Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur ákveðið að fella niður nokkra örstutta dagskrárliði á rásinni, þ.e. Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldins. “Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar …” segir í beinni tilvitnun í yfirlýsingu Þrastar í Morgunblaðinu í dag (s. 2) en ég finn yfirlýsinguna hvergi, ekki einu sinni á vef RÚV. Enn fremur segir í beinni tilvitnun í yfirlýsinguna: “Hlustun á þá [dagskrárliði sem falla burt] hefur verið afar lítil.”
Ég hafði ekki hugmynd um að Þröstur hefði látið mæla hlustun á þessa dagskrárliði og þætti gaman að sjá tölurnar sem hann styðst við. Í leiðinni væri ágætt að sjá mælingu á fleiru, t.d. hlustun á tæpra tveggja klukkustunda Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva (í síðustu viku slökkti ég einmitt á svoleiðis eftir að kynnir upplýsti að þarna væru spiluð hljómsveitarverk eftir Béla Bartók og Dmitri Schostakowitsch … en kannski falla þessi tvö tónskáld eins og flís við rass við breyttan lífsstíl þjóðarinnar og hún hlustar af áfergju?). Og hve margir hlusta á kvöldsöguna? Nú er verið að lesa Leigjandann, merkilega ádeilusögu, allegóríu fyrir bókmenntafræðinga o.s.fr. … en því miður hundleiðinlega og því miður er ádeilan dottin upp fyrir því herinn er löngu farinn og því miður finnst almenningi sennilega skemmtilegra að ráða krossgátur en túlka allegóríur. Hvar ætli maður geti séð áheyrendatölurnar yfir þá einstaka liði Rásar 1, sem Þröstur vísar í? Og aðra dagskráliði sömu rásar? Og hvernig var þetta mælt?
Ég veit ekki hvað þessi Morgunandagt er, hlusta ekki á Morgunbæn, sem skv. dagskránni í dag tók þrjár mínútur og var flutt fyrir klukkan 7 í morgun. En einstaka sinnum hlusta á ég Orð kvöldsins, fimm mínútna þátt. Það geri ég einkum í slæmum þunglyndisköstum og þykir þessi dagskrárliður hafa sefandi áhrif til bóta á þá hryllilegu líðan. Örlítil falleg tónlist og örlítið af fallegum orðum sem gefa von og veita huggun. Þess vegna á ég eftir að sakna Orðs kvöldsins. Einhvern veginn hafði líka læðst inn hjá mér sú hugmynd (væntanlega firra af því ég geng ekki í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar) að sumt gamalt fólk, sumt fólk sem ætti bágt og jafnvel sumt trúað fólk hlustaði á þennan dagskrárlið: Samanlagt er þetta sennilega dágóður fjöldi en kannski dagskrárstjóranum finnist óþarfi að telja það til þjóðarinnar?
Satt best að segja læðist að konu eins og mér að með því að skera niður þessa átta mínútna+ (veit ekki hvað Morgunandaktin er löng) dagskrárliði sé Þröstur Helgason að reyna að skora stig hjá einhverjum í þeim háværa en fámenna sí-nettengda hópi sem telur að allt efni þar sem guð ber á góma sé í rauninni verkfæri andskotans. Sjálfsagt tekst honum það átölulaust því hópurinn sem hlustar á þessa dagskrárliði er ekki líklegur til hafa sig í frammi.
P.S. Þessi færsla var jafnframt sú síðasta sem ég skrifaði á harpa.blogg.is því hér með er bloggið mitt flutt á slóðina harpahreins.com/blogg.