Siðanefnd vísar kæru Vantrúar frá

Garðalundur á AkranesiFélagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson enn einn ganginn fyrir siðanefnd Háskóla Íslands nú í sumar (sjá færsluna Vantrú kærir Bjarna Randver í fimmta sinn). Skipuð var ný siðanefnd til að fjalla um þetta mál enda höfðu þeir tveir sem skipa venjulegu siðanefnd HÍ starfað í tveimur siðanefndum sem hvorugri tókst að ljúka málinu.

Í dag bárust þær gleðilegu fréttir að siðanefnd HÍ hefði vísað kæru félagsins Vantrúar frá enda sé hún sé hún tilefnislaus og uppfylli þar með ekki skilyrði 4. gr. starfsreglna nefndarinnar um málsgrundvöll.

Þessi siðanefnd vann málið mjög faglega frá grunni. Andmælaréttur félagsins Vantrúar og Bjarna Randvers var virtur í hvívetna og því leið talsverður tími þar til svör og andsvör voru komin í hús. Félagið Vantrú fór reyndar fram á að ekki yrði tekið mark á flestum þeim gögnum sem Bjarni Randver lagði fram en siðanefnd tók ekki tillit til þeirrar óskar Vantrúar nema að takmörkuðu leyti.

Í úrskurði siðanefndar segir m.a. (feitletrun í texta er mín):

Til að geta skorið úr um hvort kæra um brot á siðareglum sé tilefnislaus samkvæmt 4. gr. starfsreglna nefndarinnar verður að kanna hvort tilefni hennar er til staðar eða hún reist á röngum forsendum. Fyrst er að líta til þess að enginn félagsmanna Vantrúar sat umrædda kennslustund í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og þeir sáu glæruraðirnar ekki fyrr en síðar. Glærurnar voru til umræðu, umfjöllunar og greiningar í lokaðri kennslustund en voru ekki ætlaðar til opinberrar birtingar, enda kemur samhengi námskeiðsins ekki fram á þeim. Mikilvægt er að skoða glærurnar í samhengi við efni og markmið námskeiðsins, kennsluaðferðir og nálgun að viðfangsefninu svo og útskýringar kennara á tilgangi þeirra og framsetningu. Ekki síst skiptir máli hver var upplifun þeirra nemenda sem sátu kennslustundina þar sem þær birtust, þegar leggja skal mat á hvort umfjöllun um trúlausa og félagið Vantrú gaf tilefni til kærunnar. Þá þarf að taka tillit til víðtæks svigrúms kennara til að haga framsetningu efnis og kennsluaðferðum eftir því sem hann telur hæfa best til að ná markmiðum námskeiðs og námskeiðslýsingar, á þeim akademísku forsendum sem hann leggur til grundvallar.
[- – -]
Þegar allt framangreint er virt er það mat siðanefndar að umfjöllun Bjarna Randvers Sigurvinssonar um trúlausa og félagið Vantrú í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar hafi samrýmst viðurkenndum kennsluaðferðum, verið innan ramma lýsingar á viðfangsefnum, efnistökum og markmiðum námskeiðsins og hvorki falið í sér áróður né skrumskælingu. Hefur þannig verið leitt í ljós að ekki sé tilefni til þeirrar kæru sem hér er til skoðunar. Þar sem skilyrði 4 gr. starfsreglna siðanefndarinnar um málsgrundvöll eru ekki uppfyllt er málið ekki tækt til umfjöllunar hjá nefndinni.

Tveggja ára og átta mánaða martröð Bjarna Randvers er loksins lokið nema félagið Vantrú upphugsi fleiri stofnanir til að kæra hann fyrir. Í tilefni þessara gleðilegu frétta er færslan myndskreytt með friðsældinni í Garðalundi í dag.

Félagið Vantrú mun væntanlega tjá sig von bráðar um þennan úrskurð á sinni heimasíðu. Kann að hugsast að Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar og ötull talsmaður félagsins í málavafstri þess gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, sé að tjá skoðun sína á úrskurðinum í nýjustu bloggfærslu sinni, en mögulega er kveikjan að henni eitthvert annað óréttlæti sem Matthías telur sig nýlega hafa orðið fyrir. [Ath. að Matthías leyfir ekki aðgang að sínu bloggi af þessu bloggi svo það þarf að afrita slóð Örvitans í nýjan glugga í vafranum.] 
 

48 Thoughts on “Siðanefnd vísar kæru Vantrúar frá

  1. Þakka þér að standa vaktina í þessu máli, Harpa.

  2. Jóhanna Gestsdóttir on October 5, 2012 at 22:40 said:

    Þetta er að sjálfsögðu eina rökrétta niðurstaðan. Vantrú virðist full af ofsatrúarfólki í þessu máli sem öðrum.

  3. Helgi Ingólfsson on October 6, 2012 at 01:02 said:

    Kærar þakkir fyrir upplýsingagjöfina, Harpa. Og einnig fyrir að standa almenna vakt gegn fávitavæðingu samfélagsins.

    Mér sýnast þau úrskurðaratriði (nýjustu) siðanefndar, sem þú vísar í hér að ofan, fela í sér nokk sömu niðurstöðu og tók mig 3 daga að komast að, frá því ég fyrst heyrði af málinu. Að mínu mati er hér einfaldlega um að ræða sigur skynseminnar – hjúkkit!
    —–
    Finnst þér annars ekki merkilegt að þegar kemur að samskiptum vegna klögumála sem Vantrú hefur staðið fyrir – lögformlegt félag með formann, varaformann, ritara og gjaldkera – þá ræða fjölmiðlar aldrei við ofantalda ábyrgu aðila, heldur við óábyrgar undirtyllur? Finnst þér það eðlileg fréttamennska? Mér er ekki kunnugt um að neinn fjölmiðill hafi rætt þessi mál við Reyni Harðarson sálfræðing, sem lagði inn 3 klögumál á hendur háskólakennaranum árið 2010 sem þáverandi formaður Vantrúar, né hafa fjölmiðlar í núverandi (nýloknu) klögumáli mér vitanlega rætt nýjustu kæruna við Egil Óskarsson leikskólakennara, núverandi formann Vantrúar. Er ég einn um að finnast þessi tilhögun og framganga fjölmiðla athugaverð?
    —–
    Að lokum, hver er þá staða málsins núna? Hefur Bjarni Randver hugsanlega í höndum tilefni til að fara í skaðabótamál við félagið Vantrú vegna tilefnislausra fjárútláta, mögulegs eineltis, mannorðssvertingar og/eða ærumeiðinga?

  4. Ég er sammála þér, Helgi, um að þetta var skynsöm siðanefnd (og að við séum líka einkar skynsöm) 😉

    Jú, ég hef stundum spáð í af hverju er alltaf talað við Matta, sem er bara óbreyttur félagsmaður. Gæti trúað að Reynir hefði skrifað undir einhvern vinnusamning sem bannar tjáningu í fjölmiðlum. Veit ekki af hverju aldrei heyrist bofs í Agli.

    Tja … ég hef ekki hugmynd um hvað Bjarni Randver gerir. Ég er hins vegar viss um að flestir hefðu fyrir löngu kiknað og orðið óvinnufærir af áfallastreitu, jafnvel fárveikir, eftir atlögur í meir en tvö ár! Það gleður mig innilega að málinu sé formlega lokið.

  5. Helgi Ingólfsson on October 7, 2012 at 13:45 said:

    Harpa (arhs. 4):

    Ég skil ekki alveg hvernig formaður félags verður óstarfhæfur sem talsmaður þess félags sem hann er í forsvari fyrir út á það eitt að fara að vinna einhvers staðar.

    Kæmi slík staða upp, hefði ég talið eðlilegt að slíkur formaður segði af sér og annar tæki við.

    Auk þess hefði ég talið eðlilegt, í “eðlilegu” félagi, að leitað væri til varaformanns, ef formaður reynist vant við látinn. Sú virðist ekki raunin hjá Vantrú.
    —–
    Jóhanna (aths. 2): Sú var tíðin að ég taldi öfgatrúarfólk geta orðið samfélagsmein. Í seinni tíð sýnist mér það ekki síður geta átt við um öfgatrúleysingja.

  6. Guðbergur Ísleifsson on October 7, 2012 at 13:55 said:

    Það er auðvitað gott að málinu sé formlega lokið. Það slæma situr samt eftir, þ.e. að þessari fáránlegu kæru Vantrúar skyldi ekki vísað frá strax í upphafi því hún var alveg jafn staðlaus þá eins og hún er nú. Klúðrið liggur augljóslega hjá þeirri siðanefnd sem ljáði upphaflega máls á vitleysunni í óskiljanlegri meðvirkni með þessum haturshóp sem Vantrú er, sem aftur leiddi til þess að Bjarni þurfti ekki bara að verja hendur sínar og heiður á tveimur vígstöðvum í einu heldur standa undir miklum fjárútlátum til þess.

    Heiður Bjarna sem fræðimanns og kennara hefur nú endanlega verið varinn í málinu, um það tekur þessi nýjasti úrskurður af öll tvímæli þótt bréf rektors í febrúar síðastliðnum hafi reyndar gert það áður í mínum huga. Eftir stendur fjárhagslegt tjón Bjarna af klúðrinu. Að mínu mati þá á Háskóli Íslands tvímælalaust að bæta honum þann skaða. Fyrr finnst mér málinu ekki lokið að fullu.

    Að vísu boðar Vantrú í nýjustu færslunni á vefsíðu þessa ótrúlega illviljaða félagsskapar að þar verði “nánar fjallað um málið á næstunni”. Hvað það á að fyrirstilla veit maður ekki og því síður tilganginn. Það eina sem kemur upp í hugann er að þessu vesalings fólki sem þarna heldur á málum sé ekki sjálfrátt.

    Ég skora á þá örfáu Vantrúarfélaga sem hafa ekki enn afsalað að fullu vilja sínum og viti í hendurnar á forkólfum þessa félagsskapar að yfirgefa skipið áður en þeir sökkva mannorði þeirra endanlega. Íslenskt þjóðfélag þarf á öllu öðru að halda en svona haturshópum sem virðast lifa fyrir það eitt að koma illu til leiðar. Vantrú og stýrimenn þess félags eiga ekki skilinn neinn hljómgrunn.

    Bjarna óska ég velfarnaðar og vona að hann fái tjón sitt bætt.

  7. Benjamín on October 7, 2012 at 18:38 said:

    Er niðurstaða siðanefndar aðgengileg á netinu einhvers staðar?

  8. Niðurstaðan er ekki aðgengileg sem stendur. En ég birti úrskurð siðanefndar í heild á þessu bloggi seinna í kvöld.

  9. Og hef birt úrskurðinn núna, sjá hér

  10. Helgi Ingólfsson on October 8, 2012 at 10:02 said:

    Guðbergur (aths. 7):

    Varðandi uppástungu þína, að Vantrúarmenn yfirgefi skipið, þá má velta fyrir sér hvort þetta hafi ekki einmitt í nokkrum mæli gerst. Síðan þetta vonda mál komst í hámæli, þá hefur lítið sem ekkert farið fyrir umræðu Óla Gneista Sóleyjarsonar og Reynis Harðarsonar, tveggja síðustu formanna Vantrúar, um mál tengd Bjarna Randver, a.m.k. ekki á opinberum vettvangi.
    —-

    Harpa (aths. 4):

    Benda má á að Reynir, sem lagði inn 3 klögumál hjá HÍ fyrir hönd Vantrúar í upphafi febrúar 2010, var enn að tjá sig um trúleysismál og málefni Vantrúar svo seint sem í okt. 2010, þegar út kom þýðing hans á “Ranghugmyndinni um Guð” eftir Richard Dawkins, en þar ritar Reynir afar persónulegan eftirmála um viðfangsefnið og “baráttu sína” í trúleysismálum. Á 8 mánuðunum, sem þarna liðu á milli, hefði maður ætlað að einhver fjölmiðill hefði reynt að fá Reyni til að tjá sig um kærumálið.
    —–

    Almennt má benda á að upplifun Vantrúarmanna af veruleikanum virðist vera önnur en “venjulegs” fólks. Þeir virðast ekki geta sætt sig við að þorri fólks, sem kynnt hefur sér efnið í þaula, sé þeim ekki sammála eða virðist ekki sjá hið sama og þeir á umræddum glærum – nú síðast sú siðanefnd sem nýlokið hefur störfum. Ætti það ekki að vekja upp spurningar um veruleikatengingar? Vantrúarmenn, málshefjendur í þessu ljóta klögumáli, virðast endalaust sjá sig sem fórnarlömb í málinu, en ekki á neinu stigi sem gerendur.

    Nema stundum. þegar hallar á Vantrú, virðist félagið opna Overton-gluggann og taka sér stöðu eins og málið allt sé því óviðkomandi. Þetta má t.d. sjá í heiti á umræðuþræði, sem félagið opnaði á vef sínum nýlega, eftir að ofangreindur úrskurður lá ljós fyrir. Þar er yfirskriftin “Bjarni Randver vann, Háskóli Íslands tapaði.” Ha? Hvar er Vantrú, málshefjandi og lykilmálsaðili klögumálsins endalausa, í þessari jöfnu?
    —–
    Ég tek undir orð þín, Guðbergur, með óskir til Bjarna um velfarnað í starfi og von um að hann fái tjón sitt bætt – þótt mig gruni að honum hafi verið valdið tjóni sem sé óbætanlegt, því miður. Er málinu þá lokið? Ekki er ég alveg viss um það, miðað við vígreifan tón sumra Vantrúarmanna inni á umræðuþræðinum “Bjarni Randver vann, Háskóli Íslands tapaði.”

  11. Carlos on October 8, 2012 at 10:15 said:

    Ég held að þögn þeirra Reynis og Óla Gneista í máli Bjarna Randvers nú, eftir að þeir voru báðir gerendur og rekendur í upphafi útskýrist með núverandi vinnustað þeirra og skiljanlegum áhuga á að vilja ekki (lengur) vera ásteitingarsteinn núverandi skjólstæðingum eða viðskiptavinum.

    Það sér hver sjálfan sig í því.

  12. Helgi Ingólfsson on October 8, 2012 at 11:27 said:

    Carlos (aths. 11):

    Harpa hefur upplýst og útskýrt varðandi vinnustað Reynis, en hvaða vinnustaður Óla Gneista er svona óhemju viðkvæmur að hann tjái sig ekki um mál, sem hann átti svo ríkan þátt í að hefja? Hefur hann sem sagt skipt um vinnustað og farið frá einum síður viðkvæmum yfir á annan viðkvæmari?

    Spurningin, sem ég er að velta fyrir mér, hljómar nefnilega einhvern veginn svo á mannamáli: Geta menn farið af stað með aðför og síðan bara kúplað sig út eða orðið ábyrgðarlausir eða stikkfrí á seinni stigum málsins, bara af því að það hentar þeirra persónulegu aðstæðum?

  13. Tja, ef ég ætti það undir viðmóti mínu, hvort ég laða til mín viðskiptavini eða ekki, hvort ég nýt trausts eða verð þvergirðingur fram í rauðan dauðann, gettu hvað ég myndi velja.

    Ég held að það sé hverjum manni hollt að skoða samskiptapakkann sinn endrum og eins og, til að svara spurningu þinni, já, menn eiga að fá að gera það.

    Ég myndi hinsvegar hugsa mig tvisvar um áður en ég leitaði ásjár hjá fyrrum bardagahestum í þessari rimmu, eða treysti þeim fyrir gullinu mínu, hvað sem það er. En það er nú bara ég.

  14. Mér finnst langlíklegast að Óli Gneisti og Reynir setji traust sitt á gullfiskaminni fólks almennt og vonist til að verk / athafnir þeirra gleymist sem fyrst. Þótt ég haldi að svo verði ekki.

    Gaman að þú skulir minnast á eftirmála Reynis við þýðingu hans á Ranghugmyndinni um Guð: Ég nennti ekki að lesa bókina (hef ekki áhuga á efninu) en las þennan eftirmála af athygli og þótti margt í honum sérdeilis merkilegt (enda var ég að velta fyrir mér þá hvaða mann Reynir Harðarson geymir).

    Hitti nokkra samkennara þína í morgun, Helgi, og einn þeirra kyssti mig á kinn, að venju 🙂 Það er alltaf jafn gaman að droppa við í Schola Reykjavicensis!

  15. Helgi Ingólfsson on October 8, 2012 at 21:28 said:

    Harpa (aths. 14):

    Ekki er nú að spyrja af kvenseminni í kollegunum.:) Frétti af heimsókn þinni og að þú hefðir slegið rækilega í gegn. Þú ert bara orðin eins og grár köttur þarna.;)
    —–
    Mér sýnist beiskja vina okkar í Vantrú fyrst og fremst fá útrás í samsæriskenningum. Ég held að þeir trúi að ekki hafi bara samfélagið allt gert samsæri gegn þeim, heldur sjálf samfélagsgerðin. Stórmerkilegt. Þegar ég sótti um aðild að Vantrú, þá var ég nefnilega spurður sérstaklega út í hvort ég tryði á samsæriskenningar. Ég neitaði því, vitaskuld. Ég skil nú betur hvers vegna þeir höfnuðu umsókn minni.
    —–
    Ég er nokkuð kominn áleiðis við lestur skáldsögu mágs þíns og líst skrambi vel á, eiginlega bara stórvel, enn sem komið er. Minnir þó ögn á “Hraunfólk” Björns Th. En orðkynngi og býsna mergjuð skáldhugsunin er tvímælalaust til staðar hjá bóksalanum.

  16. Guðbergur Ísleifsson on October 10, 2012 at 13:06 said:

    Já, Helgi, ég er á því að það hafi verulega sljákkað í Vantrú síðan öllu venjulegu fólki varð ljóst að þessar kærur þeirra félaga á hendur Bjarna voru ekki byggðar á öðru en hatursfullri meinfýsni sem fólst í að koma persónulegu “pungsparki” á Bjarna eins og einn Vantrúarmeðlimurinn orðaði það, og um leið höggi á guðfræðideild Háskólans. Þeir töldu sig geta þyrlað upp nægu moldviðri til að villa mönnum sýn en áttuðu sig síðan á því (sumir þeirra a.m.k.) að það eina sem út úr moldviðrinu kæmi væru álitshnekkir fyrir orðspor þeirra sjálfra. Það er því skiljanlegt að margir Vantrúarfélaga hafi yfirgefið skipið í kjölfar formannsins fyrrverandi og vilji ekki lengur tjá sig um málið. Það er svartur blettur á þeirra ferli og ekki á hann bætandi.

    Mér er ómögulegt að skilja út af hverju menn eins og Matti, Birgir, Þórður, Valgarður og Hjalti viðurkenna þetta ekki líka og horfast um leið í augu við þá staðreynd að frekari árásir af þeirra hálfu munu engu skila nema enn meiri álitshnekkjum fyrir Vantrú og þá sjálfa.

    Þessar nýjustu samsæriskenningar þeirra félaga eru auðvitað ekkert annað en fálmkennd tilraun til að fá einhvern til að vorkenna sér. Þessir menn sem reyndu að svifta Bjarna bæði ærunni og starfi sínu hjá Háskólanum reyna nú fá samúð. Þeir sýna með þessu að þeir eru í raun bara veruleikafirrtir samsærissmiðir sem geta ekki horfst í augu við sannleikann og því síður gert það sem þeir ættu að gera: Að skammast sín og biðja Bjarna afsökunar á framferði sínu. Af því yrðu þeir meiri menn. Því miður virðist þá skorta allan heiður og sjálfsgagnrýni. Hefnigirnin er þeirra leiðarljós.

    Það verður forvitnilegt að sjá hvaða “frekari umfjöllun” um málið Vantrú ætlar að birta á vef sínum eins og þeir félagar boða í síðustu færslu sinni um það. Um leið hlýtur það að vera deginum ljósara að þeir Matti, Birgir, Þórður, Valgarður og Hjalti geta bara með engu móti skilið að því lengur og meira sem þeir sprikla um í þessu sjálfgerða kviksyndi sínu því dýpra sökkva þeir í það … og Vantrú með.

  17. Helgi Ingólfsson on October 10, 2012 at 13:41 said:

    Guðbergur (aths. 16):

    Það er eftirtektarvert að fylgjast með umræðuþræðinum á vef Vantrúar, “Bjarni Randver vann, Háskólinn tapaði.” Þar hafa flestir þeir, sem þú nafngreinir hér að ofan tjáð sig, en heldur fáir Vantrúarmenn til viðbótar.

    Og plottið er að þykkna þar á þræði. Nú er Biskupsstofa orðinn lykilaðili í nýjustu samsæriskenningu þeirra. Og ég sem hélt að Vantrúarstarfið gengi út á að hafna samsæriskenningum. En það á væntanlega bara við um þær samsæriskenningar, sem þeir sjálfir eru ekki smiðir að.

  18. Guðbergur Ísleifsson on October 10, 2012 at 16:02 said:

    Já, það er sorglegt að fylgjast með þessum fórnarlambskomplexum þeirra og samsærisórum. Vesalings mennirnir. Kannski er í lagi að vorkenna þeim dálítið fyrir hugarfarið sem þeir sýna en þegar maður les hvernig hlakkaði í þeim þegar þeir töldu sig hafa Bjarna “á höggstokknum” eins og Reynir þáverandi formaður lýsti stöðunni þann 16. apríl 2010 þá er erfitt að viðhalda þeirri vorkunn.

    Þeir kölluðu þetta einfaldlega yfir sig en leita nú allra leiða til að sannfæra sjálfa sig og aðra um að afleiðingarnar, þ.m.t. líðan þeirra, sé öllum öðrum að kenna en þeim sjálfum. Gott dæmi um menn sem geta ekki horfst í augu við eigin mistök og hrökkva þess í stað í algjöra afneitun.

  19. Helgi Ingólfsson on October 10, 2012 at 16:50 said:

    Guðbergur (aths. 17):

    Ég hef fylgst með Vantrúarþræðinum “Bjarni Randver vann, Háskólinn tapaði” og mér sýnist helst mega draga saman viðbrögð Vantrúarmanna þar í eina setningu: Beiskur er bugaður maður.

    Einnig finnst mér merkilegt hvernig þeir brigsla öllum um lygar og óheiðarleika, meðan þeir lýsa sjálfum sér sem staðföstum málsvörum sannleika og heiðarleika. En, eins og ég hef áður sagt, lögmál þeirra virðist vera á þann veg að þeir mega segja (og oft með sóðaorðbragði) það sem þeim sýnist um hvern sem er, en aðrir mega ekki svo mikið sem anda á þá. Mikill sé heilagleiki þeirra.

  20. Þessi langi svarhali við Vantrúarvefjarfærsluna lifir ótrúlega góðu lífi þótt fáir taki þar til máls. Eins og ég hef áður sagt þá verða Vantrúarforkólfar seint sakaðir um að gefast glatt upp og mættu mörg trúfélög öfunda þá félaga af þeirra heitu sannfæringu og meintu píslarvætti.

    Umræðan virðist mjög of hið sama far og tíðkast á Vantrúarvefnum, þ.e. menn hengja sig á smáatriði, brigsla þeim sem ekki eru sömu skoðunar um illar hvatir, lygimál og rökvillur (jafnvel um tröllskap) og vekja mikla og stöðuga athygli á hve illa er nú alltaf farið með Vantrúarfélaga.

    Birgir er búinn að staglast á því að hann hafi verið útmálaður gyðingahatari í kennslustund í HÍ. Ég hef ekki haft brjóst í mér til að benda á það á Vantrúarvefjarþræðinum hve erfitt það hljóti að vera að stunda gyðingahatur hér upp á Íslandi, bara svona praktískt séð, því hér eru ekki margir gyðingar (í svipinn man ég bara eftir Dorrit). Málin horfa ofurlítið skár þegar kemur að Valgarði sem baðar sig í því píslarvætti að hafa verið kallaður kynþáttahatari í kennslustund í HÍ. Samt eru sorglega fáir af öðrum kynþætti en þessum hvíta venjulega hér á skerinu, eiginlega alltof fáir. Það virðist hafa hvarflað að hvorugum að bara af þessum praktísku ástæðum er ansi ólíklegt að punktarnir á upptalningarglærunni um helstu gagnrýni á Dawkins og hans fylgismenn eigi við þá eða yfirleitt við Vantrúarliða.

    Ég er ekki viss um að félagið Vantrú birti fleiri færslur um þetta mál á sínum vef. Mér sýnist ritstjórn og formaður önnum kafin við að stafla upp nýjum færslum svo þessi eina lendi neðar á skjánum.

  21. Helgi: Gott þú fílar Mensalder Raben Mensaldersson 🙂

  22. Helgi Ingólfsson on October 14, 2012 at 23:26 said:

    Sæl, Harpa mín.

    Jæja, nú eru vinir okkar í Vantrú farnir að benda fingri á og þjófkenna Ingvar nokkurn Valgeirsson, sem ofbauð víst umfjöllun Vantrúar á innra spjalli þeirra og fannst siðferðileg skylda að koma efninu áleiðis til aðila sem málið varðaði.

    Það er, held ég, nokkuð ljóst að félagið Vantrú styður varla Bradley Manning eða telur Manning hafa haft rétt, siðferðilegan eða öðruvísi, til að leka því efni sem hann á að hafa lekið til Wikileaks.
    —–
    Annars verður forvitnilegt þegar Ingvar þessi fer að segja sína hlið á málinu. Þá greinir hann væntanlega frá því hvaða Vantrúarmaður það var, sem skildi eftir lykilorðið að innra spjalli Vantrúar inni í tölvunni sinni – hann getur varla verið bundinn neinum trúnaði um þau efni eftir svona trakteringar. Æ, hvað þetta var nú annars kjánalegt og klaufalegt. Verðum við ekki að gera ráð fyrir að lykilorðið hafi ekki verið vísvitandi skilið eftir? Sá klaufski Vantrúarseggur er væntanlega ærlegur, ekki satt? Eins og allir Vantrúarmenn eru? Annað en við “hin”, er það ekki?
    —-
    P.S. Mensalder er enn á borði mínu og verðum við betri vinir eftir því sem á líður. Annars er ég nú ekki kominn lengra en svo að Mensalder eldri Jónsson er enn lykilsögupersóna. Sumir kaflarnir eru óborganlega fyndnir, t.d. um Þjórsárbrúna og hræðslu Árna við hana.

  23. Sem bókmenntafræðingur verð ég að hrósa félaginu Vantrú fyrir afar skýran boðskap í færslunni, það fer ekki milli mála að Ingvar þessi er algert ódó en vantrúarfélaginn sem opnaði aðganginn og gleymdi að logga sig út er blásaklaust fórnarlamb; hér höfum við sumsé illvirkjann og ærlega nytsama sakleysingjann.

    En eins og í öllum alminlegum própaganda-bókmenntum vantar auðvitað heilan helling í söguna. T.d. hvernig Óli Gneisti misnotaði traust vinarins síns, hafði út úr honum glærurnar og afritaði tveggja manna spjall sitt við hann inn á hinn æðislega lokaða trúnaðarvettvang, þ.e. spjallborð Vantrúar (opið öllum vantrúarfélögum, sem líklega hafa slefað yfir hundraðið á þessum tíma).

    Og svo vantar nafn bláeyga nytsama sakleysingjans sem kann ekki að logga sig út af spjallborði …

    Annars finnst mér dálítið gaman að sjá hve stopular bloggfærslur mínar sem snerta félagið Vantrú og þess limi hafa góð uppeldisleg áhrif (séu svarhalar meðtaldir): Nú er sveitungi minn Birgir hættur að velta sér upp úr því að hann hafi verið kallaður gyðingahatari í kennslustund í HÍ og veltir sér í staðinn upp úr því að hann hafi verið sagður grafa undan góðu siðferði og allsherjarreglu í sömu kennslustund í sama skóla, á sinni fésbók.

    P.S. Mér þótti nú hún Manga langskemmtilegasti karakterinn.

  24. Helgi Ingólfsson on October 15, 2012 at 10:20 said:

    Ha? Kórdrengir Vantrúar með própaganda? Ég trúi því barasta ekki.

    Annars tók ég líka eftir því um daginn að Vantrúarmenn voru eitthvað farnir að ræða um hvernig menn hefðu beitt fyrir sig börnum í málinu. Manstu ekki eftir Vantrúarmanninum (við skulum ekki nefna nein nöfn), sem dró eigin heimilismann inn í umræðu í þeim tilgangi að þagga niður í gagnrýnanda? Og þurrkaði síðan ummæli sín burtu án fyrirvara, útskýringar eða afsökunar, svo að allt sem um þau stóð virtist vera bull út í loftið? Sá er víst einn grjótpáll sannleikans og siðferðileg máttarstoð félagsins.
    —-
    P.S. Ég er sammála þér með hana Möngu (enn sem komið er). Mér finnst býsna mergjaður kaflinn þegar æskuheimil hennar er gert upp og fjölskyldunni sundrað, út af einum sauð sem átti að hafa verið stolið til að börnin syltu ekki.

  25. Jújú, man eftir því. Og fannst heimilismaður útþurrkarans mjög myndarlegur 🙂

  26. Helgi Ingólfsson on October 15, 2012 at 15:54 said:

    Harpa, veist þú nokkuð nafnið á þessum seinheppna Vantrúarmanni, sem skildi (að eigin sögn óviljandi, skilst mér) lykilorð að innra spjallsvæði Vantrúar eftir í höndum annarra? Er ekki orðið tímabært í öllum þessum sakbendingum og nornaveiðum að það komi fram? Eða eru Vantrúarseggirnir með einkarétt á þess háttar skúbbum?

  27. Jú, ég veit nafn hins seinheppna. En ég læt ekki draga mig í leðjuslag a la Vantrú.

  28. Helgi Ingólfsson on October 15, 2012 at 16:17 said:

    Umsum sums, eins og Mensi eldri hefði sagt.

  29. Helgi Ingólfsson on October 15, 2012 at 17:14 said:

    Annars flaug mér sisona í hug, af því að þú hefur svo mikinn áhuga á vantrúrri þeólógíu og hagíógrafíu, að sennilega megi flokka alkunna kæru Vantrúar til HÍ í febrúar 2010 sem HIÐ ÞRÍEINA hjá félaginu. Þrennt sem þó er eitt, ekki satt?

    Svona verða víst trúarbrögð til. En ég held að kristnir hafi afgreitt þetta á kirkjuþingum á 4. og 5. öld, minnir mig, sem þversögn sem ekki er þversögn.

  30. Málflutningur vantrúarfélaga um kærurnar þrjár fellur vel að hugmyndinni um HIÐ ÞRÍEINA og virðist fólk sem eigi er gefið nema jarðleg spektin (og telur þetta þrjár kærur) pirra þá svolítið.

    Talandi um strangtrú Vantrúar: Hvar eru magdalenurnar? Það heyrist ekki múkk, hósti eða stuna frá þessum konum sem skipa meirihluta stjórnar Vantrúar.

    Nei, það eru bara sömu gömlu postularnir að messa sömu gömlu rulluna; Mér finnst þetta orðið soldið þreytt …

  31. Helgi Ingólfsson on October 15, 2012 at 18:02 said:

    Já, mikið rétt! Hvar eru magdalenurnar í allri umræðunni? Áttu þær ekki að vera andlitslyftingin til sönnunar því að ekki sætu þarna bara karlar að kjötkötlunum?

    Eða er þetta máske bara svona Öldungakirkja? Þar sem hinir fyrstu og elstu (karlar) ráða mestu?

  32. Helgi Ingólfsson on October 16, 2012 at 21:53 said:

    Harpa:

    Til hvers þarftu að vita hversu margir félagar eru í Vantrúarklúbbnum núna?

    Eru nokkrir orðnir þar eftir aðrir en guðspjallamennirnir fjórir, magdalenurnar þrjár og fáeinir nýlögráða testosterón-postular með Matthíasarkomplexa?

  33. Ég þarf sosum ekkert að fá að vita þetta … datt bara í hug að spyrja af því það eru svo sárafáir vantrúarfélagar sem taka þátt í umræðu á vefsetrinu Vantrúar. Sjálf er ég farin að efast um að magdalenurnar séu ennþá innanborðs í félaginu.

  34. Helgi Ingólfsson on October 17, 2012 at 09:26 said:

    Æ, Harpa mín, ertu að segja mér að hún Rebekka Búadóttir gæti verið hætt? Ég kunni svo ágætlega við hana, jafnvel þótt hún hafi bannað mér að ganga í Vantrú.

    Annars gæti ég auðvitað prófað að sækja um aðild aftur, svo að klúbbfélagatalið gildnaði að nýju og hægt væri að rífast áfram.:-)

  35. Carlos on October 17, 2012 at 10:42 said:

    Þetta með þrenninguna er þversögn sem er leyndardómur, ekki ráðgáta, þar sem leyndardómurinn er bara en verður ekki ráðinn, Helgi. Hin skýringin, þín, er náttúrlega miklu skemmtilegri, af því að hún gengur ekki upp.

    Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar leyndardómar ganga upp.

  36. Helgi Ingólfsson on October 17, 2012 at 16:43 said:

    Carlos (aths. 35):

    Takk fyrir ábendinguna. Ég er hinn versti rati, þegar kemur að guðfræði, enda má ég heita trúleysingi (og stóð utan þjóðkirkju þar til fyrir ári). En ég reyni að virða skoðanir annarra, um trúmál sem önnur mál. 🙂

    Hafðu kæra þökk fyrir rökfestu þína í Stóra Vantrúarmálinu.

  37. Carlos on October 18, 2012 at 10:55 said:

    Það þarf ansi sjóaðan guðfræðing til að átta sig á þessum hátogunum … ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið með því hvernig þú tjáðir þig um þrenninguna.

    Hún er í raun illmeltanleg og skilst aðeins í ljósi samspils sögu, persónulegrar reynslu og kreddu. Engin furða að úr því verði grautur.

    Takk sömuleiðis annars fyrir þín innslög, í téðu máli.

  38. Guðmundur Guðmundsson on October 18, 2012 at 18:57 said:

    Nú skil ég loksins hvernig Vantrú og Stuðklúbburinn BRS geta aldrei náð saman. Stuðfólkið notar guðfræðilega nálgun á röksemdafærsluna á meðan hinir brúka það sem haldfast er í þessum heimi.

  39. Heldurðu að þú sért ekki að misskilja þetta í kross, Guðmundur minn? Vantrú heldur dauðhaldi í að þrjár kærur séu í rauninni ein kæra, sem skilst eingöngu með hliðsjón af trúarlegri kenningu um hinn þríeina guð sem er einn en þó þrír í senn …

    Við Helgi (veit ekki með Carlos) erum hallærislega jarðbundin og sjáum því alltaf þrjár kærur þegar Vantrú sendi kærur á þrjá staði innan stjórnkerfis Háskóla Íslands sama daginn.

  40. Helgi Ingólfsson on October 18, 2012 at 21:52 said:

    Harpa:
    Ertu búin að kíkja á umræðurnar hjá Hrannari Baldurssyni inni á Moggablogginu? Eða ertu máske, skiljanlega, búin að fá nóg?

    Mér þótti skemmtilegur brandarinn inni hjá Evu Hauks með glataða soninn. Ég ætlaði að fara að kommenta eitthvað um að þar hefði skrattinn hitt ömmu sína … en ef til vill hefði það verið talið of trúarlegt. Og auk þess kalla Vantrúarpostular ekki allt ömmu sína. 🙂

  41. Ef þú hefðir nefnt ömmu hefði ég orðið sármóðguð! (Á engin barnabörn og nota andoxunarkrem ótæpilega og lít þ.a.l. ekki út eins og amma … vona ég.)

    Á bloggi Evu afneitaði Matti mér (kannski þrisvar meðan haninn gól, það fylgdi ekki hljóðskrá) en Eva hefur lokað á Fb. kommentin svo afneitunin sést ekki lengur. Ég bauðst á hinn bóginn til að slátra alikálfinum kæmi Matti minn í heimsókn … Er loksins búin að fatta að eina leiðin til að hafa samskipti við vantrúarfélaga á trúarlegum nótum, þeir skilja ekki annað.

    Jú, ég las blogg Hrannars og skoðaði umræðurnar. Þær voru dálítið fyrirsjáanlegar en færslan var góð.

  42. Helgi Ingólfsson on October 19, 2012 at 11:24 said:

    Umsum sums, Harpa mín, ég biðst innilega velvirðingar. Þú ert nú svo ungleg að þú gætir verið dóttir Vantrúarmanna – nema þeirra sem eru ólögráða.

    Hvar fær maður annars svona andoxunarefni? Ég þarf sennilega á því að halda eftir að einn í söfnuðinum kallaði mig “gamlan kall”. Er ekki annars bara nóg að éta gulrætur?
    —–
    Það er nú meira hvað þeir eru vel menntaðir þarna í söfnuðinum. Geta vitnað í Simpsons og allt. Var ég annars búinn að segja þér að einhvern tíma rannsakaði ég hvaðan “all-out attack”-hugtakið væri komið – hélt að það hlyti að vera komið úr hernaðarmáli eða austurlenskum bardagalistum. Svo reyndist ekki vera. Það er víst komið úr hinum kóresku Yu-Ki-Oh-barnaspilum! Já, hún verður ekki af þeim skafin, hámenningin.

  43. Það er margt sem andoxar, Helgi minn, frá tómötum og upp í rándýr krem í snyrtivörubúðum. Af því Winston oxar konu, hef ég heyrt, neyðist ég til að andoxa á móti. Er ekki viss um að gulrætur virki nema bara til að gera fólk gult …

    Æi, vantrúarskinnin; ég er eiginlega búin að fá nóg af þeim. Maður stafar sömu atriðin æ ofan í æ fyrir þessa örfáu miðaldra stráka, vita árangurslaust. Ég hef aldrei haft jafn tornæma nemendur og vantrúarstrákarnir virðast vera! Og heldur aldrei svona geðvonda nemendur …

    Mun snúa mér að skemmtilegri viðfangsefnum …

  44. Góð hugmynd, Harpa … þangað til næstu gloríu sem þeir syngja. Reyndar tel ég þá ekki tornæma, þvert í mót. Geðvonskan gerir þá hinsvegar viðskotailla.

  45. Var einhver að nefna nafn mitt? Við “Vantrúarmagdalenur” önsumussumussekki. Af hverju? Það eru bara sömu gömlu postularnir að messa sömu gömlu rulluna hér; Mér finnst þetta orðið soldið þreytt…
    Alveg merkilegt hvað fólk sem hefur andstæðar skoðanir getur samt sem áður sagt nákvæmlega sama hlutinn hvert um annað. Ég hef líka oft lent í þessu með Mofa.
    Bææææ.

  46. Rakel on November 6, 2012 at 11:28 said:

    Ég er sammála þessum pistli Harpa. Ég held reyndar að Bjarni Randver hafi ekki verið nálægt því að brotna andlega undan álaginu (veit samt ekkert um það, en vona) hann er frábær kennari og ég tel líklegt að hann hafi litið á þetta sem hluta af þeim fræðum sem hann rannsakar mikið og hefur gert um árabil, þ.e.a.s hegðun og kenningar nýtrúarhópa, Vantrú er kannski ekki trúarhópur heldur lífsskoðunar, en ég er viss um að honum hefur þótt hegðun þeirra og það allt mjög áhugavert og ábyggilega notfært sér stöðuna sem hann var settur í þarna til þess að skilja enn betur hvað var að gerast, heldur en ef hann hefði bara verið óbreyttur áhorfandi úti í bæ. Leiðinlegt ef hann hefur þurft að gjalda fyrir það fjárhagslega samt, eiginlega bara ófyrirgefanlegt.

    Vantrú beið mikla hnekki útí samfélaginu með þessum málaferlum sínum og vegur það nú upp á móti þeim sigrum sem þeim voru eignaðir gegnum árin.

    Persónulega held ég að Vantrú sé svona illa við Bjarna Randver af því að hann talaði (smá) um félagsskap þeirra í tímum og bendlaði þau þar með við trúarbrögð, eða tengdi þau við það sem þau hata meira en allt. Hann sagði líka amk einu sinni að sín persónulega skoðun væri að svona lífsskoðun væri jafngildi trúar (ekki orðrétt en hann gaf það í skyn og slíkt er nóg til að skotmark á bakið myndist). Hann kenndi ekkert í þá átt né fjallaði um slíkt, þetta var bara einhver persónuleg vangavelta sem spratt fram (og ég heyrði) en það var mjög líklega amk einn vantrúarmeðlimur viðstaddur, bekkjarfélagi minn semsagt.

    Þetta mál allt kom mér aldrei á óvart. Ég þekki og hef umgengist öfgatrúleysingja í gegnum árin (sem vini, kunningja og skólafélaga) og eina leiðin til að þeir samþykki mann (ef maður deilir ekki skoðunum þeirra) er að þykjast vera of heimskur til að rökræða við (bara mín skoðun, ég er ekki að segja að þetta sé algildur sannleikur um þá alla – ég þekki marga venjulega trúleysingja sem umbera skoðanir annarra alveg og geta rætt málin) – það er svipað og þegar dýr þykjast dauð til að árásir á þau hætti. Aldrei myndi ég nenna þessu.

  47. Helgi Ingólfsson on November 6, 2012 at 18:23 said:

    Ja sko, þessi umræðuþráður enn á lífi!

    Harpa: Ég hef fylgst með sennum þínum á vantru.is undanfarna daga og dáist að nennu þinni. En þú veist að það er til einskis, er það ekki? Þeir eru komnir með svo öfluga leynilögreglu að hún leysir málin, þegar lögreglan sjálf ræður ekki við þau. Og svo eru þeir líka með langbestu rökfræðingana og langbestu sérfræðingana í kennslufræði glærusýninga, ekki satt? Svo að þetta er búið spil hjá okkur.

    Annars fer grefillinn.com á kostum þessa dagana. Ég hlæ dátt.

  48. Ég ákvað að logga mig út úr umræðunni á vantrúarvefnum þegar stefndi í heitar umræður um takt, altso muninn á 3/4, 4/4 sem hefði mátt útfæra í fleiri takttegundir. Spilandi eingöngu á pjanoforte hef ég ekki roð við atvinnumönnum í pönki og slagverki í svoleiðis umræðu.

    Grefillinn súmmar málin ágætlega upp í nýjustu færslu sinni 🙂

    Takk fyrir innleggið, Rakel. Styrkur strangtrúar í öfgatrúleysinu kom mér nokkuð á óvart. Í þá rúmu þrjá áratugi sem ég var utan trúfélaga man ég ekki eftir að nokkur maður hafi sóst eftir að ræða við mig trúmál og sjálf hafði ég engan áhuga á þeim (enda þess vegna utan trúfélaga).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation