Glymur o.fl.

Heilsan skánar dag frá degi. Kannski er kraftaverkalyfið loksins eitthvað farið að virka, kannski er þetta árangur kvíðanámskeiðsins, kannski árangur af löngum labbitúrum = æfingum fyrir Krít 😉  Ég nenni ekki að grufla í því en síðustu dagar hafa verið ótrúlega léttbærir miðað við síðustu mánuði!

Við maðurinn höfum í vikunni trítlað út í Innsta-Vogsnes … maðurinn myndaði fugla en ég skoðaði fjörur; Bæði hæstánægð með sína iðju. Svo gengum við “á Akrafjall” á uppstigningardag, reyndar bara upp í Berjadalinn og að brú Rótarý-manna, sem ég skoðaði af hæfilegri aðdáun. Fannst rétt að láta Háahnúk bíða aðeins en tel mig reyndar alveg færa í svoleiðis göngu núna. Ætli við drífum hana ekki af í næstu viku ef verður sæmilega léttskýjað einhvern daginn.

Í gær mæltum við okkur mót við Mána og hittumst á leiðinni upp að Glym. Ég hef aldrei áður gengið þessa leið og eftir að hafa lagt saman í huganum þær vegleysur upp og niður gil sem við maðurinn gengum á leiðinni uppeftir reiknast mér svo til að samanlagt séu þær á við Háahnúk, bæði í hækkun (og lækkun) og lengdarmetrum. Opinbera leiðin, til baka, var náttúrlega bara pís-of-keik. Að vísu stenst “göngubrúin” yfir Botnsá engan veginn samanburð við Rótarý-brúna yfir Berjadalsá!

Tók nokkrar myndir á litlu bleiku ódýru myndavélina, án þess að finna fyrir minnimáttarkennd vegna græja karlmannanna. Myndirnar eru hér.

Planið í dag er að sjá efsta mann á lista VG baka vöfflur og þiggja af honum veitingar. Maðurinn getur ekki hugsað sér að fara á svo vinstrisinnaða samkomu. Ég hef ekki orðið vör við að hægra liðið geri neitt annað til lokkunar en gefa unglingum bjór til að lokka þá í Félag ungra sjálfstæðismanna … hvað mér finnst bera vott um skítlegt eðli. (Þessi síðasta málsgrein kann að afla mér einhverra kommenta 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation