Útlaginn

Nei, fyrirsögnin á ekki við mig …  Ég er miklu frekar innlagi þessa dagana, hef mig varla úr húsi. Hengslaðist þó í bókasafnið í gær og æxlaði mér fjölda bók um allt mögulegt; þegar maður er lasinn er gott að liggja í bókum – í rauninni er eini plúsinn við kvíða, versus þunglyndi, sá að meðvitundin er nóg til að halda þræði í bók. Þannig má sleppa undan eigin kvöl stund og stund. Á hinn bóginn eru kvíðakvöldin alger hryllingur og afskaplega erfitt að sofna meðan þunglyndi fylgir ævintýralegur doði og þá skást líðanin uppi í rúmi. Í gærkvöldi leið mér eins og himnarnir væru að hrynja og mér duttu í hug þúsund afbrigði af slysum sem gætu hent mína nánustu; munnurinn logaði af sársauka og ég ímyndaði mér að fljótlega myndu tennurnar detta úr sínum holum. Í morgun var þetta allt horfið svo “burning mouth syndrom” verður að skrifast á kvíðareikninginn en ekki raunverulegan líffræðilegan sjúkdóm (þótt ég telji kvíða til mjög raunverulegs líffræðilegs sjúkdóms). Ég hangi í voninni um að bráðum láti kvíðahelvítið undan síga, af sjálfu sér.

Í gær undi ég talsverða stund við að klára að hreinsa bakgrunn af ljósmynd af Útlaganum hans Einars Jónssonar. Það er nú meira hvað sú stytta er nýrómantísk! Og maður spyr sig: Hvar er kötturinn?

Það sem ég hef aldrei áður tekið eftir er að styttan sýnir Neanderdalsmann. (Sjá litlu andlitsmyndina hér til hliðar.) Ekki að það sé neitt verra; ég hef hugsað mér að punta forsíðu á kennsluefni um Sjálfstætt fólk með þessari mynd og að mínu viti er Bjartur Neanderdalsmaður. Sjálfsagt hefur HKL álitið hið sama, sé það rétt að þessi umrædda stytta sé ein fyrirmynda hans. Og kannski mótast viðhorfið til kattarins í Sj.f. af fjarveru hans í styttunni?

Jósefína er ekki hress með túlkun EJ á útilegumanninum! Aftur á móti las bloggynja þá ágætu barnabók Dagbók drápskattar í gær (tók 5 mínútur). Ég hugsa að Jósefína sé sammála þeirri bók.

2 Thoughts on “Útlaginn

  1. Góðan daginn.

    Kannski ekki fallegt að segja frá því en oft flissa ég að pistlunum þínum – algjörlega burtséð frá öllu þínu angri og pínu 😉

    En Útlaginn er tvímælalaust Neanderdalsmaður þrátt fyrir að barnið hans virðist vera með nútímamannsandlitsdrætti. Kannski hann hafi náð sér í konu ofar í fæðukeðjunni? Ellegar barnið sé alls ekki hans?

    Bestu kveðjur frá Selfossi og ég vona að dagurinn verði þér ekki mjög erfiður ♥

  2. Harpa on April 8, 2010 at 19:46 said:

    Hæ Hrönn
    Iss – maður verður að flissa, annars verður lífið algerlega óbærilegt!
    Dagurinn var með allraskásta móti, vonandi ekki af því ég ákvað að sleppa tölvun í dag (en stóð náttúrlega ekki við það – þurfti að fletta svolitlu upp og gat ekki stillt mig).
    Ég þarf að spauglera meir í Útlaganum … það er ekki spurning.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation