Í gær fór ég í hálftíma upp á Byggðasafn, á handverkssýningu. Það var mér nánast um megn en ég kláraði dæmið án þess að hrynja skjálfandi og grenjandi upp í rúm, eftir að hafa séð allt þetta fólk og alla þessa handavinnu. Ég hrundi bara upp í rúm og lá þar í 2 -3 tíma, skjálftalaus. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég fer út úr húsi síðan 3. desember.
Núna fór ég að hugsa um að ég þyrfti að panta lyf, fara út í bókabúð (50 m í burtu?) og lesa þar marga titla af barnabókum. Byrjaði að skjálfa um leið. Svo ég samdi við mig um að fara núna í sturtu og leggja mig lengi og skoða svo hvort ég treysti mér út í bókabúð. Kannski líka bókasafn (í sama húsi) að fá lánaðar fleiri myndabækur. (Undanfarinn mánuð hefur “lestur” minn einskorðast við ljósmyndabækur, einkum til að skoða fötin sem fólk klæddist í denn, og moggann, sem er einkaeign mannsins en hefur þann undraverða hæfileika (altso mogginn) að skolast samstundis úr heilabúinu aftur! Þarf líka að hringja eitt símtal … því er einnig frestað um sinn.
Ég vaknaði kl. 4, náði að sofna aftur til rúmlega 5 en fór þá á fætur. Samt fór ég að sofa með seinna fallinu í gærkvöldi, klukkan orðin meir en ellefu og ég algerlega örmagna. Ætli kona hverfi þá ekki til fyrri hátta, sem er að sofa frá níu til níu og leggja sig um miðjan daginn. Guði sé lof fyrir svefninn! Á hinn bóginn hlýtur að vera ömurlegt að búa með svona konu.
Enn eitt: Vilborg, ef þú lest þetta þá þakka ég kærlega fyrir kveðjuna sem þú sendir með þínum gamla frönskukennara! Vonandi gengur vel að halda sjó í bókaflóðinu og öllum upplestrunum.
Þér til huggunar get ég sagt þér að lesmál moggans hverfur úr hausnum á mér strax að loknum lestri þó að ég sé við þokkalega andlega heilsu. Ég skanna yfirleitt blaðið og gleymi strax öllu því sem þar stendur!