Nú er ég orðin dálítið leið á Sigríði Einarsdóttur Magnússon og hennar familíu, eftir mikinn lestur um það slekti. Og af því ég veit að Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur er að skrifa um þessa konu, áreiðanlega af sagnfræðilegri nákvæmni, ákvað ég að hætta að leika sagnfræðing með tilvísunum í lok hverrar málsgreinar. Þessi færsla er framhald af Fingravettlingar, Viktoría drottning, dularfullar hirðmeyjar og hagræðing sannleikans.
Hvers lags kona var Sigríður?
Sigríður Einarsdóttir fæddist árið 1831 og var af almúgafólki komin; faðir hennar var „assistent“ (líklega afgreiðslumaður í verslun) og hattamakari (hattagerðarmaður), ættaður úr Skaftafellssýslum. Móðir hennar var ein fjölmargra barna Ólafs Loftssonar, sem hann átti hvert með sinni konunni. Þau endurreistu torfbæinn Brekkubæ í Reykjavík og þar ólst Sigríður upp, ásamt tveimur systrum og einum bróður. Til að drýgja tekjur heimilisins hafði Guðrún, móðir Sigríðar, skólapilta í fæði og var einn þeirra Eiríkur Magnússon. Þannig kynntust þau Sigríður, tókust með þeim ástir og þau trúlofuðu sig 1856, þegar Eiríkur hafði lokið stúdentsprófi 23 ára gamall, og giftust árið eftir.
Sem ung kona var Sigríður vinsæl og hélt uppi stuðinu í henni Reykjavík, a.m.k. meðal skólapilta og menntamanna. Hún var „fjörug og gáfuð, lék á gítar og söng vel … Þá var Brekkubær lítið kot og dálítil stofa eða hús niðri; þar komum við oft saman og var þá glatt á hjalla“, segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl, s. 206 (tilv. í Stefán Einarsson. 1933, s. 13.).
Benedikt Gröndal lék einmitt á móti Sigríði í leikriti sem hét Pakk og var sett upp 1854. Hún var nefnilega fyrsta alvöru leikkonan í Reykjavík, var „hin fyrsta „primadonna“ þessa bæjar, og hafði enda alla tilburði þar til, gáfur, fegurð og glæsileik […]‟. Í skrá yfir leikendur í Pakk(i?) er Sigríður kölluð Sigga Tipp, sem kannski hefur verið viðurnefni hennar. (L.G. 1939 (2)7, s. 17. og sami 1939 (2)8, s. 5.)
Myndin af Sigríði er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.
Hvernig breyttist sú fjöruga og skemmtilega Sigga Tipp í braskarann og skrumarann og snobbarann Sigríði Einarsdóttur Magnússon? Til þess að skilja það þarf að skoða hjónaband hennar og athafnasemi eiginmannsins.
Að meika það í útlöndum
Eiríkur dreif sig í Prestaskólann og lauk námi þaðan 1859, á meðan sá Sigríður að talsverðu leyti fyrir þeim með því að kenna á gítar. Þau eignuðust barn fljótlega eftir giftinguna en það fæddist andvana. (Einhvern tíma síðar eignuðust þau annað barn sem einnig fæddist andvana, eftir það var hjónaband þeirra barnlaust.) (Stefán Einarsson. 1933, s. 15.)
Þau Eiríkur og Sigríður bjuggu í Reykjavík fyrstu fjögur árin eftir að þau giftust. En vorið 1862 fluttu þau til London og við tók mesta basl næstu árin. Eiríkur hafði stopula vinnu og af því hann var ákveðinn í að „meika það“, þ.e.a.s. vera talinn í hópi menntamanna og fína fólksins í Englandi, gat hann ekki einu sinni þegið suma vinnu sem honum þó bauðst því vinnan var ekki nógu fín. (Stefán Einarsson. 1933, s. 80.) Alls konar brask hans næstu árin mistókst yfirleitt. Til að skilja athafnir Sigríðar seinna meir er nauðsynlegt að nefna nokkuð af braski og brambolti Eiríks því líklega fékk hún fyrirmynd að ýmsu þar.
Myndin af Eiríki er úrklippa úr mynd sem varðveitt er í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins.
Það varð þeim hjónum til happs að samskipa þeim til Englands vorið 1862 var enskur stúdent, George J. E. Powell, sem hafði ferðast um Ísland um sumarið og hafði óþrjótandi áhuga á öllu því sem íslenskt var (s.s. var í tísku meðal menntamanna á Englandi á Viktoríutímunum; Annars vegar tengdist þetta rómantískum áhuga á fornbókmenntum, hins vegar þótti Ísland exótískt land og þ.a.l. eftirstóknarvert til heimsókna). Hann George Powell reyndist sterkefnaður og fór svo að hann hélt þeim Eiríki og Sigríði uppi í Frakklandi og Þýskalandi á árunum 1864-66. Þar dunduðu þeir sér við orðabókargerð og þýðingar á Þjóðsögum Jóns Árnasonar o.fl. og Eiríkur lærði íslenska málfræði. Orðabókarsmíðinni var sjálfhætt þegar Eiríkur frétti að Guðbrandur Vigfússon væri langt kominn í vinnu við og útgáfu á orðabók Cleasby en þjóðsagnaþýðingin var gefin út.
Þegar rann upp fyrir Eiríki hve auðugur faðir Georges Powell var og að George mundi einn erfa hann hóf hann að tala þennan vin sinn (og framfæranda) inn á að fjármagna háskóla á Íslandi. Um þetta skrifar Eiríkur vini sínum, Jóni Sigurðssyni [forseta] í Kaupmannahöfn, þann 3. júní 1864 og segir m.a.:
Nú ber svo til að faðir vinar míns, … vellauðugur …, er að kveðja veröldina, en sonur hans, einberni tekur við öllum arfinum, 300 jörðum, sem gefa af sér 12-14000 punda á ári. Eg ætla því að treysta á gjaflyndi hans, þegar sá gamli er hrokkinn af klakknum [- – -] Eg býst alls ekki við, að hann gefi alt, er gefa þarf. En ef hann gæfi ört, þá yrði hægra að afla hins með subscribtionum á Englandi ….
(Stefán Einarsson. 1933, s. 40.)
Þessi ágætu plön voru auðvitað háð því að pabbi Georges ræki upp tærnar sem fyrst. En því miður (fyrir Eirík) tórði gamli maðurinn áfram og ekkert varð úr hinni stórfenglegu gjöf/hinum stórfenglegu sníkjum til að fjármagna háskólastofnun á Íslandi.
Hins vegar átti George Powell talsvert eftir af móðurarfi sínum og Eiríki tókst að fá hann til að greiða fyrir Íslandssögu í sex bindum, sem Jón Sigurðsson átti að skrifa. Powell reiddi fram féð, 600 pund, en um þá sagnaritun fór átakanlega svipað og um sagnaritun Akraneskaupstaðar löngu seinna: Jón Sigurðsson þáði launin, Eiríkur fékk 100 pund af þeim, en svo bólaði ekkert á Íslandssögunni. Átta árum seinna reyndi Powell að rukka Jón Sigurðsson um söguna, þ.e. óskaði eftir greinargerð um sagnaritunina. Jón sendi langt afsökunarbréf og tíndi til ýmsar orsakir til tafarinnar, taldi sig t.d. ekki geta byrjað að skrifa af því margt væri enn órannsakað o.s.fr. Eiríkur Magnússon útskýrði málin fyrir Powell, sem gafst upp og gaf eftir féð og Jón Sigurðsson „lánaði“ Eiríki vini sínum 100 pund fyrir viðvikið. (Stefán Einarsson. 1933, s. 50-54.) Og segir ekki meir af vinskap þeirra Eiríks og Powell, raunar virðist hafa slitnað sundur með þeim um það leyti sem móðurarfur Powell tók mjög að eyðast og faðir hans virtist áfram ódrepandi þrátt fyrir ýmsan krankleik.
Myndin til vinstri er af George Powell.
Af öðru sem Eiríkur tók sér fyrir hendur má nefna að beita sér fyrir sölu íslensks fjár til Englands. Árið 1866 hafði hann gert samning annars vegar við kaupmenn á Englandi, hins vegar við bændur á Norður- og Austurlandi um kaup og sölu á íslensku fé; leigði skip, dreif sig til Íslands um haustið og sótti 2174 kindur á Eskifirði. Sjálfsagt hefur þeim verið þétt staflað í skipið. Á bakaleiðinni gerði snarvitlaust veður svo stór hluti fjárins hryggbrotnaði, rotaðist og margbeinbrotnaði; var ýldulyktin úr stíunum orðin hroðaleg þegar skipið nálgaðist Katanes þótt einhverjum skrokkum hafi tekist að kasta útbyrðis. Að auki höfðu menn gert smá mistök sem uppgötvuðust á bakaleiðinni: Það hafði nefnilega gleymst að gera ráð fyrir nothæfri pumpu til að dæla vatni í skjólur handa skepnunum, svo sjálfsagt drapst eitthvað úr þorsta. Til Newcastle, þangað sem förinni var heitið, komust 1100 fjár lifandi og með lífsmarki, um 1000 fjár hjarnaði við þegar það komst á beit. Ofan á afföllin kom í ljós að féð seldist illa og þær fáu rollur sem seldust voru keyptar fyrir miklu lægra verð en áætlað hafði verið. Tap á sauðasölu Eiríks var því um 1200 pund, sem var gífurlegt fé, enda kallaði hann sjálfur þetta „óhappalega byrjun“ á sauðasölu til Englands. (Stefán Einarsson. 1933, s. 68-74)
Fleira sem Eiríki datt í hug um svipað leyti var að hefja innflutning á málmum frá Íslandi og að gerast námueigandi í Svíþjóð í félagi við sænskan mann; Þeir streðuðu í tvö ár við að fá Breta til fjármagna fyrirtækið en tókst ekki. Hann var meira að segja að hugsa um að flytja aftur til Íslands og sótti um stöðu dómkirkjuprests í Reykjavík sumarið 1871 en fékk ekki. (Stefán Einarsson. 1933, s. 70-71 og 82).
En – svo fékk Eiríkur fasta stöðu bókavarðar í Cambridge snemma vetrar 1871! Á móti honum sóttu 78 manns og Eiríkur hafði enga reynslu af bókasöfnum nema sem viðskiptavinur. Samt fékk hann starfið, líklega af því Oxford hafði þegar fengið Íslending til að vinna þar (Guðbrand Vigfússon) og þá þurfti Cambridge auðvitað líka að geta skartað Íslendingi. (Stefán Einarsson. 1933. s. 125-126).
Eftir það varð lífið tryggara: Fast starf, fastur samastaður og föst laun björguðu miklu þótt þau hjón hafi ævinlega verið skuldug því þau bárust á um efni fram. Það kostaði sitt að vera gestrisin og halda sambandi við fína fólkið sem þau kynntust í Cambridge og víðar. Safnanir og styrkjasnöpun, jafnvel lán, dugðu skammt til að brúa bilið milli tekna og útgjalda. En einhvern veginn skrölti þetta allt saman næstu áratugina.
Það er augljóst að meiki maður það í útlöndum á frægð á Íslandi að fylgja eftir. Þetta lukkaðist nokkuð vel hjá Eiríki Magnússyni bókaverði í Cambridge. Næsta færsla fjallar um hvernig Sigríði gekk í þessum efnum.
Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:
Stefán Einarsson. (1933). Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík
L.S. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939. Liðnir leikarar. Fimmta grein. Vikan 2(8) 23. feb. 1939, s. 5.
L.G. [Lárus Sigurbjörnsson]. 1939. Liðnir leikarar. Fjórða grein. Vikan (2)7, 16. feb. 1939, s. 17.