Lífsstílssjúkdómavæðingin

Á dögunum las ég á visir.is greinina Berum við ábyrgð á eigin heilsu?, 6. júní 2014, eftir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðing á Heilsustofnun NLFÍ og ritstjóra vefjar stofnunarinnar. Nú hef ég af og til heyrt svipaðan málflutning upp á síðkastið en þessi grein vakti sérstaka athygli mína fyrir það hversu mikill þvættingur er í henni samankominn.

Höfundur greinarinnar segir m.a.:

Það er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur hvers vegna við erum að leita læknis og nýta okkur heilbrigðiskerfið okkar. Mikið af þeim „sjúkdómum“ sem eru að hrjá okkur í dag eru þessir svokölluðu lífsstílssjúkdómar s.s. sykursýki, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis krabbamein, þunglyndi [leturbreyting mín] og stoðkerfisvandamál.

Geir Gunnar bætir svo seinna við: „Hættum að nota heilbrigðiskerfið til að meðhöndla alla þessa lífsstílssjúkdóma og notum það frekar til að lækna okkur af „alvöru“ sjúkdómum sem við ráðum ekki við sjálf með líferni okkar.“ 1

Ég sakna þess mjög að sjá ekki dæmi um það sem Geir Gunnar telur „alvöru sjúkdóma“ – hverjir gætu það mögulega verið?

Er þunglyndi lífsstílssjúkdómur?

Síðan ég las þessa grein hef ég velt þessu mjög fyrir mér enda hef ég ýmist verið 75% eða 100% öryrki af völdum þunglyndis undanfarin ár. Þunglyndi er algerlega lamandi sjúkdómur eins og þeir sem reynt hafa þekkja vel. Þegar hver dagur snýst aðallega um að komast á fætur og einbeita sér að því að lifa daginn af en kála sér ekki í þunglyndisköstunum því kvölin og myrkrið er svo alltumlykjandi, þegar maður er ólæs, ófær um að horfa á sjónvarp, ófær um að tala, minnið, jafnvægisskynið og tímaskynið og svefninn fokkast gersamlega upp … tja, er furða þótt kona eins og ég velti fyrir mér hvar ég klikkaði í lífsstílnum ef marka má grein Geirs Gunnars?

Er mögulegt að ég éti ekki nógu „hreinan mat“? Solla í Gló er nýbúin að vara fólk við að margur maturinn sé óhreinn, sá ég í fyrirsögn, en ég nennti ekki að lesa greinina enda hvorki grænmetisæta né holl undir kosher-fæði neins konar. Er þunglyndið refsing guðs fyrir að reykja? Er ég þunglynd af því ég hleyp ekki, lyfti ekki lóðum og fer aldrei í leirbað, ekki einu sinni í skiptiböð? Eða er það skortur á núvitundaræfingum sem veldur helv. sjúkdómnum?

Ég þyrfti að panta tíma hjá Geir Gunnari til að fá leiðbeiningar um hvernig ég gæti étið úr mér þunglyndið eða baðað það úr mér eða íhugað sitjandi á kodda eða eitthvað lífsstíls-, það er ekki spurning!

Og ég er ekki með neitt af hinum sortunum sem hann taldi upp svo rangi lífstíllinn minn hefur einvörðungu valdið helvítis þunglyndinu.

Raunar veit ég ekki til þess að orsakir þunglyndis séu þekktar, eftir umtalsverðan lestur um efnið, hef jafnvel legið yfir fræðilegum greinum og bókum, svo Geir Gunnar lumar á merkilegri uppgötvun þarna.

Úrkynjunarkenningin

Í lok greinar sinnar segir Geir Gunnar:

Við Íslendingar erum afkomendur víkinga og hreystimanna sem settust hér að á þessari köldu eyju í Norður-Atlantshafinu. Tölur WHO benda til þess að við séum á góðri leið með að verða andstæða forfeðra okkar, því þessir lífsstílssjúkdómar sem eru að tröllríða íslensku samfélagi eru ekki að gera okkur að hreystimönnum.

Ég kannast ágætlega við úrkynjunarkenninguna sem skýringu á geðsjúkdómum og fleiri krankleikum: Hún var voða mikið í tísku á nítjándu öld og vel fram á þá tuttugustu. Mannakynbætur voru sjálfsögð afleiðing hennar, sem komu fram í geldingum geðsjúkra, þroskaheftra, samkynhneigðra o.fl., þær áttu svo sína gullöld í útrýmingarbúðum nasista. Það kemur svo sem ekki á óvart að einhverjir í Hveragerði aðhyllist einmitt úrkynjunarkenninguna.

Og ég kannast svo sem nokkuð vel við landnámsmenn líka, verandi íslenskufræðingur með áherslu á miðaldabókmenntir, þ.e.a.s. Íslendingasögur og svoleiðis. Vissulega voru þeir margir víkingar en það má alveg deila um hversu göfugt starf það var: Að brytja niður mann og annan, einkum varnarlaust fólk í útlöndum, konur og börn ekki undanskilin, er ekki sérlega hreystimannlegt, finnst mér. Og sumir þeirra voru gersamlega kolklikk, ég nefni sem dæmi forföður okkar Geirs Gunnars, Egil Skallagrímsson á Borg. Eftir að hafa sett mig dálítið inn í „víkingana og hreystimennin“ sem hér námu land hugga ég mig venjulega við að mínir hvatberar eru ekki frá þeim heldur góðum og gegnum keltneskum og enskum konum (sem kannski voru ekki hreystimenni en þó skömminni skárri en norrænu karlarnir).

Hvað er lífsstílssjúkdómur?

Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta hvaða krankleiki sem er sem rekja má til einhverrar hegðunar í lífinu. Ónýt hné fótboltastráka/fótboltamanna eru tvímælalaust lífsstílssjúkdómur og hann ekki sjaldgæfur; Háfjallaveiki og kafaraveiki líka, beinbrot í vélsleðaslysum, slitin liðbönd af íþróttaiðkun, áverkar í bílslysum o.s.fr.

Á nokkuð að vera að púkka upp á svona sjúklinga því þeir geta jú sjálfum sér um kennt og eru þá ekki með „alvöru sjúkdóma“? Þarf  ekki frekar að auka forvarnir gegn fótboltaiðkun og annarri íþróttaiðkun, fjallaklifri, köfun, vélsleðanotkun og að fólk aki bíl um allar trissur?

Af hverju eru lífsstílssjúkdómar í tísku núna?

Ég held að grein Geirs Gunnars næringarfræðings svari þessu prýðilega: Þetta er spurning um í hvað peningarnir eru settir. Sama kemur fram í máli Guðmundar Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, sem getið er í neðanmálsgrein: Setja meiri peninga í forvarnir og þá þarf minni pening í heilsugæslu. Og þá fá alls konar lýðheilsufræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar, einkaþjálfarar, markþjálfar, jógakennarar, eigendur líkamsræktarstöðva og ekki hvað síst Náttúran í Hveragerði meiri pening og geta unað glaðir við sitt.

1 Ég reikna með að Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ sé að bergmála málflutning Guðmundar Löve framkvæmdarstjóra SÍBS, í leiðara nýjasta tölublaðs SÍBS, júní 2014, (sem skartar einmitt ljómandi lekkerri heilsíðuauglýsingu frá Náttúrunni í Hveragerði á fyrstu síðu). Guðmundur Löve segir:

Um níu af tíu dauðsföllum á Íslandi stafa af sjúkdómum sem eru að einhverju leyti á áhrifasviði lífsstíls.
[—]
Samkvæmt tölum WHO úr skýrslunni „Global burden of disease [svo]“ frá 2012, eru stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga [skv. samhenginu er verið að tala um „glötuð góð æviár”] eftirfarandi: stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar – í þessari röð. Ef það kemur einhverjum á óvart að heilsufarsskaðinn sé meiri af völdum stoðkerfisraskana og geðraskana en krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma er mögulega einnig ástæða til að vera hissa á hvaða áhættuþættir vega þyngst: Þar er nefnilega mataræði í efsta sæti, og þar á eftir ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.

Sá hluti Global Burden of Diseases sem varðar Ísland er hér: GBD PROFILE: ICELAND, útg. 2012.

Þar koma áhættuþættirnir fram á s. 3 og eru þeir sömu og Guðmundur telur, en þeir þrír þættir sem vega þyngst í „glötuðum góðum æviárum“ (DALYs) árið 2010 eru verkir í mjóbakihjartasjúkdómar og þunglyndi, í þessari röð. (s. 2) Vekur furðu að framkvæmdarstjóri SÍBS hefur ekki rétt eftir skýrslunni en kannski var hann að skoða einhverja allt aðra skýrslu.

Nýir krankleikar á topp-tíu listanum íslenska í „glötuðum góðum æviárum“ árið 2010, samanborið við 1990, eru Alzheimers-sjúkdómur og önnur elliglöp ásamt þunglyndi og langvinnri lungnateppu. (Sjá s. 2. )

Þeim sem finnst gaman að leika sér í tölfræði er bent á þessa gagnvirku útgáfu af skýrslunni sem má stilla á ýmsan máta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation