Af iðni bloggynju undanfarið í að lesa bloggsíður hefur lærst tvennt: Vilji menn bögga einhvern á bloggi er fyrsti kostur að brigsla viðkomandi um að vera geðveikur og næstbesti kosturinn er að hanka viðkomandi á “rangri” málnotkun. Stundum ná menn að sameina þetta, t.d. á bloggi Eiðs Guðnasonar og kommentum (athugasemdum er líklega kórréttara) við það: Eiður bloggar um “auglýsingahórerí” (skemmtilegt orð) Ásgerðar Jónu Flosadóttur, hankar hana á að hafa sagt: “Þátturinn Á ferð og flugi með Iceland Express er lokið að sinni” og einn aðdáenda Eiðs, Atli nokkur, gefur í skyn að konan sé geðveik, “Hvernig er það Eiður. Telur þú líklegt að Eyjan muni láta geðfatlaða einstaklinga fá lista yfir þá sem kommenta við hjá þér?”, í kommenti við aðra færslu.
Ég þekki Ásgerði Jónu ekki baun. Mér finnst hins vegar ekkert skrýtið að hún sé að íhuga kæru miðað við umfjöllun Eiðs um hana. Atli þessi, sem getur sjúkdómsgreint fólk eftir málfari og óánægju með skítkast, kemur ekki fram undir fullu nafni. Það eru náttúrlega bara mannleysur og skítseiði sem ekki þora að leggja nafn sitt við hrokafullar sjúkdómsgreiningar á fólki úti í bæ. (Ég breyti færslunni núna því sá sem mér datt í hug að væri Atli föðurleysingi er algerlega blásaklaus af skíthæla-geðduldinni.)
Skemmtilegasta dæmið um málfarsskítkast undanfarið er líklega frétt Eyjunnar, Málvilla menntamálaráðuneytis, þar sem málfátækt fréttaritara verður honum að fótakefli og hann kannast ekki við fallbeygingu í algengu orðtaki.
Næstskemmtilegustu dæmin eru komment við blogg Eiðs Guðnasonar 😉
Það hefur alltaf farið dálítið í taugarnar á fordómafullri bloggynjunni þegar menn mæla manngildi í málnotkun (þetta er ofstuðlað, ég veit). Einu sinni þekkti ég mann sem sýndi mér margar stílabækur (þetta var fyrir daga tölva) í hverjar hann skrifaði samviskusamlega upp ýmsar ambögur úr fréttatímum ríkisútvarpsins. Mér þótti þetta fáfengilegt áhugamál. Auðvitað er æskilegt að menn leggi sig eftir blæbrigðaríku máli og tali sem þokkalegasta íslensku. Á hinn bóginn hefur alltaf verið munur á talmáli og ritmáli og það að tala í ritmálsstíl er ankannalegt, jafnvel hallærislegt. Í óundirbúnu spjalli getur ýmislegt fokið sem ekki tekur sig vel út á prenti. Nóg hefur verið alið á málfarsótta þjóðarinnar síðustu hundrað ár eða svo og í rauninni er gleðilegt hve margir eru tilbúnir til að tjá sig núna, óhræddir við málfarslögguna. Ef íslensk tunga á að lifa verða menn að tala og skrifa og lesa hana, óttalaust.
En bloggynja gerir sér grein fyrir því að ekki kunna allir að rísla sér við sauma, prjón eða aðra tómstundavinnu og verða því að fylla út stílabækur eða tölvuskjái með því að agnúast út í hvernig aðrir tala, skrifa og lesa, eins og ég er einmitt að gera sjálf, í þessari færslu 😉 Sá er þó munurinn að ég greini ekki geðsjúkdóma fólks sem er mér ósammála eða talar / skrifar ekki eins og mér hugnast best sjálfri.
Svo verð ég að fara að venja mig af þessum eilífu tilvísunum í blogginu, færslurnar eru farnar að líkjast heimildaritgerð!
Sæl og blessuð.
Bara til að leiðrétta það sem kemur hér fram:
Ég er ekki þessi Atli sem á ummrætt komment á vefsíðu Eiðs. Fría mig allri ábyrgð á því.
Ég játa þó að ég á það til að detta í óþolandi málfarsfasismagír.
Kveðja,
Atli.
Takk Atli, ég leiðrétti færsluna þá umsvifalaust svo ég sé ekki að bera á þig rangar sakir. Mér finnst nafni þinn föðurlausi helv. grófur og í rauninni óþolandi þegar geðveiki er notuð sem neikvæður stimpill á annan hvern mann! Mundi sætta mig betur við æðahnúta …
Takk fyrir það!
Gott að sumir geta leiðrétt og afsakað sig – öfugt við ritara Orðsins á götunni sem enn viðurkennir ekki að hafa rangt fyrir sér…
Hefði orðið gríðarlega hissa ef minn ágæti fyrrum nemandi Atli Týr hefði ýjað að geðveiki einhvers sem hann væri ósammála.
Hm … gleymdi að afsaka mig; Fyrirgefðu Atli! Gott að vita að saklausi maðurinn er fyrrum nemandi þinn, Hildigunnur. Mér skilst að aðstoðarmaður menntamálaráðherra sé fyrrum nemandi minn … býr sjálfsagt enn að góðri íslenskukennslu … en því miður man ég bara ekkert eftir honum (hönd guðs eyddi minni til að auka vinnsluminnið, væntanlega).