er allt fínt að frétta af mér. Reyndar svo fínt að ég hef verið að dúlla við ýmislegt sem ég hafði enga orku til áður og þ.a.l. lendir bloggið dálítið aftarlega á merinni í dugnaðinum. Maðurinn veltir mér upp úr því að ég sé í rauninni núll og nix eftir að hafa gengið af Feisbúkk og skellt eftir mér dyrunum. Ég læt hann hins vegar vinna fyrir mig ýmis skítverk á feisbúkk, s.s. persónunjósnir ef á þarf að halda en losna við tímaeyðsluna í Feisbúkkar-ekki-neitt. (Sem minnir mig á, Einar: Hvenær í sumar er þetta ættarmót sem er auglýst inni á Feisbúkk? Er það ekki örugglega í júní?)
Eftir síðustu hremmingar var ég séð og tók helgina í hoppið 50 mg niður í 25 mg af “jafnvægisstillandi lyfinu”. Enn fremur tróð ég í mig róandi, svo ég gengi ekki frá familíunni, og reyndi að sofa sem mest, sem er ekki auðvelt í þessu lyfjahoppi. Þetta gekk upp og nú er bara eitt hopp eftir, sennilega um næstu helgi.
Þarf varla að taka fram að mér líður miklu betur – ekki að ég sé ólatari en áður en ég er þó a.m.k. í tengslum við umheiminn og nógu vel að mér í umhverfinu til að vera ekki alltaf að detta (í bókstaflegri merkingu). Hugsandi um erfiðu skammtatröppurnar niður og svo til þess að ég tók 300 mg af þessu lyfi á sólarhring segir mér að ég hafi verið engu betur sett þá en uppvakningur.
Næsta “jafnvægisstillandi” lyf bíður handan við hornið … Með þessu áframhaldi get ég farið að spila á píanó aftur!
Nú er það alls ekki svo að ég stefni á að verða lyfjalaus. Ég hef sáralítið átt við aðalþunglyndislyfið (gamalt og lummó) en vil náttúrlega komast að því hve mikið ég get minnkað töku þess og notið samt lækningamáttarins. Stefnan er hins vegar ekki að hætta á því. Mér dettur ekki í hug að ég sé skyndilega hætt að vera þunglynd og kvíðin og geti bara dansað um og droppað blómadropum og lifað hamingjusömu lífi forever and ever. Á einhverjum tímapunkti getur vel verið að ég hafi þurft á öllum þessum lyfjum að halda en hvorki mér né mínum góða lækni orðið ljóst hvenær sá tími var liðinn og kominn tími til að bakka út úr pilluhrúgunni. Einhvern tíma seinna gæti ég þurft aftur á þeim að halda.
Ég þakka góðar óskir og ábendingar um Detox- meðferð en því miður hef ég enga trú á þeirri hreinsun. Svo myndi ég auðvitað miklu frekar taka Detox í Hvalfirðinum en Póllandi, bara svona af ættjarðar- og nærsveitunga- stuðningi!
—
Aðrar fréttir eru fáar, sem betur fer því unglingurinn er á Akureyri; leigði pláss í sumarbústað með vinum sínum sjö. (Ekki myndi ég vilja þrífa þann bústað á eftir!) Það er náttúrlega gleðilegt að Kristín Þóra, okkars keppandi, vann keppnina en vonandi hafa Skagamennirnir ekki haldið alltof mikið upp á það. Ég tékka reglulega á vindhraða á Holtavörðuheiði og undir Hafnarfjalli um þessar mundir …
Amman var að spyrja af hverju unglingurinn hafi verið í DV í síðustu viku. Okkur foreldrunum skilst að Vífill hafi sent inn fréttaskot um sig. Fréttaskotið var að hann vissi ekki símanúmerið hjá Obama. Þetta rataði á forsíðu! Svo var síða inni í blaðinu þar sem Vífill sagði af sér helstu fréttir, sem voru þær helstar að af honum væri ekkert að frétta. Síðan hafði hann hugsað sér að rukka DV um 5000 kr. því það er sem upphæðin sem menn fá fyrir fréttaskot. Á síðustu metrunum kikkaði einhver sómatilfinning inn og DV á ennþá fimmþúsundkallinn.
Góð færsla
Gleðilegt sumar og til hamingju með að vera byrjuð!
Sumar líka