Ástkæra ylhýra málið

Mér til mikillar ánægju las ég fyrsta pistil um norðlensku hjóðvilluna í dag og bíð spennt eftir næsta! Aðallega fannst mér pistillinn skemmtilegur út af kvikindislegri tilhugsuninni af því að hugsanlegir Akureyringar eða sannfærðir málfarskverúlantar kunni að lesa hann 😉 (Ég er sumsé enn að velta fyrir mér hvort Mía litla eða Búdda er æskilegri fyrirmynd í þessu lífi … er þ.a.l. stopp í gjörhyglibókmenntinni en greip þó á lofti að þau Mía og Búddi eru sammála um að allt skuli prófað áður en menn mynda sér skoðun á því. En þetta hjal kemur efni bloggfærslunnar ekkert við og er því sjálfhætt.) En mér fannst líka gaman að skoða, í pistlinum, þennan framburð undir nýju og hressandi sjónarhorni.

Davíð Þór heldur því fram í sínum pistli að raddaður norðlenskur framburður sé í rauninni dönsk áhrif. Það er svo sem ekkert ólíklegt, hvað veit maður? En þar sem ég ólst upp var frekar snobbað fyrir Norðmönnum en Dönum, t.d. sletti amma mín markvisst norsku. Og kom inn hjá mér dýrkun á norskri tónlist, sem og söng dægurlög með norskum textum. Samt sem áður var það svo að Familie Journal, og Hjemmet lágu í stöflum á háaloftinu og í húsi ömmu minnar og Anders And var gáttin að Disney, líklega af því sambærilegar norskar bókmenntir lágu ekki á lausu. (Auðvitað ólst ég upp við það að fólk þyrfti ekki að læra dönsku, maður byrjaði bara að lesa hana og þar með kunni maður dönsku – þetta var allt svo gamaldags norður á hjara veraldar.  Allt annað mál er svo að tala dönsku en það uppgötvaði ég ekki fyrr en komin á fullorðinsaldur. Á svipuðum fullorðinsaldi lagði ég dönsku blöðunum og skipti yfir í Norsk Ukeblad og norska Hjemmet sem reyndust ólíkt efnismeiri og skemmtilegri en þau dönsku.)

Ég er greinilega komin á þann aldur að “mér eru fornu minnin kær” … rifja því upp í leiðinni að í Fríðubúð (ömmu minnar) héngu uppi skilerí með dönsku kóngafjölskyldunni og maður fann til náins skyldleika við þær Margréti, Benediktu og Önnu Maríu. Samúðin var öll með þeirri yngstu, annars vegar vegna þess að aumingja Anna María var alltaf að missa fóstur og hins vegar hið hroðalega áfall þegar Grikkir flæmdu þau Konstantín úr landi, ung og sæt sem þau nú voru, a.m.k. hún! En nú er ég enn og aftur horfin frá bloggefninu …

Mér finnst raddaður framburður ekkert sérstaklega fallegur. Maður reyndi að hugga sig við að þetta væri eðalframburður fyrst eftir að fjölskyldan flutti suður (þegar ég var 11 ára) enda var gert stólpagrín að talandum (en ekki búið að finna upp hugtakið “einelti” þá). Ennþá þarf ég ekki nema klukkustundarsamtal við þvottekta Norðlending til að smitast og byrja að tala alveg eins. En svona dags daglega er ég ekki hrifin af “púnturis” eða öðrum álíka frösum sem eiga að sannfæra okkur á byggilegri hluta landsins um að RÚV sé útvarp allra landsmanna. Enn pínlegra er þegar menn gera sér upp þennan talanda … hef t.d. heyrt framburðinn “únklíngar” … eða herða sinn upphaflega framburð einum of.

Það sem mér finnst miklu meir áberandi í tali norðausturmanna er þó tónfallið. Hinn rísandi tónn í lok málsgreinar eða hryssingsleg syngjandin greinir þá auðveldlega frá Akureyringum og öðru miðjuliði. Sunnlendingum finnst þetta tónfall reiðilegt, a.m.k. fór um manninn minn á því fyrsta ættarmóti sem hann sótti með mér – en hann er náttúrlega kominn af uppkreistingum úr Landsveit og kartöfluætum í Þykkvabænum sem ekki þola mikið. Mér finnst þetta tónfall doldið flott, líklega af því að enn er Mía litla mitt átrúnaðargoð.

Í gær las ég Lost in Translation, grein sem á að vera gagnrýni á kenningar Chomsky en er það ekki, að mati sumra málfræðinga. Nú man ég ekkert af því sem ég lærði um Chomsky nema að hann taldi að grænar hugmyndir svæfu brjálæðislega (sem er út af fyrir sig smart hugmynd). Sú afleidda Chomsky-málfræði sem ég þurfti að kenna á tímabili fólst einkum í tiltekt, þ.e. að grúppa saman og hrísla huggulega sérútbúnar setningar. Svoleiðis málfræði hefur alltaf virkað sem róandi hobbí á mig, alveg eins og algebra, sunnudagskrossgátan og tiltekt í bókahillum heimilisins (ég raða reyfurunum eftir Dewey-kerfi, hvað annað?). Þegar nemendur spurðu af hverju þeir væru að læra þetta (illþolanleg spurning sem ég veit að kennurum finnst ekki gaman að svara) var ég vön að segja þeim að þetta nýttist ágætlega til að hafa ofan af fyrir sér í Akraborginni. En nú er engin Akraborg til lengur …

Verandi svona mikill málfræðisauður get ég því ekkert tjáð mig um greinina nema það að mér fannst hún skemmtileg.

Þeir sem glöptust á að lesa þessa færslu í þeirri trú að hér mundi ég bögga mann og annan fyrir að fara útaf málfarssporinu verða náttúrlega fyrir vonbrigðum. En það virðist reyndar vera nóg framboð af svoleiðis efni og sumt af því er virkilega fyndið, einkum kommentarinn sem var nýbúinn að frétta að “ágætlega” hefði gengisfallið – hvað ætli séu margir áratugir síðan “ágætlega” fór að þýða “svona la-la”, í skásta falli “vel”? “Ágætt” hefur gengisfallið alls staðar annars staðar en í skólakerfinu. En eins og Davíð Þór bendir á í öðrum pistli er búið að finna upp langefsta stigið svo við erum í “ágætum” málum þrátt fyrir gengistap.

5 Thoughts on “Ástkæra ylhýra málið

  1. Haha skemmtilegt!

  2. Ég bíð spennt eftir einhverjum Norðlendingum sem fattekki djókið…

  3. Harpa on July 29, 2010 at 09:21 said:

    Ég bíð líka spennt …

  4. Harpa on July 29, 2010 at 19:10 said:

    Aha … kominn sem snarpur varnarmaður, sjá http://visir.is/bakthankar-davids-thors-jonssonar-/article/2010788151513

    Klausur á borð við “Ég átti því láni að fagna að dvelja með börnum mínum á unga aldri á sumrin á sveitabæ í Eyjafirði og þar var töluð falleg norðlenska með sínum fagra hljómburði. Einnig talaði fólkið hægar og gaf sér meiri tíma í að tala fyrir bragðið. Ég minnist þess alltaf þegar við komum suður til Reykjavíkur hve það var hræðilegt að heyra ungmennin tala saman oft hratt og því óskýrt og því erfitt að skilja þau. Við áttum svo góðu að venjast eftir að tala alla daga við eyfirskt bændafólk” eru dásamlegar!

  5. Took me time to read all the comments, but I really enjoyed the article. It proved to be Very helpful to me and I am sure to all the commenters here! It’s always nice when you can not only be informed, but also entertained!

    – John

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation