Í þessari færslu er einkum fjallað um prjónaðan eistneskan vettling frá 13. öld en einnig gerð lítilsháttar grein fyrir eistneskum og lettneskum vettlingum.
Vodíski vettlingurinn í Eistlandi
Lítil prjónapjatla fannst í uppgreftri í vodískum greftrunarstað í eistneska bænum Jõuga árið 1949. (Vodar voru þjóð sem talaði finnsk-úgrískt tungumál, nú nánast útdautt, og bjuggu við Eystrasalt og í Rússlandi. Leitt hefur verið getum að því að Kylfingar þeir sem koma fyrir í Egils sögu hafi verið Vodar en sú ágiskun er reist á afar ótraustum grunni.) Í gröfinni í Jõuga hvíldi kona og af því þessi litla pjatla lá við handarbeinin er talið að hún sé leifar af belgvettlingi. Sú ágiskun byggir á því að prjónaðir hanskar/ fingravettlingar urðu ekki vinsælir meðal eistneskrar alþýðu fyrr en á átjándu. öld. Gröfin er talin vera frá því einhvern tíma á árabilinu 1238-1299.
Þessi vettlingur hefur verið prjónaður á nokkra prjóna, þ.e. sléttprjónaður í hring. Raunar er allt elsta prjónles sem hefur fundist prjónað þannig því menn lærðu ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sextándu öld, að talið er. Hann var tvíbandaprjónaður úr ullargarni og eru litirnir í munstrinu rauður og blár, grunnurinn úr ólitaðri hvítri ull. Bláa garnið var litað með indígó og rauða garnið með möðrurót (Rubia tinctorum). Rauður litur var talinn hafa varnarmátt segir í greininni sem ég styðst aðallega við um þennan vettling.
Myndin er af vodísku prjónapjötlunni |
|
Pjatlan er líklega af stykki sem leit svona út |
Munstrið er svona |
Menn hafa eitthvað deilt um hvort þessi vettlingur og nálbrugðnir vettlingar sem fundist hafa í vodískum grafreitum í norðaustur Eistlandi hafi verið hluti af líkklæðum, hafi verið hluti af brúðarklæðum hinnar látnu eða tilheyrt hvunndagsklæðnaði. Helst er talið að vettlingarnir hafi verið prjónaðir sérstaklega fyrir jarðsetningu.
Vettlingspjatlan úr vodíska grafreitnum í Jõuga er elsta þekkta dæmið um prjón í austur og norður Evrópu og er þ.a.l. stórmerkilegur fundur. Sjá má endurgerð af þessum vettlingi hér.
Þeim sem vilja kynna sér þennan merka vettling rækilega er bent á grein Anneke Lyffland: A study of a 13th-century votic knit fragment. Í grein Juri Peets, Totenhandshuhe im Bestattungsbrauchtum der Esten und anderer Ostseefinnen (birtist fyrst í Fennoscandia archaeologica IV árið 1987), er gerð grein fyrir vettlingaleifum fornum sem fundist hafa í Eistlandi en allir nema þessi sem um var fjallað að ofan eru nálbrugðnir.
Aðrir eistneskir vettlingar
Til skamms tíma var bók eistneska þjóðfræðingsins Ilmari Manninen, Eesti Kindad (Eistneskir vettlingar), útg. 1927 helsta heimildin um efnið. Hægt er að hlaða henni niður á pdf-formi héðan og þótt maður skilji ekki orð í eistnesku er gaman að skoða myndir af gripunum sem hann fjallar um, athugið að aftast í bókinni eru litmyndir.
Til gamans má geta þess að Eistur nálbrugðu vettlinga langt fram á átjándu öld þótt prjónakunnátta hafi fyrir löngu verið almenn og er í Eistlandi þekkt orðatiltækið „Prjónaðir vettlingar – löt eiginkona“ (sjá s. 16 í Crafts and Arts in Estonia). Það tekur vitaskuld miklu lengri tíma að nálbregða vettling en prjóna hann og nálbrugðinn vettlingur raknar ekki svo glatt upp. Í Karelíu í Finnlandi var haft á orði alveg fram undir seinni heimstyrjöldina að eiginkona væri illa að sér kynni hún ekki að nálbregða og var þar um slóðir lagt þeirri konu til lasts að geta ekki nálbrugðið vettlinga handa sínum eiginmanni (sjá tilvitnun í Toini-Inkeri Kaukonen, „Kinnasompelun levinneisyys ja työtavat Suomessa“, Suomen Museo 1960, s. 44-71, á Neulakinnas Nalbinding). Þessi orðatiltæki sýna áhugaverð tengsl milli prjónamenningar finnsk-úgrískra þjóða.
Á síðunni Silmuskudumise ajaloost (prjónasaga) á Etnograafilised koed – kirjamine ja roosimine sést mynd af eistneskum fornleifum (vettlingum). Krækjur á krækjulista til vinstri á síðunni vísa á síður með myndum af gömlu eistnesku prjónlesi, þó ekki fornminjum. Það er mjög gaman að skoða þessa síðu. Myndin til hægri er af eistneskri prjónabók um vettlinga, sem er nýkomin út á ensku (myndin krækir í sölusíðu Amazon). Mér finnst sérstaklega áhugavert að sjá þarna íslenskan galdrastaf, draumstaf eða Ginni, útsaumaðan á handarbök því uppskriftir í bókinni eru sagðar byggja á gömlum hefðbundnum eistneskum mynstrum.
Lettneskir vettlingar
Irena Turnau heldur því fram að í Lettlandi hafi fundist prjónles frá fjórtándu og fimmtándu öld: Prjónuð húfa og fernir vettlingar, þar af tvennir fingravettlingar. (Turnau, Irena, 1991. History of Knitting before Mass Production.) Því miður hef ég ekki fundið neinar myndir af þessum gripum og heldur ekki getað haft upp á umfjöllun um þá, hef einungis fundið munstrið sem sést hér til hliðar og ku vera af öðrum af þessum fingravettlingum, frá fimmtándu öld. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.) Satt best að segja hafa margir lýst vantrausti á fullyrðingar Irenu Turnau um hversu gamlar leifar af prjónlesi við Eystrasalt og í Austur-Evrópu eru. Heimildir þær sem hún vísar í liggja hins vegar ekki á lausu.
Hafi fólk áhuga á lettneskum vettlingamunstrum mæli ég með síðunum:
- The story of a thousand year old Latvian mitten en þar eru útskýringar á helstu táknum í munstrunum;
- LATVIEŠU CIMDU RAKSTOS (Lettnesk vettlingamunstur) á RITMS un SIMETRIJA. Krækjur til vinstri á síðunni vísa í myndir af fjölda lettneskra vettlingamunstra;
- Picasa-síða Iaima Stendze geymir mörg lettnesk munstur, líklega skönnuð úr bók, sjá Latviešu rakstainie cimdi.
Litháískir vettlingar
Einhverra hluta vegna virðist áhugi á litháískri prjónamenningu og þ.m.t. vettlingum vera miklu minni en á þeim eistnesku og lettnesku. Áhugasamir ættu þó að geta fundið einhvern fróðleik á vef Donnu Drochunas, Sheep to Shawl, sem er að skrifa bók um litháískt prjón. Sjá t.d.:
- Knitting in Lithuania’s ethnographical regions (stutt ágrip af prjónasögu héraða í Litháen);
- Symbols and Ornament in Lithuanian Knitting;
- Lithuanian Knitting (Mittens).
Tengsl milli baltneskrar og tyrkneskrar prjónahefðar?
Bent hefur verið á líkindi milli baltneskra (eistneskra og lettneskra) vettlinga og tyrkneskra sokka, bæði hvað varðar munstur og snið (sbr. baltneskir totuvettlingar og tyrkneskir totusokkar með totuhæl). Anne Zilboorg segir í bókinni Traditional Knitting Patterns of Turkey. Fancy Feet, útg. 1994, s. 9-10: „Sumir lettneskir vettlingar og tyrkneskir sokkar eru svo líkir og svo ólíkir prjónahefð annars staðar að það er erfitt að horfa fram hjá mögulegum tengslum. [- – -] Ein skýringin á tengslum milli þessara prjónahefða kann að vera norður-suður verslunarleiðin frá Byzans [Miklagarði] gegnum Rússland [Garðaríki], sem blómstraði uns Mongólar náðu yfirráðum í Rússlandi á þrettándu öld.“ Sjálfri finnst mér þetta afskaplega ólíkleg skýring og held að líkindin séu tilviljun.
Flott grein! Ertu að safna í bók?
Nei … ég er að safna á vef. Með sama vinnuhraða tekur um áratug að slá vefinn 😉
Annars spurði safnvörður á Skógum (ung stúlka) mig hvort ég væri Harpa í Vík, af því í kjölfarið á spurningum og leyfisbetli fyrir myndatöku sagði ég henni að ég bloggaði stundum um prjónasögu og ætlaði svo að koma efninu fyrir á vef. Þannig að sumar Hörpur eru frægari hannyrðakonur en aðrar Hörpur 🙂