Fokið í flest skjól

(metaphorically speaking) – en mér hefur ekki tekist að klæða mig í dagföt, fara út í 50 m í burtu búðina, prjóna skammlaust (villurnar eru orðnar svo margar að ég mun halda því fram að þetta sé svokallað “anarkískt munstur”!) o.s.fr. Maðurinn fór í búðina og í hraðbanka fyrir mig en lá við að bankinn æti kortið enda PIN-númerið, sem ég skrifaði á miða fyrir hann, algerlega úr lausu lofti gripið! Mér tókst að hafa upp á rétta númerinu og það er ekki einu sinni líkt því sem ég lét manninn fá!

Nú er ég næstum alveg hætt að skæla undir sæng, sem þýðir að mér elnar sóttin. Á endanum verð ég eins og trédrumbur, tilfinningalega séð. Samt líður manni einmitt eins og holum trédrumbi, sem er verra en massívum drumbi! Heilastarfsemi minnkar með hverjum deginum (sem er bagalegt þegar prjónað er eftir uppskrift) og mér tekst æ sjaldnar að ljúka heilli setningu (en heimilisfólkið er orðið lagið við að giska á hvað ég er að reyna að segja).

Sem sagt: Mér líður djöfullega og vona að leið niður á botn verði fljótlega náð. Þetta má ekki versna mikið úr þessu.

Í nótt hrökk ég upp kl. 2.30 og gat ekki sofnað aftur. Fór á fætur, spjallaði við afar hamingjusama Jósefínu, hitti óvænt unglinginn þegar hann skilaði sér heim af næturrölti og náði svo að sofa milli kl. 6 og 8.  Einnig hef ég náð svona sirka klukkutíma svefni í dag en eytt þrisvar sinnum lengri tíma undir sæng því mér var orðið um megn að feisa eigin líðan.

Engar töfralausnir eru til – ég er búin að prófa flest sem býðst og það virkar þvi miður ekki á mig. Eina færa leiðin er að sætta sig við að vera tímabundið fatlaður aumingi sem ekkert getur. Ef menn geta ekki sætt sig við það þá er bara ein leið úr vandanum og það er leið sem ég vil ekki og mun ekki fara. Alger uppgjöf fyrir sjúkdómnum er best! Að berjast gegn honum gerir hvort sem er ekkert gagn og getur gert ógagn.

Mér datt annars í hug í dag þegar ég las póst um að veikum starfsmanni hefði verið færð blóm og annar veikur starfsmaður hefði verið heimsóttur (báðir á spítala) að enginn á vegum starfsmannafélagsins hefur nokkru sinni heimsótt mig, í mínum spítalavistum, hvað þá fært mér blóm. (Aftur á móti fékk ég einu sinni risablómvönd frá norskum samstarfsaðilum mínum, sent gegnum Interflora …) Ég velti því fyrir mér hvort innst inni skipti máli hvaða sjúkdóm maður ber. Er hugsanlegt að hinir meðvituðu og upplýstu samstarfsmenn mínir séu kannski fordómafullir inn við beinið og ytra upplýsta byrðið einungis til skrauts? Telst geðdeild ekki spítaladeild? Telst þunglyndi ekki jafnhatta krabbameini? (Án reynslu þá mundi ég á dögum sem þessum frekar þiggja krabbameinið, takk!) Er ég kannski sjálf paranojuð?  Er útskúfunin vegna þess að ég er með “óeðlilegan sjúkdóm”, sem í augum annarra hefur sama status og holdsveiki eða sullaveiki höfðu hér áður fyrr? Ef elskulegir vinnufélagar mínir lesa þetta þá er ég ekki að falast eftir blómum hingað heim og er slétt sama um mismunandi vinnubrögð KOSS! Mér finnst þetta bara doldið skrítið, eftir svo margar spítalavistir.

Jákvæðar fréttir eru þær helstar að mjálm kattarins er að færast í eðlilegra horf og við vonum að breima-stuðið fari nú að renna af henni á næstu dögum! Maðurinn er upplýstari um þennan gang en ég, bæði ólst hann upp með köttum og einnig á hann Britney sem sína bestu vinkonu á Facebook.

2 Thoughts on “Fokið í flest skjól

  1. freyja systir on December 10, 2009 at 11:52 said:

    Úff, þetta hljómar hræðilega. Vona innilega að þetta lagist sem fyrst.

    Varðandi veikindi/blóm þá erum við flest soldið eins og asnar gagnvart veikindum yfirhöfuð. Skíthrædd við segja/gera einhverja vitleysu og það viljum við alls ekki þegar fólk á bágt. Þess vegna þegja sumir bara alveg. Kann að vera að fólk sé óöruggara gagnvart þunglyndi en öðru en það þarf ekki að þýða að fólk líti á það sem minna alvarlegan sjúkdóm. Kannski þvert á móti.

    Ég get sagt af fenginni reynslu að það er allra best að vera saumaður einhvers staðar á sýnilegum stað og vera með plástur. Þá fær maður virkilega mikla samúð og áhuga frá mjög mörgum. Hugsa að gifsi virki svipað. Samt vita allir að þetta er ekkert sérstaklega alvarlegt.

    batakveðjur

  2. Ég veit: Hljómar hræðilega – > er enn hræðilegra! Spurning hvort ég er betur sett hér heima eða inni á deild? Án Jósefínu yrði valið auðveldara.

    Margir af mínum vinnufélögum hafa ævinlega boðið mig velkomna til starfa eftir veikindi, skilað til mín kveðjum (mest gegnum Atla) og jafnvel klappað klaufalega á öxl. Allt slíkt yljar. En ég hef tekið eftir nokkrum sem taka á sig sveig til að þurfa ekki að mæta mér – ekki að mér sé sosum ekki sama um fáfræðslu viðkomandi – og opinbera veikindabatterí starfsmannafélagsins nær ekki til þunglyndis (sennilega ekki heldur til holdsveiki og sárasóttar).

    Þetta er sosum ekkert mál, mér datt þetta bara í þokufylltan huginn í gær þegar ég var að blogga. Mér er í alvöru alveg sama. Enda á maður ekki að líta á alla viðhlæjendur sem vini.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation