Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands – griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

9 Thoughts on “Netumræðan um mál Jóns Baldvins

  1. Guðrún Ægisdóttir on September 2, 2013 at 16:51 said:

    Við fyrstu sín virtist mér þetta óréttlátt gagnvart JBH. Kannski líka vegna þess að ég hef hálfgerða skömm á Hildi Lilliendahl fyrir steingerðan femínisma. En síðan las ég mjög sannfærandi og beinskeytt blogg tveggja kvenna- man ekki hverjar þær voru- , auk greinar JHB sjálfs, og skipti um skoðun. JBH hefur ekki iðrast í neinni alvöru, hann er sama sjálfdrýldna manndulan sem hann hefur alltaf verið. Kemur vel fram í þeirri grein sem hann skrifaði sjálfur um málið.

  2. Einar Steingrímsson on September 2, 2013 at 18:56 said:

    Það kemur mér ekki á óvart að helmingi færri konur en karlar taki þátt í umræðunni. Það virðist nokkuð ljóst að miklu færri konur en karlar séu virkir bloggarar um samfélagsmál. Og, þegar ég taldi, tvisvar í viku í senn, allar aðsendar greinar í Mogganum nokkrum árum fyrir hrun (um hundrað greinar í hvorri viku), þegar nánast allt virðist hafa verið birt þar, þá voru karlarnir þrem eða fjórum sinnum fleiri en konurnar.

    Það virðist sem sagt nokkuð ljóst að konur hafi að meðaltali minni áhuga en karlar á að blanda sér í opinbera umræðu um samfélagsmál.

  3. Harpa Hreinsdóttir on September 2, 2013 at 19:31 said:

    Ég hélt samt fyrirfram að margar konur tækju afstöðu í athugasemdum af því málið snýst um dónaleg bréf sem JBH sendi frænku konu sinnar þá hún var á unglingsaldri, þ.e.a.s. á því byggist málflutningur Hildar og Helgu Þóreyjar. En miðað við þessar niðurstöður og það sem þú segir, Einar, hafa konur miklu minni áhuga en karlar á að tjá sig opinberlega. Kannski maður kíki á bland.is? 😉

    Það sem vakti sérstaka athygli mína var þó hve fáir studdu málflutning H&H þegar grannt var skoðað. Miðað við fjölmiðlafárið og fjölmiðlaumfjöllun hefði mátt búast við fjölda stuðningsmanna.

    Guðrún: Færslan fjallar bara um umræðurnar á netinu, ég tek í henni ekki afstöðu til umfjöllunarefnis fréttanna og blogganna eða persónuleika Jóns Baldvins.

  4. Elfa Jóns on September 2, 2013 at 20:07 said:

    Mér finnst nú of langt seilst hjá þér að flokka FB-vini Hildar sem sérstakt mengi fólks. Skoðaðu til dæmis hversu margir þeirra eru líka FB-vinir Evu Hauks. Slíkt á td við um mig.

    Mér finnst gaman að fylgjast með netumræðum ólíkasta fólks. Því breiðara sjónarhorn sem ég fæ inná mitt borð, því betur opnast augu mín.

    Eva og Hildur eru sjaldan sammála … og ég er stundum sammála annarri og stundum hinni. Stundum hvorugri.

  5. Harpa Hreinsdóttir on September 2, 2013 at 21:12 said:

    Tja … það má eflaust deila um það, Elfa Jóns, en vera mætti til huggunar þá er Eva Hauks Fb. vinur Hildar 🙂 Ég hefði líka athugað hversu margir ritenda væru vinir Helgu Þóreyjar ef hún hefði opna Fb. eins og Hildur en það hefur hún ekki. Hildur og Helga Þórey komu umræðunni af stað og þess vegna hafði ég sérstakan áhuga á skörun milli þeirra Fb.vina og umræðunnar.

  6. Við femínistarnir stöndum saman:

    Frækin ýmsa hefur háð
    hildi‘og unnið marga bráð,
    vísur kveða víst því skal
    um veiðiklóna Lilliendahl.

    Ég lofa hennar fimi‘og frægð,
    fegurð, þokka, vit og slægð,
    en allra mest ég mæri þó
    hve marga dóna‘í svaðið dró.

    Upp úr viðbjóð illum fress
    oft hún veltir kát og hress,
    og gamla hruma fauska fús
    fer með eins og læða mús.

  7. Undir taka ekki mér
    allar sýnast fúsar
    Þótt Jósefína jarði hér
    Jón í líki músar

    Af Háskólanum heimta svar
    hverju það svo þjóni
    Að hafa megi Hannes Þar
    en hafna beri Jóni

    Ekki margir fylla flokk
    sem finnst að Hildi gaman
    Nú dónakallar stígi á stokk
    og standi allir saman

    🙂

  8. Mest að gamni að litlum körlum læður leita
    og ýmsar skrámur oft þeim veita
    – en einu gildir hvað þeir heita.

    Ef femínistar á þá hvessa aðeins róminn.
    með siginn berja larð þeir lóminn
    – ljúft er blóði‘að væta góminn.

    Kannski‘að Hildur Hannes hremmi næst í klærnar
    ljúfu þeli þvæ ég tærnar
    þó að sofni‘á honum flærnar.

  9. Lítilsigldar læður leita bráðar
    engum manni eru háðar
    enda ævi einar smáðar

    Vont er þegar veröld vilja breyta
    feministar friði neita
    forynjur þær ættu að heita

    Fröken Hildur hún er engin hetja
    Kynjum vill í kappi etja
    og kallana á jaðar setja

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation