Hugleiðing um áróður á geðdeild og eigin heilsu

Þegar tekin var af mér sjúklingaskýrsla inni á deild 32 A fyrir rúmum mánuði síðan gaf hjúkrunarfræðingurinn í skyn að ég væri Rivotril-fíkill. Blessunarlega var ég sjóuð í því kjaftæði síðan ég kynntist ógleymanlegum læknanema í sumar, sem greindi mig óséða gegnum símtal 😉 Sú á Lans sagðist hafa “lært það í skólanum” að Rivotril mætti einungis nota í 3 vikur samfleytt. (Ég veit að alls konar vitleysa er kennd í skólum; sjálf kenni ég t.d. stundum að jörðin sé flöt og regnboginn brú upp í Ásgarð og þrjár nornir skapi mönnum örlög … eða að allt muni deyja og fölna nema orðstírinn … og fleiri svona dilluverk sem ég reikna með að sr. Eðvarð væri ekki fullkomlega sammála.  Svo ég er ekkert að rengja það að í hjúkrunardeild HÍ eða HA sé kennt að ekki megi nota Rivotril nema í 3 vikur. Það þýðir hins vegar ekki að fólk eigi að gleypa allt hrátt sem því er sagt í skóla.)

Jæja, aftur að bloggynju í viðtali: Sem skjöld dró ég fram rúmlega 20 ára reynslu í ónefndum samtökum, stofnun fjögurra kvennadeilda og einnar í útlöndum, veru í FBA, fundahöld á meðferðarstofnun, þekkingu á WfS o.s.fr. og stakk loks upp á því að læknirinn minn fengi að stjórna lyfjagjöf áfram. Við þessu komu ekki andmæli.

Það var það langt síðan ég lá inni á geðdeild síðast (og reyndar allar minningar þaðan týndar og tröllum gefnar) að ég var gjörsamlega blönk fyrstu dagana fyrir því massíva sporatrúboði sem rekið er á deildinni. Engir CODA-bæklingar eða annað 12-spora-dót dúkkuðu upp á mínu náttborði en sama er ekki að segja af allra annarra sjúklinga náttborðum. Þeim var sumum bent ansi ítarlega á Lausnina einu!

Þetta meðvirknitrúboð er rekið í hvíslingum en aftur á móti tala sjúklingar á deildinni saman (fátt annað til fagnaðar þar inni) og auðvitað fattar kona smám saman hvernig í pottinn er búið; að því að mér sýndist er málið að koma sem flestum inn í meðvirkniprógramm sem ekki eru þegar í einhverju 12 sporakerfinu fyrir.

Má ætla að þetta geri fólki eins og mér lítið ógagn enda kann ég sennilega meira en staffið á 32 A um 12 spor og sögu slíkra kerfa … fyrir svo utan það að vera verseruð í gamla tylftarkerfinu og kunna skil á stóru hundraði … sem ég er samt ekki viss um að tengist amrískum pælingum nema óbeint.  Aftur á móti er þess að gæta að sjúklingar eru sjúklingar og liggja ekki inni á deild að gamni sínu. Þessi deild er geðdeild og má því ætla að fólk hafi ekki fullkomna dómgreind eða sé algerlega með fúlle femm þarna inni. Og það er svo einfalt og ódýrt að segja veikri manneskju það að til sé sérsniðin lausn fyrir einmitt hana sem er t.d. CODA! (Eða Al-anon. Eða FBA … eða …)

Meðan 25% íslenskra karlmanna fara í fíknimeðferð einhvern tíma á aldrinum 20 – 50 ára (tölur SÁÁ), konurnar sækja líka æ stífar í meðferð, þá þarf ekkert kraftaverk til að telja manneskju trú um að úr því einhver henni nákominn sé fyllibytta eða fíkill sé manneskjan geðveik af meðvirkni sem fljótt verði skrúbbuð af með talibanskri 12-spora-vinnu! Alkóhólismi er það algengur á Íslandi að það væri hrein hending ef enginn alki fyndist í nánasta umhverfi sjúklings á geðdeild. Það að reka stífan meðvirknisamtakaáróður inni á geðdeild er aftur á móti til skammar! Eða hverjum þætti eðlilegt að beina sjúklingum almennt í Hjálpræðisherinn (af því Frelsisherir eru styrkjandi og góð hópvinna) eða kirkjukóra (ég hef ástæðu til að ætla að kirkjukór sé góð samkunda og samvera og hverjum manni sálarbót), með sérstakri áherslu á Gospel og Fíladelfíu?

 Mér er slétt sama hvers lags heilbrigðistarfsmenn halda þessu að sjúklingunum (náði hvort sem er aldrei almennilega hírarkíikinu eða “rangen” þarna inni – er t.d. enn ekki ljóst hvort sjúklingarnir eða útlenda ræstingarkonan verma botnsætið) … ég gerði hins vegar það sem í mínu valdi stóð til að bera til baka afbakaða sporafræðslu sem sumir samsjúklingarnir hlutu.  Ef giska helftin af staffinu hefur unnið sporavinnuna sína og upptendrast gífurlega gæti það skýrt furðulegan áróður eða lífsreglur sem lagðar eru stöku  sjúklingum. En að reka áfram veikt fólk, sem ekki hefur stjórn á eigin lífi af því það er veikt á geði, inn í samtök sem stundum stjórnast aðallega af vitleysingum þeim sem mest hafa sig í frammi (CODA minnir t.d. talsvert á Krossinn, hefur mér skilist af máli þeirra sem stunda annan hvorn félagsskapinn) er ekki annað en dramb og hroki meðvirkni-talibana! Hugarafl og Geðvernd og hvað þetta nú heitir allt ættu kannski að fara opna aðeins augun fyrir heilaþvottinum allt í kring?

Svo mætti líka spyrja hvort ég eigi nokkurn tímann afturkvæmt á geðdeild sjálf, eftir þessa færslu … Ljósi punkturinn er að ég er þó ekki mjög meðvirk í augnablikinu 😉

Í dag varð mér ljóst að ég er fárveik. Ég ætti í rauninni að leggjast aftur inn á geðdeild en hef illa tök á slíku og verð, með stökustu varúð, að fúnkera í vinnu a.m.k. út næstu viku. Þótt ég sjái varla á þessari stundu hvernig ég eigi að fara að því.

Ég hef svo lélega dómgreind að mig brast vit til að greina milli þess sem ég get breytt og þess sem ég get ekki breytt. Svo í einhverju bríaríi, sem engan veginn hæfir svo skynsamri manneskju, fór ég að trappa niður Rivotril-ið. Það virtist ganga vel í fyrstu en í morgun vaknaði ég hríðskjálfandi klukkan 5.30 … fór á fætur mest til að geta etið morgunskammtinn af téðu Rivotrili og fór að hræra saman í próf. Allt gekk þetta þolanlega fram undir hádegi en þá hrundi ég hér inn um dyrnar heima og fór að hágrenja. Reyndi að leggja mig en leið bara verr … þangað til ég horfðist í augu við að ég væri mikið veik og ætti að vera í bælinu og gera sem minnst. Og tók Rivotril en má eiga það að ég kenni hjúkkunni á 32 A þó ekki um – það að ná úr mér samviskubitinu yfir þessu ræfils lyfi er mitt eigið mál og ábyrgð.

Í dag las ég slatta um DAM og árvekni / gjörhygli og sá að ég er alltof veik til að leggja í svoleiðis meðferð núna – hún hentar mér sjálfsagt álíka illa og CODA hentar mikið veiku fólki. Sumar rannsóknirnar sem ég las um voru líka ansi dúbíus, t.d. þegar hópurinn með reynslu af hugleiðslu er yfir fertugt að meðaltali en samanburðarhópurinn með enga reynslu er tæplega 19 ára að meðaltali. Þetta var samt ekki talið skekkja niðurstöður að ráði!?

Sumsé er ég nógu mikið lasin til að einbeita mér að því að passa upp á mig, ég er svo úrvinda eftir þessa 75% kennslu að dag hvern næ ég ekki að lesa neitt mér til skemmtunar, spila á píanóið, hlusta á tónlist, taka þátt í prjónakvöldi, hitta fólk o.s.fr.; Ég er útkeyrð! Nú er fiffið að vera góð við sig sjálfa, hrósa fyrir nokkra labbitúra sem ég hef faktískt innt af fótum undanfarið (og hríðversnað við), leyfa sér að reykja nokkrar sígarettur inni og láta ekki fara í taugarnar á sér að sjá fram á að æfa jólalögin á þorra.

Ég skilaði meira að segja Auði hálflesinni í gær af því ég var ekki nógu frísk til að lesa hana með sæmilegri athygli. Veit að þetta er skammarlegt athæfi en hugsa til þess að betra sé að lesa svo góða bók af athygli og alúð þegar sá tími kemur og er viss um að höfundurinn fer ekki að erfa þetta við mig 😉 Sömuleiðis þarf ég að lesa Svo skal dansa aftur því ég hef algerlega gleymt henni …

  

3 Thoughts on “Hugleiðing um áróður á geðdeild og eigin heilsu

  1. Sæl Harpa

    Vildi bara óska þér vel í baráttunni, gott að þú hafir þó haft kraft í að berjast á móti þessum spora heilaþvotti. Maður þarf stundum að vera ótrulega frískur til að geta staðið í því að vera sjúklingur.

    Hef fylgst með blogginu og baráttu þinni undanfarið og oft hugsað til þín. Þekki það af eigin reynslu hversu erfið og löng svona barátta getur verið.

    Bestu batakveðjur,

  2. Gurrí on November 20, 2009 at 20:34 said:

    Þú ert alveg frábær, fárveik en lætur sporaheilaþvottinn samt ekki ná þér!
    Sporadólgarnir eru fastir í því að engum nema þeim batni og ekkert annað en spor henti fólki. Líst mjög illa á að þessu talibanastöffi sé haldið að sjúklingum á deildinni.

    Gangi þér allt í haginn!

  3. Sæl!

    Þetta minnir mig á þegar sonur minn var í 3-4 mán á Hlaðgerðarkoti, en hafði samt heilsu til að bölsótast yfir heilaþvættinum þar og harðneitaði að láta frelsast 🙂

    Þá var ég viss um að hann ætti sér batavon.

    Og góðan bata

    kv gua

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation