Þankar um femínisma, pjatt og froðu

 Tákn fem�nistaNethamfarir dagsins snérust um auglýsingu Kvikmyndaskóla Íslands þar sem notuð var mynd af jólavaralitun, sem einhverjum þótti klámfengin og texti auglýsingarinnar auk þess tvíræður: Svo alvarlegt var málið að Fr. Lilliendahl sá sig knúna til að skrifa opið bréf til skólastjórans og birta það á Knúzinu. Þetta vakti mig til umhugsunar … hvorki þó um Kvikmyndaskólann né jólavaralitun heldur um merki femínista.

Tákn kvennaFemínistatáknið puntar þessa bloggfærslu efst. Ég held að það sé ekki sérlega gamalt en ítarleg gúgglun skilaði fáum upplýsingum um sögu táknsins. Það er samsett úr tákni kvenna og krepptum hnefa, líklega er fyrirmyndin að hnefanum fengin úr réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar. Kvennatáknið notaði grasafræðingurinn Linné fyrstur markvisst fyrir kvenkyns, í sínum flokkunarfræðum. En merkið sjálft er gamalt, táknaði reikistjörnuna Venus og í fræðum alkemista stóð það fyrir kopar. Táknið er afleitt úr gríska f-stafnum því Venus kallaðist Fosfóros (Ljósberi) sem morgunstjarna. (Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.)

Venus með spegilFæðing Venus eftir IngresKvennatáknið er tengt Venus á fleiri máta en reikistjörnunni Venus. Það er talið eiga að tákna spegil gyðjunnar Venus, lítinn handspegil. Venus var mikil pjattrófa eins og sést á myndunum hér til hliðar: Myndin af Venus með spegilinn er af styttu frá 1. eða 2. öld eftir Krist sem komst í eigu Freud, hin er af málverki Ingres, Venus Anadyomene, þar sem Venus er nýsköpuð að greiða á sér hárið upp úr bárulaugunum … (Áhugaverða túlkun á hvað vantar á styttuna frægu af Venus frá Míló má sjá hér – en athugið að þetta er grein frá 1908.)

Venus var frjósemisgyðja Rómverja og samsvaraði Afródítu hjá Grikkjum. Venus stóð fyrir ást, fegurð, kynlíf, frjósemi, ríkidæmi og sigur. Nafn hennar, venus, þýðir á latínu losti eða erótísk ást. Hún var sköpuð úr sjávarlöðri, sem sagt froðu.
 

Sú gyðja í norrænni goðatrú sem samsvarar þeim Venus og Afródítu er Freyja. Freyja var lauslát með afbrigðum (eins og þær Venus og Afródíta) og átti nokkra góða gripi, ekki þó spegil. Í eigu hennar eru m.a. tveir kettir sem draga vagninn hennar. Það er því vel við hæfi að eini femínisti þessa heimilis sé felina docta – hún er að vísu nýfemínisti.

Niðurstaðan? Ja, tákn femínista er samsett úr krepptum hnefanum blökkumanna og tákni kvenna, sem rekja má til lauslátrar hégómlegrar gyðju sem sköpuð var úr froðu einni saman …
 
 

18 Thoughts on “Þankar um femínisma, pjatt og froðu

  1. Þú ert sem sé að segja að Fr. Lilliendahl, sem er jú tákngervingur feminismans á Íslandi, sé bara lauslát og hégómleg og málflutningurinn froða? 😉 Ja nú færðu aldeilis yfir þig froðuföllin spái ég……

  2. Almáttugur minn … nei, ég er sko ekki að segja það! Guð forði mér frá því að stíga aftur á litlu tær Fr. Lilliendahl! Ég fjarlægði meira að segja eina málsgrein um varalitafemínista (og link í fróðleik um Lipstick-feminism) úr færslunni til að mógða nú ekki Guðrúnu Betu Mánadóttur, Maríu Þrastar, Fr. Lillendahl, Gísla Ásgeirsson og aðra í framvarðarsveit femínista … og sleppti líka linknum í bola-,tösku- og tuskubúðina sem útskýrir tákn femínsta þannig: Þarna er samsett spegill Venus(ar) og kambur Venus(ar).

  3. Mér finnst nú eiginlega verst hvernig þessar fraukur misnota Gísla Ásgeirs á svona blygðunarlausan hátt. Það ber að berjast gegn allri misnotkun, er það ekki?

  4. Gisli Asgeirsson on November 28, 2012 at 03:25 said:

    Mín persóna, ef mig skyldi kalla, á trauðla heima í svona upptalningu, enda hef ég ekki móðgast síðan 2001 og þá var það kattartengt.

  5. Þú varst nú eiginlega bara talinn upp sem einn af framvarðarsveitinni, Gísli minn Ásgeirsson. Ég veit að þínar litlu tær eru sterkar (er nýbúin að skoða mynd af þeim á blogginu þínu), sterkari en hinna sem ég taldi upp 🙂

  6. Carlos on November 28, 2012 at 11:17 said:

    “… tákn femínista er samsett úr krepptum hnefanum blökkumanna og tákni kvenna, sem rekja má til lauslátrar hégómlegrar gyðju sem sköpuð var úr froðu einni saman…”

    Kynferðislega óbundin og snyrtileg, sjálfstæð, tilbúin að standa á sínu, velilmandi og fersk, rokgjörn og ekki allra þótt allir vilji hana.

    Mér finnst þetta ekki slæmir eiginleikar.

  7. Einkar skemmtilegur pistill. Sýnir vel vandamálið við ofnotkun tæknfræði og í hvaða ógöngur hún getur leitt mann.

    Það er svolítið merkilegt að þegar hið ódauðlega Smáralindarbæklingsmál kom til, þá var Hildur rödd skynseminnar á póstlista Femínistafélags Íslands. Henni fannst þetta ver oftúlkun hjá Kolbrúnu Hildi Kolbeins. Nú sendir hún frá sér bréf sem verður a.m.k. jafn ódauðleg heimild um femínískan fáránleika.

    Svo virðist sem ástandið ágerist með tímanum. A.m.k. hjá sumum.

  8. *táknfræði átti þetta auðvitað að vera.

  9. Smáralindarbæklingsmálið er því miður í blakkáti hjá mér … snérist það um lögun verslunarmiðstöðvarinnar? Og ertu ekki að meina Guðbjörgu Hildi Kolbeins?

    Ég hef gaman af táknum og einhvern tíma skrifa ég lærða færslu um helstu tákn í íslenskum lopapeysumunstrum 😉

  10. Guðbjörg var það jú alveg rétt. Ég hefði átt að fletta því upp.

    Mér liggur nú við að segja, afsakið að ég skuli rifja þetta upp fyrir þér svona fyrst þú varst búin að gleyma því fári 😉

    Þetta voru ummæli Guðbjargar vegna forsíðumyndar bæklings Smáralindar:

    “Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig.”

    Umrædda “klámmynd” má svo sjá hér: http://forrettindafeminismi.files.wordpress.com/2011/11/smaralindabaeklingur_gudbjorg_hildur_kolbeinsdottir.jpg

  11. OMG – þetta hefur auðvitað vakið mikla athygli, er það ekki? Með ítrustu auglýsingasálfræði/táknfræðigreiningu femínista að vopni má og benda á að þessi spillta fermingarstúlku virðist þegar byrjuð í skelfilegu “anímal-sex”, þ.e. ef tuskudýrin eru túlkuð á sama hátt og stellingin.

  12. Hvur andskotinn! 😀

    Það að ég hafði ekki látið mér detta þetta í hug sé ég sem vísbendingu um að ég hafi ekki hlotið nógu vandaða (femíníska) þjálfun í táknfræðigreiningu … en ekki að það þurfi að setja slíkri greiningaráráttu skynsamleg mörk.

    En jú, þetta varð að bloggfári yfir meðallagi. Það eru komin fimm sex ár síðan þetta var.

  13. Þetta bloggfár hefur líklega lent í þriggja ára eyðunni í lífi mínu (sem tvær raflækningarlotur heilbrigðiskerfisins áorkuðu) úr því er þetta langt síðan það var. Ég hef aðeins dúllað við að kenna sömu fræði og Hanna Björg kennir í KYN 103, líklega þó með öðrum áherslum: Það er ekki eins og femínísk auglýsingatákngreining sé sérlega ný af nálinni … hér uppi í hillu eru tvær bækur eftir Asgeir Liebst útgefnar einhvern tíma á níunda áratug síðustu aldar og á tímabili pínulítið í tísku hjá móðurmálskennurum 😉

  14. Pingback: Klámvæddi kvikmyndaskólinn | Forréttindafemínismi.com

  15. Neddi on December 2, 2012 at 11:02 said:

    Það er nú einu sinni svo að það er hægt að taka alla hluti úr samhengi, meira að segja jólavaralitun.

  16. Þórður on December 2, 2012 at 11:22 said:

    Tengillin er ekki alveg réttur.

    Hér er hann:

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299980

  17. Þórður on December 2, 2012 at 14:50 said:

    Var einhver búin að átta sig á því að forsíðan á Smáralindabæklinginum var fengin að láni af forsíðu Vikunar.

    Sama pósan, þ.e. módelið líkir eftir kisunni sem er með henni á myndinni og ef grannt er skoðað má sjá að munnurinn er opinn.

    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=299980

    Svona var nú klámvæðingin farin að segja til sín strax árið 1939.

  18. Sævar Einarsson on January 11, 2013 at 02:33 said:

    Femínismi eða kvenfrelsisstefna er hugmyndafræðilega stefna þar sem sóst er eftir jafnrétti kynjanna en svona þvaður og rugl hefur nákvæmlega ekkert að gera með að vera femínisti. Þetta er orðið að einhverskonar trúarnöttasamkundu þar sem framvarðarsveit trúarnöttara misnota orðið femínisti í hvívetna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation