Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

Ég hvet þá sem skiluðu MA ritgerð til HÍ vorið 2007 að athuga hvort ritgerðin þeirra hefur skilað sér upp á Lbs. Háskólabókasafn og / eða hvort hún er skráð í Gegni! 

Vorönn 2007 notaði ég allar starfandi heilafrumur til að skrifa 15 eininga (30 ECTS) MA ritgerð. Ritgerðin var um ljóðabréf Bjarna Gissurarsonar og var skilað í apríl 2007, í tveimur bindum auk geisladisks með mynd af handritinu sem ég skrifaði upp úr. Sjá má bindi I og bindi II hér.Fyrir þessa ritgerð fékk ég 8,5 sem ég veit ekki hvort þykir hátt eða lágt gefið … gæti jafnvel verið algengasta einkunn fyrir MA ritgerð. Að eigin áliti er þetta kannski fullhá einkunn því grunnvinnan er mjög góð en skortir nokkuð á úrvinnslu enda var ég ekki í neinu standi til slíks og var í rauninni sama hvernig veröldin veltist eða fórst, á ritunartíma. Á dögunum uppgötvaði ég fyrir tilviljun að ritgerðin mín var ekki skráð í Gegni. (Ég var að fletta upp námsritgerðum og datt í hug að gá hvort eitthvert stafrænt efni væri tengt minni eigin ritgerð – en komst sem sagt að því að hún var ekki til! Ég kalla eintök sem læst eru inni á skrifstofu kennara eða eintak geymt í kassa á læstri Bókmenntafræðistofnun Hugvísindadeildar ekki vera sérlega mikið til í þeim heimi sem venjulegt fólk þekkir.)

Þann 22. febrúar sendi ég bréf um þetta til skrifstofu Hugvísindasviðs, deildarforseta Íslensku-og menningardeildar (sem var, að mig minnir, skorarformaður íslenskuskorar þegar ég skilaði ritgerðinni) og sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Þótt í svarbréfum vísi hver á annan og enginn axli ábyrgð (álíka og í sögunni, þið munið; Kötturinn sagði: Ekki ég. Hundurinn sagði: Ekki ég …o.s.fr.) mega menn eiga að þeir brugðust skjótt við. Annar leiðbeinandinn minn dreif í að grafa upp eintakið í kassanum á Bókmenntafræðistofnun – hans vegna vona ég að það hafi ekki verið margir kassar sem í þurfti að leita – og afhenti á skrifstofu Hugvísindadeildar með hraði. Hugvísindadeild sendi eintakið upp á Þjóðarbókhlöðu, einnig með hraði, og þar er verið að vinna í að skrá hana inn, eins og skjámyndin úr Gegni, sem ég tók núna áðan, ber með sér. Af því ég reikna ekki með brjálæðislegri eftirspurn eftir þessari ritgerð, sem auk þess hefur ekki exísterað í 3 ár nema í lokuðum fámennum kreðs, get ég svo sem við vel viðbrögðin unað og tel reyndar að tveggja daga afgreiðsla málsins, innan íslensku- og menningardeildar og skrifstofu Hugvísindasviðs, hljóti að vera hraðamet.

Aftur á móti veit ég ekki um hina, hversu happí þeir eru! Skv. upplýsingum í tölvupósti frá sviðsstjóra Þjónustusviðs Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns virðast, að athuguðu máli, MA ritgerðir þeirra sem útskrifuðust vorið 2007 almennt ekki hafa skilað sér til safnsins. ??? Var þetta að fattast núna? Hvar týndust þessar ritgerðir? Og hvað ætli þær séu margar?

Nú gæti ég auðvitað snúið upp á mig og sagt að mér sé sosum slétt sama hvort þessi ritgerð er skráð eða ekki skráð, aðgengileg sem námsritgerð eða ekki o.s.fr. En mér er reyndar alls ekki sama. Mér finnst það helv. hart að hafa eytt eins misseris fullri vinnu í pródúkt sem er svo bara glutrað niður, einhvers staðar á stuttri gönguleið úr 101 í 107. Mér líður eins og lýst er í þessu ljóði!

Ég veit að ýmis vandkvæði voru á að brúka póst úr HÍ vorið 2007 því þegar ég var orðin mjög langeyg eftir útskriftarskírteini hringdi ég á skrifstofu Nemendaskrár? Heimspekideildar? Og var tjáð að ekki væri hægt að senda slíkt í pósti heldur yrði ég að sækja það sjálf eða fá einhvern í Reykjavík til að sækja fyrir mig skírteinið (guði sé lof að ég bý ekki á Raufarhöfn!). Skýringin var að það væri svo dýrt fyrir HÍ að senda ábyrgðarpóst. Ég reikna því fastlega með að MA ritgerðir hafi verið sendar (eða ekki sendar?) upp á Þjóðarbókhlöðu með öðrum hætti en Íslandspósti. Sem móðir pizzasendils til nokkurra ára hef ég svo sem ekkert á móti því. En öfugt við oss pizzapantendur höfum við MA-ritgerðarhöfundar 2007 ekkert fylgst með pródúktinu enda gert ráð fyrir að slíkt væri í öruggum höndum annarra.

Sem betur fer tók ég aukaeintak til að senda þeirri manneskju sem mér þótti líklegast að myndi lesa þessa ritgerð, hefði a.m.k. mikinn áhuga á honum Bjarna blessuðum. Sú manneskja hefur ekki verið innan vébanda HÍ. Svoleiðis að skrifin í kapp við myrkrið, vorið 2007, voru ekki algerlega út í bláinn og marklaus. Ég gleðst núna yfir þessu. Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma. Þótt hver og ein sé a.m.k. eins misseris vinna.

Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar. Það hlýtur að stafa af því að hver og einn álítur sig einmitt ekki bera sök á þessari handvömm heldur einhvern annan. Væri áhugavert að sjá úttekt á sjálfsmatsskýrslum þessara þeirra aðila sem heyra undir HÍ … það hlýtur að vera gott að hafa svona yfirdrifið sjálfsöryggi, hvort sem um ræðir deild eða svið eða skrifstofu.

Ég ráðlegg eindregið þeim nemendum sem eru að skrifa MA ritgerðir við Hugvísindasvið að fylgjast með því hvort þær rata rétta leið og séu skráðar eða hvort þær lokist eingöngu inni á skrifstofum, jafnvel ofaní kassa!

13 Thoughts on “Hvers virði er nám? Um týndar meistararitgerðir

  1. Form. ICBS on March 2, 2010 at 20:28 said:

    í Fúsintesarþulu er sveinninn Meistarafugl nefndur. Hann hefur að vorri hyggju það embætti að sendast með meistaraprófsritgerðir og trúlegast er að hann hafi týnt þeim á leið sinni enda orðinn ansi gamall og lúinn.

  2. Harpa on March 2, 2010 at 20:35 said:

    Mér þykir líklegast að vösk heimilislæða í 107 hafi étið Meistarafugl snemma í maí 2007.

    Það er þá sennilega ekki heldur honum að kenna að Háskólakórinn týndist á útskrift HÍ um daginn …

  3. Form. ICBS on March 2, 2010 at 20:37 said:

    Nú axla ég mín gullin skinn.

  4. Eiríkur Rögnvaldsson on March 2, 2010 at 21:01 said:

    Sæl Harpa.
    Svo að öllu sé til skila haldið finnst mér rétt að það komi fram að ég sagði í tölvupósti til þín að mér þætti það leitt að ritgerðin hefði horfið. Ég baðst ekki beinlínis afsökunar á því enda get ég ekki beðist afsökunar á því sem ég tel mig ekki bera ábyrgð á – hvorki persónulega né fyrir hönd skorar/deildar. Ég hef yfirleitt ekki verið í neinum vandræðum með að biðjast afsökunar á því sem ég á sök á, sem er eitt og annað. Ég játa það fúslega að ég fletti ekki reglulega upp í Gegni til að athuga hvort allar ritgerðir hafi skilað sér þangað – hef satt að segja aldrei heyrt um áður að slíkt hafi gerst og hafði ekki hugkvæmst að þörf væri að fylgjast með því. Það má alveg leggja mér það til lasts, en mér finnst samt óþörf ályktun að það bendi til að deildinni/skorinni þyki almennt lítið til námsritgerða koma.
    Bestu kveðjur, Eiríkur

  5. Harpa on March 2, 2010 at 22:24 said:

    Ég gerði nú ekki, Eiríkur, ráð fyrir því að um væri að ræða einhvers konar “átómatíska sjálfsklúðrun” í þessu máli, ég tel hins vegar að einhver hafi klúðrað þeim. Hvergi, í færslunni, segi ég að þetta sé skorarformanni / deildarforseta að kenna, auk þess sem ég nafngreini ekki nokkurn mann eða vitna orðrétt í tölvupósta – vitna reyndar óbeint í tölvupóst frá sviðsstjóra þjónustusviðs Lbs.-Hsk.bókasafns en hjá því varð ekki komist til að sýna að málið varðar fleiri en mig. Ég tek einmitt fram að enginn axli ábyrgð á málinu og þess vegna biðjist enginn afsökunar. Ég skil ekki alveg hvernig þú getur lesið last í þinn garð úr þessari færslu og þykir leitt að þú skiljir hana þannig. Þú getur auðvitað ekki einn tekið ábyrgð á skor / deild – eru ekki deildarstjórnir eða ráð sem stýra slíkum?

    Ég reikna reyndar með að bæði þeim sem ég hef haft skriflegt og munnlegt samband við þyki þetta ritgerðarhvarf leitt. Annað væri nú eitthvað skrítið. Sennilega finnst fólki enn leiðinlegra að vita að ritgerðahvörfin eru mörg.

  6. Eiríkur Rögnvaldsson on March 2, 2010 at 23:03 said:

    Sæl aftur.
    Nei, þú nafngreinir mig ekki, en þú nefnir að þú hafir m.a. haft samband við deildarforseta sem áður var skorarformaður og það jafngildir nú eiginlega nafngreiningu. Það er alveg rétt að þú segir hvergi að þetta sé mér að kenna en þú segir hins vegar:
    “Loks vil ég geta þess að enginn þeirra aðila sem ég hef haft samband við út af Ritgerðarhvarfinu mikla hefur látið svo lítið að biðjast afsökunar.”
    Þetta er eðlilegt að skilja þannig að einhver þeirra sem þú telur upp – og deildarforseti er einn af þeim – ætti að biðjast afsökunar. Ég var bara að leggja áherslu á að það gæti ég ekki gert, þótt mér þætti þetta leitt. En með lastið – þú segir:
    “Af því enginn, þ.m.t. leiðbeinendur mínir, matsnefnd, íslenskuskor eða skráningaraðili námsritgerða, tók eftir því að MA ritgerðir vorið 2007 voru aldrei skráðar á Gegni og rötuðu aldrei í hillur Þjóðarbókhlöðu, má ætla að sömu aðilum þyki nú ekki sérlega mikið til slíkra ritgerða koma.”
    Þar sem ég var á þessum tíma í forsvari fyrir íslenskuskor, og nú fyrir Íslensku- og menningardeild, hlýt ég að taka það til mín þegar sú ályktun er dregin af ritgerðarhvarfinu, eða öllu heldur því að það upplýstist ekki strax, að íslenskuskor m.a. þyki ekki mikið til ritgerða stúdenta koma. Það finnst mér ósanngjörn ályktun.
    Bestu kveðjur, Eiríkur

  7. Harpa on March 3, 2010 at 07:37 said:

    Ég ítreka að ummæli mín beinast ekki persónulega gegn þér, Eiríkur. Það verður að hafa það ef þér finnst ég draga ósanngjarnar ályktanir í frásögn af atburðarás. Ég reikna með að meirihluti lesenda minna viti ekki hverjir gegna einstökum stöðum á Melasvæðinu eða hafi sérstakan áhuga á því.

  8. Einar litli bróðir H on March 3, 2010 at 09:34 said:

    Þó svo að þú nafngreinir mig ekki í þessari færslu þá get ég ekki annað en verið svolítið sár yfir því hvernig þú fjallar um póstnúmerin 107 og 101. Ný bý ég í öðru póstnúmerinu og vinn í hinu og mér finnst einhvern veginn að þú sért að tengja þessi tvö póstnúmer á neikvæðan máta við dularfulla ritgerðahvarfið.
    Er einhver möguleiki á því að hægt sé að láta BA-ritgerðir hverfa svona?

  9. Harpa on March 3, 2010 at 16:19 said:

    Ja, Einar, nú er ég of ómenntuð í akademískum fræðum til að vita hvort til hafi verið BAfugl og get því ekki svarað þessu með BA ritgerðirnar. (En hafi verið til BAfugl raðast hann auðvitað neðar í “rangen” en Meistarafugl og á ómerkilegra nätverk eins og þú hlýtur að skilja …)

    Ég veit að þetta með póstnúmerin er doldið viðkvæmt, ekki hvað síst í ljósi þess að Freyja hefur hreiðrað um sig í 101 (sem mér skilst á henni að sé miklu flottara en 107 – auk þess sem hennar gata heitir miklu flottara nafni en þín gata). Sjálf hef ég ekki verið höll undir póstnúmerasnobb eftir reynsluna af því að raða plöggum eftir póstnúmerum, þá ég vann á Hax í denn, sem var þó einfaldara en röðun þjóðskrárplagga eftir stafrófsröð. En mér þykir leitt að þú skulir vera soldið sár yfir tengingunni við dularfulla ritgerðahvarfið. Það eina sem ég get ráðlagt þér í þeim efnum er að flytja á Álftanes.

  10. Gísli frændi on March 3, 2010 at 23:05 said:

    Við sem búum í 101 erum orðin soltið viðkvæm vegna stöðugs skætings landsbyggðarmanna í okkar garð, með alls konar dylgjum um kaffihúsasetur og latte-drykkju. Þú verður því að fara varlega í allar alhæfingar um okkar góða póstnúmer.

  11. Harpa on March 4, 2010 at 09:27 said:

    Best að passa sig verulega vel í póstnúmeraumfjöllun framtíðarinnar! Í raunninni er þægilegra að búa í bæ sem skiptist til skamms tíma í Neðri- og Efri Skaga og nýrri hverfi varla nafngreind; Það fólk býr í Ekkertinu, hefur þó sama póstnúmer og við í menningunni. Kaffihúsið er náttúrlega á Neðri-Skaga, sem samsvarar 101, en ég bý tvímælalaust á Efri Skaga. Vinnustaðurinn er hinum megin við götuna svo ég lendi ekki í sömu tilvistarþröng og Einar litlibróðir.

    Tek fram að sem landsbyggðatútta er ég hallari undir Macchiato.

  12. freyja systir on March 5, 2010 at 01:30 said:

    101 og 107 eru mest sveitó póstnúmerin í höfuðborginni. Aðdráttarafl Melabúðarinnar felst m.a. í því að þær fæst allt mögulegt og maður hittir fullt af fólki sem maður þekkir í búðinni. Mjög svipað og kaupfélag.

    Harpa, ég held að á Menntavísindasviði (áður Kennó) sé allt svona mjög samviskusamlega skráð og hægt að fletta öllum verkefnum upp í Skemmunni.

  13. Harpa on March 5, 2010 at 08:37 said:

    Hm … svo þú heldur það? Sama hélt fólk ábyggilega um fyrrum heimspekideild (núverandi Hugvísindasvið) …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation