Svo sem sést á töfluglasinu hér til hliðar (sem var leyst út þann 9. mars 2012) hefur mig líklega misminnt hve háan Rivotril-skammt ég tók að staðaldri þegar ég steig fyrstu tröppuna í að hætta á þessu lyfi, seinna í mars 2012. Geðlæknirinn minn hefur ávísað mér 2 mg á dag. Mér þykir ólíklegt að ég hafi tekið þann skammt, yfirleitt hef ég reynt að taka heldur minna af þessu lyfi en lækninum hefur þótt ráðlegt. Ég minnkaði niður í 0,5 mg Rivotril þann 17. mars, úr 1 mg að ég hélt, en e.t.v. tók ég 1,5 mg á dag (3 töflur). Þann 22. apríl bloggaði ég, svívirðilega bjartsýn:
Ég setti upp þriggja mánaða áætlun, sá að happadrýgst yrði líklega að nota svefnlyf a.m.k. allan þann tíma (ég hef ekki náð upp eðlilegum svefni frá Marplan-tilrauninni, sem ég lýsti í síðustu færslu – las raunar talsvert um slæm áhrif Imovane og ávanahættu af því en það er seinni tíma vandamál) og sá að ég ætti að nýta mér það eina ráð sem mér tókst að tosa út úr hjúkrunafræðingi á Vogi, sumsé að hafa samráð við lækni. Svo ég setti heimilislækni, sem ég treysti vel og þekkir vel til mín og minna mála, inn í málin. Að auki setti ég fjölskylduna, bestu vinkonu mína og AA-deildina mína inn í þetta sem ég er að gera og byrjaði að ganga til sálfræðings hér uppi á Skaga, fyrst og fremst til að “fá lánaða dómgreind” (eins og alkafrasinn hljómar).
Þetta hefur gengið eftir til þessa. Fyrsta trappan var úr 1 mg niður í 0,5 mg og hún var mjög erfið! (Mögulega var ég að taka meir en 1 mg á sólarhring, ég er ekki viss því það hefur verið ansi mikið hringl á Rivotril skömmtum í vetur.) Næsta trappa, sem ég er stödd á núna, niður í 0,25 mg, er líka mjög erfið (því miður, ég hélt að hún yrði kannski dálítið skárri en það gekk ekki eftir).
Þetta reyndist sérlega óskynsamlegt ráðslag og ég hefði betur tekið almennilega eftir í efninu sem ég las! Hef mér þó til málsbóta að bensódrínlyf eins og Rivotril valda miklum truflunum á minni og annarri hugrænni starfsemi, sérstaklega ef þau hafa verið tekin um árabil. (Sjá t.d. Barker o.fl. Cognitive Effects of Long-Term Benzodiazepine Use. A Meta-Analysis í CNS Drugs 2004; 18 (1), s. 37-48). Ég lauk að vísu tröppun Rivotrils eftir þessari áætlun en sat uppi með slæm líkamleg einkenni á eftir og geri enn.
Nú er mjög upp og ofan hvernig fráhvörf af bensólyfjum lýsa sér, það er einstaklingsbundið. Í stöku tilvikum situr maður uppi með langvinn (protracted) einkenni (sjá Protracted withdrawal symptoms í The Asthon Manual, handbókinni sem flestir sem fjalla um bensódrínfráhvörf vísa í, eða What is protracted withdrawal syndrome? á Benzodiazepine Dependency and Withdrawal Frequently Asked Questions (FAQ) file, Version 1.2 ) og því miður lenti ég í því, kannski af því ég fór of geyst í byrjun. Í mínu tilviki eru þetta sárir verkir í neðri kjálka og neðri gómi vinstra megin, sem og oft sviði í munni (burning mouth syndrome). Auðvitað er ég búin að láta tannlækni athuga hvort allt sé í lagi – allt var í sallafínu lagi – og heimilislæknir taldi mig vera með skútabólgu en röngtenmyndataka leiddi ekkert í ljós nema tandurhreinar og fínar ennisholur. Svo ég reikna með að stóri kjálkavöðvinn sé að fríka út af einhverjum röngum taugaboðum sem megi rekja til þess að Rivtotrilið hafi fokkað upp GABA-kerfinu í heilanum á mér. Enda hef ég prófað að taka heila Rivotril-töflu og einkennin hurfu eins og dögg fyrir sólu … sem er ágætis staðfesting á að þessir verkir séu af fráhvarfi.
Ég er auðvitað búin að lesa helling um svona kjálkaverki og burning mouth syndrom og finnst dálítið athyglisvert að í greinum í ritrýndum tímaritum (gjarna læknisfræðitímaritum eða tannlæknisfræðitímaritum) er vitnað hægri vinstri í rannsóknir sem sýna að lyfið Rivotril (klónazepam) virki einna skást lyfja á þessa kvilla! Flestir sem finna fyrir miklum fráhvörfum af bensódrínlyfjum fá afturkastsáhrif (rebound effect), þ.e. að einkennin sem lyfið átti að hemja aukast þegar lyfjagjöf er hætt. Ég fékk þessu lyfi ávísað vegna kvíða, einkum ofsakvíðakasta, fyrir um níu árum síðan og mér hefur verið ávísað því að staðaldri síðan. Vissulega fann ég fyrir kvíða þegar ég byrjaði að trappa niður en ekkert svo miklum, í rauninni ekkert meir en verandi á Rivotril; þetta lyf virkaði nefnilega aldrei neitt sérlega vel á almennan kvíða og nánast ekkert á ofsakvíðaköstin. Mér finnst dálítið ósanngjarnt að sitja uppi með langvarandi fráhvarfseinkenni sem ég hef aldrei orðið vör við áður og kvilla sem lyfinu var alls ekki ávísað við 😉 Gleðilegu fréttirnar eru þær að kvíði, ofsakvíðaköst meðtalin, hverfa hratt eftir því sem ég minnka töku Rivotrilsins meir.
Óskynsamlega leiðin sem ég valdi var óskynsamleg að tvennu leyti: Í fyrsta lagi trappaði ég Rivotril alltof hratt niður; Í öðru lagi verkar svefnlyfið Imovane (tilheyrir svokölluðum z-lyfjum eða cýklópyrrólon-lyf) á mjög svipaðan máta og bensódrínlyf og sama vesenið fylgir að hætta á því. Ég varð verulega veik þegar ég var hætt á Rivotril og tók þá strax til að trappa Imovane of hratt niður. Snemma í júlí voru þessir kjálka-/góm-/sviðaverkir orðnir nánast óbærilegir. Þá fór ég aftur á Rivotril, 0,5 mg á sólarhring, og hélt því meðan ég trappaði lúshægt niður Imovane, sem ég losnaði endanlega af í júlílok.
Svo hófst Rivotril-tröppun á ný. Í þetta sinn las ég almennilega yfir greinar og bæklinga og vefsíður um bensódrínlyf. Má nefna að Landlæknisembættið hefur gefið út klínískar leiðbeiningar um slík lyf, Um notkun benzódíazepín-lyfja. Leiðbeiningar um ábendingar, ávísun og stöðvun lyfjanotkunar. Bæklingurinn kom út árið 2008. Þar segir m.a.:
Rannsóknir hafa leitt í ljós að unnt er að hætta meðferð með benzódíazepín-lyfjum sem jafnvel hefur staðið í mjög langan tíma. Langtímanotendur sem hætta meðferð láta þess oft getið hvernig líf þeirra breyttist eftir að þeir lögðu töflurnar á hilluna. Margir lýsa því að þeim hafi fundist þeir vera í þokukenndu ástandi meðan meðferðin stóð og hafi skort framtak og átt í erfiðleikum með einbeitingu. Einkennin hurfu eftir að lyfjameðferðinni var hætt og þeir urðu hæfir til þess að hugsa skýrar og fengu nýjan áhuga á umhverfi sínu. (S. 2.)
Þetta er einmitt upplifun mín, ég hugsa æ skýrar eftir því sem Rivotrilmagnið minnkar, minnið hefur snarbatnað o.fl. og mér er spurn: Af hverju í andskotanum var ég látin taka Rivotril í níu ár?
Í þessum sömu klínísku leiðbeiningum Landlæknisembættisins kemur skýrt fram að notkun bensódrínlyfja gegn kvíða eigi að vera skammtímameðferð.
Víða er þess getið að því lengri sem helmingunartími bensódrínlyfs er því erfiðara sé að hætta notkun þess. Þetta á einmitt við Rivotril enda segir geðlæknirinn Daniel J. Charlat í bókinni frægu Unhinged (sem kom út fyrir tveimur árum og ég mun blogga um fljótlega): „Klonopin [Rivotril er selt í Amríku undir þessu nafni], a highly addictive benzodiazepine, is notoriously hard to discontinue.“ (S. 196.)
Bæklingur Landlæknisembættisins virðist saminn að hluta upp úr The Ashton Manual. Í þeim segir hið sama um hvernig eigi að hætta á bensódrínlyfjum eftir langvarandi notkun, hér tilvitnun í klínískar leiðbeiningar Landlæknisembættisins:
Sú þumalfingursregla hefur verið notuð að tíminn sem stigminnkun lyfjaskammtsins tekur, talinn í mánuðum, eigi að vera svipaður og notkunartíminn í árum. Hvort minnkunarferlið í heild tekur 3, 6 eða 12 mánuði skiptir litlu máli þegar notkunin hefur staðið árum saman. Mestu máli skiptir að dregið sé úr meðferðinni jafnt og þétt og sífellt sé stefnt fram á við. (S. 6.)
Ég ákvað, í þessari annarri tilraun til að losna af Rivotrili, að styðjast við þumalfingursregluna og taka mér þá allt í allt níu mánuði til að hætta. Þótt ráðlagt sé bæði í klínískum leiðbeiningum Landlæknisembættisins og í Ashton handbókinni að skipta yfir í díazepam (valíum) og trappa það síðan lúshægt niður (bæði vegna þess að það hefur bensólyfja lengstan helmingunartíma og er því ólíklegt til að valda rúsi heldur helst sæmilega stabílt í líkamanum og einnig vegna þess að það lyf má fá í ótal skammtastærðum) fannst mér ég vera komin of langt í tröppun til að standa í slíku. Svoleiðis að nú minnka ég Rivotril um ca. 6 mg á þriggja vikna fresti. Það er hægara sagt en gert og reynir á föndurhæfileika! Eftir að hafa prófað alls konar hnífa og bölvað slælegum vinnubrögðum Roche í töflusteypu fann ég út að skást var að klípa sneið af pilluhelmingum með augabrúnaplokkara. Aðferðin sést á myndinni til hliðar. Hún er ekki mjög vísindaleg, líklega hitti ég sjaldnast á akkúrat 6 mg sneið, en hún dugir. Með þessari aðferð ætti ég að losna af Rivotril laust fyrir jól. Vonandi sit ég ekki uppi með helvítis verkina næsta árið, það getur þó verið skv. Asthon handbókinni.
Þess ber að geta að ég hef engan stuðning við þetta baks við að hætta á Rivotril frá mínum geðlækni. Hann sagði mér í síðustu viku að það tæki 4-6 vikur (mögulega sagði hann 4-8 vikur) að hætta á Rivotril, líka fyrir þá sem hefðu notað lyfið árum saman. Honum fannst ósennilegt að verkirnir sem ég sagði honum frá stöfuðu af Rivotril-fráhvarfi og lagði til að ég pantaði tíma hjá háls-nef- og eyrnalækni. Ég hef reynt að ná tali af lækni á Vogi til að vita hvort fagmenn þar á bæ kannist við akkúrat svona fráhvörf en það er ekki hægt að fá að tala við lækni á Vogi.
Til gamans kræki ég í lokin í gamla grein eftir íslenskan geðlækni og annan til þar sem kemur prýðilega fram hvaða fráhvarfseinkenni fylgja því að hætta á bensódrínlyfjum á 4-6 vikum eftir langvarandi töku slíkra lyfja og einnig skín vel í gegn hvað höfundum greinarinnar virðist skítt sama um líðan sjúklinganna, aðalatriðið er að gera á þeim spennandi rannsókn:
Petursson og Lader. 1981. Withdrawal from long-term benzodiazepine treatment í British Medical Journal 1981 September 5; 283(6292): 643–645. Þetta er skönnuð grein og þarf að fletta áfram með því smella á blaðsíðutakkana neðst á síðunni.