði, upplognar sakir og aðrar trakteringar í minn garð). Aldrei fyrr hefur þetta þó verið jafn grímulaus og bulluleg hótun. Mér sýnast slík ofbeldishótandi ummæli orðin svo tíð að full ástæða sé til að taka þeim sem einni birtingarmynd félagsins og áhangenda þess.
En ef til vill er þetta bara rökrétt skref innan félagsins eftir meint kaldhæðin ummæli Egils Óskarssonar, leikskólakennara og formanns Vantrúar, um að taka fólk af lífi.
Athyglisvert er að þessi hótun kemur augljóslega frá fylgismanni Vantrúar, en í því félagi eru m.a. Rebekka Búadóttir, Valgarður Guðjónsson, Reynir Harðarson og Egill Óskarsson.
Aldrei, þegar ég hef orðið fyrir slíkum hótunum eða aðkasti aðila tengdum Vantrú, hef ég orðið var við að aðrir félagsmenn fordæmi háttalagið. Enda mun það varla tíðkast að einn áhangandinn fordæmi gjörðir annars þar. Forvitnilegt verður að sjá hvort öðruvísi hagi til í þetta skipti.
Hver “ArNaR Arnarson” er hef ég ekki hugmynd og býst allt eins við að það sé tilbúið nafn. Mér hefur þó sýnst reynslan vera sú að Vantrúarfólk þekki sína heimamenn, þótt þeir valsi sumir hverjir um nafnlausir úti á netinu. Því býst ég við að einhverjir í því félagi þekki eiganda hótunarinnar, þótt ég geri það ekki. Birtist máske best hér hvaða tilgangi laumuspil Vantrúar þjónar.
Harpa, þú myndir e.t.v. vera svo væn að tékka IP-tölur?
Æi, það það er ekki þess virði að eltast við svona smásálir eins og þessa tilteknu Vantrúarhýenu, Arnar, eða hvað hún heitir. Þetta lið nærist á svona innleggjum og dæmir sig um leið sjálft.
Efast um að hýenan heiti í rauninni Arnar og sé Arnarson og veit ekki hvort Ip-talan, sem vísar á Södra Knoppsgatan nr. 7 eða 9, í Eskilstuna í Svíaríki, er fölsuð eða ekki. Uppgefið netfang er örugglega falsað, nafn á byssutegund hengt við hotmail-adressu, þ.e. soviet1911@hotmail.com
Mér finnst þetta í rauninni ekki svaravert, þetta er eitthvert krakkakvikindi sem hefur ekki einu sinni hugmynd um uppruna Gaukshreiðursins og heldur að myndin lýsi geðspítala (fortíðar) á raunsæjan hátt.
Neibb, viskum ekki fást um húmorslausa vantrúarfélaga heldur halda áfram að tátla hrosshárið okkar og vinna að stofnun félagsins Öss … ég samþykki fúslega tillögu Helga um atkvæðaskiptingu 🙂
Ja, ég er ofurliði borinn, nú sem endranær, og því fegnastur að vera ekki hafður útundan. Því mun ég samþykkja allt sem lagt er til og ævinlega verða sammála síðasta ræðumanni.