Allir ganga í gegnum sortéringar- og söfnunarskeiðið, líklega einhvern tíma í barnæsku en sumir vaxa aldrei upp úr þessari iðju. Ég man t.d. eftir nokkrum servéttusöfnunarskeiðum; þegar lífið snérist um að safna og flokka servéttur í seríur og sett … og býtta við aðra til að fullkomna seríurnar og settin og fylla í flokkana “fermingarservéttur”, “flugvélaservéttur” o.s.fr. … en var örugglega vaxin uppúr þessu fyrir ellefu ára aldur. Eftir á séð held ég að servéttusöfnun og flokkun sé nákvæmlega einskis virði nema sem skemmtilegt dedú í sjálfri sér.
En margir trúa mjög á gagnsemi sortéringa, á ofmælt gagnið af því að setja allan andskotann í einhvers konar kerfi og finna stað. Í mínu fagi má nefna tilraun til að hanna einhvers konar alheimsmálfræði (Chomsky) eða hið eina rétta kerfi til að greina bókmenntaverk (nýrýni) eða hina einu réttu aðferð til að skrifa ritgerð (byggða á engilsaxneskum hefðum í ritun). Nú held ég að Chomsky hafi aldrei haldið því fram að hægt væri að smætta almennt málhæfi ofan í hríslumyndarfræði. Bókmenntafræðinga langaði suma mjög til að smætta bókmenntaverk ofan í föflu, fléttu, innri og ytri tíma o.s.fr. en fyrr eða síðar rann upp fyrir flestum að sköpunargáfa og gildi góðra bókmennta verður ekki mæld með svona flokkunarkerfi. Hugmyndir sem móðurmálskennarar sumir göptu við á sínum tíma, sem náðu kannski hámarki í þeirri staðhæfingu að í rauninni væri óþarfi að láta nemendur skrifa ritgerðir því aðalatriðið væri að þeir skiluðu nógu ítarlegri áætlun um óskrifaða ritgerð, hafa vonandi dáið drottni sínum.
Sortéringafræðin lifa samt góðu lífi í sumum fræðum. Líklega þykir einhverjum sem þau séu til marks um vísindalega hugsun. En í rauninni eru sortéringafræði fyrst og fremst einföld skólaspeki (enda rosalega þægilegt að prófa úr svoleiðis á krossaprófum). Að telja upp fimm ullabjökk heimsins á fingrum sér er ekki ósvipað og að telja upp fimm tegundir fornra íslenskra bókmennta, sjö hljóðskiptaraðir sterkra sagna í íslensku, þrjú grunnmarkmið (flokkana þekkingu, leikni og hæfni) sem eiga að nást alveg jafnt í íþróttaáföngum og stærðfræði skv. nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla … svo ekki sé minnst á æ viðameira flokkunarkerfi í krankleik á geði. Öll svona sortéring gefur ólíkum fræðum vísindalegt yfirbragð. Þótt augljóst sé að upptalning á hljóðskiptaröðum í sterkum íslenskum sögnum hjálpar fólki ekki í baun í að tjá sig lipurt og ljóst á íslensku, að íslenskur bókmenntaarfur verður varla smættaður oní fimm velaðgreindar sortir, að hæfni í leikfimi hlýtur að vera annars konar en hæfni í stærðfræði … og að flokkun þunglyndis í skilgreinda og mælanlega undirflokka færir menn ekki nær skilningi á því hvernig þunglyndum sjúklingi líður. Einhvers staðar las ég að sá sem lýsti líðan í þunglyndi hefði áreiðanlega ekki upplifað þunglyndi sjálfur; það er nefnilega ólýsanlegur hryllingur.
Til að ljúka þessari stuttu pælingu um sortéringaráráttunni er tilvitnun í gamlan sortéringartexta. Nákvæm flokkunin gefur honum óneitanlega vísindalegt og fræðilegt yfirbragð og er gott að hafa fullkomlega á hreinu hvernig skapa má menn á fjóra ólíka vegu, ekki síður en þekkja sundur væga, meðalþunga og djúpa geðlægð, þunglyndi sem geðhvarfasýki II, ódæmigert þunglyndi, þunglyndi frá óyndi o.s.fr.:
[Um holdgan Drottins]
MAGISTER: Fjórum háttum skapaði Guð menn. Einum hætti fyrir utan föður og móður sem Adam. Að öðrum hætti af karlmanni einum sem Evu. Þriðja hætti frá karlmanni og konu sem altítt er. Fjórða hætti frá meyju einni saman sem Kristur var borinn.
(Elucidarius e. Honorius Agustodunensis, líklega saminn um 1100, elsta norræna handritið talið frá síðari hluta 12. aldar.)
Ég hef svosem reynt að sortera eitt og annað.
Frá Chomsky hef ég flokkað eftirfarandi í úppáhaldgrúbbu:
“Science talks about very simple things, and asks hard questions about them. As soon as things become too complex, science can’t deal with them. The reason why physics can achieve such depth is that it restricts itself to extremely simple things, abstracted from the complexity of the world. As soon as an atom gets too complicated, maybe helium, they hand it over to chemists. When problems become too complicated for chemists, they hand it over to biologists. Biologists often hand it over to the sociologists, and they hand it over to the historians, and so on. But it’s a complicated matter: Science studies what’s at the edge of understanding, and what’s at the edge of understanding is usually fairly simple. And it rarely reaches human affairs. Human affairs are way too complicated. In fact even understanding insects is an extremely complicated problem in the sciences. So the actual sciences tell us virtually nothing about human affairs.”
🙂
Aha … hann Chomsky karlinn er ekki svo galinn … a.m.k. útskýrir hann prýðilega vinsældir eðlisfræði 🙂
Þessi hugmynd um að vísindi fáist fyrst og fremst við einföld atriði á jaðri mannlegrar þekkingar en skeyti ekki um margbreytilegt mannlífið (eða lífið sjálft – skordýr innifalin) rímar prýðilega við mína þanka undanfarið. En sem betur fer er fólk yfirleitt ekki strangvísindalega sinnað … nema kannski hörðustu vantrúarfélagar …
Kærar þakkir fyrir að gauka að mér þessari tilvitnun, Jóhann.