Nirfilspyngjur og krónukönnur

nirfilpyngja_forsidumynd

Myndin hér að ofan er af dæmigerðri nirfilspyngju (Miser’s Purse) sem voru afar vinsælar peningabuddur á Viktoríutímunum. Talið er að nafnið sé dregið af því að það gat verið óttalegt vesen að ná aurunum úr svona pyngju.

Sé myndaleitað í Google að miser’s purse birtist fjöldi nirfilspyngja af öllum stærðum og gerðum, flestar glæsilega skreyttar enda safngripir í útlöndum. Hér eru nokkur dæmi:

Glæsilegar nirfilspyngjur

Glæsilegar nirfilspyngjur

Nirfilspyngja er í rauninni bara aflangt prjónað (eða heklað) stykki, saumað saman en skilið eftir örlítið gat í miðjunni sem hægt er að smeygja peningi inn um. Endar stykkisins eru oftast hafðir eilítið mjórri eða dregnir fast saman þegar búið er að sauma saman stykkið. Síðan er tveimur málmhringjum smokkað upp á stykkið og þá er hún tilbúin: Skreytist að vild. Hér er myndband sem sýnir hvernig nirfilspyngja er notuð.

Á Íslandi voru líka notaðar nirfilspyngjur á nítjándu öld. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á mynd af prjónaðri nirfilspyngju en veit að þær eru til á Þjóðminjasafninu. Aftur á móti er hægt að finna myndir af tveimur hekluðum nirfilspyngjum og er önnur þeirra með elstu hekluðu munum íslenskum.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Þóra Melsteð  stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874 og veitti honum forstöðu til 1906. Þar var „heklan“ eða „hekling“ kennd frá upphafi, eina stund á viku í þriðja bekk. Líklega hafa námsmeyjar þaðan átt drjúgan þátt í að breiða kunnáttu í hekli út um landið.

Pyngjan hennar Þóru Melsteð er 25 cm löng. Hún var gefin Þjóðminjasafni Íslands úr dánarbúi Þóru (sem lést 1919) og var þá lýst þannig í skrá safnsins: „Peningapyngja hekluð úr móleitu garni, aðallega á þrennan hátt. Baugur úr stáli er um miðju; hafa líklega verið tveir slíkir … Sennilega eptir frú Thoru Melsteð; kann þó að vera útlend að gerð og uppruna.“

Líklega er ekki óvitlaust á þessum síðustu og verstu tímum að prjóna eða hekla sér nirfilspyngju og treysta því sem sagnir herma: Að það kosti verulega fyrirhöfn að ná hundraköllum, fimmtíuköllum og tíköllum úr henni og spara þannig nánast sjálfkrafa.

 

Krónukönnur

Krónukönnur

Önnur sparnaðargræja frá Viktoríutímunum var svokölluð „Pence Jug“, sem mætti kannski kalla Krónukönnu á íslensku. Hún var, eins og nafnið bendir til, haganlega prjónuð lítil kanna sem menn settu smápeningana sína í og notuðu um leið sem stofustáss.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Ef menn eiga erfitt með að klóra sig fram úr ensku uppskriftinni frá 1884 þá má benda á skiljanlegri  uppskrift (á ensku) af krónukönnu sem liggur frítt frammi á Ravelry en það þarf að skrá sig inn á  hannyrðavettvanginn til að nálgast hana á þessari slóð.

Uppskriftin er eftir Robert Jenkins en hann styðst við uppskrift á síðu 146 í þeirri ágætu bók Art of Knitting, sem kom út árið 1892. (Þetta er það skemmtileg bók að titillinn krækir í smámyndir af öllum síðunum og dugir að smella á smámynd til að fá síðuna í réttri stærð.)

Krónukönnur Robert Jenkins

Krónukönnur Robert Jenkins

Heimild önnur en krækt er í úr texta:

Elsa E. Guðjónsson. Um hekl á Íslandi. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 92, s. 75-85. 1995.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation