Greiðslur til Gunnlaugs 2012

Kútter Sigurfari eftir Víctor Bautista

Hér verður gerð grein fyrir því fé, 2,2 milljónum, sem Gunnlaugi Haraldssyni tókst að fá greitt frá Akraneskaupstað árið 2012 og fyrir hvað hann fékk greitt en af þeim gögnum sem Akraneskaupstaður afhenti mér 1. des. 2014 að ráða virðist hann hafa uppskorið þessi laun fyrir skil á einu A-4 blaði. 1)

 Skipulagið 2012

Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi – sem undirritaður var 22. júní 2012 fylgir 12 blaðsíðna skjal eftir Gunnlaug Haraldsson. Skjalið er merkt Fylgiskjal 1 og titill þess er: Saga Akraness – III. bindi. Nítjánda öldin. Efnisyfirlit (drög). Skjalið hefst þannig (ath. að allt er það skáletrað):

Hér er gefið gróft efnisyfirlit yfir handrit III. bindis. Handritið er samtals 825 blaðsíður í A-4 broti. Það var skrifað á árunum 2000-2004 sem síðari hluti I. bindis (tímabilið 1801-1850) og fyrri hluti II. bindis (tímabilið 1851-1900) skv. þágildandi útgáfuplani. Við prentvinnslu á I. og II. bindi og breytta efnisskipan ritsins var ákveðið að steypa þessu efni saman í eina heild, svo að III. bindi spanni alla 19. öldina eða tímabilið 1801-1900.

Efni III. bindis er hér skipt í 20 meginkafla í stað 40 í fyrirliggjandi handriti. …

Þessir 20 meginkaflar eru svo taldir upp í skjalinu og undirkaflar þeirra rækilega tíundaðir. Á s. 9-12 eru taldar upp fyrirhugaðar rammagreinar og myndrit (töflur, gröf og skrár).

Hvar þetta 825 bls. handrit er niðurkomið hef ég ekki hugmynd um en eins og kom fram í síðustu færslu var aldrei farið yfir það til að taka út stöðu verksins, s.s. kveðið er á um í samningnum. Kannski veit enginn hvar það er.

Skipulagið 1997

Í fyrsta samningnum sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson og var undirritaður þann 22. apríl 1997, var kveðið á um að Gunnlaugur ritaði 3 bindi um sögu Akraness sem spönnuðu aldirnar 1700-2000. Fyrsta bindið átti að vera Byggðasaga 1700-1900 og skiptast í fimm meginkafla:

1. Staðhættir
2. Byggðaþróun og þorpsmyndun
3. Búskaparhættir og bjargræðisvegir fyrr á tíð (ca. 1700-1900)
4. Framfærslu-, skóla-, félags- og heilbrigðismál
5. Skipting Akraneshrepps 1885.

Skilgreindir undirkaflar eru frá tveimur upp í átta.

Þessu fyrsta bindi átti að skila „eigi síðar en 1. október 1999“ (3. gr. SAMNINGS UM RITUN SÖGU AKRANESS). Gunnlaugur stóð auðvitað ekki við samninginn en var samt á prýðilegum mánaðarlaunum við sagnaritunina frá 1. apríl 1997 til 1. sept. 2001, þ.e. þann tíma sem samningurinn gilti.

Á 42. fundi Ritnefndar um sögu Akraness, þann 15. október 2001, er bókað: „Gunnlaugur gerði grein fyrir stöðu mála. Efni vegna 19. aldar er nú um 5-600 síður, en vinna þarf það efni frekar og skipta því í tvö bindi og miða við 1850. Sá tími, sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina, er að líða og var m.a. rætt um ýmis-legt því tengt.“

Á næsta fundi, 43. fundi þann 19. nóvember 2001, er bókað (feitletrun er mín):

1. Gunnlaugur lagði fram efnisyfirlit að 1. bindi ásamt 598 síðum í handriti sem nær frá 1700 til 1850.

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið …

Ritnefndin staðfesti s.s. skil á á 1. bindinu skv. samningnum, byggðasögu frá 1700-1900, þótt því hefði alls ekki verið skilað heldur 598 síðum um þrjá fjórðu tímabilsins og efnisyfirliti.

Ég rek þessa sögu ekki lengra hér, hún er rakin í Sögu Sögu Akraness  enda er þetta aðeins upphafið að skollaleik Gunnlaugs og Ritnefndar um sögu Akraness, þ.e. Gunnlaugur endurraðaði efnisþáttum og tímaskiptingu trekk í trekk, sneri skipulaginu á haus, bætti inn æ smásmugulegri undirefnisflokkum og Ritnefndin beitti sér ávallt fyrir því að gerðir yrðu nýir og nýir viðbótarsamningar við hann svo hann fengi örugglega greitt þótt litlu sem engu væri skilað. (Sjá töflu yfir aðalatriði fundargerða, s.127-140 í Sögu Sögu Akraness). Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvar þetta 598 síðna handrit frá 2001 er niðurkomið. Kannski er það í sömu glatkistu og 825 blaðsíðna handritið sem nefnt var hér að ofan.

Snilldin að snúa til upphafsins

Víkur þá aftur að nýjasta samningnum frá 22. júní 2012,  Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi –.  Í Fylgiskjali 1 (Gunnlaugs) eru fyrstu meginkaflarnir (það er ástæðulaust að telja fleiri því flestum þeirra hefur ekki verið skilað):

I. Árferði og almennir hagir
II. Íbúa- og byggðaþróun
III. Jarðeignir og búnaðarþróun
IV. Útgerðarhættir á árabátaöld
V. Breskir togarar og tröllafiskur

Í Fylgiskjali 2 er kveðið á um verkáætlun þannig:

1. verkáfangi A, skilgreindur sem 10 vikna vinna, er undirbúningur og gagnaúrvinnsla 2012, þar undir taldar 3 vikur í endurröðun og uppstokkun efniskafla;
1. verkáfangi B, 9 vikna vinna, felst í endurskoðun og umritun I.-IV.kafla (meginkafla í Fylgiskjali 1)
2. verkáfangi, 19 vikna vinna, er endurskoðun og umritun á V.-XIII. köflum verksins;
3. verkáfangi, 28 vikna vinna, er endurskoðun á XIV.-XX. köflum verksins og frágangur.

Ég feitletra hér þá tvo verkáfanga sem Gunnlaugi hefur tekist að ljúka til þessa, a.m.k. hefur hann fengið greitt fyrir að ljúka þeim.

1. verkáfanga A átti að vinna í júní til september 2012. Fyrir hann átti Gunnlaugur að fá greiddar 2,2 milljónir, þ.e.a.s. hann fékk 880.000 kr. verktakagreiðslu á mánuði. Það eru afar góð laun fyrir mann með gráðu sem samsvarar íslenskri BA-gráðu í fornleifafræði.

Skv. ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 (væntanlega er þetta 84. fundur nefndarinnar) skilaði Gunnlaugur af sér 1. verkáfanga A um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og fékk greiddar sínar 2,2 milljónir það ár. En fyrir hvað fékk hann greitt?

Í óbirtri 83. fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness dags. 3. október 2012 er þess getið að Gunnlaugur hafi farið yfir verkáætlun III. bindis og skv. bókun hefur hann þá bætt einni viku við 1. verkáfanga A og dregið eina viku frá 3. verkáfanga á móti. Ekki er bókað að hann hafi skilað neinu nema afhendingarskrá yfir skjöl sem afhenda eigi Héraðsskjalasafni Akraness. Skv. samningnum 2012, gr. 3, átti hann að afhenda þessi skjöl fyrir 15. ágúst 2012 en formaður Ritnefndar um sögu Akraness afhenti þau safninu, alls 8 möppur, þann 24. október 2012.2)

Í einnar síðu fylgiskjali með næstu fundargerð (óbirtri og ótölusettri en væntanlega 84. fundur ritnefndarinnar), sem heitir Frágangur á prenthandriti II. bindis. Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, kemur fram sú breytta kaflaskipan og verkáætlun sem taldist 3 vikna vinna í 1. verkáfanga A. Hún felst í þessu:

  • Að vikufjölda er rutlað svolítið til, þ.e. 1. verkáfangi B er nú talinn 10 vikna vinna og í staðinn er 3. verkáfangi orðinn 27 vikna vinna;
  • Að tólf kaflar eru horfnir og má ætla að þeim hafi verið steypt saman við aðra, nema kafla XX en það kaflanúmer hefur einfaldlega verið fjarlægt þótt kaflaheitið (Rammagreinar) standi áfram.
  • Að nú er einungis einn meginkafli í 1. verkáfanga B og heitir hann Byggðaþróun og búnaðarhagir;
  • Að umritun II.- IV. kafla flyst í 2. verkáfanga (enda eru þeir ekki lengur sömu meginkaflar og í Fylgiskjali 1 með samningnum).

Engum sögum fer af endurvinnslu myndrita (3 vikna vinnu) og úrvinnslu frumheimilda sem safnað var frá 2005-2011 (4 vikna vinnu) sem voru hinir verkþættirnir í þessum 1. verkáfanga A. Ég vísa enn og aftur í staðfestingu formanns Ritnefndar um sögu Akraness, Jóns Gunnlaugssonar, í tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, um að allt starf nefndarinnar sé bókað í fundargerðum hennar. Það virðist því morgunljóst að engin gögn sem staðfesti þessa 7 vikna vinnu sagnaritarans hafi nokkru sinni verið lögð fram. Þriggja vikna vinnunni hefur hins vegar verið gerð skil á einu A-4 blaði og verður að teljast einkar hægt unnið að eyða þremur vikum í að upphugsa þá breyttu kaflaskipan og færslu um eina viku milli vinnuþátta.

Þrátt fyrir að hafa sett mig vel inn í fyrri brögð og glímur Gunnlaugs við stjórnsýslu Akraneskaupstaðar sem einatt hafa snúist um að fá greitt fyrir verk sem ekki er skilað verð ég að telja viðskiptin árið 2012 einstakt afrek, meira að segja miðað við hann. Mætti margur sagnaritarinn öfunda hann af velgreiddu einu A-4 blaði!

Endurskoðunin er og dæmigerð fyrir vinnubrögð Gunnlaugs gegnum tíðina:

Í SAMNINGI UM RITUN SÖGU AKRANESS, sem skrifað var undir 22. apríl 1997, var samið um að fyrsta bindið af þremur sem Gunnlaugur skyldi skrifa væri Byggðarsaga 1700-1900, sem skiptist í 5 meginkafla (sjá efst í þessari færslu) og átti ritun þess og myndaöflun að vera lokið eigi síðar en ágúst-september 1999. Síðan bólgnaði verkið út eftir því sem árin liðu, hluta þess taldist skilað árið 2001 en var þó eigi fullklárað og um það leyti sem Gunnlaugur gengur til samninga við Akraneskaupstað að tilstuðlan Árna Múla Jónassonar þáverandi bæjarstjóra vorið 2012 er Saga Akraness III (sem dekkar tímabilið 1801-1900) orðin að 40 meginkafla verki í 825 blaðsíðna handriti. Í Fylgiskjali 1 með samningnum sem var undirritaður 22. júní 2012 var meginköflum fækkað ofan í 20. Í endurskoðun þeirri sem taldist vinna við 1. verkáfanga A var meginköflum fækkað ofan í 8 meginkafla. Skiptingin í þá meginkafla færist nær  meginkaflaskiptingunni í samningnum 1997 og mætti  segja að nú væri verið að loka miklum skipulagshring. Fyrir þessa endurskipulagningu fékk Gunnlaugur 2,2 milljónir króna greiddar frá Akraneskaupstað.

 

Næst verður fjallað um greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar árið 2013

 


 

1) Óskað var eftir öllum gögnum sem tengdust samningnum við Gunnlaug Haraldsson og sagnaritun hans. Það tók Akraneskaupstað 7 vikur að afgreiða erindið svo ætla má að vandað hafi verið til verksins og engin frekari gögn liggi fyrir. Formaður Ritnefndar um sögu Akraness, Jón Gunnlaugsson, staðfesti í tölvupósti til mín þann 8. desember að allt starf ritnefndarinnar væri bókað í fundargerðum sömu nefndar og þær hef ég.

2) Þau 8 bréfabindi (möppur) úr fórum Gunnlaugs sem nú er að finna á Héraðsskjalasafni Akraneskaupstaðar innihalda ljósrit af obbanum af því sem hann telur upp sem óútgefnar heimildir í heimildaskrám við Sögu Akraness I og Sögu Akraness II, auk handrits Jóns Böðvarssonar að Akranesi II og ýmiss drasls úr eigu Gunnlaugs. Magnið er ekki í neinu samræmi við fyrri yfirlýsingar sagnaritarans, sem hefur orðið tíðrætt um sína miklu og ómetanlegu heimildasöfnun og skulu hér nefnd tvö dæmi:

Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða skjalleg gögn af öllum hugsanlegum toga sem einkum eru varðveitt í skjalasöfnum í Reykjavík og á Akranesi (t.d. gjörðabækur hreppstjóra, sveitarstjórnar, einstakra nefnda, félagasamtaka og fyrirtækja, sýslumanna og sýslunefnda, amtmanns, landshöfðingja og fleiri embætta stjórnsýslunnar, bréfabækur, bréfadagbækur, bréf og hverskyns gjörningar sömu aðila og einstaklinga, jarðaskjöl, dagbækur, örnefnalýsingar, o.s.fv., o.s.frv.). Í annan stað allt prentað og útgefið efni (bækur, skýrslur, dagblöð, tímarit o.s.frv.) þar sem Akraness er í einhverju getið, – og í þriðja lagi munnlegar heimildir og frásagnir núlifandi manna. Allar þær frumheimildir sem ég hef getað leitað uppi í skjalasöfnum, s.s. Þjóðskjalasafni, hef ég látið ljósrita til að vinna úr í starfstöð minni. Það heimildasafn telur nú um 100 bréfabindi eða tugþúsundir blaðsíðna og mun síðar varðveitast í Héraðsskjalasafni Akraness og verða aðgengilegur gagnabanki þeim sem síðar kynnu að vilja grúska í afmörkuðum viðfangsefnum.
(Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar. Skoðað 15. júní 2011. Af því að Akraneskaupstaður hefur sett upp nýja heimasíðu og láðst að hafa þá eldri aðgengilega er ekki lengur hægt að skoða þennan spjallþráð.)

[Um starfsstöð sagnaritarans í Gufunesi]: Auk fjölda fræðirita er þarna til dæmis hátt í 200 bréfabindi með ljósritum skjala sem tengjast sögu Akraness, um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum, og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.
(„Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14. Viðtalið tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður.)

Myndina af Kútter Sigurfara tók Víctor Bautista 12. júní 2010. Tengt er í myndina á Flickr.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation