Við brugðum okkur til þurrabúðarinnar í gær, til að hitta frumburðinn og fara í bíó. (Ég er algerlega ósammála kvikmyndadómnum í blaði mannsins, um Loftkastalann sem hrundi, því mér þótti þetta fín mynd, enda búin að lesa bókina! Aftur á móti leist mér ekki meir en svo á auglýsinguna um væntanlega Shutter Island sem ég hef lesið tvisvar. A.m.k. er ljóst að maður þarf að mæta með eyrnatappa á þá mynd! Ætli stærsti hluti bíógesta í þurrabúðinni sé hálf heyrnalaus? Eða er bara skrúfað svona hátt upp í Laugarás-bíó, gefandi sér að þeir Hrafnistumenn séu fastagestir?)
Sumsé var myndin fín en ekki eins fínt, fyrir mig, að fá ofsakvíðaköst hvert á fætur öðru, sirka á skalanum 6, undir auglýsingum og upphafi myndarinnar. Á endanum fór ég út smástund. Enda hálfa pillan í vasanum hálftíma að virka. Það er nokkuð langt síðan ég hef fengið svona kast (þunglyndi setur lok yfir allt, líka ofsakvíða) en ég var rækilega minnt á hversu dj… vont þetta er! Óinnvígðir gætu gert sér í hugarlund nett hjartaáfall, með tilheyrandi verkjum og andnauð. Ofsakvíðakast er sennilega tiltölulega svipað. Ég notaði tækifærið til að rifja upp líkamleg ráð, s.s. að einbeita sér að öndun, halda fyrir eyrun og loka augunum og telja aftur og aftur rólega upp að tíu í huganum en þetta lagaði ástandið einungis mjög mjög tímabundið og svo hélt kastið áfram. Helv. fokking fokk! Ég hélt kannski að ég væri að mestu laus við þennan fjanda en hann lifir greinilega góðu lífi í boðefnabúskap heilans og getur stokkið fram hvenær sem er … Svona hefnist bloggynju fyrir að trappa niður öll lyf, kvíðalyf meðtalin.
Heimkomin beið okkar meget fortvivlet Jósefína, sem hafði verið lokuð inni fram á kvöld og unglingurinn gleymt að kveikja ljósin áður en hann fór að vinna og Fr. Dietrich er svo svakalega myrkfælin! Og mannelsk, þegar hún man eftir því.
—
Ég ætlaði aftur til þurrabúðar í dag, til að hlusta á uppáhalds skáldkonuna mína segja frá því hvernig hún skrifaði sína góðu bók um Fr. Auði, en þótt mig langi og þótt mér finnist ég alveg frísk núna hef ég ekki hugsað mér að skemmta skrattanum í bili og mun því taka lífinu rólega í dag. Hér á okkar góða Skipaskaga er 5 stiga frost en blankalogn (að venju) og því mætti e.t.v. drífa sig í labbitúr, þótt ekki væri nema til að ná úr sér harðsperrunum eftir ofsakvíðaköstin! Svo er spurning um prjónakvöld á kaffihúsinu í kvöld, ef ég næ að fitja upp möbíus II fyrir kvöldmat.
—
Kötturinn hangir nánast límdur við fótleggi heimilisfólks, staðráðinn í að láta sko ekki skilja sig aftur aleina eftir!
Sammála þér með að vera ósammála gagnrýni um Loftkastalann. Mér fannst hún flott og vel af sér vikið að gera svona doðrantamyndir. Leitt að gamli fjandinn kíkti við.
Já, gagnrýnandinn er eitthvað í slæmu stuði … hefur kannski ekki lesið firn af skandinavískum krimmum og horft á hverja þá tætlu sem gefst á þeim fögru tungum. Þegar Salander labbaði í fullum skrúða inn í þakskífugerðina, undir lokin, mynduð aftan frá, minnti hún mig óneitanlega á margnefnda Jósefínu þá hún gerir sig klára til að koma skikki á hverfið!
Ill meðferð á Jósefínu, ussuss!
Vonandi lætur svo kvíðafjandinn ekkert á sér kræla aftur.
Á bæði eftir að sjá sænsku myndina og lesa síðustu bókina, treini hana í Noregsferðina mína eftir 3 vikur 😀
Það væri náttúrlega æskilegra ef ég þjáðist af “That Ol’ Devil called Love” eins og Billie Holiday …
Jósefína er búin að breyta ljóðinu og syngur nú “Íslands Hrafnistumenn þoldu tímamót þrenn …”
P.S. Þriðju tímamótin voru þegar THX hljoðkerfið var sett í Laugarásbíó.