Sumar bloggynjur

hefðu farið á fund í morgun og jafnvel hlaupið upp fjall eftir fundinn … a.m.k. farið með sínum ektamaka í labbitúr út á Elínarhöfða eða setið veltilhafðar við hannyrðir á þessum Drottinsdegi.

Sú sem þetta bloggar hefur hins vegar hangið í bælinu um helgina, tókst að ljúka morgunsturtu núna rétt fyrir kvöldmat og prjónar hafa legið óbættir hjá garði (ef hægt er að taka svoleiðis til orða um prjóna). Mér er einnig óþægilega ljóst að það þyrfti að þvo gluggana og örugglega að setja í vél.

Hið eina sem færist plúsmegin er að mér tókst að opna kassann utan af fína nano-spilaranum (sem er afrek fyrir mig því barnalæsingar standa mér mjög fyrir þrifum og almennt er ég ekki góð í að opna hluti) – logga mig inn á rétta síðu og setja upp forrit á tölvu og spilara svo hann sé brúklegur. Í leiðinni lærði ég að taka vídjó með honum og á nú 15 sekúndna myndband af mínum manni hlustandi á gríska tónlist í sinni tölvu.

Nanó-inn saug upp alla tónlist af tölvunni minni og ég sá að einhver músík tilheyrandi unglingum heimilisins þá og nú hefur verið þarna, a.m.k. sé ég ekki aðra skýringu á því að á mínum litla nanó-spilara eru albúm með Metallicu, Guns and Roses og öðrum hryllingi af sama toga. Ég er ekki búin að læra að stroka út af spilaranu; það er næsta skref, ásamt því að finna útvarpsstöðvar (eða finna aðferðina til að setja inn útvarp).

Þeir sem gáfu mér spilarann af sínum höfðingsskap eru kannski óglaðir yfir notkunarleysi hans en fyrst var hann ekki til í landinu og svo fékk ég hann daginn áður en ég lagðist inn á geðdeild … svo hef ég ekki haft orku í að hugsa neitt flóknara en prjóna tvær saman eða slá upp á …

Skv. Sunnudagskrossgátunni er ég 3/5 geðfrísk en mér finnst sjálfri að það séu ýkjur og gruna sjálfa mig um að hafa svindlað á einhverjum orðum.

Unglingur heimilisins passar sig að segja við mig einu sinni á dag: “Hefðurðu nokkuð prófað að fara í góðan göngutúr?” til að ná mér aðeins upp úr doðanum (þessi setning virkar svipað og nett rafstuð á bloggynjuna).

Annað er ekki títt … nema ég lýsi ánægju yfir að fá börnin mín aftur, þ.e. nemendur; þetta er þannig fólk að það gerir mann soldið geðfrískan bara að sjá framan í það!

5 Thoughts on “Sumar bloggynjur

  1. freyja systir on November 18, 2009 at 10:18 said:

    Hvernig gengur svo núna þegar vikan er að hálfnast?

  2. Sko, ég rétt meikaði gærdaginn (ferð til borgar óttans – hrundi inn á heimilið málstola og stjörf) – dagurinn í dag var líka ansi heví! (Orðalagið á þessu kommenti er valið þannig að enginn haldi að hér sé meðlimur í SM að tjá sig 😉

    Blessuð börnin eru komin með prófskrekk og vilja nú allt í einu læra og læra … sem er auðvitað afar þreytandi og stressandi fyrir einn lítinn kennara. Til að það fattist ekki mætti ég í pilsi og á hælum í vinnuna í dag (var reyndar næstum búin að hálsbrjóta mig á bílastæðinu – akkurru er ekki ausið salti hér eins og ku tíðkast í þurrabúðinni handan Flóans?).

    Var sona hálfpartinn búin að lofa að taka þátt í prjónasammenkomst nemenda og kennara í kvöld en sé nú að ég er of geðveik fyrir slíkt og ætti bara að fara snemma að sofa.

  3. Máni Atlason on November 18, 2009 at 22:16 said:

    Væri ekki nær að þessi sami unglingur skottaðist sjálfur út í göngutúr?

  4. Vel mælt, Máni! En nú ber það til tíðinda að unglingsskottið hefur sett sér að mæta 6 x í viku í tækjasal og reyna að öðlast vöðva. Auk þess ekur það sjálfu sér í ljósatíma óhóflega oft og hefur væntanlega hugsað sér að öðlast tan allra tana.

    Annars hef ég labbað bæði í gær og fyrradag þannig að ég er þokkalega vel sett sem ábyrgur sjúklingur 😉

  5. Mikið skil ég þig varðandi þetta með helv. gönguferðirnar. Eins og maður prófi ekki allt!!! Og ætti ein fokking gönguferð að laga það sem maður berst við daginn út og inn. Þekki þetta!!!
    Og svo er ég t.d. með sóríasis. Þegar ég var sem verst þá fékk ég iðulega – en hefurðu ekkert prófað að fara í Bláa Lónið? Þá hefði ég getað ælt.

    En unglingar eru krútt – ég er með framhaldskólanema á 1. ári og annan í 9. bekk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation