Er sagnaritun Akraness loksins lokið?

Moonshine

Hér er fjallað veitingu fjár til sagnaritunar Akraneskaupstaðar árin 2013, 2014 og 2015, sem og rifjað upp hvað sagnaritunarævintýrið hefur kostað okkur bæjarbúa til þessa.

Árið 2013

Í Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi – (undirritaður 22. júní 2012) var gert ráð fyrir að Gunnlaugur fengi „[a]llt að kr. 4.200.000. – eða sem svarar 19 vikna verktakagreiðslu eftir verkframvindu á árinu 2013 …“ (3.tl. 5. gr.) og „[a]llt að kr. 6.320.000.- eða sem svarar 28 vikna verktakagreiðslu eftir verkframvindu á árinu 2014 …“ (4.tl. 5 gr.). Settur var sá fyrirvari að fjárveiting fengist í fjárhagsáætlunum 2013 og 2014.

Í Sundurliðun ársreikninga Akraneskaupstaðar 2013 (lið 41. Söguritun, s. 65) kemur fram að fjárhagsáætlun fyrir þetta ár gerði ráð fyrir tæpum 4 milljónum í greiðslur til sagnaritara en hins vegar voru honum einungis greiddar tæpar 2 milljónir þetta árið. Sú greiðsla var fyrir vinnu sem átti að ljúka ári áður. Gunnlaugi auðnaðist ekki að koma í verk neinu af því sem hann átti að vinna árið 2013.

Árið 2014

Í Fjárhagsáætlun 2014-2017 [Akraneskaupstaðar] var gert ráð fyrir að spandera rétt rúmum 3 milljónum í lið 41 Söguritun árið 2014 (s. 61). Þar af var gert ráð fyrir að ritnefndarlaun yrðu 408.000 kr. og að„[a]ðkeypt önnur vinna“ kostaði 2.179.000 kr. Líklega hefur þessi aðkeypta önnur vinna verið vinna sagnaritarans.

Þrátt fyrir að þáverandi bæjarstjórn, sem í sátu löngum dyggir stuðningsmenn sagnaritarans, hafi gert ráð fyrir að greiða sínum manni kom ekki til þess því hann skilaði engu og ritnefndin hélt engan fund. Því spöruðust þessar rúmu 3 milljónir í sagnaritun algerlega sjálfkrafa.

Árið 2015

Þann 30. september 2014 sendi bæjarstjóri Akraness, Regína Ásvaldsdóttir, Gunnlaugi Haraldssyni bréf þar sem hún tilkynnti að bæjaryfirvöld teldu ekki mögulegt að leggja fé til sagnaritunar árið 2015 og óskaði eftir viðræðum við Gunnlaug um framhald málsins „miðað við stöðu verkefnisins nú“.

Sú nýja bæjarstjórn sem tók við völdum sl. vor hefur og ekki skipað í hina fimm manna Ritnefnd um Sögu Akraness.

Samantekt

Gunnlaugi Haraldssyni voru greiddar samtals 4.133.276 kr. árin 2012 og 2013 fyrir að endurskipuleggja handrit sitt um nítjándu öld í sögu Akraness í enn eitt sinnið og fyrir að skila inn fyrsta meginkafla af þeim átta sem endurskiplagið gerði ráð fyrir. Í síðustu færslu benti ég á að vinnubrögð við skrifin virðast óásættanleg.

Ritnefndin hafði 147.467 kr. upp úr krafsinu fyrir þessi tvö ár en hún hélt alls 3 fundi á þessum árum. Fundargerðir 83. og 84. fundar hafa aldrei verið birtar, sú 82. er sýnileg á vef Akraneskaupstaðar .

Mér telst svo til að kostnaður Akraneskaupstaðar af sagnaritun frá upphafi, 1987, uppreiknaður m.v. samræmda vísitölu neysluverðs (skv. vef Hagstofu) í desember 2014 úr samantektum kaupstaðarins frá apríl 2011 og desember 2014, sé a.m.k. 134.379.331 kr. Raunar hefur bærinn pungað út gott betur en þessum rúmu 134 milljónum því í þeim gögnum sem ég hef er kostnaður vegna Ritnefndar um sögu Akraness ekki talinn fyrr en frá árinu 2001. Og vitaskuld er lögfræðikostnaður sem fyrrv. bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, stofnaði til vegna fyrirhugaðs meiðyrðamáls gegn bókagagnrýnanda ekki talinn hér eða annað tilfallandi smotterí.

Beinar greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar, frá 1997-2013, eru, uppreiknaðar á sama hátt a.m.k. 72.575.960 kr. Mögulega hefur hann borið meira úr býtum með framvísun reikninga sem eru bókaðir sem annar kostnaður í þeim gögnum sem ég hef.

Ég er sjálfsagt ekki ein Skagamanna um að vona að nú sé þessu sagnaritunarævintýri Akraneskaupstaðar, sem staðið hefur síðan 1987, lokið!

Fyrri hluti Sögu Sögu Akraness er rakinn í samnefndu pdf-skjali. Stefnt er að því að gefa út annað bindi af Sögu Sögu Akraness á sama formi fljótlega (þ.e. samanlímdar bloggfærslur sem rekja þessa sögu frá síðari hluta árs 2011).

Heimildir

Bréf Akraneskaupstaðar til Hjálmars Gunnlaugs Haraldssonar, dags. 30. sept. 2014, undirritað af Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, fengið frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014

Samningur um ritun Sögu Akraness – III. bindi – undirritaður 22. júní 2012, fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Skjalið Saga Akraness, samantekt 1987-2011, fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011

Skjalið Saga Akraness, samtantekt 2012 og 2013, fengið frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014

Fjárhagsáætlun 2014-2017, útg. Akraneskaupstaður, ópr. hefti aðgengilegt á Bókasafni Akraness

Sundurliðun ársreikninga Akraneskaupstaðar 2013, útg. Akraneskaupstaður, ópr. hefti aðgengilegt á Bókasafni Akraness.

 

Myndina af tunglsljósi yfir Presthúsavíkinni tók Atli Harðarson á Þorláksmessu 2007.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation