Vinnufélagi minn spurði mig, áhyggjufullur á svip, hvort ég fyndi mér eitthvað til að gera hér heima. (Kannski er þetta oftúlkun á svip og orðum vinnufélagans … en ég skildi þetta svona.) Ég skil reyndar manna best að fólk telji vinnu æðsta og hafi áhyggjur af fólki sem ekki stundar slíka og eyðir í hana sinni mestu orku. Enda hefur stór hluti veikindaleyfis farið í að sætta sig við líf án þátttöku á vinnumarkaði (vonandi tímabundna fjarveru).
Málið er samt að mér leiðist alls ekki. Blessunarlega á ég mörg áhugamál og tekst ótrúlega vel að fylla dagana með iðkun þeirra … stundum duga dagarnir ekki í allt það sem mig langar að gera. Hér skal tekið fram að það er einungis rúmur mánuður liðinn frá því mig byrjaði beinlínis að langa eitthvað.
Á hverjum degi þarf ég helst að spila soldið á mitt pjanóforte; sauma í Scheving og hlusta á rás 1; hlusta á tónlist (er núna heit fyrir Vreeswijk-lögum, t.d. þessu); gramsa á Vefnum; lesa (er núna með Þegar kóngur kom í takinu og finnst hún meiriháttar frábær!); prjóna Möbíus (að endanlegri atrennu að herðaslái lokinni taka við tvær peysur sem á að klára) o.fl.. Auk þess þarf ég að fara út að labba einu sinni á dag og hitta eitthvert annað fólk en Atla og köttinn (álitamál hvort þau eru bæði fólk en bæði eru ákaflega skáldmælt).
Þetta vefst svo allt saman svoleiðis að ég hangi á Vefnum finnandi efni sem tengist hinu dótinu. Má nefna að ég fann Sonju-nótur í austurrískri fornbókaverslun og pantaði um helgina, ég datt svo í að skanna allt efnið í Sæmundi fróða Jóns Hjaltalín, til að gá hvort vitnað sé í kanadískan tannlækni um að fótaböð komi í veg fyrir tannpínu. Í Sæmundi fróða er áhugavert efni um Húsapótek og saga hörmunga í tíðarfari, sem ég á eftir að lesa en líst vel á. [Ég fékk svo líka nótur af Sonju sendar frá einum dyggum lesanda og þakka kærlega fyrir þær! Segið svo að borgi sig ekki að blogga! Nú vantar mig varíasjónir Merikantos um Mustalainen, þ.e. Til eru fræ …]
Áhugi á hjálækningum fyrri alda er mikill og má því til sönnunar sýna þetta brot þar sem útlistað er hvernig megi bæta minni. Veit ekki hvort ég prófa uppskriftina einhvern tíma. Líklega er betra að bera þetta undir sinn góða lækni fyrst …
Við minne, Tak salltpetur og mil vel, og meinga við vyn, og dreck þar af, það það mún gióra gott minne.
🙂
Gleymdi að taka fram að ég mun að sjálfsögðu mylja saltpéturinn út í vatn …
Vil minna á að Conelis hélt einhverja minnst eftirminnilegu tónleika sína í Norrænahúsinu, að Öckerö er í vestari skerjagarðinum við Gautaborg og að með vísan til hollráða hér að ofan að Cornelis söng þessa frábæru laglínu: “aldrig mer Antabus….”
Og hvað? Koma fótaböð í veg fyrir tannpínu?
Ég hef alltaf haldið að “Til eru fræ…”, þ.e.a.s. lagið, væri eftir Hauk Morthens (ég er viss um að ég hef heyrt það kynnt þannig í útvarpinu). Er það sem sagt bara vitleysa?
Og, Einar, ertu að tala um tónleikana sem Cornelis mætti ekki á vegna þess að hann lá “dauður” uppi á hótelherbergi?
Gísli: Já, fótaböð koma í veg fyrir tannpínu 😉 Í Þegar kóngur kom talar Jón Hjaltalín einmitt um hve Íslendingar séu duglegir að þvo sér um fætur og það skýri hve þjóðin hafi sterkar tennur … þá (1874). Skrítið að þetta skuli ekki virka jafn vel nú um stundir.
“Til eru fræ” er oft talin sígaunavísa. Ég hef einmitt nótur af laginu sem heitir þar “Zigeunerbarnet” og er sagt “Ungarsk Folkesang”, útsett af Emil Kauppi. Lagið er sennilega þekktast (utan Íslands) undir nafninu “Mustalainen” (finnskt) eða “Gypsy Rose”. Reyndar segir áreiðanlegur heimildamaður minn: “Lagið er ungverskt, eftir mann sem hét Elemer Zsintirmay”. Svoleiðis að það er eitthvað á reiki hversu þjóðlegt þjóðlag þetta er.
Hvað varðar Cornelis karlinn finnst mér við hæfi að hann hafi sungið (og stuðlað) “Aldrig mer Antabus”! Enda viss lífssýn og elja fólgin í því að drekka sig í hel, sérstaklega á tímum dóps og óverdósis. Ég er svo alþýðleg að finnast lögin hans skemmtilegri þegar einhver annar syngur þau 😉
Tek fram að maðurinn (minn) hefur nú flutt ræðu gegn saltpétri svo ég ræð mönnum frá því að prófa hið lokkandi ráð sem ku bæta minni …
Fann útsetningar fyrir píanó á “Zigeunerweisen” e. Pablo de Sarasate (Tilbrigði við títtnefnt lag “Til eru fræ”) á http://imslp.org/wiki/Zigeunerweisen,_Op.20_(Sarasate,_Pablo_de) en flestar eru alltof þungar fyrir mig. Mun þó reyna við á neðstu, umritun Richards Kleinmichel á stykkinu: http://imslp.info/files/imglnks/usimg/c/cd/IMSLP10061-Sarasate-Kleinmichel_op20_Zigeunerweisen.pdf
Hvernig fór fólk að fyrir daga Vefjarins?
Harpa, Fólk fór ekki að fyrir tíma vefjarins. Gísli: Já einmitt, þá tónleika. Þetta eru einhverjir eftirminnilegustu tónleikar sem ekki hafa verið haldnir hér á landi.