Monthly Archives: August 2014

You are browsing the site archives by month.

Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið

Afdalabarn

Ég er nýbúin að lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi, skemmtilega sögu sem ég er viss um að margir hafa gaman að. En þessi færsla er ekki ritdómur um bókina heldur ábending um hvernig smekkur manna á holdafari og fegurð hefur mjög breyst, eiginlega snúist við, sem sjá má af dæmunum hér á eftir. Það er óljóst hvenær Afdalabarn á að gerast en giska má á snemma á tuttugustu öld, kannski best að tímasetja hana eftir því hvenær gúmmístígvél urðu föl hérlendis.

María er móðir afdalabarnsins, einstaklega fögur stúlka þá hún fór út í heim, eða öllu heldur úr afdalnum, en þegar hún snýr aftur er annað upp á teningnum:

Svo kom María heim. [- – -] Svo fór hún [móðir Maríu] að virða hana fyrir sér – ósköp hafði hún breyst mikið. Kafrjóða, feita heimasætan var orðin grannvaxin, föl og tekin fullorðin kona.
(s. 16.)

Unglingsstúlkan Bogga er ráðin sem barnfóstra í heiðarbýlið þar sem aðalpersónurnar búa. Henni er lýst svo:

Stelpan var skinhoraður gopi sem Hannes gat tæplega vænst mikils af […]
(s. 28.)

Enda segir Beta, móðir húsfreyju í afdalakotinu, um Boggu:

„Þú færð að vita af því að fæða hana. Þetta fær náttúrlega aldrei í sig, þessir krakkaangar þarna í Holti. Þetta er líka meiri horinn á barninu.“
(s. 29.)

En þrátt yfir horinn stendur Bogga sig vel í vistinni og braggast dag frá degi:

Þvílíkan ungling höfðu þau aldrei þekkt. Þeim var mikil ánægja að því hvað hún tók miklum framförum hvað útlit snerti. Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið.
(s. 30-31.)

Það er aftur á móti verra með ungu vinnustúlkuna á sýslumannsheimilinu, hana Lilju:

Hannes [sýslumanni] hafði alltaf hryllt við þessu vesalings barni vegna þess hve hún var föl og fjörlaus. Taldi hann hana sjálfsagt herfang tæringarinnar fyrst báðar systur hans, sem voru feitar og blómlegar og aldar upp í allsnægtum, urðu þessum voðasjúkdómi að bráð [- – -] en kona hans bjóst við að útlit hennar stafaði af inniveru og hreyfingarleysi.
(s. 98.)

Ég deili algerlega skoðunum Guðrúnar frá Lundi á fegurð og fönguleika. Þess vegna hef ég gert ítrekaðar tilraunir til að innbyrða 3000 kaloríur á dag en það er ekki auðvelt verk, ekki einu sinni þótt maður sparsli nokkrum Snickers í matseðil dagsins. Líklega er afdalafæði lausnin á mínum lífsstílsvanda. Hvar er boðið upp á lífsstílsleiðréttingu í afdölum nútildags?

 

Það er ei kvöldsett enn (Ой, да не вечер)

Þessi færsla er um enn eitt uppáhaldslagið mitt, sem hefur haldist í uppáhaldi í meir en ár. Skil ég þó ekki textann og má ætla að texti sé aukaatriði í góðum og velfluttum lögum.

Lagið syngur rússneska söngkonan Pelageya Sergeyevna Khanova (Пелагея Серге́евна Ханова). Pelageya var undrabarn í tónlist og nýtur mikillar hylli sem þjóðlagasöngkona í Rússlandi. Hún stjórnar eigin hljómsveit og satt best að segja minna útsetningarnar hennar mig svolítið á þá ágætu færeysku þjóðlagasveit Týr.

Ótal útgáfur af Oy, to ne vecher (Ой, да не вечер) er að finna í flutningi Pelageyu á YouTube en þessi, tekin upp á tónleikum 2009, finnst mér sérstaklega góð:


Á YouTube síðunni fylgir textinn, á rússnesku og í enskri þýðingu.

Oy, to ne vecher er annars upphafið á löngu rússnesku þjóðlagi, segir sjálf Wikipedia, sem er ýmist kallað Dæmisagan um kósakkana eða Draumur Sténka Rasin.

Í upphaflegu útgáfunni dreymir Sténka Rasin draum sem túlkaður er sem fyrirboði ósigurs hans og liðsmanna. Efni textans er eitthvað á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örstutt og dreymdi að svarti hesturinn minn ólmaðist, að hvassir vindar úr austri blésu af mér svartri húfunni, að boginn minn sviptist af öxl mér og örvarnar dreifðust um rakan svörðinn. Herforingi minn túlkaði drauminn: Sténka Timofeyevich, sem menn kalla Rasin: Af höfði þér fauk svarta húfan og af þér mun fjúka villt höfuðið; Boginn sem sviptist af þér þýðir að ég sjálfur mun dingla í snörunni; Örvarnar sem dreifðust eru Kósakkarnir okkar sem allir munu flýja.

Textinn hefur verið fluttur með ýmsu móti en núorðið er algengast að syngja einungis fjögur erindi, búið er að fella Sténka Rasin brott, fyrirboðunum í draumnum hefur fækkað og tákna einungis eitt.

Textinn sem Pelagya syngur er á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örskotsstund og dreymdi;
Í draumnum var sem svarti hesturinn minn væri óður og ólmaðist undir mér;
Og illir vindar blésu úr austri og þeir sviptu svörtu húfunni af villtu höfði mér;
Og herforinginn var vitur, hann gat þýtt draum minn: Ó, það mun vissulega fjúka af, sagði hann, hið villta höfuð þitt.

 

Það er auðvitað dálítið leiðinlegt að Sténka Rasin skuli horfinn úr textanum því margir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kannast við annað rússneskt þjóðlag um hann, sem í íslenskri þýðingu Jóns Pálssonar frá Hlíð hefst svo:

Norður breiða Volguvegu
veglegt fer með þungum skrið
skipaval mót stríðum straumi
Sténka Rasins hetjulið.

(Framhaldið má lesa í Æskunni, 75(5-8) s. 51-52  – raunar er svo til önnur þýðing á þessu kvæði eftir Jochum M. Eggertsson sem birtist í Eimreiðinni, 39(4) s. 386-388.)

En frá Sténka Rasin til hennar Pelageyu: Hér er önnur útgáfa þar sem hún syngur lagið ásamt leikkonunni Daryu Moroz :

Í lokin finnst mér rétt að benda á nótur af píanóútsetningu Oy, to ne vecher ásamt tilbrigðum , fyrir þá lesendur sem langar að spila lagið í stað þess að syngja með.

Söngvar ástsjúkra karlmanna og annar kveðskapur

Ég les alltof lítið af ljóðum síðan ég komst á fullorðinsaldur. En hlusta þess meira á tónlist og langar stundum til að vita hvað textarnir þýða, sé sungið á málum sem ég skil ekki. Undanfarið hef ég dálítið verið að hlusta á lög Mikis Þeodórakis og held í augnablikinu upp á þau tvö lög sem tengt er í hér að neðan. (Þau má bæði finna í flutningi ólíkra listamanna á YouTube.)

Eitt af skáldum heimilisins snaraði fyrir mig textunum. Verður að segjast eins og er að þeir eru skýr dæmi um söngva ástsjúkra karlmanna, svo sem Hundur í óskilum kallaði slíka texta í ágætum útvarpsþætti fyrir löngu (gott ef þátturinn var ekki meira að segja á Rás 1). Söngvar ástsjúkra karlmanna eru afar algengir textar í íslenskum einsöngs- og dægurlögum svo efnistök koma ekki beinlínis á óvart.

Fyrra dæmið reyndist vera um söknuð og svala lind og fjöll sem eru eins og fjólubláir draumar og fleira svoleiðis ástsjúkt. Þó er þetta ljómandi fallegur texti og ekki spillir gullfallegt lagið Hér syngur Margarita Zorbala lagið Fjólublá fjöll (Μενεξεδένια τα βουνά) eftir Mikis Þeodórakis. Textann gerði Jannis Þeódórakis (bróðir tónskáldsins).

Íslensk þýðing á ljóðinu (athugið að þýðingin fellur ekki að laginu):

Fjöllin voru fjólublá
fjólubláir kossarnir
eins á lit og augun þín
einsemd mín er niðadimm.

Raunalest sem reif þig burt
ristir sundur hjarta mitt
hennar braut er sviði sár
sorg og grát hún flautar mér.

Vegfarandi var ég þér,
þú mér ljós og lindin svöl.

Hélt ég þér í höndum tveim
hafði fyrir lítinn fugl
hófst að morgni sætan söng
sást um kvöldið aldrei meir.

Flakkandi ég fer um skóg
fölar greinar allt í kring
mér er auðnin endalaus
ekkert nema sölnuð lauf.

Annað uppáhaldslag þessa dagana er Mana mou kai Panagia (Μάνα μου και Παναγιά), þar af skildi ég einungis að María guðsmóðir (Panagia) væri eitthvað nefnd í textanum. Eftir snörun texta veit ég að söngvarinn, sem er mikið niðri fyrir, er óheyrilega ástsjúkur! Mér finnst Yorgos Dalaras gera þessu lagi góð skil, á YouTube eru nokkrar útgáfur af söng hans en mér finnst sú elsta, tekin upp 1984, langskemmtilegust. Lagið er eftir Mikis Þeodórakis en textinn eftir Tasos Livaditis.

Textinn er á þessa leið (mismunandi vendilega þýddur):

Björtust sól og bjarmi dags, blessað næturljósið skýra
Máríu þú meyjar varst, móðurbæn og óskin dýra.

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Svölun varst í kófi kær, kertaljós í myrkum geimi
leiðarstjarna um logafár, lausnarinn í vítisheimi

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Það er spurning hvort kona er betur sett með að skilja hvað um er sungið hér?

En svo að allt öðru:

Skáld heimilisins eru meðlimir í einhverjum skáldskaparkreðsum og sé ég stundum bragfræðiæfingar og skondnar lausavísur á þeirra fésbókarveggjum. Ég hef þó ekki mikinn áhuga á þess lags og vísnahorn og vísnaþættir í prentmiðlum fara inn um annað eyrað (augað?) og út um hitt, alla jafna. En á miðvikudaginn brá svo við að ég sá helv. skondna og skemmtilega vísu í Vísnahorni Skessuhornsins (s. 26), sem Dagbjartur Dagbjartsson heldur úti af myndarskap og hef ég heyrt því fleygt að sá sé sonur múrarans „sem eignaðist dreng í gær“ í frægu ljóði en það kemur þessu máli samt ekkert við …

Vísan er eftir Þórarin Eldjárn og sagt er að hann hafi lagt hana til á hagyrðingamóti á Borgarfirði eystri:

Með því hiklaust mæla þor’eg
sem mikið þjóðráð gæti virst
að Gunnar Smári gangi í Noreg;
og gjarnan bara sem allra fyrst.
Einnig teldi ég tilvaleð;
að taka Jónas Kristjáns með
með allt sitt prúða og góða geð.

Vissulega fellur þessi vísa ekki undir söngva ástsjúkra karlmanna … en hún er bara svo sönn, svo sönn …

Orð kvöldsins og Þröstur Helgason

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur ákveðið að fella niður nokkra örstutta dagskrárliði á rásinni, þ.e. Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldins. “Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar …” segir í beinni tilvitnun í yfirlýsingu Þrastar í Morgunblaðinu í dag (s. 2) en ég finn yfirlýsinguna hvergi, ekki einu sinni á vef RÚV. Enn fremur segir í beinni tilvitnun í yfirlýsinguna: “Hlustun á þá [dagskrárliði sem falla burt] hefur verið afar lítil.”

Ég hafði ekki hugmynd um að Þröstur hefði látið mæla hlustun á þessa dagskrárliði og þætti gaman að sjá tölurnar sem hann styðst við. Í leiðinni væri ágætt að sjá mælingu á fleiru, t.d. hlustun á tæpra tveggja klukkustunda Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva (í síðustu viku slökkti ég einmitt á svoleiðis eftir að kynnir upplýsti að þarna væru spiluð hljómsveitarverk eftir Béla Bartók og Dmitri Schostakowitsch … en kannski falla þessi tvö tónskáld eins og flís við rass við breyttan lífsstíl þjóðarinnar og hún hlustar af áfergju?). Og hve margir hlusta á kvöldsöguna? Nú er verið að lesa Leigjandann, merkilega ádeilusögu, allegóríu fyrir bókmenntafræðinga o.s.fr. …  en því miður hundleiðinlega og því miður er ádeilan dottin upp fyrir því herinn er löngu farinn og því miður finnst almenningi sennilega skemmtilegra að ráða krossgátur en túlka allegóríur. Hvar ætli maður geti séð áheyrendatölurnar yfir þá einstaka liði Rásar 1, sem Þröstur vísar í? Og aðra dagskráliði sömu rásar? Og hvernig var þetta mælt?

Ég veit ekki hvað þessi Morgunandagt er, hlusta ekki á Morgunbæn, sem skv. dagskránni í dag tók þrjár mínútur og var flutt fyrir klukkan 7 í morgun. En einstaka sinnum hlusta á ég Orð kvöldsins, fimm mínútna þátt. Það geri ég einkum í slæmum þunglyndisköstum og þykir þessi dagskrárliður hafa sefandi áhrif til bóta á þá hryllilegu líðan. Örlítil falleg tónlist og örlítið af fallegum orðum sem gefa von og veita huggun.  Þess vegna á ég eftir að sakna Orðs kvöldsins. Einhvern veginn hafði líka læðst inn hjá mér sú hugmynd (væntanlega firra af því ég geng ekki í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar) að sumt gamalt fólk, sumt fólk sem ætti bágt og jafnvel sumt trúað fólk hlustaði á þennan dagskrárlið: Samanlagt er þetta sennilega dágóður fjöldi en kannski dagskrárstjóranum finnist óþarfi að telja það til þjóðarinnar?

Satt best að segja læðist að konu eins og mér að með því að skera niður þessa átta mínútna+ (veit ekki hvað Morgunandaktin er löng) dagskrárliði sé Þröstur Helgason að reyna að skora stig hjá einhverjum í þeim háværa en fámenna sí-nettengda hópi sem telur að allt efni þar sem guð ber á góma sé í rauninni verkfæri andskotans. Sjálfsagt tekst honum það átölulaust því hópurinn sem hlustar á þessa dagskrárliði er ekki líklegur til hafa sig í frammi.

P.S. Þessi færsla var jafnframt sú síðasta sem ég skrifaði á harpa.blogg.is því hér með er bloggið mitt flutt á slóðina harpahreins.com/blogg.

Kostir, gallar og aðgengi að rafrettum

Þessi pistill er framhald af Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf.

Rafrettur komu fyrst á markað í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2006. Vinsældir þeirra hafa vaxið hröðum skrefum, ekki vegna markvissrar markaðssetningar heldur vegna Netsins: Notendur stofna hópa og umræðuborð og segja af reynslu sinni; umræðan berst hratt í gegnum samskiptamiðla; smáfyrirtæki/vefsíður sem selja rafrettur, íhluti og vökva spretta upp eins og gorkúlur. Vegna þessarar hröðu útbreiðslu hafa ekki verið gerðar margar almennilegar rannsóknir á rafrettum. En nú hafa tröllin tvö í viðskiptaheimi Vesturlanda áttað sig og bítast um bitann: Tóbaksframleiðendur og lyfjaframleiðendur. Því miður er útlit fyrir að þessi ágæta uppfinning falli í þeirra hendur með dyggri aðstoð stjórnvalda sem fóðra gjörninga sína með því að verið sé að gæta hagmuna notenda, þ.e. passa þá eins og óvita.

 

Geta rafrettur verið hættulegar?

Græjan sjálf er ekki hættuleg nema lithium-rafhlöðurnar geta sprungið eins og allar slíkar rafhlöður. Það hefur gerst einstaka sinnum ef marka má fréttir sem birst hafa í misáreiðanlegum fjölmiðlum en yfirleitt var þá einhver vitleysingur að hlaða rafhlöðuna rangt. (Sams konar sögur má finna um tölvur, farsíma og fleira dót með endurhlaðanlegri lithium-rafhlöðu.)

Vökvinn sem er í tönkum (eða geymum) rafretta getur innihaldið ýmis óholl aukaefni önnur en glycerol og nikótín og sömuleiðis geta orðið óæskileg efnahvörf við hitun hans. Þessi aukaefni eru í álíka litlum mæli og í nikótínúða þeim sem lyfjafyrirtæki framleiða og margfalt minni en mælast í sígarettureyk. Málmagnir sem mælast í gufunni (t.d. kadmín, nikkel og blý) eru í álíka magni og mælist í nikótínúða. Væri áhugavert að sjá samanburðartölur við gufu úr hraðsuðukatli, útblástur bíla o.fl. en þær liggja ekki á lausu. Mögulega gæti einhver haft ofnæmi fyrir þessum málmögnum eða efnum sem myndast við hitun glycerols.

Nikótín er ekki sérlega hættulegt efni. Vísindaþjóðsaga frá lokum nítjándu aldar hefur hermt að 30-60 mg af nikótíni væri banvænt inntöku en til eru nýleg staðfest dæmi um sjálfsvígstilraunir þar sem fólk drakk nikótínvökva með allt upp í 1500 mg af nikótíni án þess að takast ætlunarverk sitt.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að rafrettugufun sé ekki hættuleg  manni. En auðvitað má fara að dæmi fillifjonkunnar í sögu Tove Jansson og eyða orku sinni í að óttast allar mögulegar hörmungar sem gætu dunið yfir, í þessu tilviki komið í ljós löngu seinna.

 

Lítið nikótín

Kannski er stærsti gallinn við rafrettur, frá sjónarhóli notenda, að það er erfitt að gufa nikótíni í sæmilegu magni úr þeim. Í nýlegri tilraun Maciej L. o.fl., sem segir frá í vísindaritinu Addiction árið 2013  kom í ljós að uppgefið nikótínmagn í vökva í geymum stóðst ekki nærri alltaf. En öllu merkilegri var þó sú uppgötvun að samhengi milli nikótínmagns í vökvanum og nikótínmagns í gufunni var ótrúlega lítið. Í þessari tilraun var notuð reykvél og kom í ljós að gufað nikótín í 300 „smókum“ (sem hver stóð í 1,8 sekúndu) mældist á bilinu 2 mg – 15 mg. Í grein Hajek o.fl. sem birtist í sama tímariti nú í júlí og vísað er til neðst í þessum pistli var niðurstaða rannsókna á raunverulegum gufurum sú að reyndur gufari sem gufaði að vild í klukkustund gæti náð sama magni nikótíns í innöndun og er í einni sígarettu!

 

Kostir rafretta

Stærsti kosturinn er væntanlega sá að með því að nota rafrettu má draga úr reykingum eða jafnvel hætta þeim alveg. Og eins og rakið hefur verið eru rafrettur ólíklegar til að valda skaða á heilsu manns en allir ættu að vita að það er hreint ekki raunin með sígarettur, raunar allt tóbak.

Engin stór og rétt framkvæmd klínísk rannsókn hefur verið gerð á því hvort rafrettur nýtist betur eða verr en hefðbundin nikótínlyf til að hætta að reykja. Raunar sé ég ekki ástæðu til að efna til klínískrar rannsóknar á þessu því þá er um leið búið að gefa ádrátt lyfjaframleiðendum og áhangendum þeirrar skoðunar að rafretta sé einhvers konar lækningatæki.

Skv. grein Hajek o.fl. í Addiction í júlí sl. nota mjög margir rafrettur meðfram sígarettum og hefur tekist að draga umtalsvert úr reykingum með hjálp þeirra. Þetta eru „tví-notendur“ (dual users) og telja höfundar þessarar greinar að það sé ekki slæmt í sjálfu sér því það hljóti að vera til bóta að draga úr reykingum. Grana o.fl. sem skrifuðu grein í Circulation 2014 (sjá tilvísun neðst i pistlinum) halda því hins vegar fram að það þýði ekkert að minnka reykingar, þeim verði að hætta algerlega. Rökin eru þau að hætta á lungnakrabba og fleiri tegundum krabbameina ráðist af hve lengi hefur verið reykt og skipti engu máli hvort reykt sé lítið eða mikið þann tíma. (Ég ákvað umsvifalaust að hætta við að hætta nokkurn tíma að reykja þegar ég las þetta, það tekur því ekki úr þessu.)

 

Aðgengi að rafsígarettum og nikótíntönkum/geymum

Sem fram kom í síðast pistli flokkar Lyfjastofnun hérlendis nikótínvökva sem lyf og fylgir þar fordæmi Svía , Dana og Norðmanna, auk fleiri þjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í læknatímaritinu Lancet  var nokkur umræða í fyrra um hvernig skyldi flokka rafrettur og nikótínvökva og hafa eftirlit með þeim. Þar má t.d. lesa greinina Regulation of e-cigarettes: the users’ perspective eftir Ricardo Polosa og Pasquale Caponnetto, sem talsvert hafa tjáð sig um rafrettur. Í henni kemur fram að líklega félli nikótínvökvi ágætlega undir lög og reglugerðir í Evrópusambandsríkjum um fæðubótarefni en: „The rapidly expanding popularity of e-cigarettes is a threat to the interests of both the tobacco and pharmaceutical industry and to their associated stakeholders.” Ætli þetta sé ekki mergurinn málsins fremur en umhyggja fyrir heilsu gufara?

Evrópusambandið setti nýlega reglugerð  þar sem nikótínvökvi í rafrettur sem inniheldur 20 mg eða minna er flokkaður sem tóbaksvara, yfir 20 mg vökvi er flokkaður sem lyf (krækt er í fréttatilkynningu frá 24. febrúar 2014). Skoða má sérstakt áróðursplagg Evrópusambandins „til að slá á kjaftasögur” af þessu tilefni  (sem að mínu mati er ágætt dæmi um algert kjaftæði).

Evrópusambandið hefur sem sagt fellt sinn Salómónsdóm: Gefið tóbakströllinu helminginn af nikótínvökvagróða og lyfjaframleiðströllinu hinn helminginn. Auðvaldið ætti að vera hamingjusamt.

 

Delluverk dauðans

Sem betur fer hefur þessi ákvörðun Evrópusambandsins ekki orðið að veruleika ennþá. Hins vegar er innflutningur á nikótínvökvum núna gott dæmi um Catch-22 aðstæður því rétt í þessu fékk ég svar við fyrirspurn minni um hvort mætti flytja inn nikótínvökva til eigin nota  frá þjónustufulltrúa Tollstjóraembættisins:

„Nei það er ekki leyfilegt. Nikótín skilgreinist sem lyf og er því í höndum Lyfjastofnunar að veita leyfi fyrir slíku. Þar sem varan er markaðssett sem almenn vara fær hún ekki markaðsleyfi þar sem almennar vörur mega ekki innihalda lyf.“

Lyfjastofnun hér (og sums staðar annars staðar) skilgreinir nikótínvökva sem lyf. Ekkert apótek í þessum löndum selur nikótínvökva sem lyf því enginn hefur sótt um markaðsleyfi á því. Fullt af netverslunum selja nikótinvökva sem venjulega vöru en „almennar vörur mega ekki innihalda lyf“ og því er ekki hægt að vísa í reglugerðina um að sjúklingur geti flutt inn lyf til eigin nota. Ef þetta er ekki della dauðans þá veit ég ekki hvað!

 

Svo líklega sný ég mér aftur að keðjureykingum á Winston long úr því Lyfjastofnun er svo umhugað um heilsu mína og Tollurinn svona löghlýðinn.

 

En … ef einhver vill prófa þá lýk ég þessum pistli á krækjum í nokkrar vefsíður þar sem kaupa má rafsígarettur og nikótínvökva.

 

Íslenskar síður þar sem kaupa má rafrettur og íhluti:

Gaxa  (Ég hef ágæta reynslu af viðskiptum við þennan aðila en ég er svo sem óttalegur græningi í gufun.)

Rafreykur 

eLife

 

Evrópskar síður sem hafa verið vinsælar til að panta nikótínvökva:

The Pink Mule á Spáni

eShop á Írlandi

Digbys á Bretlandi

 

Aðalheimildir fyrir utan þær sem krækt er í úr texta:

Grana, R., Benowitz, N., & Glantz, S. A. (2014). E-Cigarettes A Scientific Review. Circulation, 129(19), 1972-1986.

Hajek, P., Etter, J. F., Benowitz, N., Eissenberg, T., & McRobbie, H. (2014). Electronic cigarettes: review of use, content, safety, effects on smokers and potential for harm and benefit. Addiction.

 

Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf

Gufarar

Gufarar

Rafsígarettur (e-cig) eru tæki sem framleiða gufu til að anda að sér og líkjast oftast sígarettum að lögun. Gufan myndast úr vökva og sé nikótín í vökvanum anda menn því að sér eins og í tóbaksreyk en einnig eru fáanlegir alls konar vökvar sem einungis innihalda bragðefni. Nikótíninnöndun er það eina sem er sameiginlegt rafsígarettum og venjulegum sígarettum og notendur þeirra kalla þetta ekki að reykja heldur að gufa.

Rafsígarettur komu fyrst á markað í Kína vorið 2004 og Kínverjar eru enn leiðandi í framleiðslu þeirra og íhluta í þær. (Þeim sem hafa ímugust á kínverskum vörum og efast um gæði þeirra er bent á að líklega eru tölvurnar þeirra og mörg raftæki á heimilinu full af íhlutum framleiddum í Kína 😉 ) Rafsígarettur eru af ýmsum toga en algengast er eitthvað sem lítur út á þessa leið:

rafsígaretta

Í tankinum (geyminum) sem skrúfaður er á rafhlöðuna er hitari. Úr honum liggja þræðir sem soga upp vökvann í tankinum, hita hann á örskotsstund svo hann verður að gufu sem notandi andar að sér. Notandi andar frá sér svo til hreinni gufu sem er ólíklegt að hafi áhrif á nærstadda og er nánast lyktarlaus. Á vef Gaxa, íslensks fyrirtækis sem selur rafsígarettur, má sjá myndir af þessum íhlutum í rafretturnar. Rafhlöðurnar má hlaða í tölvu eða í venjulegri innstungu.

Gaxa hefur hins vegar ekki leyfi til að selja vökva sem innihalda nikótín. Það er vegna ákvörðunar Lyfjastofnunar um að nikótínvökvi skuli teljast lyf. Sama gildir um aðrar íslenskar vefsíður sem selja rafrettur, s.s. RafreykeLIFE og e.t.v. fleiri.

 

Nikótínlyf og lyf til að hætta að reykja

Á íslenskum markaði eru fyrir nokkrar gerðir svokallaðra nikótínlyfja. Má nefna nikótíntyggjó, nikótínúða og nikótínsogtöflur. Þetta dót er einkum framleitt af tveimur lyfjarisum: Nicotinell er framleitt af Novartis, sem er meðal fimm söluhæstu lyfjafyrirtækja heims. Einkaleyfið á Nicorette á hins vegar GlaxoSmithKline, í Bandaríkjunum, og Johnson&Johnson í Evrópu (Nicorette berst til Íslands gegnum dótturfyrirtæki Johnson&Johnson, McNeil Denmark ApS). Bæði þessi fyrirtæki eru lyfjarisar sem hafa margoft verið lögsóttir fyrir ýmislegt svindl í markaðssetningu lyfja og svínarí í viðskiptaháttum. Ekkert af þessum nikótínlyfjum er ódýrt. En það er bullandi bissniss í að selja fólki þetta, t.d. er Nicorette “eitt stærsta lyfið á lausasölumarkaði hér á landi”, að sögn innflytjanda þess.

Ég þekki marga sem hafa hætt að reykja með hjálp svona nikótínlyfja. Hins vegar er stór hluti þeirra fólk sem hefur tuggið nikótíntyggjó árum saman og tyggur enn (getur ekki hætt), svo það er spurning um öskuna og eldinn, sé haft í huga hvaða aukaverkanir þessi lyf hafa.

Í leiðinni er rétt að geta eins lyfs sem ávísað hefur verið þeim sem vilja hætta að reykja. Það er ekki nikótínlyf heldur þunglyndislyf. Þegar lyfinu er ávísað til að hætta að reykja heitir það Zyban en þegar því er ávísað við þunglyndi heitir það Wellbutrin. Þetta er nákvæmlega sama lyfið og ráðlagir dagskammtar þeir sömu. Ég hef reynslu af þessu lyfi gefnu við þunglyndi árið 2009; Það virkaði ekkert gegn þunglyndi, ég fann ekki fyrir minnstu þörf á að draga úr reykingum en hins vegar varð að minnka lyfjaskammtinn niður í lágmark (150 mg) því aukaverkun af lyfinu var að skjálfa svo heiftarlega frá toppi til táar að ég gat hvorki drukkið úr glasi né bolla, einungis stútkönnu. Zyban/Wellbutrin er einmitt framleitt af GlaxoKlineSmith og má kannski í leiðinni geta þess að fyrirtækið reyndi að markaðssetja sama lyf einnig sem megrunarlyf og getuleysislyf en bandarískur alríkisdómstóll dæmdi fyrirtækið í þriggja milljarða sekt fyrir það tiltækið árið 2012.

Álit Lyfjastofnunar á nikótínvökva

Löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins er í sjálfsvald sett hvernig þau vilja flokka nikótínvökva í rafsígarettur. Lyfjastofnun sem virðist fara með alræðisvald hér á landi hefur ákveðið að flokka slíkan vökva sem lyf og ber fyrir sig 2. tölulið. 1. mgr. 5. gr. Lyfjalaga nr. 93/1994, sem er þýðing á skilgreiningunni á lyfi í lyfjalöggjöf Evrópu og afskaplega illskiljanleg:

2. [Lyf: Hvers konar efni eða efnasamsetningar sem sögð eru búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum eða hvers konar efni eða efnasamsetningar sem nota má fyrir menn eða dýr eða gefa þeim, annaðhvort í því skyni að endurheimta, lagfæra eða breyta lífeðlisfræðilegri starfsemi fyrir tilstilli líflyfjafræðilegrar eða ónæmisfræðilegrar verkunar eða verkunar á efnaskipti eða til þess að staðfesta sjúkdómsgreiningu.]

Það er ekki áhlaupsverk að túlka þessa lagagrein með háskólapróf í íslensku ein að vopni., hvað þá koma auga á hvernig hún getur rökstutt þá ákvörðun Lyfjastofnunar að telja nikótínvökva í rafsígarettutanka vera lyf. En það hefur Lyfjastofnun ítrekað 31. júlí 200920. nóvember 2009  og 3. janúar 2014 (og e.t.v. oftar).

Í þessum tilkynningum er hamrað á því að “innflutningur á rafsígarettum með nikótíni til endursölu er óheimill sé markaðsleyfi skv. lyfjalögum, nr. 93/1994, ekki fyrir hendi.” (tilv. í tilkynninguna frá 3. jan. í ár.) Markaðsleyfið fæst frá Lyfjastofnun.

Í símtali við fulltrúa Lyfjastofnunar í dag kom fram að markaðsleyfi lyfs sem bara er selt hér á landi, sem yrði túlkað sem frumlyf, kostar 4 milljónir. Taki mörg Evrópulönd sig saman og vinni umsókn um markaðsleyfi og íslenskur aðili gæti húkkað sig á það samstarf gæti markaðsleyfið kostað 300.000 kr.

Þetta markaðsleyfi er sem sagt ekki gefið. Og satt best að segja finnst mér ólíklegt að nokkur sæki um markaðsleyfi til að flytja inn lyfið “nikótínvökva til áfyllingar á tanka á rafsígarettur” nema alheimsframleiðslan komist í hendur lyfjarisa, t.d. sömu lyfjarisa og hafa orðið uppvísir að svindli, markaðsmisnotkun, fölsuðum rannsóknarniðurstöðum, leppuðum skrifum í læknatímaritum o.s.fr., þ.e. “Big Pharma” í öllu sínu veldi.

Ég fékk engin ótvíræð svör hjá Lyfjastofnun um hvers vegna það íslenska batterí hefði ákveðið að niktótínvökvi væri lyf nema gefið var í skyn að  jafnræðisreglu hefði verið beitt, þ.e.a.s. horft til nikótínlyfja sem fyrir eru á markaðnum. Sem eru framleidd af lyfjarisum.

Hvernig geta gufarar nálgast nikótínvökva í sínar rafrettur?

Eins og fyrr kom fram hafa íslenskt fyrirtæki selt rafrettur og íhluti í þær í nokkur ár. Á Netinu er síðan auðvelt að panta nikótínvökva og raunar algerlega löglegt fyrir einstaklinga sem ekki ætla að selja vökvann þann. Í gildi er nefnilega Reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, nr. 212 frá 1998.  Pöntun má fá í pósti frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er miðað við 100 dagskammta til eigin notkunar. Raunar segir í 2. gr. Reglugerðarinnar:

Einstaklingur skal geta framvísað vottorði læknis, lyfseðli eða annarri skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun, er færi fullnægjandi sönnur á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Nú reikna ég með að það væri auðsótt mál að skaffa vottorð, t.d. fyrir mig frá heimilislækni því ég get ekki notað tyggjó, líklega vegna skemmda í miðtaugakerfi af lyfðseðilsskyldum lyfjum sem Lyfjastofnun hefur leyft og mér hafa verið ávísuð árum saman í óhóflegu magni – og allir læknar vilja auðvitað venja sína sjúklinga af reykingum, svo bráðóhollar sem þær nú eru. En hvernig ætli búðirnir sem ég kaupi nikótínvökvann af taki íslenskri vottorðasendingu? Þetta eru nefnilega ekki apótek heldur venjulegar verslanir á Vefnum því það eru margar þjóðir í Evrópu, fyrir utan Ísland, sem telja nikótínvökva í rafrettur vera hvurja aðra vöru en ekki lyf. Á ég kannski að afhenda Tollstjóraembættinu lyfseðilinn, ef um er beðið? Eða Lyfjastofnun sjálfri?

Í framhaldsfærslu verður fjallað um hvort eða hvursu óholl gufun úr rafsígarettum er miðað við reykingar og bent á nokkra staði á Vefnum þar sem hægt er að kaupa græjur og nikótínvökva.

Hvert var mótífið/hvatinn?

Þessi færsla fjallar um lekamálið margumrædda.

Ég les mikið af allra handa morðbókmenntum, frá Íslendingasögum til nútímareyfara. Í Íslendingasögunum er yfirleitt klár ástæða þess að menn eru drepnir en morðsögur nútímans snúast um leitina að morðingjanum. Í þeim síðarnefndu er oft meginatriði í rannsókn og lausn málsins að komast að því hver var hvatinn að baki morðinu: Hver hagnaðist á að drepa viðkomandi?

Umfjöllun netmiðla og bloggara um lekamálið er sjálfsagt orðin álíka löng og Njála, væri hún prentuð út. En fáir hafa spurt þessara spurninga: „Af hverju var skjalinu lekið til fjölmiðla?“ og „Af hverju var skjalinu breytt áður en því var lekið til fjölmiðla?“.

Einhverjir hafa gert því skóna að fréttir fjölmiðla af þessari börnuðu samantekt úr Innanríkisráðuneytinu (sem óvart var lá á opnu drifi þar innanhúss – en samt var það kannski hinn dularfulli B sem lak henni) hafi átt að sverta mannorð Tonys Omos því samtökin No Borders hefðu ætlað að mótmæla brottvísun hans út landi sama dag og fréttirnar birtust. Finnst einhverjum í alvöru líklegt að Innanríkisráðuneytið hafi haft áhyggjur af einhverjum mótmælum, algeng sem þessi smá-mótmæli eru? Tony Omos var svo lítið peð í flóttamannafjöldanum sem vísað er úr landi að ekki einu sinni Eva Hauks vissi sérstök deili á honum daginn fyrir mótmælin og er hún þó mestur áhugamaður um flóttamenn á Íslandi.

Nei, skýringin á því af hverju skjalinu var lekið til fjölmiðla hlýtur að vera önnur. Í ljósi þess hvernig mál hafa æxlast síðan er ekki óvitlaust að láta sér detta í hug mótífið að koma höggi á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hamra svo járnið viðstöðulaust uns líkist engu öðru en ógeðslegu einelti. Viðbótarklausan, þessi sem bætt var við samantektina sem lögfræðingur Innanríkisráðuneytisins samdi, er einmitt vel til þess fallin til að skaffa óteljandi fyrirsagnir með stríðsletri í DV og miðlum af sama toga ásamt ómældri hneykslun hjarðarinnar sem getur bara lesið svoleiðis fyrirsagnir og tuttugu-orða-fréttir.

Síðan hafa netmiðlar og bloggarar gætt þess vandlega að málið leggist ekki í þagnargildi. Fundnir eru leka-sökudólgar en sumt dregið til baka þegar meintur sökudólgur hótar kæru; það er lagst yfir gamlan dægurlagatexta og hann túlkaður af slíkri dýpt að sjálf Julia Kristeva hefði ekki gert betur; þegar fólk neitar ekki fabúleringum slúðurmiðla jafngildir það játningu sektar (og skiptir engu þótt sama fólk geti ekki tjáð sig því málið er enn í rannsókn); ættir fólks sem mögulega gæti tengst þessu máli eru raktar lengst aftur við fólk sem mögulega gæti unnið að rannsókn þess (eða bara verið í sjálfstæðiflokknum) o.s.fr. Núna loksins eru einhverjir farnir að velta fyrir sér mótífinu/hvatanum og ævintýralegar samsæriskenningar líta dagsins ljós, hver annarri ótrúlegri; Hver hagnast á útreið Hönnu Birnu?

 

Tony Omos er öllum löngu gleymdur, hann er eins og hver annar snærisþjófur af Skaganum að því leytinu. Næsta skref hlýtur að vera að athuga hvort Hanna Birna flýtur á vatni eða hvort hún sekkur (til vara mætti vigta hana á vogarskál á móti önd). Ekkert annað en nornapróf getur úr þessu friðað þann almenning sem fylgist af áhuga, grimmd og gullfiskaminni með lekamálinu mikla.