Sokkar Eleonoru af Toledo

Eleonora af Toledo

Eleonora di Toledo fæddist 1522 og var af konunglegum spænskum ættum. Hún giftist Cosimo I, af Medici ættinni, sem tók við af þeim fræga Alessandro Medici og stjórnaði Toskaníuhéraði á Ítalíu, með aðsetur í Flórens. Þeim hjónum varð ellefu barna auðið og af þeim urðu tveir synir að þjóðhöfðingjum. Það fór á ýmsa vegu með hin börnin, má nefna að dóttirin Ísabella var myrt af eiginmanni sínum vegna framhjáhalds og einn sonurinn, Pietro, myrti eiginkonu sína vegna framhjáhalds (en Medici fjölskyldan kallaði svo sem ekki allt ömmu sína þegar kom að skrautlegu kynlífi og morðum innan fjölskyldunnar).

Það þótti nokkur ljóður á ráði Eleonoru hve hún barst mikið á, t.d. í klæðaburði, og auk þess var hún forfallinn fjárhættuspilari. Ekki hvað síst fór svo í taugarnar á Flórensbúum hve höll hún var alla sína ævi undir allt það sem spænskt var. En valdamikil var hún, stóð jafnfætis manni sínum og stjórnaði ríkinu þegar hann brá sér af bæ.

Eleonora lést í Pisa einungis fertug að aldri, árið 1562. Öldum saman gengu þær sögur að Garcia, sextán ára sonur hennar hefði myrt nítján ára bróður sinn, Giovanni, og faðir þeirra hefði kálað Giovanni í kjölfarið með eigin sverði; Eleonora hefði sprungið af harmi viku síðar. En lík þessa fólks hafa verið rannsökuð með nútímaaðferðum sem leiddu í ljós að Eleonora og synirnir dóu úr malaríu.

Grafhýsi fjölskyldunnar var opnað árið 1857. Klæðin sem Eleonora var jörðuð í eru varðveitt og til sýnis í Galleria del Costume í Palazzo Pitti í Flórens, sem Eleonora keypti einmitt sem sumarhöll á sínum tíma.

Sokkar Eleonoru af Toledo

Upprunalegir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru af Toledo

Endurgerðir sokkar Eleonoru af Toledo

Sokkar Eleonoru af Toledo

Uppábrotið á endurgerðum sokk

Uppábrot á upprunalegum sokk (ath. að rangan snýr út því brotið er upp á)

Uppábrot á upprunalegum sokk (ath. að rangan snýr út því brotið er upp á)

Glæsilegur fatnaður hennar hefur vakið mikla athygli, ekki hvað síst sokkarnir. Þótt í prjónasögu sé oft talað um þessa sokka sem ítalska er allt eins líklegt að þeir séu spænskir. Prjón var lögvernduð iðngrein víða í Evrópu á tímum Eleonoru í þeim skilningi að til voru gildi (nokkurs konar fag- og stéttarfélög) prjónara. Prjónagildið í Toledo á Spáni sérhæfði sig einmitt í silkisokkaprjóni og sokkar þaðan voru fluttir út til margra Evrópulanda þar sem konungbornir og háttsettir í hirðum konunga klæddust þeim og voru þessir handprjónuðu silkisokkar rándýrir.

Það sem er sérstakt við silkisokka Eleonoru af Toledo er að þeir eru með elstu varðveittu flíkum þar sem munstur er myndað með brugðnum lykkjum. Líklega var skammt um liðið frá því menn lærðu að prjóna brugðnar lykkjur þegar þessir sokkar voru prjónaðir. (Stroff efst á sokkum var ekki fundið upp fyrr en mörgum öldum síðar.) Rúmri öld eftir lát Eleonoru komst svo í tísku að prjóna munstur úr brugðnum lykkjum á jakka/treyjur, svokallað damask-prjón, sem átti eftir lifa lengi.

Silkisokkarnir Eleonoru voru líklega upphaflega hárauðir. Þeir voru hnéháir og kanturinn efst hefur verið brettur yfir sokkaböndin. Sokkunum er þannig lýst í bók Richards Rutt, History of Handknitting:

Sokkar Eleonoru af Toledo

Munstur á sokk Eleonoru
Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Munstrið er birt með leyfi teiknara þess, Colleen Davis

Á uppábrotinu (þ.e. yfirbrotinu) er munstrið lárétt. Efst eru sléttar umferðir, munstraðar með tveimur einföldum sikk-sakk línum úr brugðnum lykkjum. Þessi efsti munsturborði er svo afmarkaður með tveimur brugðnum umferðum áður en aðalmunstuborðinn á uppábrotinu hefst.

Aðalmunstrið er nokkurs konar tíglótt grind, mynduð úr tveimur brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Í hverjum tígli eru fjögur göt til skrauts. Efsti munsturborðinn er svo endurtekinn að loknu aðalmunstrinu í uppábrotinu.

Sokkabolur og sokkur eru með tvenns konar breiðum lóðréttum munsturborðum. Annars vegar er 8 lykkju borði prjónaður með tvöföldu perluprjóni (þ.e. hver perla er prjónuð í tveimur umferðum). Hins vegar er 9 lykkju borði prjónaður með tvöföldu garðaprjóni (þ.e. tvær brugðnar og tvær sléttar umferðir til skiptis). Milli þessara munsturborða eru mjórri borðar, afmarkaðir með venjulegri sléttri lykkju hvorum megin en annars prjónaðir með snúnum sléttum lykkjum. Í miðjulykkjunni í þeim borðum skiptast á ein slétt og ein brugðin lykkja (lóðrétt perluprjónsrönd).

Það er ekki að undra að prjónakonur hafa viljað endurgera hnésokka Elenoru af Toledo enda eru þeir gullfallegir og bera vott um glæsileg hönnun.

Þeim sem hafa áhuga á þessum sokkum er bent á:

  • Archivio-digitale/Documentazion-fotografica: Restauro degli abiti funebri dei Medici, sem eins og nafnið gefur til kynna eru ljósmyndir af viðgerð og forvörslu klæða sem fundust í grafhýsi fjölskyldu Eleonoru. Á s. 15 og s. 16 eru myndir af sokkunum hennar Eleonoru.
  • Síðu Colleen Davis með munstri og myndum af endurgerðum sokkum í bláum og hvítum lit.
  • Uppskrift á síðunni Georg’s research. Þar er mælt með því að nota mjög fínt garn og mjög fína prjóna, miðað er við prjónafestuna 47 lykkjur í 10 sentimetrum. Sjá má nokkrar myndir af þessari endurgerð, bleikum sokkum, á Flickr.
  • Ítarlegar munsturleiðbeiningar og uppskrift eru á síðu Brandy Dickson, The Costume Dabblersjá síðu 1síðu 2 og síðu 3. Prjónafesta er: 31 lykkja og 39 umferðir gera 10 cm.

 

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 19. desember 2013.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation