Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlareru það sem á ensku kallast Social Media. Menn hafa reynt að afmarka hugtakið við ýmislegt en í rauninni má segja að Vefurinn eins og hann leggur sig sé samfélagsmiðill því núorðið er allra handa efni deilt og það rætt eða a.m.k. „líkað“. Útstöðvar þessarar tækni eru líka að renna saman í snjallsímum og spjaldtölvum (það verður örugglega fljótlega hægt að hringja úr spjöldum – sé það ekki hægt nú þegar – og samruninn verður fullkominn).

Ég byrjaði að nota internetið í janúar 1991. Það var fyrir daga Vefjarins og tengingin við alheimsnetið var í gegnum tölvuna Imbu (sálugu) á Kópaskeri. Það sem maður notaði einkum var tölvupóstur (Elm forritið í óvingjarnlegu Unix-umhverfi), leit í gagnabönkum, skrif á spjallborð sem kölluðust ráðstefnur og einstaka sinnum möguleikann „Talk“, sem var undanfari IRC-sins og í rauninni alveg nákvæmlega eins og Facebook-spjall nútímans. Frá því Vefurinn leit dagsins ljós hér á landi, svona 1994-1995, hef ég notað hann bæði til að leita mér upplýsinga og til að setja inn upplýsingar. Ég byrjaði að blogga í upphafi árs 2005 og hef gert það allar götur síðar. (Fyrsta tölvan á okkar heimili var keypt 1985 en ég geri hana ekki að umtalsefni hér.)

En ég kæri mig ekki um að vera sítengd. Þess vegna á ég ekki snjallsíma, ég nota raunar farsíma afar sjaldan. Og ég er enn nógu háð ritmáli (er svakalega fljót að pikka) til að kæra mig ekki um spjaldtölvu … er hins vegar dálítið veik fyrir krílum því núna loksins eru fartölvur orðnar raunverulega far- eitthvað, þ.e.a.s. nógu léttar til að drösla þeim með sér með léttum leik.

Í mínum augum er Vefurinn sambærilegur við sjónvarp, það borgar sig að velja og hafna og sýna hóf í notkun svoleiðis tækja. Vinsælt kvörtunarefni kennara nútildags er hve nemendur eru háðir farsímunum sínum. Ég er svo sem sammála því að það getur verið ótrúlega erfitt að fá unglinga til að missa sjónar af sínum snjallsímadýrgrip í klukkustund en held að þetta gildi alveg eins um marga þá sem teljast fullorðnir, a.m.k. er mér minnisstætt þegar sessunautur minn dró upp símann sinn og opnaði Facebook á HAM námskeiði síðsumars á liðnu ári … vitandi það að enginn sótti þetta námskeið nema af brýnni þörf og veigamiklum ástæðum. Ef menn geta gert tvo hluti vel í einu er ekkert því til fyrirstöðu að vera sítengdur, reynsla mín er hins vegar sú að fáir höndla slíkt, einna helst eru það flinkar prjónakonur.

Mér finnst notkun persónulegs tölvupósts vera heldur að minnka, a.m.k. breytast. Kunningjar og fjölskylda senda allt eins Facebook skilaboð og tölvupóst, Facebook-hópar koma að mörgu leyti í stað póstlista. Á hinn bóginn er líklega orðið algengara að menn sendi ýmis erindi sín í tölvupósti en hringi, svo ekki sé talað um yfirvofandi dauða sniglapósts. Eiginmaður minn er skólameistari og hann kveðst fá að meðaltali kringum 100 tölvupósta á dag, yfirleitt fljótsvöruð erindi og símtölum hefur fækkað að mun á móti. Hann telur að tölvupóstur sé skilvirkari og fljótlegri leið en símtöl eða viðtöl. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum og tek reyndar eftir því að núorðið er það hending að kennari sé kallaður fram til að tala við nemanda í frímínútum … mestallan minn kennaraferil hefur glumið oft í kallkerfinu í hverjum frímínútum … og líklega er það vegna þess að nemendur eru óragir við að senda fyrirspurnir eða skilaboð inn á lokað kennsluumhverfi.

Blogg

Blogg eru orðin sjaldséðari eftir að Facebook varð til og eftir að netmiðlar tóku upp athugasemdakerfi (núorðið nýta þeir flestir Facebook sem athugasemdamöguleika). Stóra bloggsprengingin varð þegar mbl.is bauð upp á notendavænt bloggumhverfi. En bloggararnir þar, á blog.is, voru sjaldnast raunverulegir bloggarar heldur nýttu bloggumhverfið sem athugasemdakerfi. Ágætt dæmi um það er frétt á mbl.is frá 2007 sem gekk í endurnýjun lífdaga á Facebook fyrir skömmu: Við fréttina Elsta systkinið gáfaðast eru 32 blogg!  Það eimir enn eftir af þessari „moggabloggs-hefð“, þ.e. bloggum sem eru bara nokkrar línur og oftast er viðkomandi að tjá sig um einhverja frétt. Og það er áreiðanlega grundvöllur fyrir moggabloggshefðinni ennþá því meðal vinsælustu bloggara landins, skv. Blogggáttinni sem vel að merkja er ótraustur mælikvarði, eru Jónas Kristjánsson og Eiríkur Jónsson, fyrrum blaðamenn (blogg hins síðarnefnda er raunar flokkað sem vefrit á Blogggáttinni) en báðir blogga þeir örstutt og stundum oft á dag, Jónas er yfirleitt með eigin yfirlýsingar um eitthvað sem hefur ratað í fréttirnar þann daginn, Eiríkur birtir fremur myndir eða slúðursögur af ýmsu tagi. Enn einn mjög vinsæll bloggari sem bloggar jafnvel oft á dag er Egill Helgason sem alla jafna bloggar í styttri kantinum en umfjöllun hans er oftast mun bitastæðari en þessara tveggja sem ég nefndi. Og ég tek fram að þeir sem blogga á blog.is fylgja hreint ekki allir gömlu moggabloggs-hefðinni. Bloggsetrið skiptir ekki máli þótt veran á blog.is sé vissulega vísbending um gæði bloggs.

Sjálf reyni ég að blogga langar færslur. Annars vegar gefur það kost á að reifa efnið að einhverju leyti en ekki bara upphrópunum í æsifréttastíl. Hins vegar kemur svoleiðis háttalag ágætlega í veg fyrir að ákveðinn hópur lesenda þvælist mikið á mínu bloggi, þ.e.a.s. lesendur sem höndla ekki að lesa nema nokkrar línur af texta á skjá og byrja síðan að garga hástöfum byggt á þessari agnarögn sem þeir lásu. Ég vil gjarna vera laus við svoleiðis lesendur og þykir ágætt að þeir haldi sig við kommentakerfi óvandaðra netmiðla, sem þjóna slíkum lesendahópi ágætlega með örfréttum undir stríðsfyrirsögnum og reyna ævinlega að draga eitthvað krassandi fram í örfréttunum.

Það er erfitt að meta hvort blogg séu vinsæl eða ekki. Ein leiðin er að skoða Blogggáttina en það er mjög takmörkuð vitneskja sem fæst úr þeim lista. Á honum er líka fjöldi gamaldags moggabloggara. Heimsóknartölur á mitt blogg eru kringum hundrað þá daga sem ég blogga ekki (og því fer fjarri að ég bloggi daglega), undir eðlilegum kringumstæðum. Stór hluti þeirra heimsókna er gegnum Google. Tölurnar eru fljótar að hækka ef einhver vekur athygli á einhverri (oft eldri) bloggfærslunni, sem oft gerist, ég sé það gerast gegnum önnur blogg, gegnum Facebook, einstaka sinnum gegnum netmiðla, gegnum spjallvefi o.s.fr. Sólarhringinn eftir að ég sendi inn bloggfærslu eru yfirleitt í kringum 200-250 heimsóknir á bloggið mitt. Fjalli færslan um einhver „heit“ málefni og sé deilt mikið á Facebook fara heimsóknir fljótt yfir þúsundið.

Dags daglega sé ég miklu hærri tölur á teljurum sumra gamaldags moggabloggara en í ljósi þess að nánast aldrei eru skrifaðar athugasemdir við svoleiðis blogg held ég að smellirnir á þau séu „óvart-smellir“ þeirra sem lesa viðkomandi frétt á mbl.is (sem tengir í bloggin um fréttina). Veit ég þó að athugasemdir segja æ minni sögu því talsvert af athugasemdum við mínar eigin færslur fæ ég gegnum Facebook, einstaka sinnum í tölvupósti.

Af mínu eigin bloggi að dæma virðist vera að því ómerkilegri sem færsla er því vinsælli mælt í hreinum teljaratölum, t.d. er Úrklippur Hildar Lilliendahl langvinsælasta færslan, með talsvert yfir 15.000 lesendur. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta í rauninni ekki færsla heldur skjámyndasafn. Satt best að segja er mér ekki kappsmál að margir lesi bloggið mitt. Mér finnst miklu meira virði að hafa fáa góða (t.d. í merkingunni fluglæsa og þokkalega klára) lesendur heldur en að búa við það að fá holskeflu af misvitrum athugasemdum inn á bloggið mitt – það er t.d. umtalsverð vinna að halda orðbragði svoleiðis hópa í skefjum.

Það er allur gangur á því hvort blogg sem ég les sjálf að staðaldri séu skráð á Blogggáttina. Skv. minni reynslu er þetta kynskipt: Ég les talsvert af bloggfærslum eftir konur sem einhverra hluta vegna kjósa að skrá ekki bloggin sín í RSS-veitu. Af þeim sem ég les eru þetta ýmist blogg um þunglyndi eða blogg um hannyrðir en ég hef svo sem enga yfirsýn yfir óskráð blogg almennt og man ekki eftir óskráðu bloggi eftir karlmann. Ég veit því miður ekki um neinn góðan mælikvarða til að meta vinsældir bloggs eftir að blogg og Facebook og Google og líklega Twitter runnu saman, líklega er sá mælikvarði ekki til.

Hannyrða-heimurinn

Það er kannski ekki úr vegi að nefna stóran og vinsælan en svo til ósýnilegan kima á Vefnum öðrum en þeim sem áhuga hafa sem er efni tengt hannyrðum. Sem dæmi má nefna Prjónabloggið, eitt margra prjónablogga á íslensku sem eru ekki skráð í Blogggáttina, en eigandi þess tilkynnti nýverið:

Ég hef verið með blogigð [svo] mitt í tæp 3 ár og þar sem heimsóknir á síðuna eru komnar yfir 200.000 á þaim [svo] tíma og fara yfir nokkur hundruð og jafnvel nokkur þúsund á dag, þá hef ég ákveðið að gera facebook síðu líka. Inn á þessa síðu kem ég til með að setja inn myndir af því sem ég er að gera ásamt því að láta ykkur, kæru lesendur vita þegar ég set inn nýjar færslur á bloggið mitt 🙂
 

Það er til talsvert af sambærilegum síðum á Facebook, áhugasömum er bent á að leita með leitarorðinu prjón eða knitting 🙂 Eðli Facebook sem samfélagsmiðils eru gerð skemmtileg skil í færslu Gísla Ásgeirssonar frá sl. nóvember, Kvittað, lækað og deilt.Gary Grant prjónar

Fyrir utan prjónablogg og uppskriftavefi (t.d. garnstudio.no) og prjónakennsluvefi (t.d. Wool and the Gang) og prjónavefi tengda garni eða tímaritum (t.d. Knitting Daily) og prjónafacebook og Google til að leita að svoleiðis er YouTube ótæmandi uppspretta hannyrðafræða. Kennslumyndbönd í ýmsum hannyrðum létta fólki eins og mér (sem á erfitt með að skilja uppskriftir, vegna meðfædds skorts á rýmisgreind) lífið ótrúlega mikið! Raunar er YouTube náma hvers kyns efnis: Tónlistar; hljóðs; myndbanda; kvikmynda; glærusýninga; fyrirlestra o.s.fr. og löngu orðið órjúfanlegur hluti annarra samskiptamiðla, fyrir utan að það að vera samskiptamiðill sjálft því á YouTube tjá notendur sig óspart um efnið og krækja í aðra umfjöllun.

Loks verður að nefna Pintrest, stafræna korktöflu þar sem festa má myndir sem tengjast áhugasviði hvers og eins. Pintrest er auðvitað draumur hverrar hannyrðakonu því maður gleymir ótrúlega fljótt fyrir hvað hvert bókamerki í vafranum stóð en sjái maður mynd af því sem var á síðunni sem alls ekki átti að lenda í glatkistunni er miklu auðveldara að passa upp á það sem átti að muna eftir. Ég skoða Pinterest síður þeirra sem hafa svipuð áhugamál og ég, endurfesti myndir af þeirra töflum, sé hvaðan þeir fengu myndirna, kíki á þær síður og Pinterest-töflur o.s.fr. … það er ótrúlega auðvelt að festast í Pinterest-skoðun og eyða í hana mörgum klukkustundum! Pinterest má nota um hvaða áhugamál sem er þótt ég hafi fellt þessa umfjöllun undir hannyrðir á netinu, ég er t.d. með Pinterest-töflu yfir myndir sem tengjast Snorra-Eddu sem ég get notað í kennslu (eða ekki notað). Pinterest-töflurnar mínar eru á http://pinterest.com/harpahreins/ ef einhver lesandi hefur ekki séð svona korktöflur. (Af því ég er nýbyrjuð að nota þetta á ég ekki margar korktöflur.) Ég sé fyrir mér að Pinterest muni skipta álíka máli og Google í framtíðinni í að veita heimsóknum inn á vefsíður og blogg.

Akkúrat núna: Ég á líf og I’m a Cow

Íslenska Eurovission lagiðÁgætt dæmi um hvernig samskiptamiðlar virka má sjá akkúrat núna: Komið hefur í ljós að íslenska Eurovission-lagið sem var kosið í gærkvöldi er nauðalíkt öðru lagi eftir kanadíska hljómsveit. Í athugasemdir við frétt netmiðla af þessari kosningu er alls staðar vakin athygli á þessu og krækt í myndbönd á YouTube. Á YouTube eru skrifaðar athugasemdir við tónlistarmyndbönd af I’m a Cow og vakin athygli á líkindum þess og íslenska Eurovision-lagsins Ég á líf. Strax í gærkvöldi bloggaði Gísli Ásgeirsson um þessi óheppilegu líkindi, “Ég á líf ” eða I Am Cow -Kom út í Kanada 2006 og aftur í dag, Búkolla og systur hennar í Kanada. (Gísli er einn af mínum uppáhaldsbloggurum sem skýrir af hverju ég vitna svona oft í hann í þessari færslu.) Á Facebook ganga nú grín-rím-statusar um texta og líkindi laganna, með krækjum í blogg Gísla og YouTube myndbönd og Láru Hönnu sem hefur sett saman lögin tvö á SoundCloud. Sjálf nota ég ekki Twitter en efast ekki um að mikið hefur verið tíst um akkúrat þetta. Laust eftir hádegi í dag fóru að berast fréttir af þessu á netmiðlum, t.d. Líkt en ekki stolið á ruv.is og  Er framlag Íslands í Eurovision stolið? á visir.is, og eflaust er þegar farið að deila þeim fréttum á Facebook og ræða þær, sem gæti orðið uppspretta einhverra blogga, sem gætu ratað í netmiðla, sem gætu síðarmeir orðið fóður í fræðilega grein um meint stolin Eurovision-lög, sem gæti orðið uppspretta frétta, sem gæti verið deilt á Facebook o.s.fr. Og yfir öllu þessu vakir sjálfur Google og gætir að það týnist ekki.

Í þessari færslu ætlaði ég að nefna algeng umfjöllunarefni blogga, fjalla um afstöðu eða afstöðuleysi ákveðinna stétta til samskiptamiðla, um gífurlegt gagn landsaðgangs að fræðigreinum o.fl. en þótt ég hafi þá stefnu að skrifa langar bloggfærslur sé ég að þessi má ekki lengri vera svo þetta verður að bíða betri tíma.
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation