Ég fór áðan og hvessti mig við bókasafnsverði bæjarbókasafnsins. Hefði hvesst mig við yfirmann safnsins hefði hún verið við. Ástæðan er annars vegar geðvonska sem fylgir niðurtröppun þunglyndislyfja, hins vegar “algert rip-off” í verðlagningu ljósritunar á þessu safni.
Upphaf þessa máls er að mér datt í hug að ljósrita pínulítið af fræðum Prebens Meulengracht- Sørensen, sem ég hafði í láni en var ljóst að ég yrði persona non grata meðal samnemenda minna ef ég lúrði á fræðunum vikum saman. Oft er ég líka það tímabundin á Þjóðarbókhlöðu á föstudögum að mér þótti einmitt gráupplagt að ljósrita bara í heimabæ.
(Þótt það komi málinu ekkert við þykir mínum manni eftirnafn þessa fræðimanns svo flott að hann vill heita kisu litlu eftir honum: Jósefína Dietrich Meulengracht! Með sérstakri áherslu á gracht … hef manninn grunaðan um að honum þætti flott að kalla kattarkvikindið inn háum rómi með fullu nafni … En þetta er útúrdúr og eins og allir vita er þriðja nafn kattar leyndó sem einungis kötturinn sjálfur veit!)
Sumsé tölti ég yfir á nýja bókasafnið, sem er æðislega tómlegt og einkennist af hroðalega ljótu gólfefni (svörtu steinateppi) og hurð sem auðveldlega gæti hitt mann beint í andlitið ef maður er óvanur. Spurði þar hvort ekki væri hægt að kaupa ljósritunarkort og ljósrita. Nei, ekki er hægt að kaupa kort og blaðið í ljósritun kostar 35 krónur! Ég varð náttúrlega paff, hafandi keypt kort á því stóra almenningssafni Þjóðarbókhlöðu: 100 blaða kort fyrir 1200 kr. Bókavörður sem var þarna upplýsti mig um að pappír væri svo dýr. Ég hætti við að ljósrita en gat ekki stillt mig um að kíkja í Eymundsson við hlið bókasafnsins og sá að þar kostar venjulegur ljósritunarpappír í smásölu rétt tæpan þúsundkall, 500 blöðin.
Venti ég svo mínu kvæði í kross og fór á Bókasafn FVA, keypti 100 blaða kort fyrir þúsundkall og fyllti svo á það aftur fyrir 800 kr. (því kortið sjálft er 200 króna virði, enda miklu flottara en Þjóðarbókhlöðukortið). Ef maður kaupir ekki kort kostar ljósritun á blað 25 kr. á Bókasafni FVA (en augljóslega margborgar sig að kaupa kort þótt ég kunni ekki gjaldskrá færri blaða en 100). Ég get skipt við bókasafn FVA því ég er kennari við skólann (í veikindaleyfi). Almenningur getur náttúrlega ekki notfært sér þessi kostakjör.
Svoleiðis að blaðið á Bókasafni Akraness kostar ljósritað (við erum að tala um A-4 snepil, öðrum megin) 35 kr., sem er þrisvar sinnum hærra en á almenningsbókasafninu Þjóðarbókhlöðu og um fjórum sinnum hærra en á pínulitla Bókasafni FVA (lagt huggulegum linoelumdúki).
Mér væri sosum slétt sama þótt Bæjarbókasafnið okri í ljósritun ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þar á einmitt að ýta undir námsaðstöðu bæjarbúa. Kannski telja vísir menn að námsmenn ljósriti almennt ekki. Kannski heldur einhver að þeir skrifi niður textana … með fjaðurpenna?
Inn af bóksafninu er svonefndur Svövusalur en um hann segir á síðu safnsins:
” Svövusalur
Í námsverinu Svöfusalur er aðstaða til náms og lesturs, þegar salurinn er ekki í notkun vegna fjarkennslu eða funda.
Nemendur í háskólanámi geta fengið aðgangskort að salnum, til að nýta sér aðstöðuna, fyrir utan hefðbundinn afgreiðslutíma.
Yfir vetrartímann, frá 1. september til 31. maí. er vinnuaðstaðan opin frá kl. 8:00 til 17:45 alla virka daga.
Í júní, júlí og ágúst er aðstaðan opin á afgreiðslutíma safnsins.” (Sjá http://bokasafn.akranes.is, undir liðnum Þjónusta.)
Ég nenni ekki einu sinni að finna að því að umsjónarmenn vefjar bókasafnsins kunni ekki að fallbeygja Svövusal en bendi á að námsverið er einmitt opið á nokkurn veginn sama tíma og bókasafnið og má því ætla að bókasafnið eigi að nýtast námsmönnum. Þeir geta svo bara andskotast til að borga 35 kall fyrir ljósritað blað ef þeir þurfa ljósritun. (Í dag sagði annar bókavörður mér þau tíðindi að lítið væri beðið um ljósritun. Ég er ekki hissa á því.)
Í mínum góða Kardimommubæ er hugsað vel um fólk og þess þarfir … svo lengi sem við erum að tala um sprikl af ýmsu tagi. Nú nenni ég ekki að nefna einu sinni enn hve duglega er mulið undir léleg fótboltalið bæjarins en vísa í gott framtak míns rúmlega 6000 manna bæjarfélags sem er að leyfa fólki að djöflast í tækjasal og láta líða úr sér í sundlauginni fyrir tiltölulega hóflegt gjald. Ekki hvað síst er gjaldið hóflegt ef viðkomandi bæjarbúi er atvinnulaus, öryrki eða aldraður. Sjá http://akranes.is/Files/Skra_0039165.pdf
Sennilega hefur bæjarstjórninni, íþrótta og tómstundastjórnendum og formanni skólaskrifstofu ekki dottið í hug að sumir öryrkjar, atvinnulausir og aldraðir vilja heldur læra en synda 200 m á dag. (Svo ekki sé nú minnst á útlendinga, hvað þá “flóttakonurnar okkar”!) Og ef maður ætlar að læra þarf maður oft að ljósrita. Þetta veit ég af því ég hef verið ýmist kennari eða nemandi, jafnvel hvort tveggja í senn, mestalla ævina.
Það er auðvelt að segja sem svo að eftirspurnin eftir ljósritun á bæjarsafninu sé lítil og þess vegna sé í lagi að hafa ljósritun svona dýra. Ef miðinn í sund kostaði 1000 kall, kannski 750 fyrir öryrkja, atvinnulausa og aldraða, myndi aðsókn að lauginni líklega minnka mjög. Þá væri hægt að segja að allt í lagi væri að hafa sundmiða svo dýran því það færu hvort sem er svo fáir í sund. (Ég treysti mér þó ekki að fullyrða þessar staðhæfingar um sundið, hafandi haft andúð á sundi frá því ég var send 8 ára gömul á sundnámskeið að Laugum, S-Þing. Svo ekki sé minnst á kennsluæfingar stelpnanna í ÍKÍ síðar meir, hvar ég var æfinganemi, m.ö.o. fórnarlamb!)
Mér þætti ógurlega gaman ef einhver forsvarsmanna þessara menntunar- eða tómstundanefnda bæjarins myndi kommentera á þessa færslu, eða skýra málin. Svo ekki sé minnst á forstöðumann bókasafnsins. Annars er öllum sem hafa komist í gegnum svo langa færslu boðið að segja sitt álit 😉
Af því ég var einu sinni, fyrir langalöngu, formaður bókasafnsstjórnar þessa bóksafns og af því ég veit að pappír í ljósritunarvél er skítódýr (tónerinn aftur á móti dýr) og af því mér blöskraði verðlagningin og léleg þjónustan (maður má ekki ljósrita sjálfur heldur þarf að biðja bókavörð um að ljósrita fyrir sig – er ég sex ára?) þá skrifa ég þessa færslu. Enda er ég harðákveðin í að skrifa hvorki um handbolta né æsseif!
ég hafði mig í gegnum þetta og sá ímídíatlí lausn á málinu. Það er auðvitað voðalega gamaldags og 1900 eitthvað að vera að ljósrita. Bókasöfnin ættu að vera með skanna og kúnnar með USB lykil með sér. Svo getur fólk bara prentað út heima hjá sér eða lesið þetta á IPad-inum sínum. Þetta myndi kosta skít og kanel og færri tré færu til spillis. Það yrði líka minna drasl heima hjá fólki því pdf skrár taka mun minna pláss en útprentanir.
p.s. geta kennararnir ekki skannað inn fyrir ykkur og sett í Ugluna?
Sæl Harpa 🙂 Ég verð að segja að þetta er snilld hjá þér, það er ekki auðvelt að vera öryrki í dag og ef ég þarf að láta ljósrita þá er ég komin á hausinn 🙂 Það er reyndar bara 25 kr hér í eyjum en þetta safnast þegar saman kemur. Hef reyndar farið í bankann eða aðrar stofnanir til að fá þá til að ljósrita ef ég er bara með 1 eða 2 pappíra en ef að það eru fleiri er það hálf neiðarlegt. Ég vill bara þakka þér fyrir að benda fólki á þetta og vonandi var í lagi að ég las þetta 🙂
Kv Jenný
Freyja mín: Auðvitað skanna kennararnir haugana af efni handa okkur, inn á Uglu-kvikindið. Ég er bara svo 1900 eitthvað að mér finnst betra að lesa af blaði en skjá og prenta því haugana út. Svo er ég með öldungardeildarsyndróm vegna aldurs og finnst að ég þurfi að lesa allt ítarefnið líka. Það er ljósritunarpakkinn 😉
Jenný: Ég er ekki enn öryrki en sé ekki betur en allt stefni í það. Svo það er eins gott að byrja að rífast í tíma, stefni maður á að halda sér ofurlítið inni í venjulegu lífi þrátt fyrir veikindi eða örorku. Í mínu tilviki er lífstaugin þessi eini kúrs uppi í HÍ.
Annars fór ég á bókasafnið áðan og var ekkert látin gjalda bloggfærslunnar heldur fékk fína þjónustu (eins og yfirleitt alltaf). Í forbífarten var nefnt að kannski yrði þetta verð á ljósritun endurskoðað.