Það hefur verið áhugavert að fylgjast með yfirklóri ritstjóra og ábyrgðarmanns Læknablaðsins í dag, í tilefni þess að fréttamaður uppgötvaði að upplýsingar sem Læknablaðinu var gert að fjarlægja fyrir tveimur og hálfu ári lágu enn inn inni á vefþjóni blaðsins. Sagt var frá þessum skandal í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld.
Forsaga málsins er að Persónuvernd gerði Læknablaðinu að fjarlægja þennan hluta, þ.e. úrskurð siðanefndar Læknafélags Íslands þar sem persónugreinanlegar tilvitnanir í sjúkraskrá Páls Sverrissonar birtust athugasemdalaust, í janúar 2012. Það var gert en Páll var svo sem ekkert beðinn afsökunar á tiltækinu. (Úrskurðurinn í heild var fjarlægður í júlí 2012 enda siðanefnd þá búin að núlla út eigin úrskurð.) Páll höfðaði mál gegn Engilbert Sigurðssyni ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins og Læknafélagi Íslands (sem siðanefndin heyrir undir) og voru þessir aðilar dæmdir til að greiða honum 300.000 kr. í miskabætur skv. dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2013.
Í málsvörn sinni viðurkenndu hinir stefndu, Læknafélagið og Engilbert Sigurðsson, verknaðinn en reyndu að gera lítið úr honum með því t.d. að kalla athæfið „gáleysi“ eða „hin slysalegu atvik” og gerðu stefnanda, fórnarlambið, að nokkurs konar sökudólgi í málinu, því hefði hann ekki opinberlega fundið að birtingu úr sjúkraskrá sinni hefði enginn fattað um hvaða sjúkling væri rætt í þessu opinberlega (og ólöglega) birta broti úr sjúkraskrá. Ég veit ekki hvort þeir trúðu því í alvöru að þetta gerði verknaðinn, skýlaust brot á lögum um meðferð sjúkraskrárupplýsinga, eitthvað skárri en held að flest viti borið fólk sjái nú hve svona málflutningur er snautlegur.
Nú hefur komið á daginn að Læknablaðið lét duga að eyða úrskurði siðanefndar Læknafélags Íslands úr vefsíðuútgáfu blaðsins, þ.e.a.s. HTML-síðunni, og fékk því framgengt að Vefsafnið eyddi úrskurðinum úr sínu afriti. Vefsafnið virðist hafa staðið við sitt og eytt hvoru tveggja vefsíðu og pdf-skjali með úrskurðinum. En Læknablaðinu yfirsást upprunalega pdf-skjalið, þ.e. skjalið með persónugreinanlegu upplýsingunum úr sjúkraskrá sjúklings.
Allt frá árinu 2000 hafa úrskurðir siðanefndar Læknafélags Íslands birst í Læknablaðinu, í pappírsútgáfu, á vefsíðum og sem pdf-skjöl. Það er því afar merkilegt að sjá Engilbert Sigurðsson ritstjóra og ábyrgðarmann blaðsins frá 2010 (og sitjandi í ritstjórn blaðsins frá 2005) halda því fram að þetta hafi „bara [verið] greinilega mistök að við náðum ekki að koma tæknilega í veg fyrir að það væri hægt að gúgla sig inná það [skjalið]“ (RÚV 29.9. 2014, feitletrun mín).
Það er augljóslega ekki hægt að „gúgla sig inná“ nokkurt skjal nema það liggi á vefþjóni. Allar greinar sem birtust í Læknablaðinu í september 2011 lágu sem pdf-skjöl inni á skráasafninu /media/tolublod/1533/PDF/. Það að fatta ekki að eyða umræddum úrskurði siðanefndar með ólöglega birtum upplýsingum úr sjúkraskrá einstaklings úr þessu skráasafni lýsir annað hvort fullkomnum sauðshætti eða algerri vanþekkingu á hvernig Læknablaðið er uppsett á Netinu. Þetta hefur akkúrat ekkert með tækni að gera heldur heilbrigða skynsemi og lágmarksþekkingu á hvernig blað sem maður hefur ritstýrt og borið ábyrgð á í 4 ár er gefið út.
Hins vegar kann það að vera rétt hjá Engilbert að einhver hafi fundið skjalið gegnum Google. Leitarvél Læknablaðsins er nefnilega ónothæf, birtir iðulega 100 niðurstöður sama hvert leitarorðið er og er allur gangur á hvort niðurstöðurnar tengjast leitarorðinu eitthvað eða eru bara algerlega út í hött. Þess vegna nota sæmilega vanir internet-notendur miklu frekar site-leitarmöguleikann í Google til að leita í Læknablaðinu því það er eina leiðin til að finna upplýsingar hratt og vel flokkaðar.
Ég veit svo ekki hvort Engilbert Sigurðsson og aðrir sem starfa við þetta blað, Læknablaðið, hafa áttað sig á því að enn er til afrit af þessu pdf-skjali, sem þeim var gert að eyða úr í janúar 2012 og töldu sig hafa eytt með öllu í júlí 2012, í skyndiminni Google og frægu afritasafni á Vefnum. Það er ekkert mál fyrir þann sem veit hvað skjalið heitir (sem er ákaflega auðvelt að reikna út með því að skoða uppsetningu á pdf-skráasöfnum Læknablaðsins og auðkenningarnúmerakerfi skjala í þeim eða leita í öðrum leitarvélum en Google) að finna afritið. Kannski tekst þeim að gúggla upplýsingar um hvernig þeir geti fengið afritinu eytt … kannski ekki.
Formaður Læknafélags Íslands, Þorbjörn Jónsson, hefur nú birt opinberlega afsökunarbeiðni til Páls Sverrissonar, á vef Læknafélags Íslands. Afsökunarbeiðnin er sögð vera fyrir hönd Siðanefndar LÍ, Læknafélagsins og Læknablaðsins. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins, Engilbert Sigurðsson, hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að hafa samband við Pál Sverrisson og biðja hann afsökunar, þegar þetta er skrifað. Fyrirsögn fréttar RÚV, Læknablaðið biðst afsökunar er því enn sem komið er röng því Læknablaðið lét annan aðila biðjast afsökunar fyrir sig.
Ég held að það sé ekki gerlegt að eyða fullkomlega einhverju sem birst hefur í Læknablaðinu. Pappírsútgáfan verður ekki öll gerð upptæk, og jafnvel þótt það væri fræðilega hægt, er samt aldrei hægt að tryggja að ekkert eintak er í umferð. Einhverjir gætu t.d. átt .pdf í fórum sínum. Ég á í fórum mínum .pdf af fréttabréfi sem innihélt rangar upplýsingar og var látið hverfa af vefsíðu. Ég hafði af einhverri rælni skrifað þetta út sem .pdf á meðan það var ennþá á vefnum, og ég á það ennþá og mun geyma það eins og gull um alla framtíð.
Nei, það er náttúrlega ekki gerlegt að eyða pappírsútgáfunni (nema halda rækilega bókabrennu) en að hafa ekki fattað að gá í pdf-skráasafnið fyrir akkúrat þetta blað er ofar mínum skilningi! Fótspor á Vefnum er erfitt að afmá og eins og ég bendi á í færslunni liggur frammi afrit af þessu pdf-skjali.