Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn

Hvað sem fólki kann að finnast um félagið Vantrú verða forkólfar þess seint kallaðir ístöðulausir: Hafi þeir tekið eitthvað í sig hanga þeir á sinni sannfæringu eins og hundar á roði. Mættu mörg trúfélag öfunda félagið Vantrú af heitri sannfæringu og píslarvættisþrá félagsmanna!
 

Eins og rakið var í firnalöngum færsluflokki fyrir hálfu ári síðan kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir að hafa fjallað öðruvísi um félagið en því hugnaðist á nokkrum glærum í kúrsi sem hann kenndi í Háskóla Íslands á haustmisseri 2009. Þáverandi formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, þríkærði Bjarna Randver í nafni Vantrúar;  til háskólarektors, guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og siðanefndar HÍ. Upphófst mikill darraðardans sem lauk með yfirlýsingu háskólarektors um að Bjarni Randver hefði aldrei brotið siðareglur Háskóla Íslands. (Yfirlit yfir feril málsins  má sjá í færslunni Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, skrifuð 22. febrúar 2012.)

27. maí  2011 lagði Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefjar Vantrúar, fram kæru hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, þar sem Bjarni Randver Sigurvinsson er kærður fyrir brot á fjarskiptalögum, nánar tiltekið fyrir innbrot á innri vef Vantrúar og fyrir að hafa gramsað þar í læstum hirslum þeirra. (Félögum í Vantrú var raunar fullkunnugt um hvernig Bjarni Randver fékk afrit af lokuðu spjallborði félagsins en kusu eigi að síður að líta fram hjá eigin vitneskju og fylgja eigin sannfæringu í staðinn, nefnilega að ná sér niðri á Bjarna Randveri.)  9. febrúar 2012 mætti Bjarni Randver í skýrslutöku hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. 26. júlí 2012 úrskurðaði embætti lögreglustjórans í Reykjavík að við rannsókn málsins hafi ekkert komið fram sem sé líklegt til að sakfella Bjarna Randver og málið var fellt niður.

Vantrú ásakar Bjarna Randver Sigurvinsson18. júní 2012 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi Egils Óskarssonar, formanns félagsins Vantrúar.  Þar segir Egill að af því óháð rannsóknarnefnd Háskólaráðs og rektor hafi harmað að ekki hafi fengist efnisleg niðurstaða í siðanefndarmáli 1/2010 og að Vantrú telji að ekki hafi verið staðið við gefin loforð sem voru forsenda þess að málið yrði dregið til baka, þá hafi félagið Vantrú ákveðið að senda upphaflegu kæruna óbreytta til siðanefndar HÍ til efnislegra umfjöllunar og úrskurðar. Ég veit ekki hvaða “gefnu loforð” Vantrú hafa verið svikin en giska á að Egill Óskarsson sé að vísa til umræðu um mögulega aðkomu félagsins Vantrúar að riti um trúarbragðafræðileg efni sem Hugvísindasvið stæði að. Forseti Hugvísindasviðs léði ekki máls á framkvæmdinni. Þar sem aldrei hefur verið upplýst hverjir nákvæmlega sátu fundinn sem rektor hélt með forsvarsmönnum Vantrúar í apríllok 2011 er ómögulegt að segja hvað þar fór fram, t.d. hvort félaginu Vantrú var lofað einu eða neinu gegn því að félagið drægi kæru sína til siðanefndar HÍ til baka.

Vissulega barst nýja (og fimmta) kæra Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni á óheppilegum tíma því í Háskóla Íslands taka menn sér sumarleyfi. Skv. upplýsingum á vef HÍ (sem voru uppfærðar 23. ágúst sl.) hefur siðanefnd HÍ ekki verið fullskipuð síðan snemma í mars á þessu ári þegar fulltrúi Félags háskólakennara, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sagði sig úr henni. Þeir tveir prófessorar á eftirlaunum sem í henni sitja nú og báðir höndluðu upphaflegu kæru Vantrúar á sínum tíma, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, hafa líklega tekið sér umþóttunartíma og svo lýstu þeir yfir vanhæfi til að fjalla um nýju útgáfuna á gömlu kærunni Vantrúar. Í þeirra stað skipaði rektor HÍ þau  Björgu Thorarensen prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði sem jafnframt er formaður og  Hafliða Pétur Gíslason prófessor í Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Þriðji nefndarmaðurinn er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur, tilnefndur af Félagi háskólakennara. Svo nú er til fullskipuð siðanefnd í þessu máli.

Þótt Egill Óskarsson leikskólakennari og formaður félagsins Vantrúar hafi skilað inn fimmtu kærunni á hendur Bjarna Randver Sigurvinssyni í júní og HÍ staðfest móttöku hennar þann 18. júní var Bjarna Randveri ekki tilkynnt að hann hefði verið kærður einn ganginn enn fyrr en í fyrradag, fimmtudaginn 30. ágúst 2012. Raunar fékk hann ekki bréfið með þeim upplýsingum í hendurnar fyrr en í gær, föstudaginn 31. ágúst.

Siðanefndin sérstaka í þessu máli heldur sinn fyrsta fund þann 6. september og mun þá kanna málsgrundvöll skv. 4. gr. starfsreglna siðanefndar HÍ. Það þýðir væntanlega að þessi siðanefnd, ólíkt forverum sínum, byrjar á að skera úr um hvort kæra Vantrúar snerti brot á siðareglum Háskóla Íslands.

   
Í lokin er hér listi yfir kærur félagsins Vantrúar gegn stundarkennaranum Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Hann er líklega kærðastur kennara í HÍ frá upphafi!

  • Kæra til Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar 4. febrúar 2010. Hún var afgreidd 9. mars 2010 af deildarforseta sem lýsti yfir trausti á Bjarna Randveri Sigurvinssyni og hans kennslu.
  • Kæra til siðanefndar HÍ 4. febrúar 2010. Dregin til baka 28. apríl 2011.
  • Kæra til rektors HÍ 4. febrúar 2010. Má ætla að rektor hafi brugðist við henni með yfirlýsingu sem hún sendi til allra starfsmanna háskólans 15. febrúar 2012 þar sem segir „að ekkert hefur komið fram í meðferð málsins sem bendir til þess að viðkomandi stundakennari hafi gerst brotlegur í starfi“.
  • Kæra til lögreglu 27. maí 2011. Felld niður 26. júlí 2012.
  • Kæra til siðanefndar HÍ 18. júní 2012.

39 Thoughts on “Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn

  1. Þorvaldur lyftustjóri on September 2, 2012 at 17:25 said:

    Eru vantrúarmenn alveg uppgefnir á þér, Harpa mín? Ekki múkk?

  2. Svei mér ef ég held ekki að meira að segja Þórður Ingvarsson hafi yfirgefið mig … (snökt) … eða þannig … Kannski útskúfar Vantrú fólki eins og Vottarnir?

  3. Birgir Baldursson on September 3, 2012 at 02:44 said:

    Rangfærslur á rangfærslur ofan. En það er kannski við slíku að búast þegar einlægt hatur stjórnar skrifum manna.

  4. Minn kæri samsveitungur Birgir Baldursson: Viltu vera svo vænn að benda á rangfærslurnar í þessari færslu?

    Brigslum um hatur hirði ég ekki um að svara 😉

  5. Helgi Ingólfsson on September 3, 2012 at 09:38 said:

    Jæja, Harpa mín, er þá þessi klaksári og klöguglaði klúbbur kominn á stúfana enn á ný? Svo virðist sem innkoma þriggja kvenmanna í stjórn Vantrúar hafi ekki síður gert klúbbinn vígreifan.

    Fróðlegt væri að vita hvort nýja kæran sé samhljóða fyrri kærum Vantrúar, hvort eingöngu sé kært til siðanefndar í þetta skiptið og hvaða „gefnu loforð“ eigi að hafa verið svikin.

    Nú fer að verða virkilega spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls. Ef svo skyldi fara að siðanefndin fyndi enga sök hjá Bjarna Randveri, gæti hann þá ekki mögulega farið í mál við Vantrú fyrir mannorðsárásir og einelti? Væru það þá formenn og meðlimir núverandi og fyrrverandi stjórnar, sem teldust ábyrgir, þar sem um lögformlegt félag að ræða?

    Er það ekki rétt munað hjá mér: Var það ekki Egill Óskarsson, leikskólakennari og formaður Vantrúar, sem lét orð falla einhvern veginn í þá veru síðastliðið vor að drepa ætti þá sem lesið hefðu Passíusálma í útvarpi? Þetta átti víst að heita hótfyndni og víst fannst sumum Vantrúarseggjum þetta fyndið. En ekki þeim sem lesið höfðu Passíusálma í útvarpi. Og svo voru sumir sem bentu á að líklega væri óviðeigandi að leikskólakennari hefði mannsdráp í flimtingum.

    Ef við göngum út frá því að núverandi stjórn Vantrúar standi að baki hinni nýju kæru, þá má minna á að hinn karlmaðurinn í stjórninni, Þórður Ingvarsson, er orðinn þjóðþekktur af heldur óviðurkvæmilegum ummælum sínum um herra Sigurbjörn heitin Einarsson, fyrrum biskup. Einhverjum Vantrúarmönnum þótti það víst fyndið, en fáum öðrum, held ég.

    Einhvern veginn sýnist manni af ofangreindu að sumir megi segja það sem þeim sýnist, aðrir ekki.

    Til skamms tíma taldi ég að svonefndir „trúarnöttarar“ gætu orðið samfélagsböl, en nú er ég farinn að óttast að það eigi ekki síður við um „trúleysisnöttara“.
    —–
    Óskandi væri að Birgir Baldursson sýndi fram á rangfærslur í pistli þínum hér að ofan, ef hann telur þær til staðar, fremur en að brigsla þér um “einlægt” (!) hatur (sem ég held að hljóti að teljast mannorðsmeiðandi ásökun).

  6. Þess eru dæmi að innkoma þriggja kvenna (eða altént kvenkyns) hafi orðið til ills eins, svo sem lesa má í Völuspá. Það er ekki allt fengið með kyninu einu saman.

    Nýja kæran er bara stutt bréf frá Agli Óskarssyni og svo afrit af gömlu kærunni: Það er sem sagt gamla kæran sem óskað er eftir að siðanefnd taki til umfjöllunar. Þessa kæru má sjá neðst í ægilega langri færslu frá því um miðjan febrúar, Fyrstu viðbrögð siðanefndar HÍ við kæru Vantrúar.

    Jú, Egill Óskarsson formaður Vantrúar er sami ljúflingurinn og lagði til, af alkunnri kerskni vantrúarfélaga, að alla sem hefðu flutt Passíusálmana skyldi af lífi taka, nema Megas. Sjá má skjámynd af ummælum hans í færslunni Snorri, Egill og hið eina rétta viðhorf.

    Það er einsýnt að við Birgir þurfum að fara að hittast, það gengur ekki að kljást í netheimum við sína granna án þess að hafa nokkru sinni barið þá augum. Nú einhendi ég mér fljótlega í að bjóða honum á deit á Kaffi Ást, huggulegu kaffihúsi / öldurhúsi á Neðri-Skaganum og því stutt fyrir Birgi að labba þangað … vonandi ber staðurinn nafn með rentu 😉

  7. Birgir Baldursson on September 3, 2012 at 19:07 said:

    http://www.orvitinn.com/2011/12/21/14.00/#athugasemd-20120903161603

    Harpa, ég hef mestu andstyggð á fólki sem er lygið og óheiðarlegt. Ég fæ ekki betur séð, af þessari færslu þinni og athugasemdum, en að þú sért hvort tveggja.

    Ég hef engan veginn geð í mér til að setjast niður með slíku fólki í eitthvert kaffispjall á léttu nótunum, rétt eins og allt sé í góðu.

  8. Ansans, Birgir, ég verð þá bara að bjóða einhverjum öðrum með mér á Kaffi Ást 🙂

    Mér þætti fengur að því að vita hvað nákvæmlega ber vott um lygi og óheiðarleika í þessari færslu og athugasemdum mínum. Gætirðu bent á það, svona í tilefni þess að í tveimur athugasemdum við færsluna ertu búinn að kalla mig lygna og óheiðarlega, lýsa því yfir að í færslunni séu rangfærslur á rangfærslur ofan og loks gefa í skyn að skrif mín stjórnist af einlægu hatri … gott væri að fá líka að vita hatri á hverjum.

    Mér þætti líka gott að vita hvort þú telur svona athugasemdir eins og þessar tvær sem þú hefur skrifað eðlilegt innlegg í skoðanaskiptum fullorðins fólks.

  9. Öðrum lesendum til hagsbóta afrita ég hér rök þau sem Birgir Baldursson færir fyrir brigslum sínum á mínu bloggi en skrifar í athugasemd á Örvitanum, bloggi Matthíasar Ásgeirssonar vantrúarfélaga:

    “Það er líka rangfærsla að kærurnar séu orðnar fimm. Þetta er allt eitt og sama erindið, fyrst sent á þrjá staði og svo nú endurvakið. Þetta eru því tvær kærur, siðanefnd og lögregla.

    Harpa og BR stilla þessu svona upp til að láta okkur líta sem verst út. Þau eru bæði óheiðarleg í þessu áróðursstríði sínu.

    Þriðja rangfærsla snertir síðan loforðið sem hún minnist á. Loforðið snertir efnistök sannleiksnefndarinnar, ekki útgáfu einhvers rits þar sem við ættum að koma að málum.”

  10. Ég þakka Birgi fyrir að upplýsa hvert loforðið var … var það háskólarektor sem lofaði félaginu Vantrú að óháð nefnd sem háskólaráð skipaði myndi fjalla um efnið / fara ofan í saumana á ferli kæra Vantrúar innan háskólans eftir einhverri sérstakri forskrift? Það eru í meira lagi fréttnæmar upplýsingar þykir mér. Venjulega er orðið sannleiksnefnd notað um nefnd sem Nelson Mandela tókst að fá skipaða og átti að fara ofan í saumana á níðingsverkum þeim sem hvítir frömdu á svörtum í Suður-Afríku. Það er dálítið sérstakt að félagið Vantrú telji sig á pari við Mandela og hafi því einnig átt rétt á sannleiksnefnd 😉

    Eins og kom fram í færslunni taldi ég mig ekki geta vitað til hvaða loforðs Egill Óskarson vísaði fyrir hönd félagsins Vantrúar en giskaði á að hann ætti við hugmyndina um sameiginlega aðkomu að ráðstefnuriti eða riti.

  11. Ef ég, Birgir, myndi kæra það níð um mig sem sem þú skrifar í athugasemdum þínum við þessa færslu og senda kærur til:

    Starfsmanna- og gæðastjóra Akraneskaupstaðar, þar sem ég rökstyð að þú brjótir siðareglur starfsmanna Akraneskaupstaðar;

    Siðaráðs KÍ þar sem ég rökstyð að þú hafir brotið siðareglur kennara;

    Skólastjóra Tónlistarskóla Akraness, þar sem ég rökstyð að þú hafir brotið bæði siðareglur starfsmanna Akraneskaupstaðar og siðareglur kennara;

    Bæjarstjórans á Akranesi, þar sem ég rökstyð hið sama en sendi í rauninni bara upp á sportið af því honum finnst svo gaman að skipta sér af starfsmannamálum hér í bæ og sumu fólki finnst þ.a.l. gaman að klaga í hann;

    Fjölskylduráðs Akraneskaupstaðar (sem fer með yfirumsjón með skólamálum kaupstaðarins), þar sem ég rökstyð hið sama:

    Þá teljast þetta fimm kærur en ekki ein, jafnvel þótt standi meira og minna það sama í öllum þessum bréfum.

    Ég vona að þú skiljir þetta dæmi og sjáir út frá því hvernig orðalag um fimm kærur Vantrúar er hugsað.

  12. Birgir Baldursson on September 3, 2012 at 21:53 said:

    Í raun réttri kærði Vantrú aldrei Bjarna Randver, hvorki til Siðanefndar, rektors eða forstöðumanns guðfræðideildar. Inn var sent erindi til þeirra sem við töldum að málið gæti varðað.

    Á lokuðu spjallborði okkar, og um leið gögnum þeim sem BR hefur undir höndum kemur skýrt fram að ákveðið var að senda inn erindi – ekki kæru, ekki kvörtun. Erindi. Það var fyrst í umfjöllun BR um málið sem ég sá talað um þetta sem kæru. BR, sem vissi betur, ákvað að kalla þetta því nafni. En við höfum svo sem ekki amast mikið við því hingað til og dettum jafnvel sjálf í þann pytt að tala um þetta sem kæru.

    Lengst af hefur Bjarni Randver sjálfur talað um kæru í eintölu. Óútgefið rit hans um málið hét m.a.s. “Svar við kæru Vantrúar”, ekki “Svar við kærum Vantrúar”. Það er aðeins núna á seinni stigum sem hann hefur kosið að mála þetta upp sem þrjár kærur, efalítið í þeim tilgangi að láta okkur líta sem verst út, sýna fram á ofsa og ofstæki.

    Svo verður þú sjálf að fara að gera það upp við þig hvort um kæru eða kærur er að ræða. Hér að ofan talarðu um “nýju út gáfuna á gömlu kærunni” (ekki gömlu kærunum). Einnig segirðu: “þá hafi félagið Vantrú ákveðið að senda upphaflegu kæruna óbreytta til siðanefndar HÍ”.

    Þetta er allt sama erindið, ekki kæra heldur erindi. Það má spyrja sig að því hvað vaki fyrir ykkur með því að tönnlast sífellt á orðunum kæra og kærur, aftur og aftur.

    Þetta er náttúrlega áróðursstríð hjá ykkur.

    Þér er svo frjálst að gera hvað sem þig lystir við ummæli mín hér að ofan. En vita skaltu að ef þú kærir mig mun ég ekki bregðast við eins og Bjarni Randver, tala um einelti og ofsóknir, heldur leggja fram gögn og rökstuðning fyrir orðum mínum og una svo úrskurði þeirra sem um málið fjalla. Ég einfaldlega sé heilmikinn óheiðarleika í skrifum ykkar Bjarna og nóg er að rangfærslum (lygi), eins og ég hef nú þegar bent á. Ég kem fram af þeim heiðarleika að segja þá skoðun mína umbúðalaust og er reiðubúinn að taka afleiðingum af því.

    En mættir reyndar líta aðeins í eigin barm, Harpa. Þar sem þú hefur verið kennari er þér kunnugt um þær siðareglur sem um starfið gilda. Finnst þér t.d. að skrif eins og fyrsta efnisgrein í þessari færslu þinni hér beri vott um að þú sýnir öðru fólki virðingu í ræðu og riti? Þessi efnisgrein fjallar um mig og félaga mína og mér finnst það ekki sérlega fallegt að bera upp á okkur “píslarvættisþrá” og að hangið sé á sannfæringu “eins og hundar á roði”. Ég upplifi þetta sem stæka fyrirlitningu.

  13. Helgi Ingólfsson on September 4, 2012 at 08:09 said:

    Mér sýnist, Harpa mín, sannast hér á ummælum Birgis Baldurssonar það sem ég sagði hér að ofan, að Vantrúarmenn mega segja hvað sem er um hvern sem er (hér ert þú vænd um lygi, hatur og óheiðarleika), en bregðast ókvæða við, ef aðrir svo mikið sem anda á þá.

    Sumir í samtímanum mundu segja að þetta væri “væll”, en ég held að ágætt orð yfir það sé “píslarvættisþrá”. Varðandi hið ágæta og hefðbundna orðatiltæki “að hanga á e-u eins og hundur á roði”, þá held ég að BB (sem upplifir það sem “stæka fyrirlitningu” samkvæmt ofangreindu), ætti að líta í orðabók Menningarsjóðs um merkinguna; þá sæi hann að það felur ekki í sér gildisdóma. Ég held að eitt vandamálið sé það að sumir Vantrúarmenn lesi ekki ýkja mikið af íslenskum bókmenntum og þekki þess vegna ekki merkingu algengra, hefðbundinna orðasambanda.

    Aldrei virðist hvarfla að Vantrúarmönnum að eitthvað gæti verið að í eigin ranni. Þeir taka allri gagnrýni á klúbbinn sinn sem “rætni”, “hatri” og “óheiðarleika” (oft óútskýrt í hvers garð eða af hvaða hvötum) – en telja sig að öðru leyti yfir gagnrýni hafna. Klúbburinn virðist haldinn tortryggni, sem nánast er lík því sem gerist hjá sjúiklega tortryggnum trúfélögum (t.d. Vísindakirkjunni eða trúarhópi David Koresh) og ekki vilja hleypa neinum nálægt til að skoða á hvaða grundvelli hann stundar sína aðferðafræði eða í hverju hún felst. Undarleg leynisamtök.

  14. Birgir Baldursson þarf ekki að óttast að ég kæri hann fyrir siðaráðum eða álíka batteríum: Ég hef nefnilega ekki trú á þess lags. Þetta var hýpóþetískt dæmi til þess að reyna að útskýra fyrir honum hvað kallast kæra (en virðist ekki hafa tekist). Meiðyrðamál fyrir dómstólum væri líklega mun vænlegri kostur. Eða bara að það spyrðist út á Skaganum hvers lags trakteringar ég fæ af hans hendi.

    Hin nýskipaða siðanefnd HÍ hefur kvótað nýju kæruna Vantrúar með númerinu 3/2012 þótt um sé að ræða gömlu kæruna, 1/2010, með aukabréfi. Ný siðanefnd afgreiðir hana sem sagt sem nýja kæru. Það er ekki hægt að senda öðruvísi erindi til siðanefndar HÍ en kæru, siðanefnd HÍ er ekki verðandi pennavinur félagsins Vantrúar eða annarra aðila og út í hött að halda að hlutverk siðanefndar, rektors eða forseta guðfræðideildar séu að halda uppi huggulegu spjalli um losaraleg erindi sem þeim eru send. Svo virðist sem þessir opinberu aðilar líti á kærur Vantrúar sem kærur þótt forkólfar félagsins annað hvort haldi eða kjósi að halda að þeir hafi sent inn eitthvað annað en kærur á sínum tíma og séu enn að senda inn svoleiðis. Skýringin á titli skjals Bjarna Randvers er að skjalið var ætlað siðanefnd HÍ og fjallar því einungis um þá kæru Vantrúar. Rektor vísaði kærunni sem henni barst áfram til siðanefndar og tók ekki afstöðu til hennar fyrr en Vantrú hafði dregið kæruna til siðanefndar til baka. Guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi kæruna til sín án þess að þurfa skriflega greinargerð.

    Vissulega er það rétt hjá Birgi Baldurssyni að forsvarsmenn Vantrúar tóku þá meðvituðu og úthugsuðu ákvörðun að kalla kærur félagsins ekki kærur. Í skipulagningu “hins heilaga stríðs” síðla ársins 2009 var bent á að orðalagið “kæra” gæfi til kynna að vantrúarfélagar væru aumingjar sem ekki þyldu mótbyr, orðalagið “kvörtun” mætti skilja sem vantrúarfélagar væru nöldurskjóður og stungið upp á að framtíðar-kærurnar skyldu kallaðar “ábending”. Svo hefur þetta nú eitthvað skolast til í hugum vantrúarfélaga síðan þá og heita kærurnar oft núna í þeirra munni “erindi”, þegar þeir missa sig ekki í að kalla þær einfaldlega “kærur”.

    Ég tek undir orð þín um slælegan málskilning einstakra Vantrúarfélaga, Helgi. Mun vanda mig við að skrifa sem einfaldastan texta um þessi mál héreftir.

  15. Birgir Baldursson on September 4, 2012 at 10:46 said:

    Helgi Ingólfsson: Þú ert menntaskólakennari og átt að þekkja siðareglur kennara. Finnst þér þú vera að koma fram við aðra af virðingu í ræðu og riti þegar þú tjáir þig hér um Vantrú?

    Flísin og bjálkinn.

    Ok Harpa, ég skal gefa þér það skuldlaust að erindi til siðanefndar teljist kærur. En taka forseti guðfræðideildar og rektor skólans þá líka bara við kærum, eða geta þau tekið á móti erindum/ábendingum/afritum?

    Að kalla þetta þrjár kærur er orðhengilsháttur og dæmi um óheiðarlega taktík.

    Og þú veltir fyrir þér að bera út um allan bæ að þú sért kölluð lygin og óheiðarleg. Þá er bara að vona að það snúist ekki í höndunum á þér, að einhverjir sem kynna sér málið komist að þeirri niðurstöðu að það séu orð að sönnu.

  16. Mér finnast nýjustu ummæli Birgis Baldurssonar ekki svaraverð nema ég bendi honum á að einfaldast er að hafa samband við Háskóla Íslands og spyrjast fyrir um formlega afgreiðslu mála þar og hvað “erindi” Vantrúar hafi verið kölluð í stjórnsýslu stofnunarinnar, leiki honum landmunir á að vita það.

  17. Helgi Ingólfsson on September 4, 2012 at 11:42 said:

    Birgir: Nefndu mér dæmi um það hvernig ég sýni Vantrú óvirðingu hérna eða fer með rangt mál? Ekki brigsla ég fólki hérna um óheiðarleika, lygar og hatur, líkt og þú hefur gerir. Er ætlast til að ég sýni Vantrú sérstaka lotningu eftir að hafa orðið fyrir margvíslegu aðkasti, þöggunartilburðum, hótunum og upplognum sökum af hálfu Vantrúarmeðlima og áhangenda þeirra? Er það óvirðing að kalla Vantrú “klúbb”? Mér var meinuð innganga í Vantrú, þótt ég teldi mig geta uppfyllt öll inngönguskilyrði, og gerðar upp “annarlegar hvatir”af Vantrúarseggjum sem skýring á höfnuninni (hverjar svo sem þær annarlegu hvatir eiga að vera; eru það “annarlegar hvatir” að vilja forvitnast um dularfulla aðferðafræði Vantrúar?) Með höfnun umsóknar minnar (og fleiri sem sótt hafa um) sýndi Vantrú sig að vera fyrst og fremst lokaður, exklúsívur klúbbur og ætti ekki að kalla sig annað. Höfnun umsóknar minnar, sem fór fram af hálfu Vantrúar í afar ógagnsæju ferli, byggir bersýnilega á einkennilegum varnarháttum Vantrúar, sem minna helst á trúfélög sem eru tortryggin á utanaðkomandi áhrif, til dæmis Vísindakirkjuna eða trúflokk David Koresh. Ég forðast það að tala um einstaklinga í Vantrú, en lýsi því fyrst og fremst hvernig Vantrú kemur mér fyrir sjónir sem heild. Sem klúbbur með varnarhætti. Semsagt, undarleg leynisamtök.

  18. Þorvaldur lyftustjóri on September 4, 2012 at 20:54 said:

    Jæja! Það kom þó lífsmark! Og nú kætist púkinn á fjósbitanum. (Ætli það sé ekki rakin rætni að vísa í þá sögu annars?)

  19. Jóhann on September 6, 2012 at 00:44 said:

    Það er vissulega áhugavert að Vantrúarmenn skuli vekja upp þennan draug, hvort heldur hann megi teljast magnaður fimmfalt, eða af lægri stigum.

    En hvert var aftur umkvörtunarefnið?

    Að sú mynd væri dregin upp að þessum félagsskap að hann væri lílkegur til að auka öfgar í umræðum um trúmál, ekki satt?

    Að klippt væri úr ummælum Matta (sem er upptekinn af því að segja aðventista að hann sé fáviti), með þeim hætti, að það gefi ekki rétta mynd af stórbrotinni heimsýn hans?

    Jæja, bættur sé skaðinn.

    Í raun er það ekkert nema fagnaðarefni að þessi skátaklúbbur skuli fylgja sannfæringu sinni eftir með frekari “erindum”.

    Fyrrverandi formanni þraut örendið, en í hans stað er nú kominn leikskólakennari, sem er álíka þagmælskur þegar kemur að eign sannfæringu.

    Vonandi hefur HÍ það þrek að mæta viðlíka ávirðingum…

  20. Dálítið merkileg undanbrögð Birgis Baldurssonar sem kýs að gleyma að í aðdraganda “ábendinga” Vantrúarmanna kusu þeir sömu að “kæra” fekar en að benda á eða kvarta (á lokuðu spjalli Vantrúar í október 2009). Allt málið var síðan rekið sem “pungspark”, “harka” og “alsherjarstríð” gegn Bjarna Randver Sigurðssyni.

    Ef ég vissi ekki betur, myndi ég segja að augað með hverju hann horfir til fortíðar sé blint. En ég ætla af gefnum tilefnum að halda því blákalt fram að hann kýs að ljúga til að fegra málstað síns liðs í stríði þess við Bjarna, Guðfræðideildina og Þjóðkirkjuna.

  21. Birgir Baldursson on September 6, 2012 at 16:53 said:

    Helgi, hverjir voru þessir þöggunartilburðir, hótanir og upplognar sakir? Ég hef ekki fylgst með því öllu og þætti gott að fá útskýringar.

    Carlos, þú verður að bíða þar til síðar. Eitt í einu.

  22. Á meðan ég bíð eftir að röðin komi að mér, vil ég halda því til haga að ég benti þér og ykkur vantrúuðum á það strax í upphafi (á sama tíma og þið voruð að egna fyrir mér til að ég segði eitthvað sem kæmi Bjarna Randver illa, sbr. óbirt gögn af innra neti Vantrúar) að þið túlkuðuð óvarlega út frá of litlu efni, s.s. gerðuð úlfalda úr mýflugu.

    Hér: http://www.vantru.is/2010/02/17/09.00/#athugasemd-20100217173548

    Hér: http://www.vantru.is/2010/02/25/13.00/#athugasemd-20100228141248 og http://www.vantru.is/2010/03/01/14.00/#athugasemd-20100303132936

    Hér:http://www.vantru.is/2010/03/01/14.00/#athugasemd-20100302100213

    Hér: http://www.vantru.is/2010/03/01/14.00/#athugasemd-20100302142611 og næstu aths.

    og loks hér: http://www.vantru.is/2010/03/04/16.00/#athugasemd-20100308002120 og næstu athugasemdir.

    Allt þetta var skrifað áður en ég vissi að kærurnar voru sendar af stað áður en til stórskotaliðsárásarinnar á Vantrúarvefnum var stofnað. Þið voruð “lynching mob” og eruð það enn. Virðing mín fyrir þér og ykkur er löngu farinn í klóakið.

  23. Svo eiga vantrúarfélagar fullt af ónýttum möguleikum ennþá; Þeir gætu t.d. sent “ábendingar”/”erindi” sín til menntamálaráðherra, Persónuverndar, umboðsmanns Alþingis, talsmanns neytenda, Vinnumálastofnunar, Sálfræðingafélags Íslands o.fl. o.fl. Þannig gætu þeir eignast fjölda pennavina um “ábendingar” og “erindi” og haldið áfram að vera fréttaefni. Ég held (ath. Birgir og kó að þetta er persónuleg skoðun byggð á persónulegu mati og verður ekki rökstutt með heimildatilvísun) að vantrúarfélagar þurfi sosum ekkert að spá í virðingu – er ekki athyglin fyrir öllu? Það er ekki eins og það sé splæst umfjöllun um félagið Vantrú í heilan tíma í HÍ á hverri önn 🙂

  24. Ég vek athygli þeirra sem hyggjast smella á linkana sem Carlos gefur að það þarf að afrita þá og líma í nýjan glugga í vafranum. Félagið Vantrú og Matthías Ásgeirsson (sem rekur bloggið Örvitann) blokka nefnilega umferð af bloggsíðunni minni á sínar síður. Hef aldrei fattað hvers vegna en kannski er þetta einhver siður hjá Vantrú og Örvitanum ef bloggarar blogga ekki eins og þeim er þóknanlegt.

  25. Æji, það passar svosem inn í myndina hjá félögunum að skilgreina sannleikann við það sem þeim hentar hverju sinni svo að þeir geti kallað þá lygara sem andmælir þeim.

    Hefur ekkert með sannleiksást heldur bara með “besserwisserhátt” og ofbeldi að gera, enda í heilögu stríði við þá sem þeir skilgreina sem andstæðinga sína.

    Svo einfalt er þetta nú bara.

  26. Helgi Ingólfsson on September 7, 2012 at 13:23 said:

    Birgir (aths. 22):

    Þessum upplýsingum hef ég reynt að halda til haga, en kýs að eiga þær fyrir sjálfan mig, ef á þyrfti að halda síðar. Vantrúarmenn hljóta að skilja manna best þörfina á pukri og leyndarhyggju, ekki satt? Annars eru upplýsingarnar allar aðgengilegar á Netinu, þar sem þú ættir að geta fundið þær, ef þú ert nógu forvitinn. Þú getur líka spurst fyrir meðal félaga þinna á innra spjallsvæði Vantrúar eða í áhangendahópi safnaðarins um hvaða ummæli menn hafa látið falla um mig eða við mig. Þið eruð jú snjallir í að halda syndaregistur og ég á ekki að þurfa að vinna þá vinnu fyrir ykkur.

  27. Birgir Baldursson on September 8, 2012 at 16:52 said:

    Þá er því miður ekki annað hægt en að líta á þetta sem órökstuddar fullyrðingar

  28. Birgir Baldursson on September 8, 2012 at 16:59 said:

    Þá er það Carlos: hann gerir mikið úr hugtakinu “all out attack” og notar það sem rök fyrir einelti af okkar hálfu. En þar sem hann er með afrit af innra spjallinu um mál Bjarna Randvers langar mig að biðja hann um að upplýsa í hverju þessi aðgerð fólst – um hvað var verið að tala.

    Var gerð sjálfsmorðsárás á Bjarna? Var honum send bréfasprengja? Carlos má útskýra hvað það var sem var svo hræðilegt að fékk þetta nafn í flimtingum einhverra meðlima Vantrúar.

  29. Birgir Baldursson on September 8, 2012 at 17:50 said:

    Í flimtingum einhverra á lokuðu spjallborði (hvar er eineltið í því?)

  30. Frá því að námskeiði Bjarna lauk, hóf Vantrú greinaskrif á vef sínum gegn honum. Þar var reynt að kreista allt sem hægt var úr glærum Bjarna til að ná fram einskonar samhljóði úr samfélaginu. Hann átti líta út sem óvandaður fræðimaður, ekki háskólasamfélaginu hæfur etc. Vantrúarmenn sögðuað hann færi einhliða og ófræðilega um Vantrúarmenn, Niels Dungal og Helga Hóseason, svo eitthvað sé nefnt. Allt út frá glærum Bjarna sem Vantrú lagði fram. Án tengsla við umfjöllunar í tímum.

    Í lok umfjöllunarinnar á Vantrúarvefnum kom í ljós að þessi greinaskrif og ófrægingarherferð þeirra félaga kom í kjölfar þriggja kæra (samhjóða) til háskólastofnana sem hver um sig hefur vald til að áminna og segja Bjarna upp starfi eða rýra getu hans til að starfa við háskóla.

    Þegar ég fékk í hendurnar ljósmynd af spjalli innra vefs Vantrúar sem um tíma var vistað á http://vantru.wordpress.org, sá ég að forystumenn Vantrúar eins og Reynir Harðarson, Þórður Ingvarsson og Matthías Ásgeirsson vildu nota tækifærið og höggva fast í Bjarna, og fyldu þeir sem tóku til orða á spjallinu (með fáum undantekningum). Menn kusu að kæra frekar en að spyrja eða gera athugasemdir. Orðin “All out attack” (Reynir), “pungspark” (Þórður) og önnur voru hluti af því spjalli sem fram fór og höfðu bein áhrif á gang mála.

    Greinaskrifin voru hluti af fyrirsát sem Vantrúarsamfélagið skipulagði um mánaðarskeið gegn Bjarna og reyndu félagarnir að einangra hann frá vinum sínum og umhverfi, t.d. með því að leggja snörur fyrir þá sem reyndu að styðja Bjarna í umræðunum.

    Ég hef þessi orð ekki fleiri, vísa til umfjöllunar Hörpu hér á bloggi hennar sem virðist hafa náð vel utan um atburðarásina.

    Um þátt og innslög Birgis Baldurssonar get ég bara sagt þetta.

    Hann tók þátt í og ver þessa aðför á hendur Bjarna með öllu sem hann á til. Hann tekur vísvitandi þátt í ófrægingarherferð til starfsmissis, á grundvelli forsendna sem hægt er að túlka á annan veg en samfélagið Vantrú gerir (sbr. aths. mínar á vantru.is hér fyrir ofan; aths. 23).

    Hann tekur auk þess þátt í að ófrægja alla sem taka upp málstað Bjarna, sérstaklega Hörpu Hreinsdóttur, sem ritar hér á þessu bloggi.

    Ég get mér til að ástæðan sé sú að hann og Vantrúarsamfélagið telji sig þurfa að berjast gegn hindurvitnum og það með öllum ráðum.

    Hver þau ráð eru, er augljóst. Háð, lítillækkun, útúrsnúningar, rökildi (atburðir og orð tekin úr samhengi og fegruð) og … lygar.

  31. Eina stafsetningavillu mína þarf að lagfæra.

    “Greinaskrifin voru hluti af fyrirsát sem Vantrúarsamfélagið skipulagði um mánaðarskeið gegn Bjarna” átti að lesast “… mánaðaskeið…”, enda hafði Óli Gneisti Sóleyjarsson látið félaga sína vita allt haustið hvaða glærur voru sýndar í tímum og þurftu menn að sitja á sér í um 5 mánuði áður en þeir létu storma.

    Aldrei reyndu vantrúarmenn að koma að máli við Bjarna til að spyrja hann hvað hann meinti með þessum glærum, hafa áhrif á kennsluna, stofna til samtals eða nokkuð mildara en þessa aðför að honum, fyrr en málin voru komin á borð háskólans og þeir búnir að níða af honum skóinn, a.m.k. gagnvart jásegðum sínum. Aðrir voru fífl og lygarar og eru enn.

    Svokallaðar sættir sem þeir gátu samþykkt þá, fólust í því að háskólinn eða guðfræðideildin hreinsaði hendur sínar af starfsmanni sínum. Nánar í bloggfærslum Hörpu.

  32. Hvað er slæmt við þetta ferli, sem er svo saklaust, spyr Birgir.

    Ég held að það liggi í augum uppi að þegar hópur manna eða nánar tiltekið félag sem á engar eignir espar stóran hóp manna gegn sér með hálfsannleik og h******s lygum og starfsheiðri manns í heljargreipum illa gerðra kæra, auk þess að halda uppi ófrægingarherferð gegn manni og öllum sem styðja hann, þá er það ekkert smámál.

    Ég á aðeins eitt orð um þessa menn, sem taka sér það vald að vera ákærendur, dómarar og böðlar í þessu máli.

    Hengingarlýður.

  33. Þarf víst að lagfæra tvö orð enn: “… þegar hópur manna eða nánar tiltekið félag sem á engar eignir espar stóran hóp manna gegn sér …”

    átti að heita:

    “… þegar hópur manna eða nánar til tekið félag sem á engar aðfarahæfar eignir espar stóran hóp manna gegn einstaklingi …”

  34. Birgir Baldursson on September 9, 2012 at 20:33 said:

    “All out attack” vísar í að birta umfjöllun Vantrúar á glærum BR um leið og haft var samband við háskólann. Ekki bíða með það. Tala líka við fjölmiðla. Það var nú allt og sumt, Carlos.”Taka þetta á öllum vígstöðvum” (sjá ummæli Þórðar Ingvarssonar 02 Oct 2009, 18:54 á stolna spjallinu).

    Þú ert farinn að endurtaka þig ansi mikið og virðist hreinlega trúa þínum eigin rangfærslum. En hvað um það, skondnast er að sjá þig reyna að sverta mig með því að tala um ófrægingu á hendur öllum þeim sem tekið hafa upp hanskann fyrir Bjarna. Þið vinir og stuðningsmenn Bjarna hafið ekki verið beinlínis löt við þann keip heldur. Kannastu við orð á borð við “böðull”, “hengingarmúgur”, “fúndamentalisti og tréhaus”, “hengja manninn án dóms og laga”, “fyrirlitlegur hengingarlýður”, “níða af honum skóinn” og fleira skemmtilegt? Þetta var allt látið falla á innan við tveimur sólarhringum, seint í síðustu viku.

    Ég gæti alveg sokkið niður á sama plan og Bjarni og ákveðið að spyrða ykkur saman við hann í einn hóp til að ráðast á. Það yrði ágætlega þéttur fúkyrðalilsti af ykkar hálfu sem kæmi út úr því, þótt Bjarni sjálfur hafi passaði sig á að segja ekkert skemmtilegt í öllu ferli málsins. En mun ég nenna því? Sennilega ekki, ég er ekki með nógu mikinn aspergerer til slíkrar þermisstigsskrifstofuvinnu (ahh, nýtt orð til að setja á fúkyrðalista BR).

    Þú talar einhvers staðar um að við hefðum verið að æsa okkur upp í einhverja hernaðarvímu á lokaða spjallinu og kæra okkar, umfjöllun og aðrar aðgerðir væru afrakstur þess en ekki þess að við teldum brotið á okkur. Ég vísa því að sjálfsögðu á bug, en bendi á að eitthvað svona sýnist mér einmitt hafa átt sér stað í herbúðum Bjarna (hann sjálfur og þeir sem fengu að sjá lokaða spjallið). Þið hafið æst ykkur upp í árásarvímu og orðið blinduð á hvað stendur á spjallinu í raun og veru. Og þar með eru öll meðul leyfileg í ykkar hópi, af því að við í Vantrú erum svo vond.

    En röksemdir ykkar eru í besta falli strámannsrök (sbr. all out attack, einelti og heilagt stríð). Ekkert tillit er tekið til þess í hvaða samhengi þessi orð féllu, þið sáuð bara fyrir ykkur æstan og froðufellandi múg með sveðjur á lofti. Og fóruð svo sjálf að hegða ykkur sem slíkur.

    Ég ætla rétt að vona fyrir ykkar hönd að aldrei hafi fallið nokkurt einasta orð ættað úr hernaðartaktík í baktjaldamakki ykkar í herbúðum Bjarna. Því ef svo er, þá er ykkur hollast að ganga rakleitt að næsta spegli og líta djúpt og lengi í augu hræsnarans sem horfir til baka.

    Ég kveð með ágætum orðum starfsbróður þíns, Carlos:

    “Það er alþekkt áróðursbragð að draga upp vonda, logna, afskræmandi mynd af óvininum og skjóta svo á hana og halda sig þar með hafa yfirburði eða láta það í veðri vaka. Hins vegar er þetta ódrengskapur, skortur á sannleiksást og tilræði við málefnalega umræðu og engum góðum manni s[æ]mandi.”

    – Jakob Ágúst Hjálmarsson

  35. Birgir Baldursson: Ef þú getur ekki hagað málflutningi þínum eins og siðaður maður þá verðurðu að skrifa athugasemdir þínar annars staðar en á mitt blogg. Ég leyfi síðustu athugasemd þinni að standa svo venjulegu fólki (ef eitthvert venjulegt fólk nennir þá að lesa gegnum þennan athugasemdaþráð, sem mér er mjög til efs) sé ljóst hvað ég á við en skrifirðu fleiri athugasemdir með skrílsmálfari og svívirðingum verður þeim eytt.

  36. Og Carlos: Athugasemdum með orðalagi eins og hengingarlýður verður einnegin eytt.

  37. Tekur við og bekennir gult spjald.

  38. Helgi Ingólfsson on September 10, 2012 at 10:13 said:

    Birgir (aths. 28):
    “Þá er því miður ekki annað hægt en að líta á þetta sem órökstuddar fullyrðingar”, segir þú og gerist með því sekur um Rökvillu 101. Aðkast Vantrúarseggja og jábræðra þeirra í minn garð liggur dreift hér og þar um netið, og það að ég vilji ekki láta af hendi við þig yfirlit um þau efni eða að þú nennir ekki að leita að því sjálfur, þýðir EKKI að slíkt aðkast sé ekki til staðar. Ég hef bent á óviðurkvæmileikann í nánast hvert sinn sem slík tilfelli hafa komið upp (nema 2 skipti sem ég kýs að halda fyrir sjálfan mig af ástæðum sem ég hirði ekki um að útskýra). Ef það auðveldar þér eitthvað verkið, þá get ég frætt þig um að sumt af því liggur hérna á bloggsíðum Hörpu – en ég á ekki von á að þú nennir að kynna þér það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation