Eru nýir kennsluhættir afturhvarf til miðalda?

Ég er byrjuð að kenna aftur eftir þriggja ára hlé. Þess vegna les ég af áhuga ýmislegt um kennslu, þ.á m. ýmislegt um hvernig upplýsingatækni (netið og tölvudót hvers konar) er talin kalla á einhvers konar gjörbyltingu í kennsluháttum, svo og um nýja menntastefnu sem Menntamálaráðuneytið samþykkti 2011, á að taka gildi að fullu árið 2015 en miðað við að vinnuveitandi framhaldsskólakennara, ríkið, er ekki tilbúið að greiða kennurum fyrir vinnuna við að koma þessari stefnu á koppinn er fjarskalega ólíkt að svo verði.

Hugmyndir um að upplýsingatækni valdi eða eigi að valda gjörbyltingu í kennsluháttum eru svo sem ekki nýjar af nálinni. Í hvert sinn sem ný tækni hefur orðið almenn hafa menn ýmist jesúsað sig eða dásamað tæknina og séð fyrir sér að hér með verði hefðbundið skólastarf (í skólastofu, með kennara sem kennir og bekk/námshópi sem lærir, í kennslustund) úr sögunni. Þetta gerðist t.d. þegar sjónvarp var fundið upp. Og þegar internetið varð til. Og þegar Vefurinn varð til. Og núna er dýrðin fólgin í spjaldtölvubrúki.

Upplýsingatækni nútímans felst fyrst og fremst í greiðum aðgangi að óhóflegu magni upplýsinga af hvers kyns toga, þar er drasl og gagnlegt efni í ósorteruðum haug. Þeir sem hafa séð upplýsingatækniljósið halda því fram að alltof mikil áhersla sé lögð á þekkingu, hún sé mikið til óþörf því nú geti nemendur fundið þekkingaratriði á Vefnum ef á þarf að halda. Í stað kennara sem beitir þeirri illu aðferð „ítroðslu“ kemur Google. Kennslan felst þá væntanlega í einhvers konar tæknikennslu, þ.e.a.s. að kenna nemendum að leita að þekkingunni og hvetja þá til að brúka þekkingarmolana sem þeir hirða upp til einhverra skynsamlegra verka. (Ágætt dæmi um þennan málflutning má sjá í bloggfærslu Ragnars Þórs Péturssonar, Tækni og tilgangur, frá 5. jan. sl. Ragnar hefur verið duglegur að blogga um dásemdir spjaldtölva og æskileg áhrif þeirra á skólastarf, sjá efnisflokkinn Maurildi um menntamál á blogginu hans. Hann er velskrifandi og skemmtilegur bloggari svo ég hvet kennara sem hafa áhuga á þessari hugmyndafræði til að lesa pistlana hans.)

Nú er ég byrjuð að kenna Snorra-Eddu, miðaldakennslubók sem skrifuð var á 13. öld til að kenna skáldum þann grunn sem þau þurftu til að geta hnýtt sæmilegar kenningar eða brúkað annað myndmál í sínum kvæðum. Sá hluti Snorra-Eddu sem kenndur er í framhaldsskólum er settur upp eins og tíðkaðist í kennslubókum miðalda, nefnilega þannig að „nemandinn“ spyr og „kennarinn“ svarar. Kennslufræði kennarans (Óðins í líki kennarateymis) samrýmist ekki alveg nútíma pólitískt réttri kennslufræði því hann gerir oft lítið úr nemandanum, hnýtir „eigi er fróðlega spurt“ eða öðrum þessháttar meldingum við svörin við þeim spurningum sem birta algera vanþekkingu eða heimsku, að mati kennarans. 

Í nútímanum hefur Google tekið við af Óðni. Nú geta nemendur spurt Google að hverju því sem þá lystir að vita hvenær sem er því nú eru allir sítengdir gegnum snjallsíma eða spjaldtölvu eða fartölvu eða jafnvel borðtölvu (ef þeir eru mjög gamaldags, eins og sú sem þetta ritar). Nú er alger óþarfi að festa sér neitt í minni því öllu má fletta upp á Vefnum. Eða þannig hljómar hið heilaga orð upplýsingatæknisinna …

En Gúgull er ekki síðra ólíkindatól en Óðinn! Hvernig í ósköpunum eiga nemendur að meta hvort upplýsingarnar sem þeir afla með hjálp Gúguls séu traustar eða ótraustar, bull eða rétt þekking?

Ég prófaði að setja mig í stellingar nemanda í ÍSL 212 sem hefur nútímalegan kennara (sem ekki vill verða mannlegur steingervingur og allt það …). Nemandinn hefur ekki þurft að tileinka sér agnar ögn af þekkingu á efni  Snorra-Eddu en er þess upplýstari um hvernig fólk hefur um aldir leitast við að búa til skipulag í heimsmynd sinni og gott ef kennarinn hefur ekki tínt til sambærilegar goðsagnir úr helstu trúarbrögðum heims í sinni kennslu, kennt í forbífarten smávegis í mannfræði, sálfræði og kynjafræði og sýnt skemmtileg vídeóbrot, frá Monty Python og uppúr. Nemandinn á í þykjustunni að skrifa stutta ritgerð um æsi en hann kann ekki að beygja orðið ás enda er það óþarfi því hann getur bara flett upp beygingunni. Nemandinn gúgglar „æðsti guðinn“. Gúgull skaffar honum fullt af upplýsingum, þær fyrstu eru:

Google � námi

Eftir að hafa eytt tíma í að skoða fyrstu skjáfylli af krækjum … gefum okkur til hægðarauka að fyrsta krækja í efni á forræði kennarans birtist ekki … rifjast upp fyrir nemanda að líklega heiti æðsti guðinn í námsefninu í þessum áfanga Óðinn. Svo hann gúgglar „Óðinn“.
 

Google � námi

Sjálfsagt finnur nemandinn á endanum þær upplýsingar sem hann er að leita að. Og raunverulegur nemandi mundi auðvitað gúggla allrafyrst „ritgerð um Snorra-Eddu“ 😉 En tíminn sem það tekur að finna upplýsingarnar á Vefnum er óhóflegur miðað við þann tíma sem það tæki að fletta upp sömu upplýsingum í Snorra-Eddu ef nemandinn hefði þá lágmarksþekkingu á efninu að vita svona nokkurn veginn hvar væri hægt að finna þær eða skrifa frá eigin brjósti byggt á þekkingu sem nemandinn hefði öðlast á efninu.

Í litlu verkefni sem ég lagði fyrir nemendur fyrir mörgum árum síðar kristallaðist takmörkun Vefjarins í þekkingaröflun og ofurtrú nemenda á sama miðli. Þetta var spurningalisti og fyrirmælin voru að leita á Vefnum og í kennslubókinni. Ein spurningin var: „Hvaða handrit Egils sögu liggur til grundvallar kennsluútgáfunni sem þið lesið?“ Enginn nemendanna gat svarað þessari spurningu en þeir fullvissuðu mig um að þeir hefðu reynt að gefa upp alls konar leitarorð og lagt mikla vinnu í leitina að svarinu, án árangurs. Engum nemendanna datt í hug að fletta formálanum að Egils sögu sem þeir þó lögðu við hliðina á tölvunum (þetta var í gamla daga svo nemendur unnu á borðtölvur, í sérstakri tölvustofu). Svarið er ekki mikilvægt í þekkingu á námsefninu en leitin að því slær eilítið á blinda trúna á að Google sé alvitur og almáttugur og að þeim verði ljóst að stundum er miklu fljótlegra að leita í kennslubók/bók.

Ég er ekki viss um að þessi miðaldaðferð, discipulus spyr magister, hafi nokkru sinni virkað sérlega vel í námi. Ég held það breyti litlu þótt Google sé núorðið í hlutverki magisters. Áðan hraðskrunaði ég yfir nýútkominn bækling Menntamálaráðuneytisins Læsi – Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum, á tölvutæku formi auðvitað og því fór lesturinn fram á hundavaði. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að enginn sem kom að ritun þessa bæklings hefur þá menntun til að kenna íslensku á framhaldsskólastigi sem krafist er nútildags eða reynslu af því starfi blasir við það vafamál að höfundur og ritnefnd hafi sérstakt vit á lestri, a.m.k. lestri fólks sem er eldra en fimmtán-sextán ára. Annar kafli bæklingins, Litbrigðin og læsið, hefst svona:

Kvöld nokkurt, þegar höfundur þessarar samantektar hafði lesið of stóran skammt af blaðaviðtölum og greinum um læsi, sá hann fyrir sér konu sem honum fannst vera persónugervingur læsisfræðanna, konu sem hægt væri að rekja úr garnirnar varðandi lestur og ritun. Um hvað spyrðu blaðamenn slíka konu, spurði höfundurinn sjálfan sig, ef þeir ættu viðtal við hana á alþjóðlegri læsisráðstefnu sem haldin væri í stóru húsi við Reykjavíkurhöfn, og hvernig myndi hún hugsanlega svara? Það er ekki gott að segja en það má hugsa um það fram og til baka.

Svo hefur upp ímyndað samtal þar sem höfundur bæklingsins, fjölmiðlafræðingurinn Stefán Jökulsson, ímyndar sér að hann sé blaðamaður og spyr kvenkyns persónugerving læsisfræðanna, kallaða Fræðikonu,  …  í anda miðaldarita!
 
 
 

Er þetta afturhvarf til miðalda, að þekking sé óþarfi því það megi spyrja Google að öllu, almennt samþykkt meðal framhaldsskólakennara?
 
 
 
 
 
 

12 Thoughts on “Eru nýir kennsluhættir afturhvarf til miðalda?

  1. Valdís on January 9, 2013 at 14:32 said:

    Verulega áhugaverðar vangaveltur. Ég hef ekki svar að svo stöddu, en ætla að velta þessu fyrir mér.

  2. Lára on January 9, 2013 at 19:17 said:

    Ég vil nú byrja á jákvæðum nótum og taka undir undrun með læsisbókina í grunnþáttunum. Ég hef þurft að taka hana í nokkrum atrennum og þó er ég með bók á pappír.

    En mér þykir þú kæri móðurmálari setja samhengi milli þess að leita hjá Gúggel og upplýsingatækni í heild. Fyrir það fyrsta er ein steinvala á Akranesi ekki Ísland allt en síðan bera kennsluaðferðir þínar með sér í þessum pistli (og er ég þá ekkert að leggja neitt mat á þær) að Gúggel sé hreinlega ekki verkfærið. Tja nema ef þú leitar að “ritgerð”, “glósur” og svo framvegis. En gengur þú ekki út frá nemandanum sem nennir ekki að lesa bókina og þarf því að reyna að finna hvað í henni stendur án þess. Það er nú ekki gáfulegt það sér hver maður sem er sæmilega upplýsingatæknilæs. Þú bendir á að nemandi sé svo mikill bjáni að gá að því hjá Gúggel hvað liggur til grundvallar bók sem er á borðinu hjá sér. Aftur er nemandinn illa læs á verkfæri upplýsingatækni og hefur greinilega fengið litla eða slaka menntun á því sviði. Eða kannski ekki nennt að læra það heldur.

    Mér þykir því alhæfing um nemendur sem eiga að lesa Snorra Eddu segja manni fyrst og fremst að þetta er hundleiðinleg bók sem nemendur nenna ekki að lesa og reyna í örvæntingu sinni að komast undan því. Sem er svosem alveg rétt, en af því ég veit að þú ert frábær kennari þá veit ég að þú gerir þeim lífið léttara svo einhverju nemur.

    En mig grunar að nemendurnir noti engu að síður upplýsingatækni, því ekki ertu ólíkleg til að fá þeim það verk að skrifa ritgerð. Handskrifa þeir hana?

    Upplýsingatækni er ekki bara Gúggel hún er margt annað, slæmt og gott eins og lífið sjálft og þá líklega bara eins og Snorra Edda sem er það líka.

    Ég mæli með því að þú spreytir þig á vendikennslu í þessu því þá gæti verið að nemendur fengju meiri aðstoð við þá sem þá vantar raunverulega hjálp við. Þeir láta sér þá ekki detta í hug að spyrja Gúggel.

  3. Ragnar Þór: Takk fyrir skemmtilega færslu. Vissulega gæti ég tekið sjálfa mig upp og sett á netið en held að svoleiðis ráðslag myndi spilla kennslunni. Kennslan (ég er að vísu bara búin að kenna einn tíma en reikna ekki með að kenna öðruvísi en of hið sama far og áður) er nefnilega talsvert samspil milli mín og nemenda og milli nemenda innbyrðis. Það væri erfitt að koma því við á netinu, nema þá að hafa mig og nemendur tengda saman í rauntíma … og skynsamlegasta leiðin til þess er að ég og nemendurnir séum einfaldlega saman í kennslustofunni í sama rauntíma 😉

    Ég hef fátt merkilegt UM Snorra-Eddu að segja, textinn stendur fyllilega fyrir sínu og Snorri Sturluson er ólíkt flinkari að segja frá en ég. Það efni sem ég set út á Vefinn er aðallega efni sem ég held að nemendur vilji gjarna hafa. Það kennsluefni sem nemendur vilja gjarna hafa á Vefnum eru annars vegar gagnvirk krossapróf og hins vegar glósur (þetta kannaði ég margoft á árum áður og alltaf fékkst sama niðurstaðan). Nemendur eru nefnilega voðalega gamaldags og líklega mun íhaldsamari en flesti framhaldsskólakennarar, svo ekki sé nú minnst á grunnskólakennara. Nú kemur ekki til greina að ég glósi ofan í nemendur en hef fyrir löngu lagt fram slatta af prófum sem nemendur mínir og nemendur alls staðar af landinu hafa notað í mörg ár.

    “Upplýsingatækni kemur ekki í stað góðs kennara. Hún getur samt hjálpað góðum kennara að verða miklu betri”, segir þú. Upplýsingatækni er bara eins og önnur verkfæri sem bjóðast, hún getur verið til gagns og hún getur verið til óþurftar. Sú eina upplýsingatækni sem fjöldi kennara brúkar eru glærusýningar sem hafa einmitt þann ókost að ýta óskaplega undir eintal kennara og þögla óvirka nemendur! Fyrir svo utan það að PowerPoint kennsla er ein sú leiðinlegasta kennsluaðferð/miðlun sem völ er á.

    Nú er ekki svo að skilja að ég ætli ekkert að nota tölvur í þessum áfanga heldur styðjast við kálfskinnið eitt … eða geri ekki ráð fyrir að nemendur noti tölvur í sínu námi. Eins og þú nefnir réttilega er ég frumkvöðull í notkun upplýsingatækni í mínu fagi en vissulega gekk ég fyrr af trúnni á hana en margir … það er nú einu sinni svo að þeir sem eru fyrstir til að prófa eitthvað eru þá væntanlega fyrstir til að fatta takmörk þess hins sama. Við ættum kannski að taka aftur upp þráðinn í þessari umræðu eftir svona 4-5 ár, þegar þú er búinn að prófa líka 😉

  4. Ásta on January 9, 2013 at 21:11 said:

    Sæl Harpa og afsakaðu ég setji inn óskylda athugasemd. Mig langaði bara að þakka þér fyrir kennsluvefinn og láta þig vita að ég hef ,,linkað” á hann fyrir mína nemendur

  5. Lára mín – föðurleysingi eða foreldralaus?: Á þér má skilja að plaggið ráðuneytisins borgi sig ekki að lesa í heild jafnvel þótt maður hafi það á pappír. Ég stilli mig þá um að lesa það betur.

    Ég reikna ekkert endilega með því að fólk undir tvítugu lesi Snorra-Eddu ótilneytt svona upp til hópa. Það eru ein rökin fyrir að kenna hana í skólum (með því fororði að nú nenni ég ekki að taka venjulega slaginn okkar um gildi fornra bókmennta). En reynsla mín segir mér líka að þegar nemendur hafa lesið Snorra-Eddu finnst þeim mikið til hennar koma. Og textann verður að matreiða á ýmsan máta, nútímaunglingar lesa ekki 800 ára texta eins og Facebook-statusa eða Twitter. Sú matreiðsla er kölluð kennsla og fer fram í kennslustundum.

    Nei, nemendur skila innsleginni heimildaritgerð, bæði á pappír og tölvutæku formi. Tölvutæka formið er til að ég verði fljótari að leita uppi mögulegar stolnar tilvitnarnir af Vefnum. Ég kann nefnilega líka að nota Gúgul 😉

    Þessi færsla fjallaði einungis um þá hugmynd að upplýsingatækni væri í eðli sínu svo merkileg að hún gerði kennslu þekkingaratriða og nám í þekkingaratriðum óþörf. Hún var ekki yfirlitsgrein um alla möguleika til náms og þroska á Vefnum. (Þá hefði ég t.d. örugglega hampað YouTube myndböndum um prjón og hekl og svoleiðis kvenlegt dútl … það er ólíkt auðveldara að læra nýjar aðferðir núna en meðan einungis voru til lýsingar á þeim á pappír, eins og ég veit þú veist, Lára mín.)

    Ég er ekki alveg klár á hvað þú átt við með vendikennslu. Ertu að meina þessa aðferð sem Hjálmar Árnason (og Keilis-lið annað) hefur hampað upp á síðkastið, nefnilega að láta nemendur horfa á upptekna fyrirlestra kennara heima en vinna að verkefnum í tímum? Eintómir fyrirlestrar með mér að fara yfir Snorra-Eddu yrðu lélegt vídjóefni og ég hef ekki nokkra trú á að nemendur yndu yfir slíku nema rétt á meðan þeir skrunuðu yfir Fésbókina sína og tékkuðu á SMS-essunum sínum. Svo ekki sé minnst á möguleg heimakennsluvídjó um íslenska málsögu – efnið sem tekur við af Snorra-Eddu í þessum áfanga … Og stöðuga verkefnavinnu sem fyllti hvern tíma, byggða á ótraustum grunni (eftir 25 ár er ég ekki algerlega bláeyð á vinnubrögð nemenda upp til hópa), held ég að nemendur kynnu ekki að meta. Allt annað mál væri ef ég væri t.d. prjónakennari, þá kæmi vendikennsla vel til greina, væri jafnvel betri aðferð en sú hefðbundna.  Svoleiðis að vendikennsla í ÍSL 212 … nei, ég held að hún myndi einfaldlega ekki gera sig. Þótt hugmyndin sé ný og smart og amrísk og geri sig sérstaklega vel á spjöldum.

  6. Það hefur einu sinni orðið alvöru tæknibylting í skólum. Hún varð þegar rafmagnsljósin komu og allir gátu lesið sjálfir, jafnvel í svartasta skammdeginu. Síðan hafa lektorar ekki borið nafn með rentu því að hefur verið óþarfi að sá eini sem sat hjá kertinu læsi upphátt fyrir hina.

  7. Jóhann on January 10, 2013 at 22:45 said:

    Þetta er að mínu viti kjarninn í máli þínu:

    “Þeir sem hafa séð upplýsingatækniljósið halda því fram að alltof mikil áhersla sé lögð á þekkingu, hún sé mikið til óþörf því nú geti nemendur fundið þekkingaratriði á Vefnum ef á þarf að halda.”

    Hvar finnur þú viðlíka hugmyndum stað?

    Ég held að það sé nákvæmlega ekki neitt að því að lofsama tilkomu Netsins og þá möguleika sem það færir mannkyni (og kennurum).

    Þekking dafnar í nauðsynlegu samhengi við aðgengi að upplýsingum.

    Þess vegna skil ég ekki heldur eftirfarandi:

    “Það hefur einu sinni orðið alvöru tæknibylting í skólum. Hún varð þegar rafmagnsljósin komu og allir gátu lesið sjálfir, jafnvel í svartasta skammdeginu.”

    Ég vil ganga svo langt að halda því fram, að ekki einasta megi jafna tilkomu Netsins við prentverk Gutenbergs, heldur uppgötvun elds í árdaga mannkyns.

    Rafmagnsljós voru vissulega áfangi, en varla eruð þið hjónakornin að kalla á betri raflýsingu?

    🙂

  8. Jóhann: Ég bendi þér á að lesa pistil Ragnars Þórs Péturssonar sem ég kræki í viljirðu lesa um upplýsingatækniljósið. Ragnar Þór er þar að bergmála skoðanir sem ég hef heyrt glymja frá því á síðasta áratug síðustu aldar …

    Hef þegar bent hinu hjónakorninu á að nú er ljóstýra óþörf í skólum landsins því skjáir spjaldtölva eru baklýstir 😉

  9. Sævar on January 15, 2013 at 22:22 said:

    Tæknin er góður þjónn en gagnslaus húsbóndi.
    Það er gott að lesa Snorra Eddu á spjaldtölvu, geta stækkað stafina þegar sjónin fer að daprast :), en það sem skiptir máli er auðvitað að maður lesi Snorra Eddu og pæli í því sem maður les. Mér kemur Nietzsche í hug. Að jórtra á textanum, lesa “hægt” og ígrunda.

  10. ingibjörg on February 9, 2013 at 18:12 said:

    Þá þætti mér nú skemmtilegra að sitja með kennaranum í hóp að spjalla SAMAN um Snorra-Eddu en að vera ein heima að hlusta að upptekin fyrirlestur og verða vitni að hugrenningartengslum þeirra sem hlusta á

  11. ingibjörg on February 9, 2013 at 18:12 said:

    þ.e verða vitni að hugrenningatengslum ef fyrirlesturinn er í kennslustofu

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation