Sjúkdómavæðing skólakerfisins

Undanfarið hefur grátkór þeirra sem finnst að skólar skuli einnig akta sem heilsuhæli orðið æ háværari. Og ég verð æ leiðari á þessu!  Vissulega eru einhverjir nemendur haldnir streitu, kvíða, prófkvíða, ofsakvíða, þunglyndi, depurð, kreppuáhyggjum, ofvirkni, athyglisbresti, lesblindu, skrifblindu og eru skilnaðarbörn, jafnvel margföld skilnaðarbörn og eiga alkóhólíska, atvinnulausa, geðsjúka eða einfaldlega leiðinlega foreldra. Eins og Kabúl-farar sögðu forðum: “Shit happens!”

Ég hef aftur á móti þá gamaldags skoðun að aðalhlutverk skóla sé að kenna nemendum, sumsé að þar fari fram nám en ekki þerapía. Auðvitað vil ég taka tillit til þeirra sem eiga við talsverð vandamál að stríða en það sér hver maður (a.m.k. framhaldsskólakennari) að þegar meir en helmingur nemenda í venjulegum nýnemaáfanga kemur með þau skilaboð úr grunnskóla að hann sé smáður og hrjáður þá er eitthvað einhvers staðar ekki í lagi.

Mér finnst það stórkostleg móðgun við þá sem eiga við vandamál að stríða að aðrir geti hampað smávandræðum eins og hverjum öðrum límmiða sem eigi að gefa þeim eitthvert meint forskot í einkunnagjöf kennara! Ég sat yfir rúmlega 50 manns í dag, í prófi. Þar sá ég greinilega nemanda með raunverulegan prófkvíða, sem væntanlega er að skila úrlausn talsvert fyrir neðan getu.  Án þess að hafa tekið saman tölur þá hugsa ég að meir en 25 þessara nemenda hafi einhverja kvíða eða lesblindugreiningu. Meirihlutinn af þessu er bara blöff! Ef nemandi getur hraðlesið blaðsíðu og svarað lesskilningsspurningum á nó tæm af því það má fara þegar verkefninu er lokið þá er meinta lesblindan hans orðin dulítið vafasöm. Ef nemandi rúllar upp prófi á engri stund, af því má fara þegar úrlausn er skilað, er afar hæpið að veita sama nemanda lengri próftíma í lokaprófi af því hann sé svo hroðalega prófkvíðinn.

Skilaboð að utan, eins og frá Menntavísindasviði HÍ (fyrrum Kennó), að aðalatriði í framhaldsskólakennslu sé umhyggja (!!!) gera auðvitað sitt til að sjúkdómsvæða skólakerfið. Óljósari skilaboð, gjarna fregnuð úr slúðurhópum foreldra, um að kennari sé fyrirmynd nemenda allan sólarhringinn og starfið samsvari þannig munklífi miðalda virka á sama hátt því það sem foreldrar hafa einkum yfir að kvarta er að kennari krakkans sé ekki nógu umburðarlyndur, tillitssamur eða einfaldlega á sama væluskjóðulevel og hálft þjóðfélagið virðist stefna á.

Ef helmingur kennara við FVA fengi uppáskrifað hjá ráðgjafa úti í bæ að hann væri svo kvíðinn og þunglyndur að hann gæti ekki sinnt fullu starfi yrði ég mjög reið og sár. Ég er nefnilega einmitt í alvörunni með þessa sjúkdóma.  Og ég vildi fegin geta unnið meira því mér finnst starfið mitt skemmtilegt og veit að ég sinni því vel. Það að vera ekki upp á sitt besta einhvern mánudaginn eða vera nett kvíðinn og skjálfhentur af timburmönnum eftir helgina er ekki sjúkdómur. Aftur á móti má auðveldlega telja sér trú um að svo sé og telja sér í leiðinni trú um að sama gildi um nemendur … og á endanum verðum við öll aumingjar og sitjum og grenjum í kór!

Er það þannig sem framhaldsskólakennarar vilja enda? Ég mæli með því að þeir fari að hugsa sig aðeins um! Og að ekki verði hvaða postulum sem er hleypt inn í skólana til að æfa kennara í grátkór og að blað KÍ, Skólavarðan, breytist í eitthvað annað en umfjöllun um leikskóla og muldur grenjuskjóða um blessuð börnin á þessum síðustu og verstu tímum. (Tek fram að þetta böggar mig ekki mikið – ég fletti Skólavörðunni í gegn og skutla henni beint í endurnýtanlega blaðakassann … það er samt helvíti skítt  að stéttarfélagsgjaldið mitt skuli ekki bara fara í fúavörn heldur einnig í þessa pappírsvitleysu!)

Dyggir lesendur mínir sjá hvað ég er forskrúfuð og þversum á því að ég er sjálfsagt eini bloggari landsins sem ekki nennir að blogga um Davíð …

6 Thoughts on “Sjúkdómavæðing skólakerfisins

  1. Sko, ef röskunin er sjálfbær, er þetta þá ekki allt í lagi?

  2. Ef einhverjum ráðgjafanum eða bubbunni tekst að finna upp sjálfbæra lesblindu mun ég að sjálfsögðu fagna með fleirum!

  3. oh, bögg, ég féll og bloggaði um Davíð í gær eða fyrradag!

    Mikið til í þessu hjá þér.

  4. Ég blogga aldrei um Doddson.

  5. freyja systir on September 26, 2009 at 12:22 said:

    Ég er soldið sammála þér Harpa varðandi væluskjóðuröskunina.

  6. Kiddi Finni on September 26, 2009 at 15:36 said:

    Sæl Harpa, ég er mjög sammála þér. Þó að sumir eiga bágt í alvöru getur það ekki þýdd að verður að gara hlutina léttari fyrir þá. Annars lendum við öll í veffangið onytingar.com . Hef líka kennt bæði á Íslandi og í Finnlandi, fann bloggið þitt gegnum visbendingu hjá vinkonu minni Vilborgu Daviðs.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation