Þáskildagatíð

Tilefni færslunnar er feikigott viðtal við Erling Sigurðarson og Sigríði Stefánsdóttur í mogganum (mannsins) í dag (s. 14 – 17 í sunnudagskálfinum). Þar segir Sigríður: “Maður getur ekki lifað í þáskildagatíð; það þýðir ekki að hugsa um í hvaða sporum við værum ef þetta hefði ekki gerst.” Frasinn / spakmælið hringlaði í kúpunni og ég held ég hafi heyrt það áður. Þetta er afskaplega vel heppnaður frasi, sem ég er alveg sammála. Hvað þýðir að ergja sig yfir orðnum hlut eða sökkva sér í vangaveltur um hvernig lífið hefði getað orðið ef eitthvað hefði ekki orðið? Nei, þá er nú betra að halda sig í deginum í dag! Mér finnst ég hafa fengið nokkuð góða æfingu í þeirri lífspeki og mæli með henni. En ég þekki alveg fólk sem lifir í þáskildagatíð.

Stundum vilja þáskildagatíðarsinnar mjög beita sinni speki á aðra. Dugir hér að vísa til einkenna hemúla, skv. Muminpappans Bravader skrivna av Honom Själv þar sem segir:

“En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … “(Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)

Ég reikna með að flestir þekki einmitt hemúla sem vita óspart hvernig aðrir hefðu átt að haga sér. Svoleiðis skyldurækin þáskildagatíð er kannski enn verri lífspeki en sú sem sumir lifa sjálfir í … eða hvað? (Ég er ekki frá því stundum detti bloggynja sjálf í hemúlafarið.)

Af daufu bergmáli þáskildagatíðarfrasans kviknuðu minningar um aðra frasa, flesta ættaða úr AA eða meðvirknifræðum. Í viðtalinu sem ég nefndi í upphafi kemur einmitt fyrir uppáhaldsfrasi Al-anon nú um stundir, að ég held: “Eymd er valkostur”.  Ég hef reyndar ýmislegt við þennan að athuga en hugga mig við það að hann er sennilega ekki hugsaður út frá eigin þunglyndi. Skárri er þessi: Maður velur “að hanga í harminum”. Þennan má líka brúka á þunglyndi því hann gerir ráð fyrir að harmurinn sé kannski ekki óumflýjanlegur, hins vegar sé hægt að kjósa leið fram hjá honum eða a.m.k. að sleppa því að velta sér beinlínis upp úr honum.

Stundum hefur mér flogið í hug að meðvirknifrasar ýmsir séu dulinn mega-áhrifavaldur á íslenskt mál. Ef gengið er út frá tölulegum upplýsingum SÁÁ, þar sem beinlínis virðist mælast að 25% karlmanna í árgangi leiti í meðferð fyrir fimmtugt og ef gert er ráð fyrir að einhverjir aðstandendur hvers þeirra leiti sér aðstoðar – þá er ótrúlega stór hluti þjóðarinnar innanborðs í fíknar- eða meðvirknisamtökum. Svo ekki sé talað um alla þá allskonar meðvirkni sem rúmast innan CODA.  Vegna nafnleyndar fer þetta hins vegar ekki hátt. Mér vitanlega hefur enginn skoðað áhrif beinna þýðinga úr amrískum meðvirkni-bókum á málfar en ég held að þau gætu verið töluverð.

Má taka sem dæmi “Góðir hlutir gerast hægt”. Þessi frasi fór óendanlega í taugarnar á mér fyrir meir en áratug. En málvöndunarsinnar innan AA hafa lagt sig í líma við að brúka heldur “Með hægðinni hefst það” sem hugnast mér miklu betur. Væri spennandi að vita hvort fyrrnefndi frasinn höfði einkum til aðstandenda og hinn síðarnefndi til óvirkra alkóhólista … ég hef á tilfinningunni að svo sé en hef svo sem ekkert annað fyrir mér.

Áhrif páskaeggjamálshátta minnka ár frá ári!

P.S. Kann að gleðja einhverja dygga lesendur að bloggynja er í miklum heilastarfsemibata: Ég rúllaði upp sunnudagskrossgátunni á engri stund!

4 Thoughts on “Þáskildagatíð

  1. Gott að heyra með batann 🙂

  2. Lyftustjórinn on March 13, 2010 at 18:48 said:

    Svo má segja: Sígandi lukka er bezt!

  3. Harpa on March 13, 2010 at 22:51 said:

    Takk Gúa … og Lyftustjóri: Gaman að sjá að þú ert enn frískur í lestri og á lyklaborði! Ætti ég kannski að flagga “Sígandi lukka er bezzzzt” á fundi á morgun?

  4. Harpa on March 15, 2010 at 09:30 said:

    Karlremba sem ég er gleymdi ég að geta þess að konur fara líka í meðferð hjá SÁÁ …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation