Langir eru dagar og enn lengri nætur …

Þessi færsla fjallar um bið. Ég reikna með að flestir þunglyndissjúklingar kannist vel við hina endalausu bið … bið eftir að lyfin fari að virka; bið eftir að þunglyndiskastið láti undan síga; bið eftir að komast inn á geðdeild; bið eftir … hverju?

   

BiðÞunglyndislyf hafa m.a. þann ókost að virknin kemur ekki fram fyrr en tveimur-þremur vikum eftir að byrjað er að taka þau. Svo kemur  stundum í ljós að lyfið virkar ekki og þá þarf að byrja upp á nýtt, byrja að taka nýtt lyf og bíða, milli vonar og ótta, eftir að það virki (eða virki ekki). Allt eins getur verið að lyfið hafi slæmar aukaverkanir og þá hefjast prófanir á öðrum  lyfjum sem gætu kannski slegið á þær, mögulega með eigin aukaverkunum …

Það segir sig sjálft að þegar maður er fárveikur, hver mínúta er kvöl, hæfileikarnir hafa plokkast af manni hver af öðrum og jafnvel er svo komið að maður á erfitt með gang og hreyfingar, mál, getur ekki talað í síma því maður getur í fyrsta lagið ekki valið númerið og í öðru lagi ekki talað, einbeitingarskorturinn er svo alger að lestur, sjónvarpsgláp, jafnvel prjónaskapur er óhugsandi …. þá er biðin óþolandi og líðanin óþolandi: í merkingunni Ó-ÞOLANDI. Samt er ekki um annan kost að velja en þreyja þessa bið.

Í svona ástandi er sjúklingur eins og ég tilbúinn að prófa hvað sem er. Enda vofir sjálfsvígshættan alltaf yfir: Á stundum hefur mér fundist að ég höndlaði ekki eina mínútu í viðbót í þessari kvöl og tilhugsunin um að stimpla sig út úr þessu lífi verður æ meir lokkandi: Eiginlega þráir maður fyrst og fremst að þetta taki enda og er meir fús til að ýta á slökkvarann lífsins.

Mér er, eins og mörgum þunglyndissjúklingum, fullljóst að þunglyndi er lífshættulegur sjúkdómur. Málið væri einfalt ef maður væri einn í heiminum. En í kringum mig eru ástvinir og það er sjálfsögð skylda mín að biðja um innlögn á geðdeild þegar svo er komið að ég treysti mér ekki orðið til að standa gegn sjálfsvígshugsunum. Það gerist alltaf öðru hvoru þegar þrekið er nánast uppurið í slæmu þunglyndiskasti. Og ævinlega hefur staðið til að prófa eitthvað nýtt og bíða svo eftir því að það virki (eða virki ekki).

Ég er heppin að hafa lækni sem hefur getað komið því til leiðar að ég gæti lagst inn þegar ég hef þurft á því að halda. Biðin eftir innlögn hefur samt stundum verið mjög erfið. Mig minnir að oft hafi ég beðið heima … verið var að sjá til hvort mér skánaði ekki eitthvað eða vega og meta hvort ég þyrfti virkilega á geðdeildarvist að halda enda eru plássin fá og mikið veikir sjúklingar margir.

Allar geðdeildardvalir hafa svo snúist mjög um að prófa eitthvað annað, ný lyf, nýja lyfjasamsetningu, raflost … og bíða eftir að mér færi að líða skár, að lyfin eða lostin færu að virka, að bíða og bíða …

Biðin langaÞegar ég lít núna um öxl inn í þokuna sem umlykur síðustu ár í lífi mínu finnst mér ósjálfrátt eins og líf mitt hafi verið meira og minna „á hóld“. Hvers konar líf er það? Hvers konar líf er það að bíða (og vonast) endalaust eftir að „lausnin“ finnist?

Það er talsvert síðan ég missti trú á að ég hlyti algera bót minna meina. En alveg þar til nýverið hef ég samt ríghaldið í trúna á að eitthvað úr hatti geðlæknisfræðanna gæti nú samt linað sjúkdóminn, gert hann bærilegri, grynnkað dýfurnar oní Helvítisgjána o.s.fr. Það er algerlega nýtilkomið að ég velti fyrir mér mögulegum skaða sem lyfin eða lostin kunna að hafa valdið, líka hvort eitthvað af þeim skaða sé óafturkræfar breytingar. Á hinn bóginn sé ég ekki ástæðu til að dvelja mikið við svoleiðis vangaveltur, það þýðir ekki að garfa í „hvað ef“ og „hvað mundi hafa gerst ef“ eða yfirhöfuð að skoða líf sitt í viðtengingarhætti og þáskildagatíð.

Þegar ég gerði skipulegt yfirlit yfir eigin sjúkrasögu fyrir nokkru reyndi ég að átta mig á hvort væri eitthvert samband milli bata og lyfjagjafar eða raflosta. Við fyrstu sýn virðist svo ekki vera. Einhver slembilukka sýnir stundum samhengi en það virðist tilviljunarkennt eins og slembilukkan er. Ég sæi þetta væntanlega betur ef ég setti þetta upp grafískt. En á móti kemur að það sem virðist bati kann að hafa orðið sjálfkrafa þótt hann hitti á sama tíma og einhver ný lyf í það og það skiptið. Eða raflostmeðferð (sú fyrri var talin hafa virkað, sú síðari ekki).

Ég hef aðeins velt því fyrir mér hvort eða hvernig geðdeildardvöl gæti nýst mér ef ég held mig við þá ákvörðun að hætta að taka lyf, á þeim forsendum að lyf hafi hingað til langoftast ekki bætt neitt og mögulega orðið til hins verra á stundum. Geðdeildarvist gæti áfram þjónað þeim tilgangi að passa mig fyrir sjálfri mér þegar ég sé ekki út úr sortanum og lífið er engan veginn þess virði að lifa því. Geðlæknar veita auðvitað nokkra samtalsmeðferð og  líklega getur maður fengið að tala við sálfræðing á geðdeild. En biðinni miklu, biðinni eftir að lyfin fari að virka, biðinni eftir að nýjar tilraunir skili árangri, biðinni eftir einhverri lausn úr pilluglasi eða með rafmagnsgræjum held ég að sé sjálfhætt núna.  Sú langa bið hefur ekki skilað neinu þegar upp er staðið.

Spurningin er: Hvað geri ég næst þegar „beigurinn og geigurinn gríp’um hjartarætur“? Sest í sölvafjöru og græt?

2 Thoughts on “Langir eru dagar og enn lengri nætur …

  1. Tilvísun dagsins á Facebook-síðu Innihald.is á mjög vel við þig (hafði þig raunar í huga þegar ég valdi hana):

    Oft þarf meira hugrekki til að skipta um skoðun en halda fast við hana. – Willy Brandt.

    Það liggur hugrekki að baki þessum orðum:

    “En biðinni miklu, biðinni eftir að lyfin fari að virka, biðinni eftir að nýjar tilraunir skili árangri, biðinni eftir einhverri lausn úr pilluglasi eða með rafmagnsgræjum held ég að sé sjálfhætt núna. Sú langa bið hefur ekki skilað neinu þegar upp er staðið”.

    Ég óska þér alls hins besta.

  2. Takk Steindór minn og sömuleiðis 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation