Prjónið og fagorðin

Elstu ritheimildir um prjón hér á landi er að finna í skjölum Guðbrands biskups Þorlákssonar á Hólum. Þar segir:

af landskylldum giort j Suarf(ad)ardals vmbodum med Vrda jordum og Socku. anno 1582 j fardogum. burt golldit j kaupgiolld og skullder. [- – -] prioonasaumur 22 paur.

og

[- – -] a Vrdum Domnicia 2a post epi(phaniam) anno 1583 [- – -] a eg nü þar von ae af tijundarvadmalum xx alnum. jitem j vor ad kom v voder og vij alner. jitem prionasaumur lxxx og xvj pör.

(Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar, s. 227-228)

Árið 1581 bókar Guðbrandur biskup að upp í landskuld af Gardzhorni hafi verið goldið m.a. með „vj paur socka“ (Bréfabók G. s. 195) og minnist á „íííj paur so(k)ka“ í öðru skjali (Bréfabók G. s. 218). Það má því ætla að prjónasaumurinn sem hann nefnir 1582 hafi verið prjónaðir sokkar.

Orðið prjónasaumur var svo notað áfram yfir prjónaðar flíkur, allt fram á 20. öld, skv. dæmum Ritmálssafns (Orðabókar Háskóla Íslands) en frá miðri 17. öld hefur þekkst orðið prjónles og hefur það á síðari öldum orðið ofan á.

Orðið prjónaður kemur líka fyrst fyrir í efni tengt Guðbrandi biskupi, þ.e. í Guðbrandsbiblíu, Jóhannesarguðspjalli 19:24,  þar sem segir um kyrtil Jesú: „Enn kyrtillin[n] var eigi saumaðr / helldr fra ofan verdu allr prionadr.“ Í ofurlítið yngri heimild segir um sama kyrtil: „hann [kyrtillinn] var ecke saumadur helldur prionadur.“ (Passio, þýdd bók eftir Lúther, gefin út á Hólum árið 1600, s. 208.)

Orðið prjónn var þekkt í íslensku frá fornu fari og líklega merkti það síll/sýll eða alur, a.m.k. oddmjótt hvasst verkfæri. Í Sturlungu er nefndur Ögmundur nokkur sem hafði viðurnefnið prjónn. „[…] lat brenna allann [fjárhlut] sva ath konungr hafi hvorki af prionn ne pening“ segir Valgautur jarl í Ólafs sögu hins helga; “alin [er] kambur og prionn og nal” segir í lista yfir verðgildi í handriti af Búalögum, líklega frá 1550. Í Íslenskri orðsifjabók segir að uppruni orðsins sé umdeildur; sumir telji það fornt tökuorð úr fornslavnesku, prionu, sem sé sama orðið og prion[i] í grísku og merki sög eða bor. Aðrir haldi að orðið sé af germönskum toga, upphaflega rótin hafi verið *preu-, sem þýði stinga eða ota. Í sömu heimild segir að ólíklegt sé að íslenska orðið prjónn sé tökuorð úr fornensku, fornenska (og miðenska) orðið var preon, en það er ekki rökstutt nánar. Cleasby og Vigfússon halda því hins vegar fram að íslenska orðið prjónn samsvari gelíska orðinu prine og skoska orðinu prin. Í miðensku var til orðið preon, sem þýddi prjónn, og mögulega sögnin preonen (dæmin sem tekin eru í A Middle English Dictionary eftir Stratman um þessa sögn sýna ekki afdráttarlaust að hún hafi þýtt að prjóna þótt höfundur orðabókarinnar staðhæfi það). Í Hjaltlandseyja-Norn var til nafnorðið prin, sem þýddi alur eða stór títuprjónn. Jakob Jakobsen telur að þetta sé sama orðið og íslenska orðið prjónn. Í færeysku er til orðið prónur (eldra preunur) sem þýðir stór títuprjónn eða prjónn og rekja má þetta orð víðar.

Í Guðbrandsbiblíu sést mætavel að orðið prjónn hefur á dögum Guðbrands ennþá verið samheiti við al eða sýl þótt Íslendingar hafi þá tileinkað sér tæknina að prjóna og líklegt er að sögnin sé mynduð með hliðsjón af verkfærunum, prjónum: „… tak einn Prion / og stijng i giegnum hans Eyra“ (5. Mósebók 15:17) – í nútímaþýðingu er klausan: „…  þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans.“ Annars staðar í Guðbrandsbiblíu stendur: „… og stinga i giegnum hanns Eyra med Al“ (2. Mósebók 21:6) – nútímaþýðingin er: „[Síðan skal húsbóndi hans] stinga al í gegnum eyra hans.“

PjonaDanski málfræðingurinn Inge Lise Pedersen telur að norska sögnin pjåna eða pjaodna sé upphaflega sama sögn og sú íslenska, prjóna.  Hún vitnar í Ross [sem hlýtur að vera Hans Ross orðabókarhöfundur, f. 1833, en heimildar er að öðru leyti ekki getið] sem skýri sögnina „hekle ell. strikke paa en egen maade“. Orðið var algengast á Hörðalandi. Nú á dögum er norska nafnorðið pjoning notað um ákveðið hekl, stundum kallað bosnískt hekl (shepherd’s knitting á ensku), sem er eiginlega bara heklaðar fastalykkjur. Hekl er hins vegar miklu yngri tækni á Norðurlöndunum en prjón. Inge Lise Pedersen rökstyður að pjåna hljóti að hafa upphaflega átt við nálbragð. (Rökstuðning fyrir hinu sama má sjá í grein Margarete Morset, Hårnål eller heklenål? í tímaritinu Spor 1987.) Af því að orð geti færst af einni tækni yfir á aðra geri það mönnum erfiðara fyrir að að meta hvort upplýsingar [Ross] um að pjåna hafi þýtt prjóna sé misskilningur eða að sú merking hafi verið til en sé nú týnd, segir Pedersen. Hún getur sér síðan til að pjåna hafi áður verið notað um ákv. tvíbandaprjón, kallað tvåäandstickning nú, og enn eldri notkun sé nálbragð. Loks stingur hún upp á að Norðmenn hafi haft orðið í farteskinu þegar þeir námu land á Íslandi og jafnvel mætti halda því fram að orðið pjåna (nú pjona) sé nú eitt af örfáum íslenskum tökuorðum í norsku. Satt best að segja skil ég ekki alveg hvernig hún hugsar síðastnefndu fullyrðinguna en vel að merkja segir Pedersen sjálf að hún sé „kættersk tanke“ (villutrúarhugmynd)!  Fyrir um ári síðan bar ég þessi líkindi með pjone og prjóna undir málfræðinginn Guðrúnu Kvaran en hún taldi ekki vera tengsl milli þessara tveggja orða. Myndin er af pjoning-nál og pjonuðu stykki.
 

Til að draga þetta saman má segja að nokkuð öruggt sé að íslenska orðið prjónn hafi verið til, í annarri merkingu þó, þegar Íslendingar lærðu að prjóna. Það að dregin sé sögn af þessum verkfærum (prjónum) hafa sumir viljað tengja við Englendinga, því líkt orð þekktist um verkfærið prjón á ensku, og notað sem rök fyrir að Íslendingar hafi lært að prjóna af enskum sjómönnum. En af því orðið má rekja víðar eru þetta ekki sérlega góð rök fyrir þeirri tilgátu, allt eins líklegt er að Íslendingar hafi lært þessa tækni af hollenskum eða þýskum. Mögulegt er að eitthvert orð hafi verið til í íslensku yfir nálbragð sem líktist sögninni prjóna en um það er ekkert vitað. (Kristján Eldjárn stakk á sínum tíma upp á orðinu nálbragð og mér vitanlega er ekki varðveitt neitt gamalt íslenskt orð yfir þá tækni.)
 

Gömul prjónaorð á hinum Norðurlöndunum
 

  • Binde var algengasta sögnin fyrir prjóna í Danmörku. Það er reyndar líka þekkt í eistlandssænsku, sums staðar í Noregi og í Færeyjum. Enn þann dag í dag binda Færeyingar og nota til þess stokka (orðið yfir prjóna).
  • Knytte var notað í Danmörku og Skáni og Hallandi í Svíþjóð. Í Slésvík var orðið notað yfir h-prjón, þ.e.a.s. þegar menn prjónuðu líkt og Englendingar gera ennþá, kasta þræðinum yfir með vísifingri á hægri hönd, en á Mið-Sjálandi var knytte aðallega notað um v-prjón, þ.e.a.s. prjónaðferð þá sem  Norðurlandabúar nota flestir í dag þar sem garnið hvílir á vísifingri vinstri handar.
  • Lænke var einungis notað í Danmörku, á Lollandi, Falstri, Vestmøn og Suður-Jótlandi.
  • Pregle er lágþýskt tökuorð og var notað syðst á Jótlandi.
  • Pinde var notað á afmörkuðu svæði á Vestur-Jótlandi.
  • Spete þekktist í Borgundarhólmi og á Suður-Skáni.
  • Sy var notað sums staðar í Smálöndum og Austgotalandi.
  • Sömma þekktist víða annars staðar í Svíþjóð yfir prjóna.
  • Sticka er gamalt orð  í mjög mörgum sænskum mállýskum. Sticka getur líka þýtt sauma. Svíar sticka nú á dögum þegar þeir prjóna.
  • Strikke / stricke var notað í Danmörku og Svíþjóð. Orðið kemur fyrir í ýmsum myndum, t.d. þekkjast strick-, strix, strigstrømper í  dönskum textum frá 17. öld. Strikke er nútíma danska og norska sögnin yfir prjóna.
  • Spita (og spyte) var algengt víða í Noregi. Sums staðar var notað orðmyndin spøte.

Að mati Inge Lise Pedersen má skipta norrænum orðunum sem þýða prjóna nokkurn veginn í þrjá flokka:

Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er við garnið; binde, knytte, lænke, strikke þýða í raun öll að hnýta saman þráð í hnúta eða lykkjur;
Flokkur orða sem lýsir því hvað gert er með prjónunum; pinde, pregle, prjóna, spøte (og sticka?) lýsa því að prjónum er stungið í lykkjur til búa til nýjar lykkjur;
Flokkur orða sem eru fengin að láni úr annarri hannyrðahefð; sy, sömma (og sticka?).
 
 
 

Heimildir:

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans 1989.
Bréfabók Guðbrands byskups Þorvaldssonar birt af Hinu Íslenzka Bókmenntafélagi 1919-1940. Páll Eggert Ólason sá um þessa útgáfu.
Cleasby, Richard og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
Føroysk orðabók. Føroya Fróðskaparfélag 1998.
Guðbrandsbiblía (Biblía. Þad Er Øll Heilóg Ritning vtlógd a Norrænu.) útg. 1584.
Jakobsen, Jakob. Etymologisk ordbog over det norrøne sprog på Shetland. Útg. 1921.
Jón  Hilmar Magnússon. Íslensk færeysk orðabók. Útg.  2005
Luther, Martin. Passio. Þad er Historian Pijnunnar og Daudans vors Frelsara Iesu Christi. Útg. 1600.
Morset, Margarete. Hårnål eller heklenål?  Spor – fortidsnyt fra midt-norge. 1987, 2. árg. 4. hefti s. 8-9.
Orðabók Árnanefndar: Ordbog over det norrøne prosasprog. Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Kaupmannahafnarháskóli.
Pedersen, Inger [svo] Lise. Binde, pregle, spita, sticka, sy. Udkast til en kortlægning af nordisk strikketerminologi. Nordiska Studiar. Innlegg på den tredje nordiske dialektologkonferansen, s. 303- 325. Útg. 1988 (en ráðstefnan var haldin 1986).
Svabo, J. C. Dictionarium Færeoense. Færøsk – dansk – latinsk ordbog. Útg. 1966
Stratmann, Francis Henry og Henry Bradley. A Middle-English Dictionary. Útg. 1891.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation