Er sumur sæll af fé ærnu?

Nú fyllast fjölmiðlar af tíðindum af mánaðarlaunum þessa og hins, aðallega til að vekja öfund pöpulsins. Sumt er auðvitað bráðfyndið, eins og t.d. að áætla tekjur af kleinusölu í Húsdýragarðinum eftir launum föður kleinusalans, en sumt er sárgrætilegt.

Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilyndi sitt,
ef maður hafa náir,
án við löst að lifa.

Fordómafull sem ég er hefur mér tekist að læra (the hard way) að Hávamál hafa nokkuð til síns máls í þessu erindi um hið mikilvægasta í lífinu.

Að vísu eru Hávamál karlrembukvæði og einungis talað um syni og karla og að vísu er heppilegra fyrir fordómafulla (mig) að skilja “löst” sem “fötlun” … en breytir ekki því að birta, ylur og góð heilsa er mikilvægast af öllu. Þökk sé öllum hinum ágætu virkjunum er birta og ylur ekki vandfengið nútildags. Góð heilsa er aftur á móti meira happdrætti.

Í augnablikinu er ég rosalega frísk, eðlilegri en ég hef orðið í meir en áratug! Hamingja mín stafar af nýju lyfi og nú krossa ég fingur og vona að a) Lyfið verði áfram flutt inn og b) Lifrin í mér þoli lyfið. Hvorugt er náttúrlega fast í hendi ennþá en béið virðist ætla að rætast. Þetta er dýrt lyf og ekki til samheitalyf … en það er örugglega ódýrara fyrir þjóðfélagið að hafa mig á þessu lyfi, vinnufæra í framtíðinni, heldur en standa uppi með öryrkja til lífstíðar. Og ég hef vissulega lagt mig fram: Er búin að prófa nánast öll hin lyfin og allan andskotann annan! Mun fljótlega fá hið gullna tækifæri til að prófa að verða pappírslegur og viðurkenndur öryrki en stefni auðvitað á það að losna einhvern tíma úr þessu helvíti sem ég hef dvalið í æ lengri tíma hvert ár í meir en áratug og geta orðið sæl af verkum vel.

Satt best að segja held ég að lyfjaneysla okkar geðsjúklinganna séu langt langt frá því að vera stórkostlegur baggi á þessu þjóðfélagi. Eðli sjúkdómsins vegna erum við samt heppilegur hópur til að böðlast á, heppilegri en aðrir sjúklingahópar því sjúkdómsins síns vegna eiga margir erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér. Þó telja áður ívitnuð Hávamál þunglyndi verstu veikindi sem á menn geta lagst:

Öng er sótt verri
hveim snotrum manni
en sér engu að una. 

Því miður er þetta ágæta kvæðasafn ekki brúkað nóg nútildags 😉 

En Hávamál eru jarðbundin kvæði og nefna aðra möguleika til að gleðjast yfir klikki heilsan. Þeir eru listaðir í þessu erindi:

Era-t maður alls vesall,
þátt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.  

Ég hef reynt að vera af sonum sæl enda eru synir mínir bráðmyndarlegir báðir. Hinir glaðsinna möguleikarnir koma vel til greina og jafnvel mætti hugsa sér að einhverjir séu sælir af fé ærnu, þegar allt annað bregst, þótt mér finnist það reyndar frekar ólíklegt, ekki síst af því Hávamál nefna líka að “Margur verður af aurum api”.  Sumir af þeim best launuðu, skv. uppslætti fjölmiðla, eru nefnilega algerir apar, jafnvel gjammandi klapptíkur. Er það eftirsóknarvert? Nei!

Potið að auka við fé ærið verður til þess að margir eru geðvondir – stundum svo geðvondir að þeir verða að ráða sér sérstakt fólk til að tala máli sínu. Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman að starfa sem talsmaður og fagna því að svokallaðir talsmenn (í Hávamálum kallaðir formælendur) skuli fá þokkalega borgaða sína iðju.

Niðurstaða þessarar færslu er að það borgar sig ekki að öfunda þá sem hafa yfir milljón á mánuði í laun. Há laun færa þeim ekki hamingju. Há laun eru ekki trygging fyrir góðri heilsu sem er hið eftirsóknarverðasta í þessu lífi, þótt við heilsulausir getum samt glaðst yfir öðru. Þeir sem ota sínum tota hvað mest eru eins og Jóakim Aðalönd en í pistlinum “Hvorfor være Verdens rigeste and? – et religions-psykolgisk kig ind i Joakim von Ands selvopfattelse” er einmitt reyfað hvussu innihaldslítið og rýrt líf Aðalandarinnar er!

Það er reyndar skemmtilegt og  fordómafullt verkefni að bera saman persónuleika fjáraflamanna og Jóakims Aðalandar, í ljósi þessarar greiningar 😉

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation