Í morgun fór ég og talaði við ráðgjafa hjá VIRK. Ég frétti af þessu fyrirbæri um daginn, heyrði fyrir tilviljun minnst á Starfsendurhæfingarsjóð í útvarpsviðtali, fór að gúggla og fann VIRK. Þetta var fínt viðtal og ég var ánægð að heyra af kostunum sem mér bjóðast hjá VIRK. Ég hef nefnilega sett mér það markmið að losa um örorkuhelsið og gerast að einhverju leyti nýtur þjóðfélagsþegn enda finnst mér ég hafa heilsu til þess.
Í hádeginu las ég yfir vottorð sem geðlæknirinn minn gaf út daginn áður en hann dömpaði mér. (Sjá Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs.) Hafði nú reyndar lesið þetta áður en þurfti að gá að ákveðnum upplýsingum … las fyrir manninn klausuna um álit læknisins á mínu heilsufari, að útséð sé að ég geti snúið aftur til starfa á þessum vetri til kennslu og ólíklegt að svo geti orðið á næsta ári … og hafði á orði við manninn að þetta væri afar svört spá (hún minnir mig dálítið á kollega minn forðum sem staglaðist æ oftar á hendingunum “Það bjargast ekki neitt/ það ferst, það ferst …” þegar líða tók á annirnar). Maðurinn sagði að bragði: Við hverju býstu? Hann getur náttúrlega ekki viðurkennt að þér hafi þá fyrst farið að batna þegar þú ákvaðst að hætta að taka lyfin sem hann hefur dælt í þig! Hm … ég ætla að ígrunda þetta.
En auðvitað er það ekki svo einfalt að mér hafi farið að batna einfaldlega við að ákveða að hætta að taka lyf. Fyrir svo utan það að ég er alls ekki hætt að taka lyf, á eftir síðustu flísina af Rivotrili, ca. 6 mg, og ætla ekki að hrófla við Míron fyrr en í lúshægri niðurtröppun svona í apríl, eftir að hafa lesið “case study” grein um sjúkling sem snögghætti að taka Míron Mér fór að batna þegar ég áttaði mig á því að þær hefðbundnu geðlæknisaðferðir sem beitt hafði verið á mig höfðu ekki skilað neinum árangri og líklega oft verið til hins verra. Mér fór að batna þegar ég sá að ef ég tæki ekki mín mál í eigin hendur myndi mér aldrei batna. Mér fór að batna þegar ég ákvað að nota “kukl-aðferðir” á borð við sálfræðiaðstoð (svoleiðis aðstoð er ekki greidd af heilbrigðiskerfinu svo kerfið virðist ekki viðurkenna hana, þó stundum sé í orði en örugglega ekki á borði), sumt úr aðferðum AA og loks að afla mér þekkingar á hversu haldbær vísindaleg rök lægju að baki lyfjasulli við þunglyndi.
Það er ekki einfalt mál að kúvenda eigin skoðunum og horfast í augu við heilaþvott og eigin fordóma. En það er hægt. Þetta gengur, hægt og bítandi.
Það sem mér veitist erfiðast er að skoða eigin sjúkrasögu. Ég verð reið, bitur og sorgmædd. Þess vegna skoða ég hana í smáskömmtum og læt líða tíma á milli. Sem stendur er ég að skoða áhrif tveggja raflostsmeðferða (raflækninga), eftirköst þeirra og lyfjagjöfina á undan og eftir. Sá bútur er hryllingssaga, að mínu mati. En ég álít að til þess að öðlast frelsi frá því sem ég hef reynt þurfi ég að skoða þetta, ná einhvers konar fjarlægð frá viðfangsefninu (æðruleysi væntanlega) og losna við reiði, biturð og sorg. Þá hef ég traustan grunn til að byggja á. Þetta er í meginatriðum líkt og fyrstaspors vinna í AA fræðum.
Það er minna mál að gera þá litlu en mikilvægu hluti sem skipta máli dagsdaglega, eins og að fara örugglega í labbitúr (ef hreyfing skyldi virka á þunglyndi), að leggja sig ekki á daginn (ég er að læra að sofa upp á nýtt, eftir áralanga notkun Rivotrils og langvarandi notkun svefnlyfs … er að verða fullnuma í þeirri list), að hafa hugsanavillur í huga og leiðrétta hugsanaskekkjur, að hafa sem mest fyrir stafni o.s.fr.
Það er nákvæmlega ekkert mál að setja sig inn í grundvöll lyflækninga í geðlækningum, ekki heldur lostin. Með landsaðgangi opnaðist greið leið að sömu læknatímaritum og læknarnir lesa (þetta er nokkuð sem ég held að læknar átti sig alls ekki á) og kunni maður á annað borð að greina milli fræðilegs efnis og gúgulslúðurs tekur ekki langan tíma að átta sig sig á “fræðasviðinu”. Raunar var ég búin að fatta talsverðu áður hvernig best væri að sigta út viðurkennd fræði og hismið og hvernig borgar sig ævinlega að gá að tengslum höfunda greina og rannsóknarskýrsla við lyfjafyrirtæki og framleiðendur rafmagnsgræja ætluðum þunglyndum. Til hægðarauka þunglyndissjúklingi sem vill setja sig inn í eigin sjúkdóm og vestrænar læknisaðgerðir við honum eru margar bækur sem komið hafa út um efnið í seinni tíð.
Það skiptir mig engu máli þótt síðasta vottorð geðlæknisins míns til tólf ára feli í sér svartnættisspá fyrir sjúklinginn mig. Það skiptir mig öllu máli að ég hef í áraraðir ekki verið jafnfrísk á þessum árstíma og nú. Þótt nístandi tómleikakenndin bæri á sér suma daga, með tilheyrandi jafnvægistruflunum, hefur mér til þessa tekist að vinna á henni og hver minn dagur síðan í aprílbyrjun hefur verið góður, kannski misgóðir dagar en ljósárum frá svartnættinu sem umlukti mig í 22 mánuði á undan. Af því komin er þetta löng reynsla og þetta langur góður tími finnst mér að draga megi þá ályktun að ég geti viðhaldið þessum bata með aðferðunum sem ég lýsti hér á undan.
Og af því ég er nýbúin að spjalla á kaffihúsi um sjúklingavæðinguna miklu skreytir þessa færslu næstvinsælasta gúgulmyndin af “depression”: Erkitýpa þunglyndissjúklings, sem er hnípin kona, sorgmædd, þreytt, grátandi … og sjálfsagt rosalega þæg. Ég er ekki svona og ætla ekki að vera það. Enda sökka erkitýpur!
Heyr heyr!