Það er auðvitað afskaplega gott að komast heim í frí; hér á heimilinu umgangast mínir karlmenn mig eins og ég sé prinsessan á bauninni! (Tek fram að þeir umgangast mig svo sem engin ósköp, allir hafa hér nóg að gera hver við sitt – en þessi litlu samskipti eru mjög meðvirk og mér að skapi. Sjálf er ég að reyna að venja mig af krónísku samviskubiti um að ég sé að bregðast sem móðir, eiginkona, kennari … jú neim itt!) Mér finnst best að allir eru eitthvað heimavið um þessa helgi, bæði stjörnulögfræðingurinn tilvonandi og yngri afkomandinn.
Nývöknuð er ég ég. Þá finn ég enn betur til þess hve ég hef ofreynt mig í gær. Sat við tölvuna mestallan daginn og þurfti heilmikið að hugsa og formúlera. Í gærkvöldi var ég eins og undin tuska og fór að sofa kl. 9, vaknaði svo við vekjaraklukku núna kl. 9, svo pilluátið yrði áfram rétt stillt. Ég má helst ekki leggja mig á daginn svo í gær fór ég í ljós og labbaði svo heim (soldill spotti) og settist svo aftur við tölvuna. Ég er hryllilega þreytt þótt ég sé nývöknuð.
Það undarlega er að ég rúllaði upp Sunnudagskrossgátunni í gærkvöldi, á engri stund, en er hins vegar jafn ólæs og fyrr. Var að velta fyrir mér að lesa bókina hans Bjarna mágs, sem liggur í eldhúsinu, og veit að hver síða verður glæný fyrir mér og sennilega jafn glæný á morgun. Ég get sem sagt tengt en ekki munað. Venjulega hafa þessir hæfileikar farið saman hjá mér.
Ég er ekki búin að leggja niður fyrir mér daginn en það verða engin stórvirki unnin í dag; halda sér á floti með hausinn upp úr er aðalmarkmiðið.
Snemma kvölds fer ég aftur á 32 A og finnst gott að hugsa til þess að komast í það einfalda umhverfi. Það er ekki harðákveðið hvenær ég útskrifast, e.t.v. í næstu viku, en ég hef eiginlega ákveðið að hafa ekki mikla skoðun á því sjálf og leyfa öðrum að ráða.
Sæl Harpa. Ég hugsa til þín. Vona þau finni eitthvað út úr þessu þarna upp á Lansa!!
Við erum búin að uppgötva enn einn EKKI-möguleikann. Held að sá sem prófanir hefjast á í kvöld sé annað hvort síðasti lyfjaséns eða næstsíðasti. Mér líður ömurlega ömurlega og lífið snýst um að taka 20 mínútur í einu. Gæti gubbað yfir prjónum og prjónaskap en það er því miður það eina sem ég get gert (og þó … sá núna áðan að ég verð að rekja upp svona 5 – 6 cm).