Eftir að hafa verið laus við Rivotril í þrjár vikur byrjaði ég að trappa niður Imovane (zopiklon), þ.e. svefnlyfið sem ég hef tekið að staðaldri. Þá tók ekki betra við! Ég er búin að taka eina töflu (7,5 mg) í nokkra mánuði og hélt það yrði lítið mál að helminga skammtinn, hef oft gert það áður en þá ævinlega verið að taka Rivotril einnig. Á öðrum degi varð ég helvíti veik; fannst eins og höfuðið væri í skrúfstykki, ekkert blóð í höfðinu á mér, gat hvorki legið, setið né staðið o.s.fr. Og að sjálfsögðu fylltist ég kvíða yfir að vera að deyja af því mér leið eins og ég væri að deyja og tilhugsunin gerði líðanina enn skelfilegri svo mér fannst ég örugglega vera að deyja 😉 Þegar fæturnir voru farnir að skjálfa stjórnlaust undir mér gafst ég upp og tók hálfa Rivotril. Þar með hef ég öðlast reynsluna af því að falla, til þessa hefur fallreynsla mín einskorðast við að gefast upp á að hætta að reykja … þrisvar.
Nú, ég hafði samband við minn góða lækni og bað um ráð. Svo byrjaði ég upp á nýtt að hætta á Imovane með hægari tröppun og það gengur prýðilega eða þannig; ég þarf helst að vera á spani allan daginn og á bágt með að vera kjur en að öðru leyti er þetta svipað og Rivotril-tröppurnar. Skoðaði nokkrar greinar um z-lyfin (zopiklon, Stillnocht o.fl.) og sá að nútildags eru þau talin síst skárri en benzólyf, í Ashton-benzódrínlyfjafræðum er því meira að segja haldið fram að z-lyf séu eitraðri en benzólyf. Líklega voru það reginmistök að setja upp áætlun um að hætta á Rivotrili og taka samtímis svefnlyf – en þau mistök eru gerð og ekki aftur snúið með þau – nú spila ég úr þessu eftir bestu getu og skv. skynsamlegum ráðleggingum.
Svo er ég búin að fatta tvennt: Annars vegar að Voltaren-hlaup slær pínulítið á vöðvabólguna sem fylgir þessari lyfjatröppun og hins vegar að ég brenni eins og maraþonhlaupari og þarf að passa að borða á tveggja tíma fresti, annars lendi ég í blóðsykurfalli. Vonandi hægir þetta skynsamlega átlag líka á kílóatapinu sem fylgir lyfjahættingunum.
– – –
Ég er að lesa yfir eigið blogg frá janúar 2005 að telja, til að átta mig á gangi sjúkdómsins og hvort læknisráð hafi eitthvað virkað. Þegar ég hóf lesturinn ímyndaði ég mér að ég gæti lesið þetta eins og hverja aðra heimildaskáldsögu eða heimild; af því ég man nákvæmlega ekkert frá því á miðju ári 2004 til síðla árs 2007 og minningar síðan þá eru mjög brotakenndar taldi ég að ég gæti einhvern veginn nálgast þetta efni af fjarlægð, eins og ég væri að lesa um ævi ókunnrar manneskju. En því er ekki að heilsa. Mér finnst mjög erfitt að lesa hugsanir mínar og um líf mitt. Kannski er erfiðast af öllu að sjá vaxandi örvæntinguna sem fylgir síauknu þunglyndinu og hvernig ég og fjölskylda mín höfum haldið dauðahaldi í vonina, vonina um að nú myndi þessi eða hinn lyfjakokteillinn virka, vonina um að raflostmeðferðin fyrri virkaði o.s.fr. Þessar miklu vonir sem bregðast æ ofan í æ – þessi leit að hálmstráum, bara einu oggolitlu hálmstrái sem fyndist ef nógu vel væri að gætt – finnst mér hræðilega sorgleg. Ég held mér myndi finnast þetta jafn sorgleg lesning þótt ég vissi ekki að textinn fjallaði um mig.
Þegar í lestrinum var komið haust 2006 varð ég að leggja frá mér bloggið og taka mér nokkurra daga pásu. Um vorið 2006 fór ég í raflostameðferð og ég las færslu eftir færslu þar sem kom fram að fjölskyldan taldi að mér hefði batnað töluvert, að það væri allt annað upplit á mér, en í færslunum kemur fram samt vel fram vaxandi örvænting yfir tóminu sem ég upplifi; gleymi öllu jafnharðan, kann ekki á tölvuforrit, get ekki lesið, heimilisbankinn lokar hvað eftir annað aðgangi mínum og ég skrifa niður lykilorð en gleymi jafnharðan hvar ég hef lagt frá mér skrifuð minnisatriði … Yfir sumarið rennur upp fyrir mér að ég hef gleymt nokkrum vikum, svo nokkrum mánuðum og þar sem ég hætti að lesa er mér orðið ljóst að meir en ár hefur strokast gersamlega út úr lífi mínu: Ég á enga minningu ár aftur í tímann. Seinna meir á ég eftir að átta mig á því að blakkátið nær tvö og hálft ár aftur í tímann en ég gafst sem sagt upp á að lesa og persónan sem ég er að lesa um (ég sjálf) hefur ekki enn áttað sig á því. Og ekki heldur áttað sig á því að þessar minningar koma aldrei aftur.
—
Fyrir utan fráhvörf og sársaukafulla fyrsta spors vinnu segi ég allt fínt og líður með skásta móti, svona miðað við allt og allt. Sólin: Hún vermir, hún skín og hýrt gleður mann, eins og segir í kvæðinu. Og Langisandur hefur sjaldan verið eins langur, eins gylltur og eins þakinn börnum að leik og síðustu daga. Þetta er ekki veður til að blogga 🙂