Rétttrúnaður í prjóni

Ef marka má prjónauppskriftir og prjónaumfjöllun síðustu ára skal nota þá eina rétta aðferð við handprjón: Slétt lykkja skal vera slétt og brugðin lykkja skal og vera slétt. Samt eru til margar aðrar aðferðir og er því jafnvel fleygt að hægt sé að prjóna brugðna lykkju á sextán mismunandi vegu! Þetta eru áhrif frá amrískum og enskum prjónauppskriftum og stundum hefur verið bent á að fyrirmyndin að þessum rétttrúnaði sé prjónles úr prjónavélum. Sjálfri finnst mér út í hött að handprjón eigi helst af öllu að líkjast vélprjóni! Þessi færsla er yfirlit yfir helstu prjónapólitísk hitamál:  Slétt eða snúið?; Vestrænt eða austrænt?; Gamlar prjónahefðir eða nýmóðins ameríkanísering?

slétt eða snúin slétt lykkja
Slétta lykkjan á myndinni hægra megin er í samræmi við rétttrúnað nútímans, sumsé slétt slétt lykkja. Fremri lykkjuboginn er framar á prjóninum og í hann skal prjóna.

Slétta lykkjan á vinstri myndinni er svokölluð snúin slétt lykkja. Aftari lykkjuboginn er framar á prjóninum og liggur beint við að stinga prjóninum gegnum hann.

Snúin slétt lykkja á Garnstudio Slétt slétt lykkja á Garnstudi
Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig snúin slétt lykkja er prjónuð. Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig slétt slétt lykkja er prjónuð.
Brugðin lykkja eins og prjónuð er á Íslandi  

Slétt brugðin lykkja 

 

Til vinstri er sýnd sú aðferð sem kennd er í íslenskum skólum og langflestir Íslendingar nota nú, að ég held.

Bandið er fyrir aftan prjónlesið, alveg eins og þegar slétt lykkja er prjónuð. Það er vitaskuld hagræði að þurfa ekki að flækjast með garnið framfyrir til að prjóna brugðna lykkju, t.d. þegar prjónað er stroff (sléttar og brugðnar lykkjur til skiptis).

Prjóninum er stungið í fremri lykkjuboga og þetta er því slétt brugðin lykkja (vestræn ósnúin brugðin lykkja).

Myndin er stilla úr myndbandi á Garnstudio og krækir í myndbandið. Þar er þetta sögð “almenn aðferð sem notuð er í Noregi og Danmörku”. Enskumælandi virðast kalla aðferðina “Norwegian purl”.

Brugðið fyrir odd slétta brugðna lykkju
Þessi aðferð hefur verið kölluð að bregða fyrir odd.Augljós ókostur við þessa aðferð er að það þarf að færa garnið framfyrir prjónlesið og þ.a.l. að flækjast með garnið framfyrir og afturfyrir þegar prjónaðar eru brugðnar og sléttar lykkjur til skiptis á sama prjóni, t.d. í stroffi eða tvöföldu prjóni.Prjónað er í fremri lykkjuboga og lykkjan verður slétt brugðin.  Í myndbandinu sem stillan er úr er þetta sögð evrópsk aðferð (continental purl). Aðferðin er vestrænt ósnúið prjón.

Smelltu á myndina til að sjá skýringarmyndbandið á Garnstudio.

Austræn ósnúin brugðin lykkja

Elsa E. Guðjónsson hefur haldið því fram að Íslendingar hafi prjónað brugðnar lykkjur eins og sést á þessari mynd allt til þess að handavinnukennsla hófst í skólumHún segir þetta vera austrænt ósnúið prjón og styðst við þessa skýringarmynd í Mary Thomas’s Knitting Book. Þetta er að því leytinu rangnefni að svona brugðin lykkja er snúin á prjóninum, þ.e. þegar garnið er veitt í gegnum lykkjuna með prjónoddinum gegnum aftari lykkjubogann.

Elsa hlýtur að hafa gert ráð fyrir að Íslendingar hafi prjónað austræna ósnúna slétta lykkju (sem nútildags er yfirleitt kölluð snúin slétt lykkja, sjá efst í þessari færslu) á móti. Sé prjónuð snúin slétt lykkja í sléttri umferð og svona snúin brugðin lykkja i brugðnum umferðum verður áferðin nauðalík venjulegu sléttprjóni (með ósnúnum sléttum og brugðnum lykkjum) og þess vegna er prjónið kallað ósnúið austrænt.  Að sögn Mary Thomas verður prjón þó þéttara með þessu móti heldur en með vestrænu ósnúnu prjóni.

Bandið er lagt fram fyrir prjónlesið en í stað þess að snúa upp á það eins og í dæminu hér næst að ofan er það einfaldlega krækt eða veitt í gegnum lykkjuna. Þetta er einfaldari aðferð en sú að ofan en sömu annmarkar fylgja henni, nefnilega að þurfa að færa bandið framfyrir.

Sjá einnig Blandaða aðferð neðar í færslunni.

Vestrænt snúið prjón eða snúið sléttprjón
Snúið vestrænt prjón (western crossed) er þannig að slétta lykkjan er prjónuð í aftari lykkjuboga (s.s. snúin slétt lykkja, sjá efst í færslunni); brugðna lykkjan er brugðin fyrir odd, sjá sérstakt dæmi um svoleiðis ofar í færslunni, en í stað þess að fara með prjóninn inn í fremri lykkjuboga eins og í því dæmi er farið gegnum aftari lykkjubogann.

Þetta kallast snúið sléttprjón í nýútkominn Prjónabiblíunni og er staðhæft að vindingur komi í flöt stykki prjónuð með þessari aðferð. Ég hef vissar efasemdir um að þessi fullyrðing standist þótt vissulega fylgi henni mynd af undinni prjónaprufu.

Mary Thomas’s Knitting Book er komin til ára sinna (fyrst gefin út 1938) sem skýrir dæmin sem hún tekur:  Hún segir að snúið vestrænt prjón sé teygjanlegra en venjulegt sléttprjón (ósnúið vestrænt prjón) og henti því betur í ýmslegt svo sem belti, sokkabönd og sárabindi 😉

Snúið austrænt prjónSnúið austrænt prjón (eastern crossed) er einfaldara/þægilegra og fallegra (finnst mér) en snúna vestræna prjónið.

Slétta lykkjan er prjónuð slétt (þ.e.a.s. prjónuð er sú slétta lykkja sem flestir kunna og nota, þar sem prjóninum er stungið í fremri lykkjubogann).

Brugðna lykkjan er prjónuð snúin: Hér er sýnd einföld aðferð til þess sem er að leggja bandið framan við prjónlesið og veiða það gegnum lykkjuna til að prjóna nýja lykkju, gegnum fremri lykkjubogann.

Áferðin á snúnu austrænu prjóni minnir svolítið  á nálbrugðin stykki, þ.e.a.s. stykkið er eins og það sé fléttað.

Slétt og snúið prjón: Blönduð aðferðBlönduð aðferð (combination knitting)

Þekktur amerískur prjónahönnuður, Ann Modesitt, hefur lagt sig fram við að koma þessari prjónaaðferðir á framfæri. (Myndirnar eru teknar af vefsíðu hennar.) Hún heldur því fram að prjónles verði óvenju fallegt og þétt prjónað með blönduðu aðferðinni.

“Austræn slétt brugðin lykkja” er raunar snúin brugðin lykkja en sé prjónuð snúin slétt lykkja á móti verður áferðin á prjónlesinu nokkurn veginn slétt.

Það er dálítið skondið til þess að hugsa að líklega er þetta sama prjónaðferð og Íslendingar notuðu áður en farið var að kenna prjón í skólum, a.m.k. ef marka má hugmyndir Elsu E. Guðjónsson, sem minnst var á hér að ofan. Skyldu Kanar hafa uppgötvað hefðbundið íslenskt prjón núna alveg nýlega? 😉

Brugðnar lykkjur Cat BordhiÍ lokin er kannski rétt að geta þess hvernig ég prjóna sjálf: Ég prjóna snúna brugðna lykkju, með bandið fyrir aftan prjónlesið og sting í fremri lykkjubogann en sný upp á lykkjuna í stað þess að snúa bandinu um prjóninn líkt og gert er í skandínavísku sléttu brugðnu lykkjunni sem flestir landar mínir nota. Þetta eykur auðvitað hraða því hreyfingum fækkar. Þegar ég prjóna flatt stykki (fram og til baka) prjóna ég sléttu lykkjurnar snúnar svo áferðin á prjónlesinu verður slétt. Það gildir nefnilega um þetta eins og í dæminu hér að ofan um blönduðu aðferðina að tveir snúnigar gera slétt (eins og tveir mínusar í stærðfræði gera plús).

Þetta er sú prjónaaðferð sem ég lærði í bernsku af ömmu minni. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir rétttrúnaðarskoðanir nútímans ættaðar vestan úr Amríkuhreppi og er hæstánægð með minn prjónaskap …

Mér til mikillar ánægju hefur svo einn af þekktustu prjónatæknifræðingum heims, Cat Bordhi, tekið þessa aðferð upp á arma sína og heldur hún því fram að akkúrat svona brugðnar lykkjur séu fastari og betri en allar aðrar. Sjá má myndband þar sem hún sýnir aðferðina – smelltu á myndina til hliðar til að opna myndbandið.

P.S. Ef einhvern langar að prjóna með virkilega flottri snúinni/fléttaðri áferð þá mæli ég með:

Sléttum sléttum lykkjum á réttu;
Snúnum brugðnum lykkjum prjónuðum í aftari lykkjuboga (þ.e. gömlu íslensku aðferðinni við að prjóna brugðnar lykkjur) á röngu.

3 Thoughts on “Rétttrúnaður í prjóni

  1. Frábær grein.
    Hefur þú hugleitt að gefa út handavinnubók?

  2. Harpa Hreinsdóttir on November 4, 2013 at 16:45 said:

    Nei, það eru svo voðalega margar handavinnubækur að koma út þessi árin (aðallega samt um vettlinga). En ég hef reyndar áhuga á að gefa út “Þætti úr sögu prjóns” eða eitthvað svoleiðis, ekki bók um prjónatækni eða uppskriftir (til þess eru aðrir betur fallnir en ég). Þyrfti samt að ná aðeins betri heilsu til að geta í alvöru farið að hugsa um það.

  3. Jósefína Dietrich on November 5, 2013 at 01:44 said:

    Mjá mjá mjá

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation