Svartagallið (melankólían) í mér bullar og sýður meðan ég dúlla mér hægt og rólega við að hætta á hverju lyfinu á fætur öðru. Eftir að ég sendi lækninum mínum lista yfir 17 geðlyf/ geðdeyfðarlyf/ sefandi lyf/ róandi lyf og svefnlyf – í rauninni hefðu þau átt að vera 18 því ég gleymdi einu – á listanum var semsagt lyfjasafn síðasta áratugs en borið saman við veikindi, innlagnir, raflost o.fl. síðustu fimm ára (sem ég sendi líka í lista) virtust því meiri lækningar hafa því verri árangur. Mér er það fullljóst að þetta eru gasalega vönduð læknisráð, könnuð í tví- og þríblindum rannsóknum út og suður … svo líklega er ástæðan sú að ég er öfugsnúin í geðveikinni og lyfjaleiknum eins og í öðru.
Ég var helvíti reið í dag og í gær. Sjálf hafði ég sett upp plan til að hætta á einu lyfi í einu, hægt, svo ég yrði sem minnst veik af hættingunni. Þ.á.m. er Seroquel, hvar ég byrjaði í 300 mg og var komin úr 100 ofan í 50 mg þegar læknirinn minn breytti þessu í 25 mg. Nú getur vel verið að ég sé óvenju næm fyrir lyfjum eða ógeðslegum aukaverkunum og fráhvarfseinkennum almennt: Ég umhverfðist við lækkunina 100 mg niður í 25 mg og hef nánast haldið fjölskyldunni í gíslingu vegna geðvonsku þar til ég ákvað í gærkvöldi að ráða þessu sjálf. Sjálfræðið felst í 50 mg í viku og svo reynum við 25 mg. Sjálfræðinu fylgir geðstillandi lyf eftir þörfum, að mínu mati, en ekki neinum helvítis dóseringum annarra.
Til þess að æsa mig nú ekki yfir of mörgu í einu einblíni ég á Seroquel í bili. Um lyfið segir, á Lyfjuvefnum: “Seroquel inniheldur virka efnið quetíapín. Lyfið er sefandi og er notað til að meðhöndla geðklofa og meðal til alvarlegar geðhæðarlotur. Það hefur áhrif á mörg boðefni í heila eins og serótónín og dópamín. Quetíapín er óvenjulegt sefandi lyf og notkun þess fylgja vægar hreyfitruflanir sem líkjast einkennum parkinsonsveiki og ósjálfráðra hreyfinga. Álitið er að með sefandi lyfjum, sem aðeins vægar hreyfitruflanir fylgja, sé síður hætta á að síðkomnar hreyfitruflanir láti kræla á sér ”
Það er nefnilega það! Ég hef auðvitað aldrei greinst með geðklofa (runan af greiningum mismunandi lækna gegnum árin hafa sleppt úr þessu og einnig margföldum persónuleika, guðisélof!). Ég hef aldrei greinst með geðhæðarlotur. (Aftur á móti var ég stundum ansi dugleg og rösk áður en ég veiktist.) Núverandi læknir hefur haldið því fram í nokkur ár að ég væri með geðhvarfasýki II (geðhvarfasýki án maníu) og þess vegna látið mig taka þetta lyf. (Að mig minnir – það er náttúrlega hægt að segja geðsjúklingi sem missir nokkur ár úr minni alls konar tröllasögur!) Ég hef nú loksins náð þeirri heilsu að bera mína eigin skoðun á borð sem er að þetta kjaftæði með geðhvarfasýki II gæti ekki staðist og ég og læknirinn orðið sammála um ég uppfylli ekki skilyrði til þess.
Svoleiðis að af hverju var ég látin taka þetta Seroquel ógeð árum saman? Lyfið er svo sefandi að maður druslast um hálfdrukknaður í hálfu kafi. Það er t.d. ofboðslega erfitt að labba upp stiga. (Ég er búin að pæla í því í nokkur ár hvaða lyf ylli þessum stigavandræðum, sem og dettingum í stiga – og víðar – nú er ég búin að finna það!) Ég myndi fagna upplýsingum um tvíblinda rannsókn á fullfrísku fólki og áhrifum þess að taka 300 mg Seroquel í svona tvo ár. Átti fólkið erfiðara með stiga? Var það túlkað sem lyfleysuáhrif?
Ég vona svo að helvítis kippirnir, svipað og manni sé gefinn selbiti, gangi til baka fljótlega.
Ég er líka að trappa niður Litíum, sem ég tek af álíka obskúrri skýringu og Seróquelið. Hef engar áhyggjur því um leið og skammturinn var minnkaður niður fyrir læknandi þéttni í blóði hvarf mér handskjálfti og lífið varð um stund merkilega normal. Að hætta á restinni verður ábyggilega ekkert mál. Wellbútrín / Zyban hraðtrappaði ég og hendi síðan út í hafsauga enda varð ég fárveik af því ógeði – og dauðvorkenni reykingamönnum sem ætla að brúka þetta lyf til að hætta!)
Það er slatti af lyfjum í krúsinni enn … svo ég lét þetta heita Svartagallsraus I hluta, gefandi þar með séns á II og III hluta. Mætti einnig ræða orðanotkun og orðskilning á spítölum, s.s. hverjum skilningi sjúklingar og læknar skilja algeng og sjaldgæf orð yfir líðan.
Nú ætla ég að leggja mig aftur í r-rúsi fram að kvöldmat og halda svo áfram að taka einn klukkutíma í einu í Seroquel-tröppu dagsins.
Áhugavert! Gangi þér sem allra best með þetta 🙂
langar til að deila minni reynslu af Seroquel en þegar ég tók það í fyrsta skipti átti ég að taka 50 mg (til allra lukku var helgi). Ég komst eiginlega ekki á fætur næsta dag því ég varð svona ofsalega þreytt af því. Núna tek ég 25 mg á kvöldin og þá næ ég betri svefni. En ég greindist með gerðhvarfasýki II (væga segja læknar fyrir 8 árum) og hef því verið að prófa hin ýmsu lyf, man ekki nöfnin á öllum vegna raflost o fl.
Gangi þér vel.
Kv. Elva
Takk fyrir hlýjar óskir. Og takk fyrir að deila þinni sögu, Elva.
Ég hugsa að geðhvarfasýki II hafi einfaldlega verið tískugreining fyrir nokkrum árum, rétt eins og dyslexía er mjög í tísku meðal nemenda og hjá þeim sem hantera nemendur. Vonandi kemst eitthvað skárra í tísku fljótlega.