Þessi færsla er að sumu leyti framhald af síðustu færslu nema hér er ekki fjallað um hina einu réttu afstöðu og þær einu réttu skoðanir heldur þá umræðuhefð sem hinum einu rétthugsandi finnst rétt og við hæfi.
Umræðuhefð rétthugsandi hverfist um nokkrar reglur. Þeirra mest áberandi er spurningavaðall, langoftast um eitthvert smáatriði eða jafnvel atriði sem kemur umræðuefninu lítið sem ekkert við. Síðan verða þeir rétthugsandi hoppandi vondir ef spurningum þeirra er ekki svarað. Til hægðarauka mætti kalla þetta “Arasyndrómið”, með vísun í hið ágæta kvæði Stefáns Jónssonar (en vísanir í bókmenntir og bókmenntatitla eru mjög móðins þessa dagana eins og allir rétthugsandi vita).
Glæný dæmi um Arasyndrómið eru í frétt DV í dag, Vigdís gagnrýnir öfgafemínista, þar sem spurningaflóðið vellur úr tveimur rétthugsandi femínistum, þ.e. allar ÞÆR SPURNINGAR sem blaðamaður Monitors HEFÐI ÁTT AÐ SPYRJA frú Vigdísi Finnbogadóttur þegar hann tók viðtal við hana og frú Vigdís HEFÐI ÁTT AÐ SVARA:
María Lilja [Þrastardóttir] segist gjarnan vilja fá að vita hverjar öfgarnar séu sem blaðamaður Monitor eigi við. „Eru það myndaalbúmin hennar Hildar Lilliendahl eða pistlarnir mínir og Önnu Bentínu? Ég skil ekki þetta hugtak; öfgafemínisti. Hvernig er hægt að aðhyllast öfgajafnrétti? Það er ekki til,“ segir María Lilja og bætir við að sér hefði fundið sniðugra að spyrja Vigdísi út í öfgakarlrembur.
[- – -]
DV leitaði einnig eftir viðbrögðum hjá Hildi Lilliendahl sem sagði umrædda grein bera vott um slappa blaðamennsku. „Hvers vegna var hún ekki spurð hvað hún ætti við? Það er alltaf verið að tala um öfgar í málflutningi og aðferðum femínista en svo lendir fólk í vandræðum með að benda á þessar öfgar. Vigdís kallar sjálfa sig karlréttindakonu. Gott og vel. En hvað á hún við? Hvaða áhyggjur hefur hún af réttindum karla? Hvar finnst henni halla á, hvað heldur hún að verði tekið frá þeim annað en forréttindi?“
Araheilkennið birtist samt miklu oftar á umræðuþráðum. Sem dæmi bendi ég á umræðuþráð við pistilinn “Ósýnilegu konurnar” á vefsvæði knuz.is eða umræðuþráð við eigin færslu, Úrklippublogg Hildar Lilliendahl. Sjálfsagt er hægur vandi að finna sambærileg dæmi á vef Vantrúar eða umræðu við fréttir DV eða Eyjunnar … áhugamönnum um Araheilkennið er bent að leita uppi fréttir sem fjalla um feminísma, trú, virkjanaframkvæmdir eða stóriðju, “ástandið í þjóðfélaginu í dag” eða einhver álíka “heit” rétttrúnaðarmálefni. Áreiðanlega þarf ekki að leita langt yfir skammt á Facebook til að finna slík dæmi. Yfirleitt ná Ararnir að þráspyrja í lokin, “Ætlarðu ekki að svara þessu?” eða staglast á að meintur andstæðingur hafi ekki svarað Araspurningum þeirra, “Merkilegt nokk þá hefurðu ekki svarað þessu”.
Önnur atriði sem eru áberandi í “umræðu” hinna rétthugsandi eru aðallega:
* að brigsla meintum andstæðingi um að vita ekkert í sinn haus (vera einfaldur, heimskur eða eitthvað svoleiðis, svo taka við brigsl um ýmsa geðsjúkdóma eða geðraskanir þegar hinum rétthugsandi er orðið hæfilega heitt í hamsi);
* að brigsla meintum andstæðingi um að vera fákunnandi á einhverju sviði, sem oft kemur umræðunni ekkert við (t.d. að viðkomandi kunni nú ekkert á tölvur … ég minnist þó ekki þess að hafa séð neinum borið á brýn að kunna ekki á þvottavél eða eldavél eða grunnatriði í bifvélavirkjun en það kemur eflaust einhvern tíma í þróun þessarar rétthugsandi umræðuhefðar);
* að brigsla meintum andstæðingi um að þykjast vera heimskari en hann er (t.d. með klisjunum “þú sem ert kennari, hvernig geturðu haldið þessu fram?” … í einfaldaðri mynd er þetta “þú sem ert menntuð manneskja, hvernig geturðu haldið þessu fram?”. Þetta er afbrigði af nöldri fullorðinna við krakka, “þú sem er orðin(n) svo stór ættir að …”);
* að brigsla meintum andstæðingi um að “vera í rosalegri vörn” eða “vera rosalega hörundsár” og gefa þannig til kynna að viðkomandi sé í algerri afneitun sem liti allan hans málflutning;
* að gera lítið úr rökræðuhæfileikum meints andstæðings með því að auglýsa eigin meinta rökræðusnilld. Þetta sést aðallega á því að einhver illa haldinn af Araheilkenninu fer að flagga klisjum á borð við “strámaður” eða “ad hominem rök”. Oft sést að Arinn hefur ekki hugmynd um hvað þessi hugtök þýða en hefur einhvers staðar pikkað þau upp og finnst flott að strá um sig með þessu “fína” orðalagi.
Eflaust má greina fleiri atriði sem lita umræðuhefð þeirra rétthugsandi. Skástu viðbrögðin við þessari hefð er að reyna ekki að svara því það kallar bara á meira á spurningaflóð og stjörnumerktu brigslin sem ég taldi upp hér að ofan.
Satt best að segja hef ég alltaf kunnað miklu betur að meta Guttavísur en Aravísur 🙂 En það er náttúrlega ekki mjög pólitískt réttþenkjandi geri ég mér grein fyrir.
Sæl Harpa, ég hef aðeins velt þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að hér eru undantekningarlítið, ekki stundaðar umræður. Þetta sem við verðum vitni að á blogginu, á síðum blaðanna og síðast en ekki síst í ræðustól Alþingis eru kappræður en ekki umræður. Og um þær gildir það eitt að yfirgnæfa andstæðinginn með orðavaðli og eiga alltaf síðasta orðið. Að spyrja án þess að ætlast til svara og hlusta ekki einu sinni á svörin og brigsla síðan andstæðingnum um rökleysur án þess að rökstyðja það er einkenni á þessum kappræðum. Óttalega þreytandi vegna þess að fólk ræðir sig aldrei að niðurstöðu heldur sekkur sífellt dýpra í skotgrafirnar. Feministakappræðurnar eru lýsandi dæmi um þetta. En þeim er alveg sama því þær ætla að beita valdi til að láta okkur kyngja sínum viðhorfum. Þetta byrjaði með kynjafræðinni en hefur þróast út í harðan feminisma þar sem gert er út á fórnarlambskenninguna. Að karlinn sé drottnarinn en konan sé fórnarlambið. Ekki nema von að samkynhneigð sé vaxandi vandamál. Enda ekkert annað svar við þessu ofstæki.. 🙂
Mér sýnist ég amk. verða að kannast við síðustu tvö heilkennin í eigin fari. Stundum finnst mér rétt að benda fólki á að það sé ekki aðeins að gera mér upp skoðanir, heldur hreinlega að ráðast á strámann – og þegar ég verð alveg gapandi yfir vilja viðmælenda til að túlka hlutina á einn veg en ekki annan, á ég til að telja viðkomandi vera í vörn.
Hvar fæ ég lækningu meina minna?
Er alveg sammála þér, Jóhannes. Heldurðu að þetta sé mögulega eitthvað skylt Morfís-töktum? Áhugavert viðhorf að tengja samkynhneigð við öfafemínista 😉
Kristinn: Tja … þú læknast ábyggilega ef þú verður duglegur að læra í heimspekinni 🙂
Jóhannes Laxdal (aths. 1)
Ég hló upphátt þegar ég las eftirfarandi lokaorð þín: “Ekki nema von að samkynhneigð sé vaxandi vandamál. Enda ekkert annað svar við þessu ofstæki.”
En eru þetta ekki stórhættuleg orð í hinu þrúgandi og alltumvefjandi andrúmslofti pólitískrar rétthugsunar? 😉
Ég tók sérstaklega eftir þessari tilvitnun í Maríu Lilju, en þar er hún nánast í mótsögn við sjálfa sig. Hefði þá ekki alveg eins mátt spyrja Vigdísi út í kvenrembur, eins og kvenrembur.
Þar sem minnst er á Morfís, þá var það alla vega þannig, þegar ég nennti að fylgjast með því, sem er langt síðan, að hæsta skorið var raunar afar lágt, þ.e. það lið sem vann, var raunar afar lélegt. Því ræðurnar eru metnar út frá ýmsum hliðum, eins sannfæringarkrafti og rökfestu, en liðin gerðu meira út á hótfyndni og því sem því fannst fyndið, og þeirra áhorfendur, jafnaldrar þeirra.
Einhvern tíma kepptu Morfís ræðusnillingar við e-a þingmenn og grúttöpuðu, sem von er.
Ég á reyndar von á að liðin séu betri í dag.