Ég er loksins að hjarna við – þökk sé hinum dásamlega óhollu bensó-lyfjum sem talibanar allra landa telja afurð djöfulsins! Auðvitað gerði sérrí-glas tvisvar á dag sennilega sama gagn en ég er því miður ein af þessu fólki sem þykir svoleiðis glas of mikið og flaskan of lítið … þannig að það er ekki boðleg lækning. Held mig því við óholla læknadópið sem ég virðist ekki verða sérlega fíkin í (þrátt fyrir illspár talibana). Meðan lækningin er skárri en sjúkdómurinn hallast ég að lyfjunum.
Nema mér hefur þess vegna tekist að fara á eina tónleika án þess að fá þessi lífshættulegu blöff-einkenni (þrefaldan hjartslátt, andnauð, dofa og botnlausa skelfingu). Requiem Mozarts var æði! (Ég er samt soldið sár yfir stafsetningarvillunni í Lacrimosa … er sama um hinar stafsetningarvillurnar og jafnvel ranga beygingu á orðstír … en Lacrimosa dies illa er uppáhaldið mitt!) Hljómlistin var samt frábær svo skítt með prógrammið 😉 Hefði náttúrlega verið meira gaman að sitja nær miðju, altént nær bössunum en ég gerði varúðarráðstafanir til að geta skotist út án þess að allir horfðu á mig. (Var Hildigunnur með tagl? Alltaf gaman að sjá bloggkunningja.)
Einnegin hefur mér tekist að sansa slatta í garðinum, sauma út helling og taka á móti gestum um helgina.
Í gærmorgun kviknaði allt í einu löngun til að vefa; hef verið að sinna slíku verkefni með hangandi hendi, ekki munað eina einustu HTML-skipun og frestað vinnu í það óendanlega, af því ég hef verið svo djöfull veik. En nú lauk ég loks kennsluefnishluta í Sjálfstæðu fólki (nema ég á eftir að gá hvort það geti virkilega verið rétt að kollegi minn í öðrum skóla hafi afritað allar glærurnar mínar og eignað sér sisona! Það getur nú eiginlega ekki verið en ég ætla samt að tékka á málsgreinum sem mér fannst ég kannast rosalega mikið við …). Sömuleiðis sansaði ég efni um Íslandsklukkuna og kræki í það hér með … ef einhver vill rifja upp söguna í snarhasti og prófa kunnáttuna, fyrir leiksýningu 😉
Áðan prófaði ég að spila á mitt pjanóforte. Það hef ég ekki reynt síðan löngu fyrir páska. Auðvitað er ég eins og belja á svelli eftir hið langa hlé. Mér þótti þó óþarfi af kettinum að byrja að veina eftir tvo takta af fyrsta laginu og þagnaði dýrið ekki fyrr en því var hleypt út í kuldann! Hinn meðvirki húsfaðir reyndi svo að spila Kattadúettinn (af diski) fyrir Jósefínu en hún vældi líka yfir honum og reyndi að sleppa. Mér létti þó töluvert við að uppgötva að kötturinn hefur bara hreint ekki tóneyra og það er ekki bara og ég + píanóið sem veldur þessu tráma dýrsins! Jósefína hefði gott af því að kynna sér önnur dýr, t.d. hundinn sem hlustar á rödd húsbónda síns, hissa og glaður!
P.S. Við unglingurinn höfum uppgötvað að OK (lesist ókey) er í rauninni íslenskusletta sem hefur ratað inn í flest tungumál heimsins og hefur hingað til verið talin órekjanleg og meira að segja útskúfað úr íslensku. Í samræmdri stafsetningu fornri er þetta skýrt og greinilegt; lesist í þreytulegum eða töffarlegum tóni. Fyrri útgefendur hafa ekki haft fyrir að afmarka ókeyin með kommu eða semíkommu en úr því má bæta. Það er að vísu ruglandi að sum ok-in merkja “og” (gæti verið óvönduð samræming á ferðinni) en dæmi hér á eftir sýnir glöggt hvað við er að etja. (Hvar útgáfa Guðna Jónssonar á 75. kafla Njálu er umrituð.)
“Honum varð litið upp til hlíðarinnar, ókey [ok] bæjarins að Hlíðarenda, og [ok] mælti: “Fögur er hlíðin, svo að mér hefir hún aldrei jafnfögr sýnst, bleikir akrar, en slegin tún; Ókey [ok] mun ég ríða heim aftur, Ókey [ok] fara hvergi.” (Hér ætti að ljúka með upphrópunarmerki til að sýna karlmennskuna.)
Auðvitað er textinn saminn fyrir gos og auðvitað gerir þessi áhersla á ókey málsgreinarnar enn snubbóttari og sem er jú aðall hins eina sanna íslenska stíls.
Annað dæmi, úr 77.kafla: “Gunnar mælti: “Ör liggur þar úti á vegginum; Ókey, er sú ein af þeirra örum; Ókey, skal ég þeirri skjóta til þeirra; Ókey, er þeim það skömm, ef þeir fá geig af vopnum sínum.” Gunnar verður miklu meiri töffari við þessa umritun!
Dæmin eru valin af algeru handahófi …
Gæti vel hafa verið með tagl, ég er eiginlega alltaf með tagl – en ekki þarna samt, ég missti því miður af þessum tónleikum. Allt of margt sem ég vildi komast á 🙁
Gott að þér líður betur.
Gott mál. Sumir virka bara ekki án þessara lyfja. Ég kannast alveg við það. Það er þetta með þennan gullna meðalveg…annars frábært framtak og kjarkur að koma fram og blogga undir nafni um þennan sjúkdóm þar sem svo miklir fordómar eru enn við líði í samfélaginu. Rakst á síðuna í gær og fann strax að þetta var svipað og ég er að upplifa. Við höfum mjög líkan bakgrunn menntunarlega séð og báðar komnar á örorku vegna kvíða.
Ah … Hildigunnur: Ég ruglaði þér saman við aðra Hildigunni, svona leikur sjúkdómurinn mig að ég man ekki einu sinni föðurnöfn langkunnugra bloggkunningja!
Takk fyrir hrósið, Bella. Mér finnst auðveldara að lifa með allt uppi á borðinu, þ.e.a.s. að fjalla um þunglyndi og kvíða eins og hvern annan sjúkdóm sem getur lagst á hvern sem er, ekkert síður en brjóstakrabbi eða beinþynning. Með því að allur Skaginn veit að ég er geðveik verð ég nánast aldrei vör við fordóma … fordómafólkið fer væntanlega með veggjum og slúður verður marklaust við svona opinberanir. Af eigin fordómareynslu veit ég að þeir eru yfirleitt sprottnir af einhverju sem maður er óánægður með hjá sjálfum sér svo ég reikna með að hugsanlegir mér ókunnugir fordómamenn séu hræddir um að vera pínulítið geðveikir sjálfir.
Kemst blessunarlega ekki á örorkuna fyrr en í haust og vonast til að komast af henni aftur! Það er hins vegar nokkuð sem enginn getur vitað fyrir víst.
Kvíðanámskeiðið byrjar á morgun – fór í greiningarviðtal í dag – vonast til að fá nokkra bót af þessu kvíðanámskeiði. Ég læt mig ekki dreyma um bata en yrði voðalega ánægð ef ég yrði svona 50 – 70% hæfari í að tækla kvíðann eftir námskeiðið. Mun leggja mig alla fram (þótt sumt verði kannski erfitt og vont).